Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w11 1.4. bls. 9-11
  • Sagan af Eden — hvernig snertir hún þig?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Sagan af Eden — hvernig snertir hún þig?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Svipað efni
  • Var Edengarðurinn til?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Paradísarvonin enn í gildi þrátt fyrir óhlýðni mannsins
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Paradísin glatast
    Biblían — hver er boðskapur hennar?
  • Hvernig var lífið í paradís?
    Hlustaðu á Guð og lifðu að eilífu
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
w11 1.4. bls. 9-11

Sagan af Eden — hvernig snertir hún þig?

SÚ MÓTBÁRA um söguna af Edengarðinum, sem kemur einna mest á óvart og heyrist stundum frá fræðimönnum, er að hún eigi sér ekki stoð annars staðar í Biblíunni. Til dæmis segir Paul Morris, prófessor í trúarbragðafræðum: „Hvergi er vísað beint í frásöguna af Edengarðinum síðar í Biblíunni.“ Vera má að einhverjir svokallaðir sérfræðingar séu honum sammála en þessi fullyrðing gengur í berhögg við staðreyndir.

Edengarðurinn, Adam, Eva og höggormurinn eru oft nefnd í Biblíunni.a En yfirsjón nokkurra fræðimanna bliknar þó í samanburði við önnur mun alvarlegri mistök. Með því að draga úr trúverðugleika frásögunnar í 1. Mósebók eru trúarleiðtogar og biblíugagnrýnendur í rauninni að ýta undir vantraust á Biblíuna í heild. Hvernig þá?

Það er nauðsynlegt að skilja það sem gerðist í Eden til að skilja boðskap Biblíunnar í heild. Ein af ástæðum þess að Biblían var rituð var að hjálpa okkur að finna svörin við stærstu og mikilvægustu spurningum lífsins. Og oft tengjast svör Biblíunnar einmitt atburðunum sem gerðust í Eden. Lítum á nokkur dæmi.

● Hvers vegna hrörnum við og deyjum? Adam og Eva áttu fyrir sér eilíft líf svo framarlega sem þau væru Jehóva undirgefin. Þau myndu ekki deyja nema þau gerðu uppreisn gegn honum. Um leið og þau gerðu það byrjuðu þau að hrörna og deyja. (1. Mósebók 2:16, 17; 3:19) Þau glötuðu fullkomleikanum og gátu ekki gefið afkomendum sínum annað en ófullkomleika í arf. Biblían lýsir því þannig: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ — Rómverjabréfið 5:12.

● Hvers vegna leyfir Guð illskuna? Í Edengarðinum bar Satan lygar á Guð og sagði hann synja sköpunarverum sínum þess sem er gott. (1. Mósebók 3:3-5) Hann dró þar með í efa að stjórnarhættir Jehóva væru réttlátir. Adam og Eva kusu að fylgja Satan og höfnuðu yfirráðum Jehóva. Með því fullyrtu þau að maðurinn gæti ákveðið sjálfur hvað væri gott og hvað illt. Réttlæti og viska Jehóva eru fullkomin og því vissi hann að það var aðeins ein leið til að svara þessari fullyrðingu í eitt skipti fyrir öll — að gefa manninum tækifæri til að stjórna að eigin vild um tíma. Áhrif Satans á heiminn eru ein ástæða þess að illskan er eins mikil og raun ber vitni. Þetta ástand hefur samt leitt í ljós mikilvæga staðreynd. Maðurinn er ekki fær um að stýra eigin málum, óháð Guði. — Jeremía 10:23.

● Hvað ætlast Guð fyrir með jörðina? Með Edengarðinum gaf Guð fyrirmynd um það hvernig jörðin ætti að vera. Hann gaf Adam og Evu það verkefni að fylla jörðina afkomendum sínum og ,gera sér hana undirgefna‘. Jörðin átti öll að vera jafn fögur og friðsæl og Edengarðurinn. (1. Mósebók 1:28) Guð ætlar jörðinni sem sagt að vera paradísarheimili byggt fullkomnum afkomendum Adams og Evu, sem búa saman í friði. Biblían fjallar að stórum hluta til um það hvernig Guð ætlar að láta þessa fyrirætlun sína verða að veruleika.

● Hvers vegna kom Jesús Kristur til jarðar? Uppreisnin í Eden leiddi dauða yfir Adam og Evu, auk allra afkomenda þeirra. En í kærleika sínum gaf Guð mönnunum von. Hann sendi son sinn til jarðar til að sjá þeim fyrir því sem Biblían kallar lausnargjald. (Matteus 20:28) Hvað þýðir það? Jesús var „hinn síðari Adam.“ Hann stóðst þar sem Adam brást. Hann hélt fullkomleika sínum með því að reynast Jehóva hlýðinn. Hann var fús til að gefa líf sitt sem lausnarfórn og opnaði með því leið fyrir alla trúfasta menn til að fá fyrirgefningu synda. Þess vegna eiga þeir í vændum að öðlast sams konar líf og Adam og Eva áttu í Eden áður en þau syndguðu. (1. Korintubréf 15:22, 45; Jóhannes 3:16) Jesús tryggði þannig að fyrirætlun Jehóva með jörðina næði fram að ganga, sú fyrirætlun að gera hana að paradís eins og Edengarðurinn var.b

Tilgangur Guðs með jörðina er ekki óljós. Hann er ekki heldur eitthvert óhlutstætt guðfræðilegt hugtak. Hann er raunverulegur. Edengarðurinn var raunverulegur staður á jörðinni með dýrum og fólki af holdi og blóði. Það sama á við um þá framtíð sem Guð lofar fyrir jörðina. Hún verður innan skamms að veruleika. Verður þú þar? Er það þín framtíð? Það er að miklu leyti undir þér komið. Guð vill að sem flestir hljóti þessa framtíð, jafnvel þeir sem hafa farið út á ranga braut. — 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.

Rétt áður en Jesús dó talaði hann við mann sem var komið verulega illa fyrir. Hann var glæpamaður og vissi að hann átti dauðadóm skilinn. En hann leitaði til Jesú eftir von og huggun. Hvernig brást Jesús við? Hann lofaði þessum fyrrverandi glæpamanni að hann yrði með honum í paradís. (Lúkas 23:43) Jesú langar til að sjá hann í paradís, upprisinn með eilíft líf fyrir sér. Heldurðu ekki að hann vilji að þú njótir sömu blessunar? Hann vill það. Faðir hans vill það líka. Vilt þú eiga þá framtíð fyrir þér? Þá skaltu gera allt sem í þínu valdi stendur til að fræðast um þann Guð sem skapaði Eden.

[Neðanmáls]

a Sjá til dæmis 1. Mósebók 13:10; 1. Kroníkubók 1:1; Jesaja 51:3; Esekíel 28:13; 31:8, 9; Lúkas 3:38; Rómverjabréfið 5:12-14; 1. Korintubréf 15:22, 45; 2. Korintubréf 11:3; 1. Tímóteusarbréf 2:13, 14; Júdasarbréfið 14 og Opinberunarbókina 12:9.

b Hægt er að fræðast betur um lausnarfórn Krists í 5. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

[Rammi/​myndir á bls. 10]

SPÁDÓMUR SEM TENGIR BÆKUR BIBLÍUNNAR SAMAN

„Ég set fjandskap milli þín [höggormsins] og konunnar og milli þinna niðja og hennar niðja. Þeir skulu merja höfuð þitt og þú skalt höggva þá í hælinn.“ — 1. Mósebók 3:15.

Þetta er fyrsti spádómur Biblíunnar og Guð bar hann fram í Edengarðinum. Hverja tákna konan, niðjar hennar, höggormurinn og niðjar hans? Hvers konar ,fjandskapur‘ átti að vera á milli þeirra?

HÖGGORMURINN

Satan djöfullinn. — Opinberunarbókin 12:9.

KONAN

Söfnuður andavera sem þjóna Jehóva á himnum. (Galatabréfið 4:26, 27) Jesaja talaði um ,konuna‘ og sagði fyrir að hún myndi fæða af sér andlega þjóð. — Jesaja 54:1; 66:8.

NIÐJAR HÖGGORMSINS

Þeir sem kjósa að gera vilja Satans. — Jóhannes 8:44.

NIÐJAR KONUNNAR

Fyrst og fremst Jesús Kristur sem kom frá himnum og söfnuði andaveranna sem þjóna Jehóva þar. Aðrir niðjar konunnar eru andlegir bræður Krists sem stjórna á himnum með honum. Þessir andasmurðu kristnu einstaklingar mynda andlega þjóð sem er kölluð „Ísrael Guðs“. — Galatabréfið 3:16, 29; 6:16; 1. Mósebók 22:18.

AÐ HÖGGVA Í HÆLINN

Messíasi er greitt þungt högg sem hefur þó ekki varanlegar afleiðingar. Satan tókst að láta taka Jesú af lífi en hann var reistur upp aftur.

AÐ MERJA HÖFUÐIÐ

Satan er veitt banahögg. Jesús á eftir að gera endanlega út af við hann. Og jafnvel áður en hann gerir það mun hann gera að engu allt hið illa sem Satan hleypti af stað í Eden. — 1. Jóhannesarbréf 3:8; Opinberunarbókin 20:10.

Stutt yfirlit yfir meginstef Biblíunnar er að finna í bæklingnum Biblían — hver er boðskapur hennar? Hann er gefinn út af Vottum Jehóva.

[Mynd á bls. 11]

Adam og Eva þurftu að taka hörmulegum afleiðingum syndarinnar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila