„Gjafir í mönnum“ til að annast sauði Jehóva
„Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir [„gjafir í mönnum,“ NW].“ — EFESUSBRÉFIÐ 4:8.
1. Hvað sagði systir nokkur í bréfi til öldunganna í söfnuði sínum?
„KÆRAR þakkir fyrir að láta ykkur svona annt um okkur. Bros ykkar, hlýja og umhyggja er ósvikin. Þið eruð alltaf tiltækir að ljá eyra og uppörva okkur með orðum Biblíunnar. Ég bið þess að ég taki ykkur aldrei sem sjálfsagðan hlut.“ Þessi orð eru úr bréfi kristinnar systur til öldunganna í söfnuði sínum. Ljóst er að kærleikur umhyggjusamra, kristinna hirða hafði snert hjarta hennar. — 1. Pétursbréf 5:2, 3.
2, 3. (a) Hvernig gæta umhyggjusamir hirðar sauða Jehóva samkvæmt Jesaja 32:1, 2? (b) Hvenær má líta á öldung sem gjöf?
2 Öldungarnir eru ráðstöfun Jehóva til að líta eftir sauðum hans. (Lúkas 12:32; Jóhannes 10:16) Sauðir Jehóva eru honum kærir — svo kærir að hann keypti þá með dýrmætu blóði Jesú. Hann gleðst því eðlilega þegar öldungarnir fara mildilega með hjörð hans. (Postulasagan 20:28, 29) Taktu eftir hinni spádómlegu lýsingu á þessum öldungum eða ‚höfðingjum‘: „Þá verður hver þeirra sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.“ (Jesaja 32:1, 2) Já, þeir eiga að vernda, hressa og hughreysta sauði hans. Með hjarðgæslu sinni leitast öldungarnir því við að gera það sem Guð væntir af þeim.
3 Biblían kallar slíka öldunga „gjafir í mönnum.“ (Efesusbréfið 4:8, NW) Þegar maður hugsar um gjöf dettur manni yfirleitt í hug eitthvað sem er gefið til að fullnægja þörf eða gleðja þiggjandann. Það má líta á öldung sem gjöf þegar hann notar hæfileika sína til að veita nauðsynlega aðstoð og stuðla að hamingju hjarðarinnar. Hvernig getur hann gert það? Svarið er að finna í orðum Páls í Efesusbréfinu 4:7-16 og það miklar ástríka umhyggju Jehóva fyrir sauðum sínum.
„Gjafir í mönnum“ — frá hverjum?
4. Hvernig ‚steig Jehóva upp til hæða‘ og hverjir voru „gjafir í mynd manna“ samkvæmt Sálmi 68:19?
4 Þegar Páll talaði um „gjafir í mönnum“ var hann að vitna í orð Davíðs konungs sem ávarpaði Jehóva: „Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum [„þú hefur tekið gjafir í mynd manna,“ NW].“ (Sálmur 68:19) Jehóva ‚steig upp‘ á Síonfjall í óeiginlegri merkingu eftir að Ísraelsmenn höfðu verið í fyrirheitna landinu um árabil og gerði Jerúsalem að höfuðborg Ísraelsríkis með Davíð sem konung. En hverjir voru „gjafir í mynd manna“? Þetta voru menn sem teknir voru herfangi þegar landið var unnið. Sumir þeirra voru síðar settir til að þjóna levítunum og aðstoða þá við störfin í tjaldbúðinni. — Esrabók 8:20.
5. (a) Hvernig gefur Páll í skyn að Sálmur 68:19 uppfyllist í kristna söfnuðinum? (b) Hvernig ‚steig Jesús upp til hæða‘?
5 Í bréfi sínu til Efesusmanna gefur Páll til kynna að orð sálmaritarans hljóti meiri uppfyllingu í kristna söfnuðinum. Hann umorðar Sálm 68:19 og skrifar: „Sérhverjum af oss var náðin veitt eftir því, sem Kristur úthlutaði honum. Því segir ritningin: ‚Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir.‘“ (Efesusbréfið 4:7, 8) Hér heimfærir Páll sálminn á Jesú sem fulltrúa Guðs. Jesús ‚sigraði heiminn‘ með trúfesti sinni. (Jóhannes 16:33) Hann sigraði dauðann og Satan þegar Guð reisti hann upp frá dauðum. (Postulasagan 2:24; Hebreabréfið 2:14) Árið 33 steig hinn upprisni Jesús „upp yfir alla himna“ — hærra en allar aðrar sköpunarverur á himni. (Efesusbréfið 4:9, 10; Filippíbréfið 2:9-11) Sem sigurvegari tók Jesús „fanga“ af óvininum. Hvernig þá?
6. Hvernig tók hinn uppstigni Jesús að ræna hús Satans frá og með hvítasunnunni árið 33 og hvað gerði hann við ‚fangana‘?
6 Þegar Jesús var á jörðinni sýndi hann mátt sinn yfir Satan með því að frelsa þá sem voru í fjötrum illra anda. Það var eins og hann hefði ráðist inn í hús Satans, bundið hann og rænt eigum hans. (Matteus 12:22-29) Hugsaðu þér hvaða ránsfeng Jesús gat tekið eftir að hann var upprisinn og hafði fengið ‚allt vald á himni og jörð‘! (Matteus 28:18) Frá og með hvítasunnunni árið 33 tók hinn uppstigni Jesús, í umboði Guðs, að ræna hús Satans og ‚hertaka fanga,‘ menn sem höfðu verið lengi í þrælkun syndar og dauða undir stjórn Satans. Þessir ‚fangar‘ gerðust fúslega ‚þjónar Krists og gerðu vilja Guðs af heilum huga.‘ (Efesusbréfið 6:6) Það má orða það svo að Jesús hafi hrifsað þá úr klóm Satans og síðan, fyrir hönd Jehóva, hafi hann gefið þá kristna söfnuðinum sem „gjafir í mönnum.“ Hugsaðu þér vanmegna reiði Satans þegar þeir voru hrifsaðir burt rétt við nefið á honum!
7. (a) Hvernig þjóna ‚gjafirnar í mönnum‘ í söfnuðinum? (b) Hvaða tækifæri hefur Jehóva gefið hverjum manni er þjónar sem öldungur?
7 Er slíkar „gjafir í mönnum“ að finna í söfnuðinum nú á dögum? Vissulega. Þeir þjóna sem öldungar og vinna hörðum höndum sem ‚trúboðar, hirðar og kennarar‘ í meira en 87.000 söfnuðum fólks Guðs um heim allan. (Efesusbréfið 4:11) Satan á þá ósk heitasta að þeir fari illa með hjörðina. En Guð hefur ekki gefið þá söfnuðinum í þeim tilgangi heldur til að stuðla að vellíðan safnaðarins, og þeir þurfa að standa honum reikning af því hvernig þeir annast sauðina sem þeim er trúað fyrir. (Hebreabréfið 13:17) Ef þú ert öldungur hefur Jehóva gefið þér stórkostlegt tækifæri til að sýna að þú sért gjöf eða blessun handa bræðrum þínum. Þú getur gert það með því að rækja vel fjórar mikilvægar skyldur.
Þegar leiðréttingar er þörf
8. Á hvaða vegu þurfa allir að fá leiðréttingu af og til?
8 Í fyrsta lagi eru „gjafir í mönnum“ gefnar til að „fullkomna hina heilögu,“ segir Páll. (Efesusbréfið 4:12) Gríska nafnorðið, sem hér er þýtt „fullkomna,“ merkir „leiðrétting“ eða „samstilling.“ Við erum ófullkomin og þurfum öll að fá leiðréttingu af og til svo að hugsun okkar, viðhorf og hegðun sé ‚samstillt‘ hugsun og vilja Guðs. Jehóva hefur í kærleika sínum gefið „gjafir í mönnum“ til að hjálpa okkur að gera nauðsynlegar leiðréttingar. Hvernig gera þeir það?
9. Hvernig getur öldungur leiðrétt villuráfandi sauð?
9 Stundum er öldungur beðinn að hjálpa sauð sem hefur villst af leið og hefur kannski ‚hent einhver misgjörð.‘ Hvernig getur öldungurinn hjálpað? „Leiðréttið . . . þann mann með hógværð,“ segir Galatabréfið 6:1. Öldungur myndi því ekki skamma hinn villuráfandi og vera harðneskjulegur við hann. Ráðleggingar ættu að hvetja en ekki „hræða.“ (2. Korintubréf 10:9; samanber Jobsbók 33:7.) Kannski er hinn villuráfandi miður sín þannig að kærleiksríkur hirðir forðast að brjóta hann niður. Þegar ráðleggingar, jafnvel alvarlegar ávítur, eru gefnar í kærleika er líklegt að þær leiðrétti hugsun og hegðun hins villuráfandi og reisi hann við. — 2. Tímóteusarbréf 4:2.
10. Hvað felst í því að leiðrétta aðra?
10 Hugmynd Jehóva með því að gefa „gjafir í mönnum“ til leiðréttingar var sú að öldungarnir væru andlega hressandi og fordæmi til eftirbreytni. (1. Korintubréf 16:17, 18; Filippíbréfið 3:17) Leiðrétting er ekki aðeins fólgin í því að beina aftur inn á rétta braut þeim sem verður eitthvað á heldur einnig að hjálpa þeim sem eru trúfastir að halda sig á réttri braut.a Margir þurfa hvatningu til að halda áfram vegna þeirra mörgu letjandi vandamála sem við er að glíma. Sumir þurfa kannski blíðlega hjálp til að laga hugsun sína að huga Guðs. Sumir trúfastir kristnir menn eiga til dæmis við djúpstæða vanmetakennd að glíma. Þeim sem líður þannig finnst kannski útilokað að Jehóva elski þá og að þjónusta þeirra við hann geti aldrei orðið honum þóknanleg, hvað sem þeir leggi sig fram. (1. Þessaloníkubréf 5:14) En þessi hugsunarháttur er ekki í samræmi við viðhorf Guðs til tilbiðjenda sinna.
11. Hvað geta öldungar gert til að hjálpa þeim sem finnst þeir lítils virði?
11 Öldungar, hvað getið þið gert til að hjálpa slíkum einstaklingum? Bendið þeim vingjarnlega á biblíulegar sannanir fyrir því að Jehóva láti sér annt um hvern einasta þjón sinn og fullvissið þá um að þessar ritningargreinar eigi við þá persónulega. (Lúkas 12:6, 7, 24) Sýnið þeim fram á að Jehóva hafi ‚dregið‘ þá til þjónustu við sig svo að þeir hljóti að vera einhvers virði í augum hans. (Jóhannes 6:44) Fullvissið þá um að þeir séu ekki einir, að mörgum trúföstum þjónum Jehóva hafi liðið eins og þeim. Spámaðurinn Elía var einu sinni svo niðurdreginn að hann vildi helst deyja. (1. Konungabók 19:1-4) Sumum smurðum kristnum mönnum á fyrstu öld fannst hjartað „dæma“ sig. (1. Jóhannesarbréf 3:20) Það er hughreystandi til að vita að trúfastir menn á biblíutímanum voru „sama eðlis og vér.“ (Jakobsbréfið 5:17) Þið getið líka farið yfir hvetjandi greinar í Varðturninum og Vaknið! með hinum niðurdregna. Kærleiksrík viðleitni ykkar til að byggja upp trúartraust slíkra safnaðarmanna fer ekki fram hjá þeim Guði er hefur gefið ykkur sem „gjafir í mönnum.“ — Hebreabréfið 6:10.
‚Uppbygging‘ hjarðarinnar
12. Hvað gefa orðin „líkama Krists til uppbyggingar“ í skyn og hver er lykillinn að uppbyggingu hjarðarinnar?
12 Í öðru lagi eru „gjafir í mönnum“ gefnar „líkama Krists til uppbyggingar.“ (Efesusbréfið 4:12) Páll grípur til myndmáls hér. ‚Uppbygging‘ minnir á byggingarstarf og ‚líkami Krists‘ er fólk — safnaðarmenn í hinum smurða kristna söfnuði. (1. Korintubréf 12:27; Efesusbréfið 5:23, 29, 30) Öldungar þurfa að hjálpa bræðrum sínum að verða andlega sterkir. Markmið þeirra er að ‚uppbyggja en ekki niðurbrjóta‘ hjörðina. (2. Korintubréf 10:8) Lykillinn að því að uppbyggja hjörðina er kærleikur því að „kærleikurinn byggir upp.“ — 1. Korintubréf 8:1.
13. Hvað er hluttekning og af hverju er mikilvægt að öldungarnir séu hluttekningarsamir?
13 Hluttekning er einn þáttur kærleikans sem hjálpar öldungum að uppbyggja hjörðina. Hluttekning er það að finna til með öðrum — að setja sig inn í hugsanir þeirra og tilfinningar og taka tillit til takmarka þeirra. (1. Pétursbréf 3:8) Af hverju er mikilvægt fyrir öldunga að vera hluttekningarsamir? Fyrst og fremst vegna þess að Jehóva er hluttekningarsamur Guð og það er hann sem gefur „gjafir í mönnum.“ Hann finnur til með þjónum sínum þegar þeir líða og þjást. (2. Mósebók 3:7; Jesaja 63:9) Hann tekur tillit til takmarka þeirra. (Sálmur 103:14) Hvernig geta öldungar þá verið hluttekningarsamir?
14. Hvernig geta öldungar sýnt öðrum hluttekningu?
14 Öldungarnir hlusta og virða tilfinningar þess sem er niðurdreginn og leitar til þeirra. Þeir reyna að skilja bakgrunn, persónuleika og aðstæður bræðra sinna. Þegar þeir veita uppbyggjandi, biblíulega hjálp eiga sauðirnir auðvelt með að taka við henni af því að hún kemur frá hirðum sem skilja þá og láta sér raunverulega annt um þá. (Orðskviðirnir 16:23) Hluttekning fær öldungana líka til að taka mið af takmörkum annarra og þeim tilfinningum sem af þeim hljótast. Til dæmis geta sumir, sem eru mjög samviskusamir, haft sektarkennd út af því að þeir geta ekki gert meira í þjónustu Guðs, kannski sökum aldurs eða bágrar heilsu. Og sumir þarfnast kannski hvatningar til að bæta þjónustu sína. (Hebreabréfið 5:12; 6:1) Hluttekning hjálpar öldungunum að finna „fögur orð“ til að uppbyggja aðra. (Prédikarinn 12:10) Uppbygging og hvatning styrkir kærleika sauðanna til Jehóva svo að þá langar til að gera sitt ítrasta til að þjóna honum.
Menn sem stuðla að einingu
15. Hvað merkja orðin „einhuga í trúnni“?
15 Í þriðja lagi eru gefnar „gjafir í mönnum“ til að við „verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs.“ (Efesusbréfið 4:13) Orðin „einhuga í trúnni“ gefa til kynna einingu bæði meðal manna og í trúarskoðunum. Þriðja ástæðan fyrir því að Guð hefur gefið okkur „gjafir í mönnum“ er því sú að stuðla að einingu meðal fólks síns. Hvernig gera þeir það?
16. Af hverju er þýðingarmikið fyrir öldunga að varðveita einingu sín á meðal?
16 Frumskilyrði er að hirðarnir varðveiti einingu sín á meðal. Ef þeir eru sundraðir er hætta á að sauðirnir séu vanræktir. Þá getur svo farið að dýrmætum tíma, sem hefði mátt nota til að gæta hjarðarinnar, sé að þarflausu eytt í langa fundi og karp um lítilsverð mál. (1. Tímóteusarbréf 2:8) Það er ekki sjálfgefið að öldungar séu sammála um allt sem þeir ræða því að þeir geta verið mjög ólíkir. Eining útilokar ekki að þeir hafi mismunandi skoðanir eða komi þeim öfgalaust á framfæri í opinskáum umræðum. Þeir varðveita einingu sína með því að hlusta fordómalaust og með virðingu hver á annan. Og meðan engar biblíulegar meginreglur eru brotnar ættu þeir allir að vera fúsir til að gefa eftir og styðja lokaákvörðun öldungaráðsins. Með því að vera sveigjanlegir sýna þeir að þeir láta stjórnast af ‚spekinni að ofan‘ sem er bæði ‚friðsöm og ljúfleg.‘ — Jakobsbréfið 3:17, 18.
17. Hvernig geta öldungar stuðlað að einingu í söfnuðinum?
17 Öldungar eru líka vakandi fyrir því að stuðla að einingu í söfnuðinum. Þegar sundrandi áhrif ógna friði safnaðarins, svo sem skaðlegt slúður, þrætugirni eða tilhneiging til að eigna öðrum rangar hvatir, þá gefa þeir fúslega leiðbeiningar. (Filippíbréfið 2:2, 3) Þeir vita kannski af einhverjum sem eru óhóflega gagnrýnir eða er gjarnt að skipta sér af eða hnýsast í annarra manna mál. (1. Tímóteusarbréf 5:13; 1. Pétursbréf 4:15) Öldungarnir reyna að sýna þeim fram á að það gangi í berhögg við það sem Guð hefur kennt okkur og að hver og einn verði að „bera sína byrði.“ (Galatabréfið 6:5, 7; 1. Þessaloníkubréf 4:9-12) Þeir sýna fram á með hjálp Biblíunnar að Jehóva láti okkur um að ákveða margt á grundvelli samviskunnar, og að enginn ætti að dæma aðra í slíkum málum. (Matteus 7:1, 2; Jakobsbréfið 4:10-12) Til að þjóna saman í einingu verður að ríkja traust og virðing í söfnuðinum. Með því að gefa biblíuleg ráð eftir þörfum hjálpa ‚gjafirnar í mönnum‘ okkur að varðveita frið og einingu. — Rómverjabréfið 14:19.
Að vernda hjörðina
18, 19. (a) Fyrir hverjum vernda ‚gjafirnar í mönnum‘ okkur? (b) Fyrir hvaða öðrum hættum þarf að vernda sauðina og hvernig gera öldungar það?
18 Í fjórða lagi gefur Jehóva „gjafir í mönnum“ til að vernda okkur fyrir ‚kenningarvindum, slægum mönnum og vélabrögðum villunnar.‘ (Efesusbréfið 4:14) Gríska orðið, sem þýtt er ‚slægur,‘ er sagt merkja „sviksemi í teningaspili“ eða „færni í að hagræða teningum.“ Minnir það ekki á hve klókir fráhvarfsmenn geta verið? Þeir hagræða orðum Ritningarinnar með kænlegum rökum til að reyna að lokka sannkristna menn frá trúnni. Öldungar verða að vera á varðbergi fyrir þessum ‚skæðu vörgum.‘ — Postulasagan 20:29, 30.
19 Það þarf að vernda sauði Jehóva fyrir öðrum hættum. Fjárhirðirinn Davíð verndaði sauði föður síns fyrir rándýrum forðum daga. (1. Samúelsbók 17:34-36) Umhyggjusamir safnaðarhirðar geta líka þurft að sýna hugrekki til að vernda hjörðina fyrir mönnum sem vilja misþyrma eða kúga sauði Jehóva, einkum þá varnarlausustu. Öldungar eru fljótir að víkja úr söfnuðinum þrjóskum syndurum sem beita blekkingum, svikum og undirferli til vonskuverka.b — 1. Korintubréf 5:9-13; samanber Sálm 101:7.
20. Af hverju getum við verið örugg undir verndarhendi ‚gjafanna í mönnum‘?
20 Við erum innilega þakklát fyrir þær „gjafir í mönnum“ sem okkur eru gefnar. Við getum verið örugg undir verndarhendi þeirra því að þeir leiðrétta okkur mildilega, byggja okkur upp í kærleika, varðveita einingu okkar og vernda okkur með hugrekki. En hvernig eiga þessar „gjafir í mönnum“ að líta á hlutverk sitt í söfnuðinum? Og hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta þá? Þessar spurningar eru ræddar í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Gríska Sjötíumannaþýðingin notar sama sagnorðið og þýtt er „fullkomna“ eða „leiðrétta“ í Sálmi 17[16]:5 þar sem hinn trúfasti Davíð biður þess að skref sín megi fylgja sporum Jehóva.
b Sjá til dæmis „Questions From Readers“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. nóvember 1979, bls. 31-2, og greinina „Höfum andstyggð á hinu vonda“ í íslenskri útgáfu blaðsins 1. september 1997, bls. 18-21.
Manstu?
◻ Hverjir eru „gjafir í mönnum“ og af hverju hefur Guð gefið söfnuðinum þá fyrir milligöngu Krists?
◻ Hvernig rækja öldungarnir þá skyldu sína að leiðrétta hjörðina?
◻ Hvað geta öldungar gert til að uppbyggja trúsystkini sín?
◻ Hvernig geta öldungarnir varðveitt einingu safnaðarins?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Hluttekning hjálpar öldungum að uppörva niðurdregna.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Eining meðal öldunganna stuðlar að einingu í söfnuðinum.