Rebekka – trúföst og dugleg kona
ÍMYNDAÐU þér að þú gætir valið eiginkonu handa syni þínum. Hvernig konu myndirðu velja? Hvaða kröfur þyrfti hún að uppfylla? Myndirðu leita að konu sem væri falleg, gáfuð, vingjarnleg og dugleg? Eða væri eitthvað annað sem þú leitaðir að í fari hennar?
Abraham stóð frammi fyrir þessum vanda. Jehóva hafði lofað að blessa afkomendur hans fyrir milligöngu Ísaks sonar hans. Við grípum niður í söguna þegar Abraham er orðinn aldraður og sonur hans enn ógiftur. (1. Mósebók 12:1–3, 7; 17:19; 22:17, 18; 24:1) Abraham gerir ráðstafanir til að finna góða konu handa Ísak sem mun líka njóta blessunar Jehóva ásamt börnunum sem þau eignast. Fyrst og fremst þarf hún að þjóna Jehóva. Abraham býr í Kanaanslandi en þar er engar slíkar konur að finna. Hann þarf því að leita annars staðar. Rebekka er sú sem verður að lokum fyrir valinu. Hvernig finnur Abraham hana? Er hún andlega sinnuð kona? Hvað getum við lært af fordæmi hennar?
Leitin að réttu konunni
Abraham sendir elsta þjón sinn, líklega Elíeser, um langan veg til Mesópótamíu til að finna brúði handa Ísak meðal ættingja sem tilbiðja líka Jehóva. Málið er litið svo alvarlegum augum að Abraham lætur Elíeser sverja þess eið að finna ekki kanverska eiginkonu handa Ísak. Það er eftirtektarvert hversu hart Abraham fylgir þessu eftir. – 1. Mósebók 24:2–10.
Elíeser kemur að lokum að borginni þar sem ættingjar Abrahams búa. Hann teymir tíu úlfalda sem hann ferðast með að brunni. Sjáðu þetta fyrir þér. Það er komið kvöld og Elíeser fer með bæn: „Hér stend ég við vatnslind og dætur borgarmanna koma nú til að sækja vatn. Ég ætla að segja við eina af stúlkunum: ‚Taktu niður vatnsker þitt svo að ég geti fengið mér að drekka.‘ Ef hún svarar: ‚Fáðu þér að drekka og ég skal líka brynna úlföldum þínum,‘ þá veit ég að það er hún sem þú hefur valið handa Ísak þjóni þínum.“ – 1. Mósebók 24:11–14.
Kona á þessum slóðum hefur líklega vitað að þyrstur úlfaldi getur drukkið mjög mikið af vatni (allt að 100 lítra). Hún þurfti að vera tilbúin í erfiðisvinnu ef hún bauðst til að brynna tíu úlföldum. Og ef hún sinnti þessu ein meðan aðrir horfðu á án þess að bjóða fram aðstoð var hún greinilega kraftmikil, þolinmóð, auðmjúk og góðhjörtuð við menn og dýr.
Hvað gerist? „Áður en hann hafði sleppt orðinu birtist Rebekka með vatnsker á öxlinni. Hún var dóttir Betúels sonar Milku eiginkonu Nahors bróður Abrahams. Stúlkan var ákaflega falleg. Hún … var hrein mey. Hún gekk niður að lindinni, fyllti vatnsker sitt og kom síðan aftur upp frá lindinni. Þjónninn hljóp rakleiðis til hennar og sagði: ‚Gefðu mér smá vatnssopa úr keri þínu.‘ Hún svaraði: ‚Drekktu, herra minn,‘ og flýtti sér að taka kerið niður af öxlinni til að gefa honum að drekka.“ – 1. Mósebók 24:15–18.
Verður Rebekka góð eiginkona?
Rebekka er bróðursonardóttir Abrahams og auk þess að vera falleg hefur hún marga góða eiginleika. Hún er óhrædd að tala við ókunnugan mann en er ekki of vinsamleg. Þegar Elíeser biður um að fá að drekka kemur hún honum til aðstoðar. Það er almenn kurteisi og kemur því ekki á óvart. En hvað með seinni hluta bænar Elíesers?
Rebekka segir: „Drekktu, herra minn.“ En ekki nóg með það. Hún heldur áfram: „Ég skal líka sækja vatn handa úlföldum þínum þar til þeir hafa drukkið nægju sína.“ Hún býðst til að gera meira en búast má við. Áköf ‚flýtir hún sér að tæma úr kerinu í vatnsþróna og hleypur síðan fram og til baka til að sækja vatn í brunninn. Hún sækir vatn handa öllum úlföldum hans.‘ Hún slær ekki slöku við. ‚Maðurinn starir þögull á hana, undrandi yfir því sem hann sér.‘ – 1. Mósebók 24:19–21.
Elíeser kemst að því að unga konan er skyld Abraham og hann fellur á grúfu og þakkar Jehóva. Hann spyr hana hvort það sé pláss í húsi föður hennar svo að hann og fylgdarmenn hans geti fengið gistingu. Rebekka játar því og hleypur heim til að segja frá gestunum. – 1. Mósebók 24:22–28.
