Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w11 1.1. bls. 29-31
  • Er spáð fyrir um Ísraelsríki nútímans í Biblíunni?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Er spáð fyrir um Ísraelsríki nútímans í Biblíunni?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Var biblíuspádómur að rætast?
  • Samanburður á nútíð og fortíð
  • Enn útvalin þjóð Guðs?
  • ‚Allur Ísrael mun frelsaður verða‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Spurningar frá lesendum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2008
  • „Þjóðin“ sem fyllir jarðarkringluna með ávöxtum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Kristnir vottar sem eiga föðurland á himni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
w11 1.1. bls. 29-31

Er spáð fyrir um Ísraelsríki nútímans í Biblíunni?

HEIMURINN fylgist uggandi með framvindu mála í Mið-Austurlöndum. Eldflaugaárásir, átök vopnaðra sveita og sprengjuárásir hryðjuverkamanna eru tíðir viðburðir. Auk þess gæti það hæglega gerst að kjarnavopnum yrði beitt. Það er því engin furða að fólk skuli vera kvíðið.

Heimurinn fylgdist einnig kvíðinn með framvindu mála í Mið-Austurlöndum fyrir tæplega 63 árum. Í maímánuði árið 1948 rann út umboð Breta til að stjórna því svæði sem þá var kallað Palestína, og stríð vofði yfir. Árið áður höfðu Sameinuðu þjóðirnar samþykkt að stofnað yrði sjálfstætt ríki Gyðinga á hluta hernumdu svæðanna. Arabaþjóðirnar í kring höfðu strengt þess heit að beita öllum ráðum til að koma í veg fyrir það. „Markalínan verður logandi og blóði drifin,“ sagði í viðvörun frá Arababandalaginu.

Klukkan var 16:00 föstudaginn 14. maí 1948. Eftir fáeinar klukkustundir væri umboð Breta á enda. Í Safnahúsinu í Tel Aviv voru saman komnir 350 manns sem boðið hafði verið með leynd að koma og heyra formlega yfirlýsingu um að nútímaríkið Ísrael væri stofnað. Öryggisgæsla var með mesta móti því að óttast var að einhverjir af hinum fjölmörgu óvinum nýja ríkisins myndu gera árás.

David Ben-Gurion 14. maí 1948.

David Ben-Gurion las upp yfirlýsingu um stofnun Ísraelsríkis, en hann var leiðtogi Ísraelska þjóðarráðsins. Í yfirlýsingunni sagði meðal annars: „Við, aðilar að Þjóðarráðinu, fulltrúar gyðingasamfélagsins í Eretz-Ísrael [Palestínu] . . . lýsum hér með yfir, í krafti eðlilegra og sögulegra réttinda, og í krafti yfirlýsingar Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, stofnun gyðinglegs ríkis í Eretz-Ísrael. Skal það heita Ísraelsríki.“

Var biblíuspádómur að rætast?

Sumir evangelískir trúarhópar álíta að biblíuspádómur hafi ræst þegar Ísraelsríki nútímans var stofnað. Svo dæmi sé tekið segir presturinn John Hagee í bók sinni Jerusalem Countdown: „Jesaja spámaður hafði skrásett þennan merkisatburð er hann sagði: ,Þjóð skal fæðast á einum degi.‘ (Sjá Jesaja 66:8.) . . . Þetta var merkasta uppfylling biblíuspádóms á tuttugustu öld. Þetta var lifandi sönnun þess, fyrir öllum mönnum, að Guð Ísraels væri í fullu fjöri.“

Er þetta rétt? Var stofnun Ísraelsríkis nútímans spáð í Jesaja 66:8? Átti „merkasta uppfylling biblíuspádóms á tuttugustu öld“ sér stað 14. maí 1948? Ef Ísraelsmenn nútímans eru útvalin þjóð Guðs og ef hann notar þá til að uppfylla spádóma Biblíunnar er það auðvitað mjög áhugavert fyrir biblíunemendur um allan heim.

Í spádómi Jesaja segir: „Hver hefur heyrt annað eins, hver séð nokkuð þessu líkt? Fæðist land á einum degi, þjóð í einni andrá? Óðar en Síon fékk hríðir fæddi hún syni sína.“ (Jesaja 66:8) Í þessu versi er því greinilega spáð að heil þjóð fæðist skyndilega, rétt eins og það gerist á einum degi. En hver átti að standa að baki þessari fæðingu? Vísbendingu um það er að finna í versinu á eftir: „Opna ég móðurlíf án þess að barn fæðist eða læt ég fæðingu hefjast og hindra hana síðan? segir Guð þinn.“ Jehóva Guð tekur fram að það sé hann sem valdi þessari áhrifamiklu tilurð nýrrar þjóðar.

Ísraelsríki nútímans er veraldlegt lýðræðisríki og lætur alls ekki í veðri vaka að það reiði sig á Guð Biblíunnar. Viðurkenndu Ísraelsmenn árið 1948 að Jehóva Guð stæði að baki yfirlýsingu þeirra um stofnun nýs ríkis? Nei, í upprunalegum texta yfirlýsingarinnar kemur hvorki fyrir orðið „Guð“ né nafn Guðs. Í bókinni Great Moments in Jewish History segir um lokatextann: „Þegar Þjóðarráðið fundaði kl. 13:00 gat það ekki einu sinni komið sér saman um orðalag yfirlýsingarinnar um stofnun ríkis . . . Trúræknir Gyðingar vildu að minnst væri á,Guð Ísraels‘. Þeir sem voru andvígir trúarlegum áhrifum andmæltu. Ben-Gurion fór bil beggja og ákvað að orðið ,Klettur‘ skyldi standa í stað ,Guðs‘.“

Ísraelsríki nútímans byggir sjálfstæðiskröfu sína á yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og því sem það kallar eðlileg og söguleg réttindi Gyðinga. Er rökrétt að Guð Biblíunnar hafi uppfyllt mesta spádóm 20. aldar og unnið mesta kraftaverkið í þágu þjóðar sem vill ekki gefa honum heiðurinn af því?

Samanburður á nútíð og fortíð

Veraldleg afstaða Ísraelsmanna nú á tímum er harla ólík því sem var árið 537 f.Kr. Það ár ,endurfæddist‘ Ísraelsþjóðin eins og á einum degi en land hennar hafði þá legið í eyði í 70 ár eftir að Babýloníumenn fluttu þjóðina í útlegð. En Jesaja 66:8 rættist með áberandi hætti þegar Kýrus mikli Persakonungur vann Babýlon og heimilaði Gyðingum að snúa heim á nýjan leik. — Esrabók 1:2.

Kýrus Persakonungur viðurkenndi árið 537 f.Kr. að Jehóva hefði hönd í bagga. Þeir sem sneru heim til Jerúsalem gerðu það í þeim ákveðna tilgangi að endurreisa musterið og endurvekja tilbeiðsluna á Jehóva. Ísraelsríki nútímans hefur aldrei lýst opinberlega yfir neinni löngun eða áformum í þá átt.

Enn útvalin þjóð Guðs?

Árið 33 fyrirgerðu Ísraelsmenn stöðu sinni sem útvalin þjóð Guðs þegar þeir höfnuðu Messíasi, syni Jehóva. Messías orðaði það sjálfur þannig: „Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá sem sendir eru til þín! . . . Guð mun yfirgefa musteri yðar og það verður lagt í rúst.“ (Matteus 23:37, 38) Jesús reyndist sannspár því að rómverskar hersveitir lögðu Jerúsalem í rúst árið 70 ásamt musterinu, og prestastéttin leið undir lok. En hvað leið fyrirætlun Guðs um ,sérstaka eign umfram aðrar þjóðir‘ og um ,konungsríki presta og heilaga þjóð‘? — 2. Mósebók 19:5, 6.

Pétur postuli, sem var sjálfur Gyðingur, svaraði þeirri spurningu í bréfi til kristinna manna sem voru bæði Gyðingar og af öðrum þjóðernum. Hann skrifaði: „Þið eruð,útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður‘ . . . Þið sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðin ,Guðs lýður‘. Þið sem ,ekki nutuð miskunnar‘ hafið nú,miskunn hlotið‘.“ — 1. Pétursbréf 2:7-10.

Kristnir menn, sem voru valdir af heilögum anda, tilheyrðu sem sagt andlegri þjóð, og það byggðist ekki á ætterni eða búsetu. Páll postuli lýsti því þannig: „Umskurn eða yfirhúð skipta engu, heldur að vera ný sköpun. Og yfir öllum þeim sem fylgja þessari reglu sé friður og miskunn og yfir Ísrael Guðs.“ — Galatabréfið 6:15, 16.

Ísraelsríki nútímans býðst til að veita ríkisborgararétt öllum sem eru af gyðingaættum eða taka gyðingatrú. Þegnréttur hjá „Ísrael Guðs“, sem nefnt er svo í Biblíunni, er hins vegar aðeins veittur þeim sem „hlýða Jesú Kristi og hreinsast með blóði hans“. (1. Pétursbréf 1:1, 2) Páll segir um þessa andlegu Gyðinga sem tilheyra Ísrael Guðs: „Sá er ekki Gyðingur sem er það hið ytra og það er ekki umskurn sem sést á líkamanum. Hinn er Gyðingur sem er það hið innra og umskorinn er sá sem er það í hjarta sínu, í hlýðni við andann, ekki bókstafinn. Hann þiggur ekki lof af mönnum heldur Guði.“ — Rómverjabréfið 2:28, 29.

Þetta vers varpar ljósi á umdeild orð sem Páll skrifaði. Í Rómverjabréfinu lýsir hann því að vantrúaðir Gyðingar hafi verið eins og greinar á táknrænum olíuviði sem hafi verið höggnar af svo að hægt væri að græða á hann ,greinar‘ af ,villiolíuviði‘, það er að segja fólk af öðrum þjóðum. (Rómverjabréfið 11:17-21) Í lok þessarar samlíkingar segir hann: „Nokkur hluti Ísraels er forhertur orðinn og það varir uns allir heiðingjar eru komnir inn. En þá mun allur Ísrael frelsast.“ (Rómverjabréfið 11:25, 26) Er þetta spádómur um að Gyðingar snúist hópum saman til kristni á elleftu stundu? Ljóst er að ekkert slíkt trúhvarf hefur átt sér stað.

Þegar Páll segir „allur Ísrael“ er hann að tala um allan hinn andlega Ísrael, það er að segja kristna menn sem heilagur andi hefur útvalið. Hann segir að þó svo að Gyðingar hafi ekki tekið við Messíasi komi það ekki í veg fyrir að Guð hrindi þeirri ætlun sinni í framkvæmd að eiga sér andlegan ,olíuvið‘ með greinum sem beri góðan ávöxt. Það kemur heim og saman við líkingu Jesú þar sem hann líkir sjálfum sér við vínvið og segir að greinar, sem beri ekki ávöxt, séu höggnar af. Hann sagði: „Ég er hinn sanni vínviður og faðir minn er vínyrkinn. Hverja þá grein á mér sem ber ekki ávöxt sníður hann af og hverja þá sem ávöxt ber hreinsar hann svo að hún beri meiri ávöxt.“ — Jóhannes 15:1, 2.

Enda þótt stofnun Ísraelsríkis nútímans hafi ekki verið spáð í Biblíunni var því vissulega spáð að hin andlega Ísraelsþjóð yrði til. Það verður þér til eilífrar blessunar ef þú gerir þér grein fyrir hver þessi andlega þjóð er og styður hana. — 1. Mósebók 22:15-18; Galatabréfið 3:8, 9.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila