Lesendur spyrja
Eru allar kraftaverkalækningar frá Guði?
Það leikur enginn vafi á því að Jehóva Guð hefur kraftinn til að lækna. Og hann getur veitt tilbiðjendum sínum þennan kraft. Á tímum postulanna voru til dæmis kraftaverkalækningar ein af sérstökum gjöfum heilags anda. Páll postuli skrifaði: „Þannig birtist andinn sérhverjum manni til þess að hann geri öðrum gagn. Einum gefur andinn gáfu að mæla af speki . . . öðrum lækningagáfu . . . spádómsgáfu . . . að tala tungum.“ — 1. Korintubréf 12:4-11.
En í sama bréfi til Korintumanna skrifaði Páll líka að þessar sérstöku gjafir heilags anda Guðs myndu taka enda. Hann sagði: „Spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.“ — 1. Korintubréf 13:8.
Jesús Kristur og postular hans læknuðu fólk með kraftaverki á fyrstu öldinni. Á þeim tíma voru gjafir heilags anda, þar með taldar lækningagáfur, ætlaðar til að vegsama Guð og voru merki um velþóknun hans og blessun yfir þessum unga kristna söfnuði. En þegar söfnuðurinn hafði náð þroska og var orðinn rótfastur átti velþóknun Guðs ekki að birtast í náðargjöfum andans heldur myndi óbifanleg trú, von og kærleikur safnaðarmeðlima bera vitni um velþóknun Guðs. (Jóhannes 13:35; 1. Korintubréf 13:13) Um árið 100 e.Kr. hættu þess vegna kraftaverkalækningar að vera tákn um blessun Guðs.a
En sumir gætu spurt: „Af hverju heyri ég samt enn þá talað um kraftaverkalækningar?“ Dagblað nokkurt greindi til dæmis frá manni sem var sagður vera með krabbamein. Hann var með æxli á höfði, í nýrum og jafnvel í beinunum. Framtíð hans var svört þar til Guð „talaði“ við hann. Nokkrum dögum síðar hvarf krabbameinið samkvæmt fréttinni.
Þegar þú heyrir slíkar sögur skaltu spyrja þig: Er þessi frétt sönn? Eru til skráðar læknisfræðilegar sannanir fyrir þessu? Og jafnvel þótt lækning virðist hafa átt sér stað má spyrja hvort Biblían kenni að Guð standi á bak við allt sem virðist vera kraftaverkalækning.
Svarið við síðustu spurningunni er einkar mikilvægt. Jesús sagði við fylgjendur sína: „Varist falsspámenn . . . Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.“ — Matteus 7:15, 21-23.
Það er ljóst af þessum ritningarstað að svokallaðar kraftaverkalækningar geta komið frá öðrum mætti en Guði. Til að forðast blekkingar þeirra sem segjast gera kraftaverk í nafni Guðs verðum við að afla okkur nákvæmrar þekkingar á Guði, nota hæfni okkar til að rökhugsa og læra að bera kennsl á þá sem gera vilja hans. — Matteus 7:16-19; Jóhannes 17:3; Rómverjabréfið 12:1, 2.
[Neðanmáls]
a Svo virðist sem útdeiling á sérstökum gjöfum andans hafi stöðvast með dauða postulanna. Þessar gjafir liðu því undir lok þegar þeir sem höfðu fengið þær dóu.