Eftir að hafa hlustað á sögu Elíesers skilja Laban bróðir Rebekku og Betúel faðir hennar að þetta er komið frá Guði. Rebekka hefur verið valin til að verða eiginkona Ísaks. „Taktu hana og farðu leiðar þinnar,“ segja þeir. „Hún skal giftast syni húsbónda þíns eins og Jehóva hefur sagt.“ Hvað finnst Rebekku um þetta? Þegar hún er spurð hvort hún sé tilbúin að fara strax svarar hún með einu hebresku orði sem merkir: „Já, það vil ég.“ Hún er ekki skyldug til að taka bónorðinu. Abraham sagði að Elíeser væri laus undan eiðnum ‚ef konan vildi ekki fara með honum‘. En Rebekka sér handleiðslu Guðs í málinu. Hún yfirgefur fjölskyldu sína tafarlaust til að giftast manni sem hún hefur aldrei hitt. Þessi ákvörðun ber vott um hugrekki og einstaka trú. Rebekka er sannarlega rétta konan! – 1. Mósebók 24:29–59.
Rebekka hylur andlitið þegar hún hittir Ísak til að sýna undirgefni. Ísak tekur hana sér fyrir eiginkonu og verður ástfanginn af henni, vafalaust vegna einstakra eiginleika hennar. – 1. Mósebók 24:62–67.
Tvíburasynir
Rebekka er barnlaus næstu 19 árin. Þá verður hún ófrísk að tvíburum en meðgangan er erfið vegna þess að synirnir takast á í kviði hennar. Rebekka hrópar því til Guðs. Við gerum það kannski líka þegar við tökumst á við mikla erfiðleika. Jehóva heyrir bæn Rebekku og hughreystir hana. Hún verður móðir tveggja þjóða og um synina er sagt: „Sá eldri mun þjóna þeim yngri.“ – 1. Mósebók 25:20–26.
Þetta er kannski ekki eina ástæðan fyrir því að Rebekka elskar yngri son sinn, Jakob, meira en þann eldri. Drengirnir eru ólíkir. Jakob er „óaðfinnanlegur“ en Esaú er svo skeytingarlaus um samband sitt við Jehóva að hann selur Jakobi frumburðarréttinn, réttinn til að erfa fyrirheit Guðs, fyrir eina máltíð. Esaú giftist tveim konum af ætt Hetíta og sýnir þannig andlegum verðmætum lítilsvirðingu, ef ekki fyrirlitningu. Það veldur foreldrum hans miklu hugarangri. – 1. Mósebók 25:27–34, neðanmáls; 26:34, 35.
Rebekka sér til þess að Jakob fái blessunina
Biblían segir ekki frá því hvort Ísak viti að Esaú eigi að þjóna Jakobi. En bæði Rebekka og Jakob vita að blessunin tilheyrir honum. Rebekka tekur strax til sinna ráða þegar hún heyrir að Ísak ætli að blessa Esaú þegar hann færir honum villibráðarrétt. Rebekka er alveg jafn ákveðin og kappsöm og þegar hún var ung. Hún segir Jakobi að sækja handa sér tvo kiðlinga. Hún ætlar að elda rétt handa eiginmanni sínum sem hann er hrifinn af. Jakob á síðan að þykjast vera Esaú til að fá blessunina. Í fyrstu mótmælir Jakob því þar sem hann óttast að faðir hans uppgötvi það og það leiði yfir hann bölvun. „Bölvunin komi yfir mig, sonur minn, “ segir Rebekka. Síðan eldar hún réttinn, dulbýr Jakob og sendir hann til eiginmanns síns. – 1. Mósebók 27:1–17.
Sagan greinir ekki frá því hvers vegna Rebekka gerir þetta. Margir telja það rangt sem hún gerði. En Biblían fordæmir hana ekki fyrir það og Ísak átelur hana ekki þegar hann kemst að því að Jakob hefur fengið blessunina heldur útlistar hana enn frekar. (1. Mósebók 27:29; 28:3, 4) Rebekka veit hvað Jehóva sagði um syni hennar. Hún sér því til þess að Jakob fái þá blessun sem honum ber. Það er augljóslega í samræmi við vilja Jehóva. – Rómverjabréfið 9:6–13.
Jakob sendur til Haran
Því næst ónýtir Rebekka áform Esaú með því að hvetja Jakob til að flýja þar til reiði bróður hans sefast. Hún biður um samþykki Ísaks til að senda Jakob burt en sleppir því að minnast á að Esaú sé reiður út í Jakob. Hún sýnir útsjónarsemi og segir manninum sínum að hún hafi áhyggjur af því að Jakob taki sér konu af dætrum Kanaanslands. Þetta nægir til að Ísak fyrirskipar Jakobi að forðast slíkt hjónaband og hann sendir hann til fjölskyldu Rebekku þar sem hann getur fundið sér guðhrædda eiginkonu. Það er ekkert sem bendir til að Rebekka hafi séð Jakob aftur, en það sem hún gerði reynist síðar meir mikil blessun fyrir Ísraelsþjóðina. – 1. Mósebók 27:43–28:2.
Við getum ekki annað en dáðst að Rebekku. Hún var mjög aðlaðandi en það var fyrst og fremst guðrækni hennar sem gerði hana fallega. Það var það sem Abraham leitaði að í fari tilvonandi tengdadóttur. Hún hafði líka aðra góða eiginleika sem Abraham átti kannski ekki von á. Trú hennar og hugrekki til að hlýða leiðsögn Guðs ásamt kappsemi, hógværð og gestrisni eru eiginleikar sem allar kristnar konur ættu að líkja eftir. Þetta eru þeir eiginleikar sem Jehóva leitar að í fari kvenna.