Frásaga með „táknræna merkingu“ sem á erindi til okkar
OKKUR væri nánast ógerningur að skilja sumt í Biblíunni til fulls ef ekki væri varpað ljósi á það annars staðar í Biblíunni. Sögulegar frásögur Biblíunnar eru oftast auðskildar. En sumar þeirra innihalda dýpri sannindi sem blasa ekki eins við augum. Eitt dæmi um þetta er frásagan um konurnar tvær á heimili ættföðurins Abrahams. Páll postuli sagði að hún hefði „táknræna merkingu“. – Galatabréfið 4:24.
Þessi frásaga verðskuldar athygli okkar vegna þess að hún fjallar um grundvallarsannindi sem skipta máli fyrir alla sem þrá að njóta blessunar Jehóva Guðs. Áður en við skoðum hvers vegna svo er skulum við kynna okkur aðstæðurnar sem fengu Pál til að svipta hulinni af merkingu þessarar frásögu.
Ákveðið vandamál ríkti meðal kristinna manna í Galatíu á fyrstu öld. Sumir þeirra héldu „samviskusamlega upp á daga og mánuði, tíðir og ár“ sem Móselögin mæltu fyrir um. Þeir héldu því fram að hlýðni við lögin væri nauðsynleg til að trúað fólk gæti öðlast velþóknun Guðs. (Galatabréfið 4:10; 5:2, 3) En Páll vissi að þess var ekki krafist af kristnum mönnum. Til að sýna fram á það vísaði hann til frásögu sem allir Gyðingar þekktu til.
Páll minnti Galata á að Abraham, sem var faðir Gyðingaþjóðarinnar, hafi getið Ísmael og Ísak. Sá fyrrnefndi var sonur þjónustustúlkunnar Hagar og sá síðari var sonur frjálsu konunnar Söru. Galatar sem fóru fram á hlýðni við Móselögin þekktu án efa frásöguna um Söru sem var ófrjó í fyrstu og lét Hagar í faðm Abrahams til að ala barn í sinn stað. Þeir mundu eflaust eftir því að þegar Hagar varð þunguð að Ísmael fór hún að fyrirlíta Söru, húsmóður sína. En fyrirheit Guðs rættist þó og Sara fæddi Ísak í ellinni. Seinna meir sendi Abraham Hagar og Ísmael burt vegna þess að sá síðarnefndi kom illa fram við Ísak. – 1. Mósebók 16:1–4; 17:15–17; 21:1–14; Galatabréfið 4:22, 23.
Tvær konur, tveir sáttmálar
Páll útskýrði „táknræna merkingu“ þessarar frásögu. „Konurnar tákna tvo sáttmála,“ segir hann, „annan frá Sínaífjalli sem elur börn til þrælkunar og er eins og Hagar … og hún samsvarar núverandi Jerúsalem því að hún er hneppt í þrældóm ásamt börnum sínum.“ (Galatabréfið 4:24, 25) Hagar táknaði Ísraelsþjóðina sem hafði Jerúsalem að höfuðborg. Gyðingarnir voru bundnir Jehóva með lagasáttmálanum sem var gerður við Sínaífjall. Lagasáttmálinn minnti þá stöðuglega á að þeir væru þrælar syndarinnar og þörfnuðust endurlausnar. – Jeremía 31:31, 32; Rómverjabréfið 7:14–24.
Hverja táknuðu þá ‚frjálsa konan‘ Sara og Ísak sonur hennar? Páll benti á að Sara, ‚ófrjóa konan‘, táknaði eiginkonu Guðs, himneskan hluta safnaðar hans. Þessi himneska kona var ófrjó í þeim skilningi að fyrir komu Jesú hafði hún ekki eignast nein andasmurð „börn“ á jörð. (Galatabréfið 4:27; Jesaja 54:1–6) En á hvítasunnu árið 33 var heilögum anda úthellt yfir hóp karla og kvenna sem endurfæddust þá sem börn þessarar himnesku konu. Börn þessa safnaðar voru ættleidd sem synir Guðs og þau urðu samerfingjar Jesú Krists og aðilar að nýjum sáttmála. (Rómverjabréfið 8:15–17) Páll postuli var eitt af þessum börnum og hann gat sagt: „Jerúsalem í hæðum er frjáls og hún er móðir okkar.“ – Galatabréfið 4:26.
Börn kvennanna
Biblían segir að Ísmael hafi ofsótt Ísak. Eins var það á fyrstu öldinni. Börn hinnar ánauðugu Jerúsalemborgar hæddust að og ofsóttu börn Jerúsalem í hæðum. „Á sínum tíma fór sá sem varð til með náttúrulegum hætti [Ísmael] að ofsækja þann sem varð til með hjálp andans [Ísak]. Eins er það núna,“ segir Páll. (Galatabréfið 4:29) Þegar Jesús Kristur kom fram á jörðinni og byrjaði að kunngera ríkið komu trúarleiðtogar Gyðinga alveg eins fram við hann og Ísmael sonur Hagar hafði komið fram við Ísak, hinn réttmæta erfingja Abrahams. Þeir hæddust að Jesú Kristi og ofsóttu hann og töldu sig greinilega hina réttmætu erfingja Abrahams og álitu Jesú svikara.
Skömmu áður en leiðtogar Ísraelsmanna tóku Jesú af lífi sagði hann: „Jerúsalem, Jerúsalem, þú sem drepur spámennina og grýtir þá sem eru sendir til þín! Hve oft vildi ég ekki safna saman börnum þínum eins og hæna safnar ungum sínum undir vængi sér. En þið vilduð það ekki. Hús ykkar verður yfirgefið og í ykkar höndum.“ – Matteus 23:37, 38.
Innblásin frásaga atburðanna á fyrstu öld sýnir að þjóðin sem táknuð var með Hagar fæddi ekki af sér syni sem urðu samerfingjar Jesú. Jehóva hafnaði Gyðingum sem trúðu því stoltir í bragði að þeir ættu rétt á þessum arfi vegna uppruna síns. Að sjálfsögðu urðu sumir Ísraelsmenn samerfingjar Krists. En þessi heiður hlotnaðist þeim vegna trúar á Jesú en ekki vegna uppruna þeirra.
Fyrstu samerfingjar Krists voru kynntir til sögunnar á hvítasunnu árið 33. Þegar fram liðu stundir smurði Jehóva fleiri sem syni Jerúsalem í hæðum.
Tilgangur Páls með því að útskýra „táknræna merkingu“ þessarar frásögu var að sýna fram á að sáttmálinn við Abraham væri langtum betri en lagasáttmálinn sem Móse hafði miðlað. Enginn gat öðlast velþóknun Guðs með því að fylgja Móselögunum vegna þess að allir menn eru ófullkomnir og lögin sýndu einfaldlega fram á að þeir væru þrælar syndarinnar. En eins og Páll útskýrði kom Jesús „til að kaupa þá lausa sem voru undir lögunum“. (Galatabréfið 4:4, 5) Þannig myndi trú á lausnarfórn Krists leiða til frelsunar undan fordæmingu laganna. – Galatabréfið 5:1–6.
Gildi fyrir okkur
Hvers vegna ættum við að hafa áhuga á innblásinni skýringu Páls á þessari frásögu? Ein ástæðan er sú að hún gefur okkur innsýn í ritningargreinar sem annars væru torskildar. Skýringar hans styrkja traust okkar á innra samræmi Biblíunnar. – 1. Þessaloníkubréf 2:13.
Sá veruleiki sem felst í þessari frásögu er þar að auki forsenda þess að við getum átt okkur eilífa og hamingjuríka framtíð. Ef synir Jerúsalem í hæðum hefðu ekki komið fram væri ekkert fram undan annað en þrælkun syndar og dauða. En þess í stað „munu allar þjóðir jarðar hljóta blessun“ undir kærleiksríkri stjórn Krists og annarra sem loforð Guðs við Abraham nær til. (1. Mósebók 22:18) Það gerist þegar menn hafa verið leystir endanlega undan áhrifum syndar, ófullkomleika, sorgar og dauða. (Jesaja 25:8, 9) Þetta verða stórkostlegir tímar!
[Mynd á bls. 11]
Lagasáttmálinn var gerður við Sínaífjall.
[Rétthafi]
Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.
[Mynd á bls. 12]
Hver er táknræn merking frásögunnar sem Páll postuli talar um?