Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • brwp130801 bls. 3-7
  • Klám – skaðlaus skemmtun eða banvænt eitur? Er klám skaðlegt?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Klám – skaðlaus skemmtun eða banvænt eitur? Er klám skaðlegt?
  • Varðturninn: Klám – skaðlaus skemmtun eða banvænt eitur?
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvaða áhrif hefir klám á notandann?
  • Hvaða áhrif hefur klám á fjölskyldur?
  • Hvað segir Biblían um klám?
  • Af hverju ætti ég að forðast klám?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
  • Hvers vegna eigum við að forðast klám?
    Ungt fólk spyr
  • Klám
    Vaknið! – 2013
  • Leitaðu verndar gegn gildru Satans
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2019
Sjá meira
Varðturninn: Klám – skaðlaus skemmtun eða banvænt eitur?
brwp130801 bls. 3-7
[Mynd]

FORSÍÐUEFNI

Klám – skaðlaus skemmtun eða banvænt eitur?

Heimurinn er gegnsýrður klámi.a Það er að finna í auglýsingum, tísku, kvikmyndum, tónlist, tímaritum, tölvuleikjum, mynddeilingarþjónustu á netinu, í sjónvarpinu og það er aðgengilegt í snjalltækjum. Klám virðist almennt viðurkennt í samfélaginu. Sífellt fleira fólk á sífellt fleiri stöðum horfir á meira klám en nokkru sinni fyrr í sögu mannkyns. – Sjá rammagreinina „Staðreyndir um klám“.

Innihald klámsins hefur líka breyst. Prófessor Gail Dines segir: „Myndirnar eru orðnar svo djarfar að það sem áður var talið svæsið klám er nú orðið ,venjulegt‘ klám.“

Hvað finnst þér um þessa þróun? Er klám saklaus afþreying, banvænt eitur, eða er það eitthvað þar á milli? Jesús sagði: „Hvert gott tré ber sömuleiðis góða ávexti en fúið tré vonda.“ (Matteus 7:17) Hvaða ávöxt ber klám? Skoðum nokkrar lykilspurningar til að finna svarið.

Hvaða áhrif hefir klám á notandann?

ÞAÐ SEM SÉRFRÆÐINGAR SEGJA: Klám er ákaflega vanabindandi. Sumir rannsóknarmenn og meðferðarsérfræðingar líkja þessari fíkn við krakkfíkn.

Brianb var háður netklámi. Hann segir: „Ekkert gat stoppað mig. Mér leið eins og ég væri í eins konar leiðslu. Ég hristist allur og fékk mikinn höfuðverk. Ég barðist við að hætta en árum síðar var ég enn háður.“

Þeir sem horfa á klám fara oft á tíðum leynt með það sem þeir gera og grípa þess vegna oft til blekkinga. Margir glíma við tilfinningar eins og einangrun, skömm, kvíða, þunglyndi og reiði. Sumir fá jafnvel sjálfsvígshugsanir. „Ég varð sjálfhverfur og örvæntingafullur,“ segir Serge, sem skoðaði klám í farsímanum nánast daglega. „Mér fannst ég einskis virði og ég hafði slæma samvisku. Ég var einmana og kominn í sjálfheldu. Ég var hræddur og skammaðist mín of mikið til að leita mér hjálpar.“

Jafnvel klámáhorf sem stendur stutt eða maður rekst á fyrir tilviljun getur haft slæm áhrif. Dr. Judith Reisman er virtur rannsóknarmaður með klám sem sérsvið. Hún sagði þegar hún bar vitni fyrir öldungadeildarnefnd Bandaríkjaþings: „Klámfengnar myndir greypast í heilann og breyta honum. Þær mynda ósjálfrátt og samstundis varanlegt lífefnafræðilegt spor í minninu [sem er] erfitt að losa sig við eða jafnvel ekki hægt.“ Susan, sem er 19 ára, rakst fyrir tilviljun á klámfengnar vefsíður. Hún segir: „Myndirnar eru greyptar í hugann. Þær skjóta upp kollinum fyrirvaralaust. Mér finnst eins og ég geti aldrei losnað alveg við þær.“

KJARNI MÁLSINS: Klám gerir notendurna að þrælum og skaðar þá. – 2. Pétursbréf 2:19.

Hvaða áhrif hefur klám á fjölskyldur?

ÞAÐ SEM SÉRFRÆÐINGAR SEGJA: „Klám leggur hjónabönd og fjölskyldur í rúst.“ – The Porn Trap, eftir Wendy og Larry Maltz.

Klám eyðileggur hjónabönd og fjölskyldur vegna þess að það

  • grefur undan trausti, nánd og ást í hjónabandinu. – Orðskviðirnir 2:12–17.

  • ýtir undir eigingirni, tilfinningalega fjarlægð og óánægju með makann. – Efesusbréfið 5:28, 29.

  • kyndir undir óheilnæma kynferðislega draumóra og langanir. – 2. Pétursbréf 2:14.

  • getur fengið notendur til að þvinga maka sinn til fráhrindandi kynlífsathafna. – Efesusbréfið 5:3, 4.

  • ýtir undir tilfinningalega ótryggð og getur leitt til framhjáhalds. – Matteus 5:28.

Biblían segir að hjón eigi ekki að ,bregða trúnaði‘ hvort við annað. (Malakí 2:16) Framhjáhald er trúnaðarbrestur sem getur eyðilagt hjónabandið og leitt til skilnaðar. Og þegar slitnar upp úr hjónabandinu skaðar það börnin í fjölskyldunni.

[Mynd]

Klám getur líka skaðað börnin með beinni hætti. Brian, sem vitnað er í áður, segir: „Þegar ég var tíu ára rakst ég á klámblöð föður míns meðan ég var í feluleik. Ég laumaðist til að kíkja í þau en skildi ekki af hverju mér fannst spennandi að horfa á slíkar myndir. Það var upphafið að vítahring sem ég var enn fastur í löngu eftir að ég var orðinn fullorðinn.“ Rannsóknir sýna að klám getur haft þau áhrif að unglingar byrji að stunda kynlíf fyrr en ella, verði lauslátir, beiti kynferðisofbeldi og verði í ójafnvægi tilfinningalega og hugarfarslega.

KJARNI MÁLSINS: Klám eitrar kærleiksrík sambönd og hefur í för með sér þjáningar og sársauka. – Orðskviðirnir 6:27.

Hvað segir Biblían um klám?

ORÐ GUÐS SEGIR: „Deyðið þess vegna … tilhneigingar sem búa í líkama ykkar: kynferðislegt siðleysi, óhreinleika, taumlausan losta, skaðlegar fýsnir og ágirnd, en hún er það sama og skurðgoðadýrkun.“ – Kólossubréfið 3:5.

Jehóvac Guð hatar einfaldlega klám. En hann fordæmir ekki kynlíf. Hann gaf okkur kynhvötina til að hjón gætu notið kynlífs, styrkt tilfinningalegu böndin sín á milli og upplifað þá stórkostlegu reynslu að eignast börn. – Jakobsbréfið 1:17.

Hvernig getum við verið viss um að Guð hatar klám? Hugleiddu eftirfarandi ástæður:

  • Hann veit að klám getur eyðilagt líf fólks. – Efesusbréfið 4:17–19.

  • Hann elskar okkur og vill vernda okkur gegn skaða. – Jesaja 48:17, 18.

  • Jehóva vill vernda hjónabönd og fjölskyldur. – Matteus 19:4–6.

  • Hann vill að við séum siðferðilega hrein og virðum réttindi annarra. – 1. Þessaloníkubréf 4:3–6.

  • Hann vill að við berum virðingu fyrir kynhvötinni og notum hana á heiðvirðan hátt. – Hebreabréfið 13:4.

  • Jehóva veit að klám endurspeglar brenglað, eigingjarnt og djöfullegt viðhorf til kynlífs. – 1. Mósebók 6:2; Júdasarbréfið 6, 7.

KJARNI MÁLSINS: Klám skemmir samband manns við Jehóva. – Rómverjabréfið 1:24.

En Jehóva hefur samúð með þeim sem vilja losna úr greipum kláms. Biblían segir: „Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ (Sálmur 103:8, 14) Hann býður auðmjúkum mönnum að leita til sín og ,njóta miskunnar hans og góðvildar þegar þeir eru hjálparþurfi‘. – Hebreabréfið 4:16; sjá rammagreinina „Að losna undan klámi“.

Ótal margir hafa þegið hjálp Guðs. Virkar hjálp hans? Taktu eftir því sem Biblían segir um suma sem sigruðust á slæmum venjum: „Þið hafið hreinsast, þið hafið helgast, þið eruð lýstir réttlátir í nafni Drottins Jesú Krists og með anda Guðs okkar.“ (1. Korintubréf 6:11) Þeir geta tekið undir með Páli: „Ég get tekist á við hvað sem er vegna hans sem gefur mér kraft.“ – Filippíbréfið 4:13.

Susan sigraðist á klámfíkninni. Hún segir: „Jehóva er sá eini sem getur hjálpað manni inn á rétta braut aftur. Ef maður biður hann um hjálp og leiðsögn er hægt að verða hreinn í augum hans. Hann bregst manni ekki.“

Að losna undan klámi

Þekkirðu einhvern sem er að berjast við klámfíkn? Skoðum hvað margir hafa gert til að sigrast í baráttunni.

1. Biddu til Guðs.

[Mynd]

„Það mikilvægasta sem þú getur gert til að sigrast á klámfíkn er að biðja Jehóva um hjálp.“ – Franz.

Jehóva getur gefið heilagan anda sem „gefur ykkur bæði löngun og kraft til að gera það sem gleður hann“. (Filippíbréfið 2:13) Sá sem lætur anda Guðs hafa áhrif á sig fær hjálp til að sigrast á röngum ,ástríðum og girndum‘. – Galatabréfið 5:16, 24.

2. Fáðu hjálp.

[Mynd]

„Klámfíkn fylgir laumuskapur og skömm og því er erfitt að biðja um hjálp. Maður telur sig geta leyst vandamálið sjálfur. En maður getur það ekki, maður þarf hjálp. Ég kyngdi þess vegna stoltinu og sagði konunni minni frá þessu. Ég leitaði líka hjálpar hjá vini sem ég treysti. Þetta er það erfiðasta sem ég hef nokkurn tíma þurft að gera en ég fékk þá hjálp sem ég þurfti.“ – Yoshi.

Það kostar hugrekki og viljastyrk að opna sig fyrir öðrum. En það er nauðsynlegt til að sigrast á fíkninni og byggja aftur upp sambandið við ástvini. Susan, sem minnst er á áður, segir: „Mér var stórlega létt eftir á. Það var sársaukafullt en ég öðlaðist innri frið og góða samvisku.“ – Jakobsbréfið 5:16.

3. Komdu auga á það sem kveikir ranga löngun og forðastu það.

[Mynd]

Hvaða aðstæður, hugsanir eða tilfinningar kveikja rangar langanir? Að vafra á netinu? Að horfa á sjónvarp seint á kvöldin? Að lesa blöð? Að fara á ströndina? Að vera svangur, reiður, þreyttur eða einn? „Komdu auga á veikleika þína og forðastu eins og pestina aðstæður sem reyna á þá,“ segir Sven. Jesús sagði: „Ef hægra augað verður þér að falli skaltu rífa það úr þér og henda því burt.“ – Matteus 5:29.

„Þegar mér finnst freistandi að horfa á konu girndaraugum bið ég strax til Jehóva og þvinga augun í aðra átt,“ segir Franz. Hinn trúfasti ættfaðir Job sagði: „Ég gerði þann sáttmála við augu mín að líta mey ekki girndarauga.“ – Jobsbók 31:1.

4. Styrktu samband þitt við Jehóva.

[Mynd]

„Fylltu hugann af heilnæmum hugsunum og láttu líf þitt snúast um tilbeiðsluna á Jehóva,“ bætir Franz við.

Biblían segir: „Allt sem er satt, allt sem er íhugunar virði, allt sem er rétt, allt sem er hreint, allt sem er elskuvert, allt sem gott orð fer af, allt sem er dyggð og allt sem er lofsvert, hugsið um það … Þá verður Guð friðarins með ykkur.“ – Filippíbréfið 4:8, 9.

a Með hugtakinu „klám“ er átt við kynferðislegt efni sem er gert til að vekja upp kynferðislegar langanir þess sem horfir á, les eða hlustar. Það getur verið í formi mynda, texta eða hljóðupptaka.

b Nöfnum hefur verið breytt.

c Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.

STAÐREYNDIR UM KLÁM

Á HVERRI SEKÚNDU: Næstum 30.000 einstaklingar horfa á klámsíður á netinu.

Á HVERRI MÍNÚTU: Netverjar senda meira en 1,7 MILLJÓNIR tölvupósta með klámi.

Á HVERRI KLUKKUSTUND: Tæplega TVÖ myndbönd með grófu klámi eru gefin út í Bandaríkjunum.

Á HVERJUM DEGI: Að meðaltali eru leigðar meira en TVÆR MILLJÓNIR klámfengnar kvikmyndir í Bandaríkjunum.

Í HVERJUM MÁNUÐI: Næstum 9 af hverjum 10 ungum karlmönnum og 3 af hverjum 10 ungum konum í Bandaríkjunum horfa á klám.

Á HVERJU ÁRI: Áætlað er að klámiðnaðurinn velti 100 milljörðum bandaríkjadollara á heimsvísu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila