Vertu viðbúinn!
„Verið þér . . . viðbúin því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.“ — MATT. 24:44.
1, 2. (a) Hvaða atburði er spáð í Biblíunni sem líkja mætti við árás tígrisdýrs? (b) Hvaða áhrif hefur þessi yfirvofandi árás á þig?
ÞEKKTUR skemmtikraftur hafði árum saman sýnt listir sínar ásamt tömdum Bengaltígrum. „Þegar dýr fer að treysta manni hefur maður fengið fegurstu gjöf í heimi,“ sagði hann. En traustið tók enda 3. október 2003. Eitt af dýrunum hans, 170 kílóa hvítur tígur, réðst á hann, að því er virðist að ástæðulausu. Árásin var óvænt og þjálfarinn óviðbúinn.
2 Það er athyglisvert að hugsa til þess að í Biblíunni er spáð að dýr nokkurt geri árás og að við þurfum að vera viðbúin. (Lestu Opinberunarbókina 17:15-18.) Á hvern eða hverja ræðst þetta táknræna dýr? Öllum að óvörum snýst heimur Satans gegn sjálfum sér. Skarlatsrauða dýrið táknar Sameinuðu þjóðirnar og „hornin tíu“ tákna öll pólitísk ríki jarðar. Þau ráðast á skækjuna Babýlon hina miklu og tortíma henni en hún táknar heimsveldi falstrúarbragðanna. Hvenær gerist þetta? Við vitum ekki daginn eða stundina. (Matt. 24:36) Hitt vitum við að þessir atburðir koma okkur að óvörum og þeirra er skammt að bíða. (Matt. 24:44; 1. Kor. 7:29) Það er því mikilvægt að halda vöku okkar þannig að þegar árásin á sér stað og Kristur kemur til að fullnægja dómi reynist hann líka frelsari okkar. (Lúk. 21:28) Við getum lært af trúum þjónum Guðs fyrr á tímum hvernig hægt sé að vera viðbúinn, því að þeir héldu vöku sinni og fengu þar af leiðandi að sjá loforð Guðs rætast. Ætlarðu að líkja eftir þessum þjónum Jehóva?
Vertu viðbúinn eins og Nói
3. Af hverju var ekki auðvelt fyrir Nóa að vera Guði trúr?
3 Nói var viðbúinn því að sjá loforð Guðs rætast þrátt fyrir það hve ástandið á jörðinni var hrikalegt meðan hann var uppi. Hugsaðu þér hvað Nói þurfti að takast á við þegar englar gerðu uppreisn, holdguðust og fóru að búa með konum sem þeir lögðu hug á. Þeir eignuðust með þeim afkvæmi sem voru risar að vexti og beittu ofurmannlegum kröftum sínum til að kúga fólk. (1. Mós. 6:4) Hugsaðu þér ofbeldið sem risarnir kyntu undir með því að valda tjóni og eyðileggingu við hvert fótmál. Illskan var í algleymingi og spillti hugsun og hátterni mannanna. Alvaldur Drottinn Jehóva ákvað þá að binda enda á þennan óguðlega heim að ákveðnum tíma liðnum. — Lestu 1. Mósebók 6:3, 5, 11, 12.a
4, 5. Að hvaða leyti er ástandið svipað núna og það var á dögum Nóa?
4 Jesús spáði því að ástandið á okkar tímum yrði áþekkt því sem var meðan Nói var uppi. (Matt. 24:37) Illir andar hafa áhrif á mannkynið nú á tímum rétt eins og þá. (Opinb. 12:7-9, 12) Þessir illu andar eru englarnir sem holdguðust á dögum Nóa. Þó að þeim sé nú meinað að holdgast reyna þeir samt sem áður að ráðskast með unga sem aldna. Á bak við tjöldin hafa þessir öfuguggar ánægju af vonskuverkum og ólifnaði þeirra sem þeim tekst að siðspilla hér á jörð. — Ef. 6:11, 12.
