Vissir þú?
Hvaða þýðingu getur það hafa haft fyrir áheyrendur Jesú að týna drökmu eins og hann sagði frá í einni af dæmisögum sínum?
Jesús sagði dæmisögu um konu sem á tíu drökmur en týnir einni. Hún kveikir á lampa, sópar húsið og leitar vandlega uns hún finnur hana. (Lúk. 15:8-10) Drakma samsvaraði næstum daglaunum á tímum Jesú þannig að það voru allnokkur verðmæti sem hún tapaði. En það var líka önnur ástæða fyrir því að áheyrendur Jesú gátu vel sett sig í spor konunnar.
Í sumum heimildarritum kemur fram að konur hafi oft notað mynt sem skartgripi. Vera má að Jesús hafi haft í huga mynt sem var annaðhvort hluti af heimanmundi eða erfðagripur sem konan hélt mikið upp á. En óháð því er eðlilegt að konunni hafi verið mikið í mun að finna týndu drökmuna.
Húsakostur almúgafólks á dögum Jesú var þannig úr garði gerður að reynt var að loka úti eins mikið ljós og hita og hægt var. Gluggar voru fáir ef nokkrir. Gólf voru að jafnaði þakin hálmi eða þurrkuðum plöntustilkum af ýmsum tegundum. Það gat verið erfitt að finna pening sem datt á gólfið. Biblíuskýrandi segir: „Það var því eðlilegast að kveikja á lampa og sópa húsið til að endurheimta smáhlut á borð við pening sem týndist við slíkar aðstæður.“