Fjórum spurningum um endinn svarað
JESÚS KRISTUR sagði fyrir að í framtíðinni myndi ,endirinn koma‘. Þegar hann lýsti þeim tíma sagði hann: „Þá verður sú mikla þrenging sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og verður aldrei framar.“ — Matteus 24:14, 21.
Orð Jesú um endinn ásamt öðrum biblíuversum um þetta efni vekja upp margar mikilvægar spurningar. Hvernig væri að opna Biblíuna og lesa svörin sem þar er að finna við þessum spurningum?
1 Endir hvers?
Biblían kennir ekki að hinni bókstaflegu jörð verði eytt. „[Guð] grundvallar jörðina á undirstöðum hennar,“ skrifaði sálmaritarinn. „Hún haggast eigi um aldur og ævi.“ (Sálmur 104:5) Biblían kennir ekki heldur að öllu lífi á jörðinni verði útrýmt í eldi. (Jesaja 45:18) Jesús gaf til kynna að sumir myndu lifa af endinn. (Matteus 24:21, 22) Hvað tekur þá enda samkvæmt Biblíunni?
Mislukkaðar stjórnir manna munu taka enda. Guð innblés spámanninum Daníel að skrifa: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna magna upp ríki sem aldrei mun hrynja og ekki verða selt annarri þjóð í hendur. Það mun eyða öllum þessum ríkjum og gera þau að engu en standa sjálft að eilífu.“ — Daníel 2:44.
Stríðsátök og mengun taka enda. Í Sálmi 46:10 kemur fram hvað Guð mun gera. Þar segir: „Hann stöðvar stríð til endimarka jarðar, brýtur bogann, mölvar spjótið, brennir skildi í eldi.“ Biblían kennir einnig að Guð muni „eyða þeim sem jörðina eyða“. — Opinberunarbókin 11:18.
Glæpir og óréttlæti taka enda. Orð Guðs lofar: „Hinir hreinlyndu munu byggja landið og hinir ráðvöndu verða þar áfram. En hinir ranglátu verða upprættir úr landinu og hinum svikulu verður tortímt.“ — Orðskviðirnir 2:21, 22.
2 Hvenær mun endirinn koma?
Jehóva Guð hefur ákveðið tíma þegar hann mun binda enda á alla illsku og koma á stjórn sinni á himnum en hún er kölluð Guðsríki. (Markús 13:33) En Biblían gefur skýrt til kynna að við getum ekki nákvæmlega tímasett hvaða dag endirinn kemur. Jesús sagði: „Þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“ (Matteus 24:36) Hins vegar gátu Jesús og lærisveinar hans sagt fyrir hvernig aðstæðurnar á jörðinni yrðu rétt áður en Guð tæki í taumana. Endirinn er yfirvofandi þegar allir eftirfarandi atburðir eiga sér stað samtímis um allan heim.
Umrót í stjórnmálum, umhverfismálum og þjóðfélagsmálum sem á sér ekkert fordæmi í mannkynssögunni. Þegar Jesús svaraði spurningum lærisveina sinna um endinn sagði hann: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verða landskjálftar á ýmsum stöðum og hungur. Þetta er upphaf fæðingarhríðanna.“ (Markús 13:8) Páll postuli skrifaði: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Menn verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, illmálgir, óhlýðnir foreldrum, vanþakklátir, guðlausir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir og andsnúnir öllu góðu, sviksamir, framhleypnir, drambsamir og elska munaðarlífið meira en Guð.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
Prédikun um allan heim á fjölmörgum tungumálum. Jesús sagði: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.
3 Hvað gerist eftir endinn?
Biblían kennir ekki að allt gott fólk fari til himna og lifi þar í eilífri sælu. Jesús kenndi hins vegar að upphafleg fyrirætlun Jehóva með mennina verði að veruleika. „Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa,“ sagði Jesús. (Matteus 5:5; 6:9, 10) Í Biblíunni er þeim lofað upprisu í framtíðinni sem deyja áður en endirinn kemur. (Jobsbók 14:14, 15; Jóhannes 5:28, 29) Hvað gerist eftir endinn?
Jesús stjórnar frá himnum sem konungur Guðsríkis. „Ég horfði á í nætursýnum,“ skrifaði spámaðurinn Daníel, „og sá þá einhvern koma á skýjum himins, áþekkan mannssyni [hinn upprisna Jesú]. Hann kom til Hins aldna [Jehóva Guðs] og var leiddur fyrir hann. Honum [Jesú] var falið valdið, tignin og konungdæmið og allir menn, þjóðir og tungur skyldu lúta honum. Veldi hans er eilíft og líður aldrei undir lok, á konungdæmi hans verður enginn endir.“ — Daníel 7:13, 14; Lúkas 1:31, 32; Jóhannes 3:13-16.
Þegnar Guðsríkis hljóta fullkomna heilsu, varanlegt öryggi og eilíft líf. Jesaja spámaður skrifaði: „Menn munu reisa hús og búa í þeim, planta víngarða og neyta ávaxta þeirra. Menn munu ekki reisa hús sem annar býr í, ekki planta og annar neyta.“ (Jesaja 65:21-23) Jóhannes postuli skrifaði um þennan tíma: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.
4 Hvað þarft þú að gera til að lifa af endinn?
Pétur postuli sagði að sumir þeirra sem lifðu á endalokatímanum myndu hæðast að þeirri hugmynd að Guð grípi einhvern tíma inn í málefni manna og bindi enda á alla illsku á jörðinni. (2. Pétursbréf 3:3, 4) En þrátt fyrir það hvatti Pétur þá sem lifa á okkar dögum til að gera eftirfarandi.
Lærðu af mannkynssögunni. Pétur skrifaði: „Ekki þyrmdi hann [Guð] hinum forna heimi en varðveitti Nóa, boðbera réttlætisins, við áttunda mann er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu.“ (2. Pétursbréf 2:5) Varðandi þá sem hæðast sagði Pétur: „Viljandi gleyma þeir því að himnar og jörð voru til forðum. Guð skapaði þá með orði sínu og jörðin reis upp úr vatni og hvíldi á vatni. Þess vegna gekk vatnsflóðið yfir þann heim sem þá var svo að hann fórst. Eins ætlar Guð með sama orði að eyða með eldi himnunum sem nú eru ásamt jörðinni.a Hann mun varðveita þá til þess dags er óguðlegir menn verða dæmdir og tortímast.“ — 2. Pétursbréf 3:5-7.
Fylgdu siðferðisreglum Guðs. Þeir sem óska þess að lifa af endalokin munu sýna það með því að „lifa heilögu og guðrækilegu lífi“, skrifaði Pétur. (2. Pétursbréf 3:11) Taktu eftir að Pétur leggur áherslu á að „lifa heilögu og guðrækilegu lífi“. Það merkir þess vegna meira en að viðurkenna trú sína á yfirborðslegan hátt eða að ætla að kippa sambandinu við Guð í lag rétt fyrir endinn.
Hvaða hegðun og verk eru Guði þóknanleg? Hvernig væri að bera saman það sem þú veist og það sem Biblían kennir um þetta málefni? Vottar Jehóva aðstoða þig með ánægju. Biddu þá að sýna þér svörin í þinni eigin biblíu. Það gæti hjálpað þér að takast á við framtíðina með hugrekki og trúartrausti þrátt fyrir allt það sem vekur ótta í kringum okkur.
[Neðanmáls]
a Pétur talar hér um jörðina í óeiginlegri merkingu. Biblíuritarinn Móse talaði líka í óeiginlegri merkingu um jörðina. Hann skrifaði: „Öll jörðin hafði eitt tungumál.“ (1. Mósebók 11:1, Biblían 1981) Rétt eins og hin bókstaflega jörð talar ekki „sömu tungu“ þá mun hinni bókstaflegu jörð ekki verða eytt. Öllu heldur verður hinum óguðlegu tortímt eins og Pétur segir.
[Innskot á bls. 7]
Jörðinni verður ekki eytt heldur þeim sem eyða hana.