5 Í orði Guðs er Satan djöfullinn kallaður „manndrápari“ og sagt að hann hafi „mátt dauðans“. (Jóh. 8:44; Hebr. 2:14) Þessi grimmi andi hefur takmarkaðan mátt til að verða fólki beinlínis að bana. Hann elur hins vegar á svikum og blekkingum. Hann ýtir undir manndrápshugsanir hjá fólki. Til marks um það má nefna að 1 af hverjum 142 börnum, sem fæðast í Bandaríkjunum, á eftir að falla fyrir hendi morðingja. Heldurðu að Jehóva taki eitthvað minna eftir hinu glórulausa ofbeldi nú á tímum en ofbeldinu á dögum Nóa? Ætli hann haldi að sér höndum?
6, 7. Hvernig sýndu Nói og fjölskylda hans trú og guðsótta?
6 Þegar fram liðu stundir fékk Nói að vita að Guð hefði ákveðið að láta vatnsflóð steypast yfir jörðina og eyða öllum mönnum. (1. Mós. 6:13, 17) Jehóva sagði honum að smíða örk sem var eins og risastór kista í laginu. Nói hófst handa ásamt fjölskyldu sinni. Hvað hvatti þau til að hlýða og vera viðbúin þegar dómi Guðs var fullnægt?
7 Það var sterk trú og guðsótti sem fékk Nóa og fjölskyldu hans til að gera eins og þeim var sagt. (1. Mós. 6:22; Hebr. 11:7) Nói var góður fjölskyldufaðir. Hann hélt vöku sinni og forðaðist siðspillingu umheimsins. (1. Mós. 6:9) Hann vissi að fjölskyldan mátti ekki taka upp ofbeldi fólksins í kring eða temja sér uppreisnarhug þess. Þau gátu ekki heldur leyft sér að láta hið daglega amstur taka allan sinn tíma. Guð hafði sagt þeim að vinna ákveðið verk og það var mikilvægt að öll fjölskyldan einbeitti sér að því. — Lestu 1. Mósebók 6:14, 18.
Nói og fjölskylda hans voru viðbúin
8. Hvernig má sjá að fjölskylda Nóa tilbað Jehóva?
8 Í frásögn Biblíunnar er athyglinni beint að fjölskylduföðurnum Nóa, en eiginkona hans, synir og konur þeirra tilbáðu einnig Jehóva. Esekíel spámaður staðfesti það. Hann sagði að ef Nói hefði verið samtíðarmaður sinn hefðu börn Nóa ekki bjargast vegna þess eins að faðir þeirra var réttlátur. Þau voru nógu gömul til að hlýða eða óhlýðnast. Ljóst er því að þau höfðu sýnt sjálf að þau elskuðu Guð og meginreglur hans. (Esek. 14:19, 20) Fjölskylda Nóa tók við fræðslu hans, tilbað Jehóva ásamt honum og gætti þess að láta ekki aðra hindra sig í að vinna það verk sem þeim hafði verið falið.
9. Hvernig líkja fjölskyldufeður eftir Nóa?
9 Það er ákaflega uppörvandi að sjá innan bræðrafélagsins fjölskyldufeður sem leggja sig alla fram um að líkjast Nóa. Þeir vita að það er ekki nóg að sjá fjölskyldu sinni bara fyrir fæði, klæði, húsnæði og menntun. Þeir þurfa líka að fullnægja andlegu þörfunum. Þannig sýna þeir að þeir eru viðbúnir því sem Jehóva ætlar að gera innan skamms.
10, 11. (a) Hvernig hefur Nóa og fjölskyldu hans eflaust verið innanbrjósts inni í örkinni? (b) Hvers ættum við að spyrja okkur?
10 Hugsanlegt er að Nói, kona hans, synir og tengdadætur hafi unnið að smíði arkarinnar í 50 ár eða svo. Meðan á smíðinni stóð hljóta þau að hafa farið mörg hundruð sinnum inn og út úr örkinni. Þau þéttu hana svo að hún yrði vatnsheld, birgðu hana matvælum og fóðri og létu dýrin ganga inn í hana. Sjáðu þetta fyrir þér. Stóri dagurinn er loksins runninn upp. Þetta er 17. dagur annars mánaðarins árið 2370 f.Kr. Þau ganga í örkina. Jehóva lokar dyrunum og það byrjar að rigna. Og þetta er ekki bara staðbundið flóð heldur opnast flóðgáttir himins og regnið bylur á örkinni. (1. Mós. 7:11, 16) Þeir sem eru úti fyrir deyja en fjölskylda Nóa er óhult inni í örkinni. Hvernig ætli þeim hafi verið innanbrjósts? Þau hafa örugglega verið innilega þakklát Guði. En þau hafa eflaust líka verið glöð innra með sér yfir því að þau skyldu hafa gengið með Guði og verið viðbúin. (1. Mós. 6:9) Geturðu ímyndað þér hve þakklátur þú verður þegar Harmagedónstríðið er liðið hjá og þú horfir um öxl?
11 Ekkert getur komið í veg fyrir að hinn alvaldi standi við það loforð sitt að binda enda á það kerfi sem Satan stjórnar. Treystir þú fullkomlega að ekkert af fyrirheitum Guðs bregðist, ekki einu sinni í því smæsta? Treystir þú að þau rætist öll á tilsettum tíma? Ef þú treystir því skaltu sýna að þú sért viðbúinn með því að hafa ,dag Guðs‘ stöðugt í huga. — 2. Pét. 3:12.
Móse hélt vöku sinni
12. Hvað hefði getað villt Móse sýn?
12 Skoðum annað dæmi. Frá mannlegum sjónarhóli virtist Móse vera ákaflega vel settur í egypsku samfélagi. Dóttir faraós hafði ættleitt hann. Hann naut líklega mikillar virðingar og borðaði mat af besta tagi, klæddist fínustu fötum og bjó við mikinn munað. Hann fékk úrvalsmenntun. (Lestu Postulasöguna 7:20-22.) Vera má að hann hafi átt mikinn arf í vændum.
13. Hvernig tókst Móse að hafa fyrirheit Guðs stöðugt í huga?
13 Móse vissi að það var heimskulegt að tilbiðja skurðgoð eins og Egyptar gerðu. Eflaust mátti þakka það uppeldi hans í föðurhúsum fyrstu æviárin. (2. Mós. 32:8) Móse sneri ekki baki við sannri tilbeiðslu þrátt fyrir menntunina í Egyptalandi og munaðinn hjá konungsættinni. Hann hlýtur að hafa ígrundað vandlega fyrirheit Guðs við forfeður sína og haft brennandi löngun til að sýna að hann væri reiðubúinn að gera vilja Guðs. Einu sinni sagði hann við Ísraelsmenn: „Drottinn, . . . Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, sendi mig til ykkar.“ — Lestu 2. Mósebók 3:15-17.
14. Hvernig reyndi á trú og hugrekki Móse?
14 Jehóva var raunverulegur og sannur Guð í augum Móse, ólíkt lífvana guðum og skurðgoðum Egypta. Hann lifði eins og hann „sæi hinn ósýnilega“. Móse trúði að þjóð Guðs yrði frelsuð en vissi ekki hvenær. (Hebr. 11:24, 25, 27) Svo heitt þráði hann að sjá Hebreana frelsaða úr ánauð að hann kom til varnar hebreskum þræli sem var misþyrmt. (2. Mós. 2:11, 12) En tími Jehóva var ekki kominn svo að Móse þurfti að flýja og búa sem flóttamaður í fjarlægu landi. Það hefur eflaust verið erfitt fyrir hann að hafast við í eyðimörkinni eftir öll þægindin sem hann hafði notið við egypsku hirðina. En Móse var viðbúinn og vakandi fyrir öllum fyrirmælum Jehóva. Þess vegna gat Jehóva notað hann til að frelsa meðbræður hans eftir að hann hafði verið 40 ár í Midían. Að boði Guðs hlýddi hann og sneri aftur til Egyptalands. Nú var tíminn kominn að Móse ynni verk Guðs á þann hátt sem Guð vildi. (2. Mós. 3:2, 7, 8, 10) Eftir að Móse, sem var „hógværari en nokkur annar á jörðinni“, var snúinn aftur til Egyptalands þurfti hann að sýna trú og hugrekki til að ganga fyrir faraó. (4. Mós. 12:3) Hann gerði það ekki bara einu sinni heldur æ ofan í æ eftir því sem plágurnar gengu yfir, og hann vissi ekki frá einni plágu til annarrar hve oft hann þyrfti að gera það.
