Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w12 15.2. bls. 10-14
  • Verum djörf og hughraust

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Verum djörf og hughraust
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HUGRAKKIR VOTTAR Í ÓGUÐLEGUM HEIMI
  • ÞEIR SÝNDU TRÚ OG HUGREKKI
  • HUGRAKKAR KONUR SEM ÞJÓNUÐU GUÐI
  • VIÐ GETUM VEITT ÖÐRUM KJARK OG ÞOR
  • ESTER VAR HUGRÖKK DROTTNING
  • „VERTU HUGHRAUSTUR“
  • Göngum hugrakkir á vegum Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Verið hugrakkir!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • ,Vertu hughraustur – nú skaltu hefjast handa‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
  • Vertu hugrakkur – Jehóva er með þér
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
w12 15.2. bls. 10-14

Verum djörf og hughraust

„Vertu aðeins djarfur og hughraustur . . . Drottinn, Guð þinn, er með þér.“ – JÓS. 1:7-9.

HVERNIG MYNDIRÐU SVARA?

Hvernig sýndu Enok og Nói hugrekki?

Hvaða fordæmi gáfu sumar konur til forna varðandi trú og hugrekki?

Nefndu dæmi um unga þjóna Guðs sem sýndu hugrekki.

1, 2. (a) Hvaða eiginleika þurfum við stundum að sýna til að breyta rétt í daglegu lífi? (b) Hvað ætlum við að skoða?

HUGREKKI er andstæða ótta, feimni og hugleysis. Þegar við hugsum um hugrakkan mann sjáum við kannski fyrir okkur einhvern sem er sterkur, hraustur og jafnvel djarfur. En stundum er hugrekkið ekki eins sýnilegt, til dæmis þegar við þurfum kjark til að breyta rétt í daglegu lífi.

2 Sumir á biblíutímanum voru óttalausir við mjög erfiðar aðstæður. Aðrir sýndu hugrekki við aðstæður sem þjónar Jehóva lenda oft í. Hvað getum við lært af fordæmi þessara hugrökku þjóna? Hvernig getum við verið hughraust?

HUGRAKKIR VOTTAR Í ÓGUÐLEGUM HEIMI

3. Hverju spáði Enok um hina óguðlegu?

3 Það þurfti hugrekki til að vera vottur Jehóva á meðal óguðlegra manna fyrir Nóaflóðið. En Enok, „sjöundi maður frá Adam“, flutti djarfur þennan spádómsboðskap: „Sjá, Drottinn er kominn með sínum þúsundum heilagra til að halda dóm yfir öllum, og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk sem þeir hafa drýgt og um öll þau hörðu orð sem óguðlegir syndarar hafa talað gegn honum.“ (Júd. 14, 15) Það var svo öruggt að spádómurinn myndi uppfyllast að Enok talaði eins og Jehóva væri þegar kominn. Og svo fór að óguðlegir menn dóu í flóðinu.

4. Þrátt fyrir hvaða aðstæður ,gekk Nói með Guði‘?

4 Flóðið kom árið 2370 f.Kr., meira en 650 árum eftir dauða Enoks. Í millitíðinni fæddist Nói, eignaðist fjölskyldu og smíðaði örk með sonum sínum. Illir andar höfðu gert sér mennska líkama, tekið sér fallegar konur og eignast börn með þeim sem urðu að risum. Illska mannsins var orðin allsráðandi og jörðin full af glæpaverkum. (1. Mós. 6:1-5, 9, 11) Þrátt fyrir þessar aðstæður ,gekk Nói með Guði‘ og vitnaði djarflega sem ,boðberi réttlætisins‘. (Lestu 2. Pétursbréf 2:4, 5.) Við þurfum að sýna svipað hugrekki núna á síðustu dögum.

ÞEIR SÝNDU TRÚ OG HUGREKKI

5. Hvernig sýndi Móse trú og hugrekki?

5 Trú og hugrekki Móse var til fyrirmyndar. (Hebr. 11:24-27) Frá árinu 1513-1473 f.Kr. notaði Guð hann til að leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi og um eyðimörkina. Móse fannst hann ekki hæfur til að sinna þessu verkefni en hann þáði það engu að síður. (2. Mós. 6:12) Hann og Aron, bróðir hans, gengu margoft fram fyrir hinn grimma faraó Egyptalands og boðuðu hugrakkir plágurnar tíu sem Jehóva notaði til að smána guði Egypta og frelsa þjóð sína. (2. Mós. kaflar 7-12) Móse sýndi trú og hugrekki því að hann hafði óbrigðulan stuðning Guðs og það höfum við líka. – 5. Mós. 33:27.

6. Hvernig getum við sýnt hugrekki og vitnað fyrir yfirvöldum ef við erum tekin til yfirheyrslu?

6 Við þurfum að vera hugrökk eins og Móse því að Jesús sagði: „Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna til þess að bera vitni um mig fyrir þeim og heiðingjunum. En þá er menn draga yður fyrir rétt skuluð þér ekki hafa áhyggjur af því hvernig eða hvað þér eigið að tala. Yður verður gefið á sömu stundu hvað segja skal. Það eruð ekki þér sem talið heldur talar andi föður yðar í yður.“ (Matt. 10:18-20) Ef yfirvöld taka okkur til yfirheyrslu mun andi Jehóva veita okkur trú og hugrekki til að vitna á virðingarfullan hátt. – Lestu Lúkas 12:11, 12.

7. Hvers vegna gat Jósúa verið hugrakkur og náð settu marki?

7 Jósúa, arftaki Móse, byggði upp trú og hugrekki með því að lesa reglulega í lögmál Guðs. Árið 1473 f.Kr. voru Ísraelsmenn tilbúnir til að fara inn í fyrirheitna landið. „Vertu aðeins djarfur og hughraustur,“ sagði Guð. Ef Jósúa fylgdi lögmálinu nákvæmlega myndi hann breyta vel og ná settu marki. Honum var sagt: „Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast því að Drottinn, Guð þinn, er með þér hvert sem þú ferð.“ (Jós. 1:7-9) Þessi orð hljóta að hafa styrkt Jósúa. Og Guð var greinilega með honum því að árið 1467 f.Kr., aðeins sex árum síðar, höfðu þeir lagt undir sig næstum allt fyrirheitna landið.

HUGRAKKAR KONUR SEM ÞJÓNUÐU GUÐI

8. Hvernig er trú og hugrekki Rahab okkur til fyrirmyndar?

8 Í aldanna rás hafa margar hugrakkar konur tekið skýra afstöðu með Jehóva. Vændiskonan Rahab frá Jeríkó er dæmi um það. Hún sýndi trú og hugrekki þegar hún faldi tvo njósnara sem Jósúa sendi til Jeríkó og villti um fyrir mönnunum sem leituðu þeirra. Hún og fjölskylda hennar héldu lífi þegar Ísraelsmenn sigruðu Jeríkó. Rahab sagði skilið við syndugt líferni sitt, gerðist trúfastur tilbiðjandi Jehóva og varð formóðir Messíasar. (Jós. 2:1-6; 6:22, 23; Matt. 1:1, 5) Hún hlaut sannarlega blessun fyrir trú sína og hugrekki.

9. Hvernig sýndu Debóra, Barak og Jael hugrekki?

9 Eftir dauða Jósúa um 1450 f.Kr. skipaði Guð dómara til að halda uppi réttlæti í Ísrael. Jabín, konungur í Kanaanslandi, hafði kúgað Ísraelsmenn í 20 ár þegar Guð lét spákonuna Debóru hvetja Barak dómara til verka. Barak safnaði saman 10.000 mönnum á Taborfjalli til að berjast við Sísera, herforingja Jabíns, sem var kominn í Kísondal með her sinn og 900 stríðsvagna. Þegar Ísraelsmenn gengu fylktu liði niður á dalsléttuna lét Guð koma skyndiflóð sem breytti stríðsvellinum í forað svo að vagnar Kanverja sátu fastir. Menn Baraks höfðu yfirhöndina og „allur her Sísera féll fyrir sverði“. Sísera sjálfur flúði hins vegar í tjald Jaelar en hún drap hann á meðan hann svaf. Rétt eins og Debóra spáði hlaut konan Jael ,sæmdina‘ af þessum sigri. Þar sem Debóra, Barak og Jael sýndu hugrekki var friður í Ísrael „í fjörutíu ár“. (Dóm. 4:1-9, 14-22; 5:20, 21, 31) Margir guðhræddir menn og konur hafa sýnt sams konar trú og hugrekki.

VIÐ GETUM VEITT ÖÐRUM KJARK OG ÞOR

10. Hvernig vitum við að við getum veitt öðrum kjark með því sem við segjum?

10 Við getum veitt trúsystkinum okkar kjark með því sem við segjum. Á 11. öld f.Kr. sagði Davíð konungur við Salómon son sinn: „Vertu djarfur og hughraustur. Nú skaltu hefjast handa. Óttastu ekki og hikaðu ekki því að Drottinn Guð, Guð minn, er með þér. Hann mun hvorki láta þig missa þrótt né yfirgefa þig fyrr en öllu verki í þágu þjónustunnar í húsi Drottins er lokið.“ (1. Kron. 28:20) Salómon sýndi hugrekki og byggði hið stórfenglega musteri Jehóva í Jerúsalem.

11. Hvaða áhrif höfðu orð hugrakkrar ísraelskrar stúlku á mann nokkurn?

11 Á tíundu öld f.Kr. reyndust orð hugrakkrar ísraelskrar stúlku vera til blessunar fyrir holdsveikan mann. Hún hafði verið numin brott af Sýrlendingum og varð þjónustustúlka Naamans hershöfðingja en hann var holdsveikur. Hún vissi um kraftaverkin sem Jehóva hafði unnið fyrir milligöngu Elísa og sagði eiginkonu Naamans að ef maðurinn hennar færi til Ísraels myndi spámaður Guðs lækna hann. Naaman fór til Ísraels, var læknaður fyrir kraftaverk og gerðist tilbiðjandi Jehóva. (2. Kon. 5:1-3, 10-17) Ef þú ert unglingur sem elskar Guð eins og þessi stúlka gerði getur hann gefið þér hugrekki til að vitna fyrir kennurum, skólafélögum og öðrum.

12. Hvaða áhrif höfðu orð Hiskía konungs á þegna hans?

12 Vel valin orð á erfiðleikatímum geta veitt hugrekki. Þegar Assýringar voru að fara að ráðast á Jerúsalem á áttundu öld f.Kr. sagði Hiskía konungur við þegna sína: „Verið djörf og hraust. Óttist ekki og skelfist ekki frammi fyrir konungi Assýríu og þeim mikla her sem kemur með honum. Sá sem er með okkur er meiri en sá sem er með honum. Með honum er mannlegur máttur en með okkur er Drottinn, Guð okkar. Hann mun hjálpa okkur og berjast með okkur.“ Hvernig tóku menn orðum hans? „Fólkið styrktist við orð Hiskía Júdakonungs.“ (2. Kron. 32:7, 8) Orð sem þessi geta veitt okkur og trúsystkinum okkar kjark þegar andstæðingar ofsækja okkur.

13. Hvernig er Óbadía, ráðsmaður Akabs konungs, okkur til fyrirmyndar?

13 Stundum sýnum við hugrekki með því sem við segjum ekki. Á tíundu öld f.Kr. sýndi Óbadía, ráðsmaður Akabs konungs, hugrekki með því að fela hundrað spámenn Jehóva „í tveimur hellum, fimmtíu í hvorum“, svo að þeir yrðu ekki drepnir að skipan hinnar vondu drottningar Jesebelar. (1. Kon. 18:4) Líkt og hinn guðhræddi Óbadía hafa margir trúfastir þjónar Jehóva nú á dögum sýnt hugrekki og verndað trúsystkini sín með því að gefa andstæðingum ekki upplýsingar um þau.

ESTER VAR HUGRÖKK DROTTNING

14, 15. Hvernig sýndi Ester drottning trú og hugrekki og hver varð árangurinn?

14 Ester drottning sýndi mikla trú og hugrekki þegar hinn illi Haman var með ráðabrugg um að útrýma öllum Gyðingum í persneska heimsveldinu á fimmtu öld f.Kr. Það er ekki að furða að Gyðingar hafi syrgt og fastað og eflaust beðið til Guðs af öllu hjarta. (Est. 4:1-3) Ester drottning var í öngum sínum. Mordekaí, frændi hennar, sendi henni afrit af lögunum sem fyrirskipuðu fjöldamorðin og sagði henni að ganga fram fyrir konunginn til að grátbæna hann um að sýna Gyðingum miskunn. En hver sá sem gekk fram fyrir konung að eigin frumkvæði var tekinn af lífi. – Est. 4:4-11.

15 Samt sem áður sagði Mordekaí við Ester: „Fari svo að þú þegir nú mun Gyðingum eigi að síður berast hjálp og frelsun úr öðrum stað . . . Hver veit nema þú hafir orðið drottning nú vegna þessara atburða?“ Ester hvatti Mordekaí til að kalla saman Gyðingana í Súsa og fasta hennar vegna. Hún sagðist líka ætla að fasta og bætti svo við: „Síðan geng ég fyrir konung enda þótt það sé andstætt lögunum. Ef ég dey þá dey ég.“ (Est. 4:12-17) Ester var hugrökk kona og biblíubókin, sem ber nafn hennar, sýnir að Guð frelsaði þjóð sína. Nú á dögum sýna andasmurðir kristnir menn og trúfastir félagar þeirra álíka hugrekki í prófraunum og sá „sem heyrir bænir“ er alltaf með þeim. – Lestu Sálm 65:3; 118:6.

„VERTU HUGHRAUSTUR“

16. Hvernig er Jesús ungu fólki til fyrirmyndar?

16 Þegar Jesús var 12 ára fannst hann í musterinu þar sem hann sat „mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum.“ (Lúk. 2:41-50) Þótt hann væri ungur að aldri hafði hann trú og hugrekki til að spyrja fullorna lærifeður í musterinu spurninga. Ef unglingar í söfnuðinum hafa fordæmi Jesú í huga getur það hjálpað þeim að nýta sér tækifæri sem þeir fá til að ,svara hverjum manni sem krefst raka fyrir voninni sem þeir eiga‘. – 1. Pét. 3:15.

17. Af hverju hvatti Jesús lærisveinana til að vera hughrausta og hvers vegna þurfum við að vera það líka?

17 Jesús hvatti aðra til að ,vera hughrausta‘. (Matt. 9:2, 22) Hann sagði við lærisveinana: „Sú stund kemur og er komin að þér tvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir. Þó er ég ekki einn því faðirinn er með mér. Þetta hef ég talað við yður svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ (Jóh. 16:32, 33) Heimurinn hatar okkur alveg eins og hann hataði fylgjendur Jesú á fyrstu öld. En við skulum ekki verða eins og þessi heimur. Ef við hugleiðum lífsstefnu sonar Guðs og hugrekkið sem hann sýndi getur það gefið okkur kjark til að láta heiminn ekki spilla okkur. Hann sigraði heiminn og það getum við líka gert. – Jóh. 17:16; Jak. 1:27.

18, 19. Hvernig sýndi Páll postuli trú og hugrekki?

18 Páll postuli þurfti að þola margar prófraunir. Einu sinni hefðu Gyðingar í Jerúsalem gert út af við hann ef rómverskir hermenn hefðu ekki bjargað honum. Um nóttina „kom Drottinn til hans og sagði: ,Vertu hughraustur! Svo sem þú hefur vitnað um mig í Jerúsalem eins ber þér og að vitna í Róm.‘“ (Post. 23:10, 11) Og það var einmitt það sem Páll gerði.

19 Páll hafði hugrekki til að ávíta ,hina stórmiklu postula‘ sem reyndu að spilla söfnuðinum í Korintu. (2. Kor. 11:5; 12:11) Ólíkt þeim gat hann bent á allt sem hann hafði mátt þola sem sönnun fyrir því að hann væri postuli. Hann hafði verið fangelsaður, barinn, lent í svaðilförum og öðrum háska, verið hungraður, þyrstur og átt svefnlausar nætur, auk þess sem hann hafði oft miklar áhyggjur af trúsystkinum sínum. (Lestu 2. Korintubréf 11:23-28.) Trú og hugrekki Páls var vissulega sönnun fyrir því að styrkur hans kom frá Guði.

20, 21. (a) Nefndu dæmi sem sýnir að við verðum að vera hugrökk öllum stundum. (b) Við hvaða aðstæður gætum við þurft að sýna hugrekki og um hvað getum við verið viss?

20 Það munu ekki allir kristnir menn ganga í gegnum alvarlegar ofsóknir. En allir þurfa að taka í sig kjark til að glíma við erfiðleika lífsins. Tökum dæmi: Ungur maður í Brasilíu var meðlimur í glæpaklíku. Eftir að hafa kynnt sér Biblíuna skildi hann að hann þurfti að gera ýmsar breytingar. En yfirleitt var það þannig að hver sá sem yfirgaf klíkuna var drepinn. Hann bað til Guðs og notaði ritningarstaði til að útskýra fyrir foringjanum af hverju hann gæti ekki tilheyrt klíkunni lengur. Ungi maðurinn fékk að fara án þess að gripið væri til refsiaðgerða og gerðist boðberi.

21 Við þurfum hugrekki til að boða fagnaðarerindið. Ungt fólk þarf þennan eiginleika til að varðveita ráðvendni í skólanum. Og það getur krafist hugrekkis að biðja um frí úr vinnu til að geta sótt alla mótsdagskrána. Listinn er endalaus. En Jehóva heyrir ,trúarbænir‘ okkar sama hvaða erfiðleikum við stöndum frammi fyrir. (Jak. 5:15) Og hann getur vissulega gefið okkur af heilögum anda sínum svo að við getum verið ,djörf og hughraust‘.

[Mynd á bls. 11]

Enok prédikaði af hugrekki í óguðlegum heimi.

[Mynd á bls. 12]

Jael var hugrökk og sterk.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila