Abraham – hugrakkur maður
Abraham lítur yfir hópinn, fjölskyldu sína og þjóna, sem er að búa sig undir að fara inn í Kanaansland. (1. Mósebók 12:1–5) Hann finnur til sterkrar ábyrgðarkenndar gagnvart þessum stóra hópi sem er háður honum um lífsafkomu sína. Hvernig á hann eftir að sjá fyrir efnislegum þörfum alls þessa fólks í ókunnu landi? Ætli það hefði verið auðveldara í Úr þar sem nóg var af víðáttumiklum beitarlöndum og vatni og jarðvegurinn var frjósamur? Hvað nú ef hann veikist eða deyr í nýja landinu? Hver myndi þá annast fjölskyldu hans? Ef Abraham hefur áhyggjur af slíku lætur hann ekki óttann lama sig. Hann er staðráðinn í að láta til skarar skríða og hlýða fyrirmælum Guðs hvernig sem fer. Það er sannarlega merki um hugrekki.
HVAÐ ER HUGREKKI? Það felur í sér styrk, kjark og áræðni – andstætt því að vera hræðslugjarn eða huglítill. Hugrakkur maður getur samt orðið hræddur. En ef hann býr yfir hugrekkinu sem Guð veitir gengur hann í verkið þátt fyrir óttann.
HVERNIG SÝNDI ABRAHAM HUGREKKI? Abraham þorði að synda gegn straumnum. Hann ólst upp innan um fólk sem tilbað marga guði og skurðgoð. En hann lét ekki óttann við álit annarra koma í veg fyrir að hann gerði það sem hann vissi að var rétt. Abraham var hugrakkur og valdi aðra lífsstefnu en fjöldinn. Hann ákvað að tilbiðja aðeins einn Guð – „hinn hæsta Guð“, Jehóva. – 1. Mósebók 14:21, 22.
Að tilbiðja hinn sanna Guð var mikilvægara fyrir Abraham en efnislegur hagur. Hann var fús til að segja skilið við þægilegt líf í Úr og fara út í óbyggðirnar í trausti þess að Jehóva myndi annast efnislegar þarfir hans. Án efa hefur Abraham stundum hugsað um sum lífsþægindin sem hann hafði notið í Úr. En hann var þess fullviss að Jehóva myndi alltaf sjá fyrir honum og fjölskyldu hans. Jehóva var mikilvægasta persónan í lífi Abrahams og það gaf honum hugrekki til að hlýða fyrirmælum hans.
HVAÐA LÆRDÓM GETUM VIÐ DREGIÐ AF ÞESSU? Við getum líkt eftir Abraham með því að byggja upp hugrekki til að hlýða Jehóva, jafnvel þó að þeir sem eru í kringum okkur geri það ekki. Biblían segir okkur að þeir sem taka afstöðu með Jehóva Guði megi vænta andstöðu, kannski frá vinum eða ættingjum sem vilja vel. (Jóhannes 15:20) En þegar við erum sannfærð um að það sem við höfum lært um Jehóva sé rétt verjum við trú okkar en við gerum það með virðingu. – 1. Pétursbréf 3:15.
Við getum líka reitt okkur á loforð Guðs um að hann sjái fyrir þeim sem setja traust sitt á hann. Slíkt traust gefur okkur hugrekki til að láta líf okkar snúast um andleg mál frekar en efnisleg hugðarefni. (Matteus 6:33) Sjáðu hvernig fjölskylda nokkur hefur gert það.
Doug og Becky langaði til að flytja til lands þar sem mikil þörf var fyrir boðbera en þau áttu tvo unga syni. Eftir að hafa skoðað málið vel og beðið oft og innilega ákváðu þau að láta slag standa. „Það útheimti hugrekki að flytja með börnin án þess að vita nákvæmlega hvernig hlutirnir myndu verða,“ segir Doug. „En fljótlega eftir að við fórum að velta þessu fyrir okkur ræddum við saman um fordæmi Abrahams og Söru. Við hugleiddum hvernig þau treystu Jehóva og hvernig hann brást þeim aldrei. Það var okkur mikil hjálp.“
Doug segir um lífið í nýju landi: „Þetta hefur verið gríðarleg blessun fyrir okkur.“ Hann bætir við: „Lífsstíllinn er svo miklu einfaldari og þess vegna höfum við fjölskyldan getað notað mestallan tímann saman. Við boðum trúna saman, spjöllum saman og leikum við drengina. Það er frelsistilfinning sem erfitt er að koma orðum að.“
Að sjálfsögðu eru ekki allir í aðstöðu til að gera svona róttækar breytingar. En við getum öll líkt eftir Abraham með því að láta tilbeiðsluna á Guði hafa forgang og treysta því að hann standi með okkur og styðji. Þegar við gerum það förum við eftir hvatningu Biblíunnar um að vera hugrökk og getum sagt: „Jehóva hjálpar mér, ég óttast ekki neitt.“ – Hebreabréfið 13:5, 6.
[Innskot á bls. 7]
Hugrakkur maður getur orðið hræddur en ef hann býr yfir hugrekkinu sem Guð veitir gengur hann í verkið þrátt fyrir óttann.
[Rammi/mynd á bls. 8]
Guðrækin og frábær eiginkona
Sara var gift einstökum trúmanni. En þessi guðrækna kona er líka frábær fyrirmynd sem vert er að gefa gaum. Biblían nefnir hana reyndar þrisvar með nafni sem dæmi til eftirbreytni fyrir guðræknar konur. (Jesaja 51:1, 2; Hebreabréfið 11:11; 1. Pétursbréf 3:3–6) Þó að Biblían segi frekar lítið um þessa merkiskonu getum við samt dregið fram fallega mynd af henni.
Hugsaðu til dæmis um fyrstu viðbrögð Söru þegar Abraham sagði henni frá fyrirmælum Guðs um að yfirgefa Úr. Velti hún fyrir sér hvert þau myndu fara og hvers vegna? Hafði hún áhyggjur af efnislegum nauðsynjum? Var hún döpur við tilhugsunina um að yfirgefa vini og fjölskyldu? Hún vissi ekki hvenær eða jafnvel hvort hún myndi sjá þau aftur. Eflaust hafa slíkar hugsanir farið í gegnum huga hennar. Engu að síður fór hún fúslega og treysti því að Jehóva myndi blessa hana fyrir að hlýða. – Postulasagan 7:2, 3.
Sara var hlýðinn þjónn Guðs og líka frábær eiginkona. Hún keppti ekki við eiginmann sinn um yfirráð í málum fjölskyldunnar heldur lét hann um það hlutverk, studdi hann og sýndi honum innilega virðingu. Þessir jákvæðu eiginleikar voru skart hennar og fegruðu hana. – 1. Pétursbréf 3:1–6.
Getur verið gagnlegt fyrir eiginkonur nú á tímum að temja sér slíka eiginleika? „Fordæmi Söru hefur kennt mér að ég megi tjá mig og segja manninum mínum hvað mér finnst,“ segir kona að nafni Jill en hún hefur verið hamingjusamlega gift í meira en 30 ár. „Hann er samt höfuð fjölskyldunnar,“ heldur hún áfram, „og ber þá ábyrgð að taka lokaákvörðunina. Þegar hann hefur gert það er það mitt hlutverk að gera mitt besta til að hún gangi upp.“
Vera má að sá lærdómur sem snertir okkur mest í fari Söru sé þessi: Hún var mjög falleg kona en hún leyfði ekki fegurðinni að stíga sér til höfuðs. (1. Mósebók 12:10–13) Hún var auðmjúk og studdi Abraham í gegnum súrt og sætt. Abraham og Sara voru greinilega trúföst og auðmjúk hjón sem elskuðu hvort annað. Þau hugsuðu vel hvort um annað.