Biblían breytir lífi fólks
HVERNIG fann ung kona, sem hafði átt raunalega æsku, tilgang í lífinu? Hvernig varð pólitískur uppreisnarseggur friðsamur boðberi fagnaðarerindisins? Lesum hvað þau hafa að segja.
„Ég þráði að einhver sýndi mér ástúð og hlýju.“– ÍNNA LJEZHNÍNA
FÆÐINGARÁR: 1981
FÖÐURLAND: RÚSSLAND
FORSAGA: RAUNALEG BARNÆSKA
FORTÍÐ MÍN: Foreldrar mínir voru heyrnarlausir og sjálf fæddist ég heyrnarlaus. Fyrstu sex ár ævi minnar voru ánægjuleg. En þá skildu foreldrar mínir. Þrátt fyrir ungan aldur skildi ég hvað skilnaðurinn hafði í för með sér og ég tók það mjög nærri mér. Eftir skilnaðinn voru faðir minn og eldri bróðir áfram í Trojsk en móðir mín flutti til borgarinnar Tsjeljabínsk og tók mig með sér. Þegar fram liðu stundir giftist hún aftur. Stjúpfaðir minn var ofdrykkjumaður og beitti okkur mömmu oft ofbeldi.
Eldri bróðir minn, sem mér þótti mjög vænt um, drukknaði árið 1993. Slysið var mikið áfall fyrir fjölskylduna og móðir mín byrjaði að drekka í kjölfarið. Ég fór að leita að betra lífi því að ég þráði að einhver sýndi mér ástúð og hlýju. Ég lagði leið mína í ýmsar kirkjur í leit að huggun en fann enga.
HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU: Þegar ég var 13 ára átti ég bekkjarsystur sem fékk biblíufræðslu hjá vottum Jehóva. Hún sagði mér ýmsar sögur úr Biblíunni. Ég naut þess að kynnast biblíupersónum eins og Nóa og Job sem þjónuðu Guði þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Fljótlega var ég farin að kynna mér Biblíuna með vottunum og mæta á safnaðarsamkomur hjá þeim.
Í biblíunáminu opnuðust augu mín fyrir mörgum dásamlegum sannindum. Ég var djúpt snortin þegar ég komst að því að Guð ætti sér nafn. (Sálmur 83:19) Það hafði mikil áhrif á mig að lesa nákvæma lýsingu Biblíunnar á því hvernig ástandið yrði á hinum „síðustu dögum“. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Og ég varð yfir mig glöð þegar ég fræddist um upprisuvonina. Að hugsa sér að ég eigi eftir að sjá bróður minn aftur! – Jóhannes 5:28, 29.
Bræður og systur í söfnuðinum uppörvuðu mig og ég var sannfærð um að þetta væri hin eina sanna trú. Árið 1996 lét ég skírast sem vottur Jehóva.
Annað áfall reið yfir árið 2003 þegar yngri bróðir minn, sem hafði komið með mér á samkomur hjá vottum Jehóva, drukknaði líka. Ég gat samt alltaf leitað til vottanna.
ÞAÐ HEFUR ORÐIÐ MÉR TIL GÓÐS: Undanfarin sex ár hef ég verið gift yndislegum manni, Dmítríj að nafni. Við störfum saman á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Sankti Pétursborg. Með tímanum mildaðist afstaða foreldra minna til trúar minnar.
Ég er innilega þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Jehóva. Að þjóna honum hefur gefið lífi mínu tilgang.
„Margar spurningar sóttu á mig.“ – RAUDEL RODRÍGUEZ RODRÍGUEZ
FÆÐINGARÁR: 1959
FÖÐURLAND: KÚBA
FORSAGA: PÓLITÍSKUR UPPREISNARMAÐUR
FORTÍÐ MÍN: Ég fæddist í borginni Havana á Kúbu og var alinn upp í fátækrahverfi þar sem göturyskingar voru algengar. Þegar ég óx úr grasi fékk ég áhuga á júdó og öðrum bardagaíþróttum.
Ég átti auðvelt með að læra og foreldrar mínir hvöttu mig til að fara í háskóla. Á háskólaárunum varð ég óánægður með stjórnmálakerfið í landinu og vildi koma á breytingum. Ég ákvað að gera uppreisn. Við bekkjarbróðir minn réðumst á lögregluþjón og vonuðumst til að ná af honum byssunni. Viðureigninni lauk með því að lögregluþjónninn hlaut alvarlega höfuðáverka. Við bekkjarbræðurnir vorum dæmdir í fangelsi fyrir þessa árás og biðum þess þar að vera leiddir fyrir aftökusveit. Ég var aðeins tvítugur en lífi mínu yrði nú brátt lokið!
Í einsemdinni í fangaklefanum bjó ég mig undir það að standa andspænis aftökusveitinni. Ég vildi ekki sýna nein merki um ótta en margar spurningar sóttu á mig. Ég velti fyrir mér hvers vegna óréttlætið væri svona mikið í heiminum og hvort þetta líf væri allt og sumt.
HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU: Um síðir var dauðadómnum yfir okkur breytt í 30 ára fangavist. Það var þá sem ég hitti nokkra votta Jehóva sem voru í fangelsi vegna trúar sinnar. Það vakti hrifningu mína hvað vottarnir voru hugrakkir og um leið friðsamir. Þrátt fyrir að vera dæmdir í fangelsi að ósekju voru þeir hvorki reiðir né bitrir.
Vottarnir kenndu mér hver fyrirætlun Guðs er með mennina. Þeir sýndu mér í Biblíunni að hann ætli að breyta jörðinni í paradís og að glæpir og óréttlæti verða endanlega úr sögunni. Þeir sýndu mér líka að gott fólk muni byggja jörðina og fá tækifæri til að lifa að eilífu við fullkomnar aðstæður. – Sálmur 37:29.
Ég hafði ánægju af því sem ég lærði hjá vottunum en mér fannst ég vera afar ólíkur þeim að eðlisfari. Ég áleit það vera ómögulegt fyrir mig að vera hlutlaus í stjórnmálum eða bjóða hina kinnina. Ég ákvað því að lesa Biblíuna upp á eigin spýtur. Að loknum lestrinum gerði ég mér ljóst að vottar Jehóva eru þeir einu sem haga sér eins og frumkristnir menn gerðu.
Af námi mínu í Biblíunni skildi ég að ég yrði að gera róttækar breytingar á lífi mínu. Ég varð til dæmis að hætta að reykja og ég þurfti að breyta um talsmáta því að ég var vanur að blóta. Ég varð einnig að hætta að taka afstöðu til stjórnmála. Það var ekki auðvelt fyrir mig að gera þessar breytingar en með hjálp Jehóva tókst mér það smám saman.
Erfiðast af öllu var að læra að hafa stjórn á skapinu. Ég þarf enn að biðja Guð um að gefa mér sjálfstjórn. Það hefur verið mér til mikillar hjálpar að lesa ritningarstaði eins og Orðskviðina 16:32 en þar stendur: „Sá sem er seinn til reiði er betri en kappi og sá sem stjórnar geði sínu er meiri en sá sem vinnur borgir.“
Árið 1991 lét ég skírast í fangelsinu sem vottur Jehóva. Ég var skírður í tunnu sem var full af vatni. Næsta ár var sumum okkar fanganna sleppt og við sendir til Spánar því að þar áttum við ættingja. Þegar ég kom til Spánar fór ég strax að sækja samkomur hjá Vottum Jehóva. Þeir tóku vel á móti mér rétt eins og þeir hefðu þekkt mig árum saman og hjálpuðu mér að hefja nýtt líf.
ÞAÐ HEFUR ORÐIÐ MÉR TIL GÓÐS: Ég er hamingjusamur maður og þjóna Guði ásamt eiginkonu minni og dætrum. Ég nýt þeirrar blessunar að geta notað tímann aðallega til að aðstoða aðra við að kynnast Biblíunni. Stundum hugsa ég til baka til unga mannsins sem stóð andspænis dauðanum og þá finn ég til þakklætis vegna alls þess góða sem mér hefur hlotnast síðan þá. Ég er ekki aðeins á lífi heldur á ég mér einnig von. Ég hlakka til þegar jörðin verður paradís, réttlætið blómstrar og „dauðinn mun ekki framar til vera“. – Opinberunarbókin 21:3, 4.
[Innskot á bls. 19]
„Ég var djúpt snortin þegar ég komst að því að Guð ætti sér nafn.“
[Mynd á bls. 20]
Við hjónin höfum ánægju af að sýna heyrnarlausum biblíutengt efni á táknmáli.