15. Hvers vegna leitaði Móse færis að heiðra föðurinn á himnum, þrátt fyrir ýmis vonbrigði?
15 Móse mátti þola ýmiss konar vonbrigði næstu 40 árin, frá 1513 til 1473 f.Kr. Alltaf leitaði hann þó færis að heiðra Jehóva og hvatti þjóð sína heilshugar til að gera það líka. (5. Mós. 31:1-8) Hann gerði þetta vegna þess að honum var annara um orðstír og drottinvald Jehóva en sjálfan sig. (2. Mós. 32:10-13; 4. Mós. 14:11-16) Við þurfum líka að halda áfram að styðja stjórn Guðs, þrátt fyrir vonbrigði eða áföll. Treystum því að leiðir hans séu alltaf viturlegri, réttlátari og betri en aðrar leiðir. (Jes. 55:8-11; Jer. 10:23) Hugsarðu þannig?
Haltu vöku þinni
16, 17. Af hverju hefur Markús 13:35-37 djúpstæða merkingu fyrir þig?
16 „Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn.“ (Mark. 13:33) Jesús sagði þetta þegar hann lýsti tákni þess að illur heimur væri í þann mund að líða undir lok. Og tökum eftir hvernig Jesús lauk hinum mikla spádómi sínum samkvæmt Markúsarguðspjalli: „Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ — Mark. 13:35-37.
17 Hvatning Jesú er umhugsunarverð. Hann nefnir hér fjórar tímasetningar að nóttu. Það var erfiðast að halda sér vakandi frá klukkan þrjú að nóttu og fram að sólarupprás. Hernaðarsérfræðingar telja það vera besta tímann til að gera árás því að þá séu mestar líkur á að óvinurinn sé sofandi. Heimurinn er nú í fastasvefni ef svo má að orði komast og það getur kostað töluverða baráttu að halda sér vakandi. Erum við í nokkrum vafa um að við þurfum að ,gæta okkar og vera vakandi‘ fyrir yfirvofandi endi og frelsuninni sem fylgir?
18. Hvaða ómetanlega heiður höfum við sem erum vottar Jehóva?
18 Dýratemjarinn, sem nefndur var í upphafi greinarinnar, komst lifandi úr klóm Bengaltígursins. Í spádómum Biblíunnar kemur hins vegar skýrt fram að hvorki falstrúarbrögðin né þessi illi heimur komist undan þegar endalokin dynja yfir. (Opinb. 18:4-8) Megi allir þjónar Guðs, ungir sem aldnir, hafa hugfast hve mikilvægt er að gera allt sem hægt er til að vera viðbúnir degi Jehóva, rétt eins og Nói og fjölskylda hans. Við búum í heimi þar sem falstrúarkennarar, efasemdamenn og trúleysingjar hæðast að Guði og níða hann. Við megum ekki láta þá hafa áhrif á okkur. Hugleiðum alvarlega þau dæmi sem rætt er um í greininni og verum vakandi fyrir öllum tækifærum sem gefast til að verja og heiðra Jehóva, „Guð guðanna . . . Hann er hinn mikli Guð, hetjan og ógnvaldurinn.“ — 5. Mós. 10:17.
[Neðanmáls]
a Í Varðturninum 15. desember 2010, bls. 30, er fjallað um árin „hundrað og tuttugu“ sem nefnd eru í 1. Mósebók 6:3.
Manstu?
• Af hverju þurfti Nói að láta andlegar þarfir fjölskyldunnar ganga fyrir?
• Að hvaða leyti eru okkar tímar nauðalíkir dögum Nóa?
• Hvernig tókst Móse að hafa fyrirheit Guðs stöðugt í huga þrátt fyrir ýmis vonbrigði?
• Hvaða spádómar í Biblíunni eru þér hvatning til að halda vöku þinni?
[Mynd á bls. 25]
Nói og fjölskylda hans einbeittu sér að verki Jehóva.
[Mynd á bls. 26]
Óbrigðul loforð Jehóva hjálpuðu Móse að halda vöku sinni.