Vissir Þú?
Hvaða heimildir eru fyrir því, utan Biblíunnar, að Jesús hafi verið sannsöguleg persóna?
▪ Allnokkrir veraldlegir rithöfundar, sem voru uppi á svipuðum tíma og Jesús, minnast sérstaklega á hann. Einn þeirra var Cornelíus Tacítus en hann skráði sögu Rómar í stjórnartíð keisaranna. Tacítus segir frá því að orðrómur hafi borist út um að Neró keisari hafi borið ábyrgð á brunanum mikla í Róm árið 64. Tacítus greinir frá því að Neró hafi reynt að skella skuldinni á hóp sem almennt var þekktur sem hinir kristnu. Tacítus skrifaði: „Christus sá sem þeir voru við kenndir hafði verið dæmdur til dauða og líflátinn af Pontíusi Pílatusi skattlandsstjóra, á veldisdögum Tíberíusar.“a — Annals, XV, 44.
Gyðingurinn og sagnaritarinn Flavíus Jósefus minnist einnig á Jesú. Festus var rómverskur landsstjóri í Júdeu árið 62. Jósefus fjallar um tímabilið frá dauða Festusar þangað til eftirmaður hans Albinus tók við embætti. Jósefus segir: „[Ananus (Annas) æðsti prestur] kallaði saman dómara æðsta ráðsins og færði fyrir þá mann sem heitir Jakob, bróður Jesú sem kallaður var Kristur, ásamt nokkrum öðrum.“ — Jewish Antiquities, XX, 200 (ix, 1).
Af hverju var Jesús kallaður Kristur?
▪ Í guðspjöllunum er greint frá því þegar engillinn Gabríel birtist Maríu og sagði henni að hún myndi verða barnshafandi og að hún ætti að nefna soninn Jesú. (Lúkas 1:31) Þetta nafn var nokkuð algengt meðal Gyðinga á biblíutímanum. Gyðingurinn og sagnaritarinn Jósefus skrifaði um 12 einstaklinga, fyrir utan þá sem minnst er á í Biblíunni, sem báru þetta nafn. Sonur Maríu var sagður vera „frá Nasaret“ til að aðgreina hann frá öðrum sem hétu sama nafni. (Markús 10:47) Hann var einnig þekktur sem „Kristur“ eða Jesús Kristur. (Matteus 16:16) Hvað þýðir það?
Nafnið „Kristur“ er dregið af gríska orðinu Khristosʹ og merkir það sama og hebreska orðið Mashiʹach (Messías). Bæði orðin þýða bókstaflega „hinn smurði“. Þetta orð var réttilega notað um aðra fyrir tíma Jesú. Til dæmis var sagt um Móse, Aron og Davíð konung að þeir væru smurðir en það þýddi að þeir væru allir útnefndir af Guði til að gegna ábyrgðar- og valdastöðum. (3. Mósebók 4:3; 8:12; 2. Samúelsbók 22:51; Hebreabréfið 11:24-26) Jesús, hinn fyrirheitni Messías, var aðalmálsvari Jehóva. Því var við hæfi að hann hlyti titilinn „Kristur, sonur hins lifanda Guðs“. — Matteus 16:16; Daníel 9:25.
[Neðanmáls]
a Will Durant. Rómaveldi, fyrra bindi. Mál og menning. Reykjavík. 1993. Jónas Kristjánsson íslenskaði.
[Mynd á bls. 15]
Flavíus Jósefus samkvæmt hugmynd listamanns