Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w14 15.1. bls. 3-6
  • Þau buðu sig fúslega fram í Vestur-Afríku

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þau buðu sig fúslega fram í Vestur-Afríku
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2014
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • AÐ ÖÐLAST MEIRI LÍFSFYLLINGU – Í AFRÍKU
  • ERFIÐLEIKAR SEM BÚAST MÁ VIÐ
  • AÐ UNDIRBÚA SIG
  • Á HVERJU BYGGIST SÖNN LÍFSFYLLING?
  • Þau buðu sig fúslega fram
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
  • Þau buðu sig fúslega fram – í Eyjaálfu
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
  • Staðráðinn í að láta mér ekki fallast hendur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2018
  • Þau buðu sig fúslega fram – á Madagaskar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2018
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2014
w14 15.1. bls. 3-6
Vottar Jehóva tala við fólk í boðunarstarfinu.

Þau buðu sig fúslega fram – í Vestur-Afríku

PASCAL ólst upp í fátæku hverfi á Fílabeinsströndinni en þráði betra líf. Hann keppti sem áhugamaður í hnefaleikum en velti fyrir sér hvar hann gæti orðið stjarna í íþróttum og orðið ríkur. Þegar hann var hálfþrítugur komst hann að þeirri niðurstöðu að hann gæti látið drauminn rætast ef hann færi til Evrópu. En þar sem hann átti ekki vegabréf þyrfti hann að komast til Evrópu með ólöglegum hætti.

Pascal hóf ferðalagið árið 1998, þá 27 ára. Hann fór yfir landamærin til Gana, ferðaðist síðan um Tógó og Benín og komst loks til borgarinnar Birnin Konni í Níger. Nú var komið að hættulegasta hluta ferðarinnar. Til að halda áfram ferð sinni norður þyrfti hann fá far með trukk til að komast yfir Saharaeyðimörkina. Þegar hann kæmi að strönd Miðjarðarhafs þyrfti hann að fara sjóleiðis til Evrópu. Þetta var áætlunin en tvennt gerðist í Níger sem stöðvaði för hans.

Í fyrsta lagi varð hann peningalaus. Í öðru lagi hitti hann brautryðjandann Noé sem fór að fræða hann um Biblíuna. Það sem Pascal lærði hafði djúpstæð áhrif á hann og breytti lífsviðhorfum hans. Hann hafði ætlað sér að verða ríkur og frægur en núna áttu andlegu málin hug hans allan. Hann lét skírast í desember 1999. Til að sýna Jehóva þakklæti sitt gerðist hann brautryðjandi árið 2001 í Níger – í sama bæ og hann hafði kynnst sannleikanum. Hvað finnst honum um starf sitt þar? „Ég get ekki hugsað mér betra hlutskipti í lífinu,“ segir hann.

AÐ ÖÐLAST MEIRI LÍFSFYLLINGU – Í AFRÍKU

Anne-Rakel boðar fagnaðarerindið á táknmáli í Tógó.

Anne-Rakel

Margir hafa uppgötvað, líkt og Pascal, að lífsfylling byggist á því að setja sér markmið í þjónustu Jehóva. Sumir hafa náð markmiðum sínum með því að flytja frá Evrópu til Afríku og starfa þar sem boðberaþörfin er meiri en í heimalandinu. Um 65 vottar á aldrinum 17 til 70 ára hafa af þessum sökum flust frá Evrópu til Benín, Búrkína Fasó, Níger og Tógó í Vestur-Afríku.a Hvað varð þeim hvatning til að gera svona róttækar breytingar og hvernig hefur þeim vegnað?

Anne-Rakel frá Danmörku segir svo frá: „Foreldrar mínir voru trúboðar í Senegal. Þau töluðu alltaf af miklum áhuga um trúboðsstarfið og mig langaði til að lifa eins og þau.“ Anne-Rakel fluttist til Tógó fyrir 15 árum en hún var þá rúmlega tvítug. Hún starfar þar með táknmálssöfnuði. Varð hún öðrum til hvatningar með því að flytja þangað? „Yngri systir mín og bróðir fluttust líka til Tógó nokkru seinna,“ segir hún.

Albert-Fayette og Aurele kynna biblíunámskeið í Benín.

Albert-Fayette og Aurele.

Aurele er sjötugur giftur bróðir frá Frakklandi. Hann segir: „Þegar ég fór á eftirlaun fyrir fimm árum átti ég um tvennt að velja: að eiga náðuga daga í Frakklandi og bíða eftir paradís eða takast á við ný verkefni í þjónustu Jehóva.“ Aurele valdi síðari kostinn. Hann flutti til Benín fyrir þrem árum ásamt Albert-Fayette, eiginkonu sinni. „Að bjóða okkur fram til að þjóna Jehóva hérna er það besta sem við höfum gert á ævinni,“ segir hann og bætir við með brosi: „Og hluti af starfssvæði okkar við ströndina minnir meira að segja á paradís.“

Clodomir og Lysiane, eiginkona hans, fluttust frá Frakklandi til Benín fyrir 16 árum. Í fyrstu söknuðu þau sárlega vina og ættingja í Frakklandi og þau voru uggandi um að þeim tækist ekki að aðlagast nýjum aðstæðum. En ótti þeirri reyndist ástæðulaus því að þau hafa haft mikla ánægju af því að starfa í Benín. „Á þessum 16 árum höfum við að meðaltali getað hjálpað einni manneskju á ári að taka við sannleikanum,“ segir Clodomir.

Clodomir og Lysiane í heilnæmum félagsskap vina í söfnuðinum.

Lysiane og Clodomir með nokkrum sem þau hafa hjálpað að kynnast sannleikanum.

Johanna og Sébastien boða fagnaðarerindið í Benín.

Johanna og Sébastien.

Hjónin Sébastien og Johanna fluttust frá Frakklandi til Benín árið 2010. „Það er svo mikið að gera í söfnuðinum,“ segir Sébastien. „Að starfa hérna er eins og að sækja hraðnámskeið í þjónustu Jehóva.“ Og hvernig eru viðbrögðin á svæðinu? „Fólk þyrstir í sannleikann,“ segir Johanna. „Það stoppar okkur úti á götu, jafnvel þegar við erum ekki í starfinu, til að spyrja biblíuspurninga og fá rit hjá okkur.“ Hvaða áhrif hefur það haft á hjónaband þeirra að flytja sig um set? „Það hefur styrkt hjónabandið,“ segir Sébastien. „Það er gaman að vera allan daginn í boðunarstarfinu með konunni sinni.“

Eric og Katy, eiginkona hans, eru brautryðjendur á strjálbýlu svæði í norðurhluta Benín. Fyrir tíu árum, meðan þau bjuggu í Frakklandi, fóru þau að lesa greinar þar sem rætt var um að þjóna þar sem þörfin er meiri og þau töluðu við brautryðjendur. Það vakti löngun hjá þeim til að flytja til útlanda og þau létu verða af því árið 2005. Boðberum hefur fjölgað verulega á svæðinu. Eric segir: „Fyrir tveim árum voru 9 boðberar í hópnum okkar í bænum Tanguiéta en núna eru þeir orðnir 30. Á bilinu 50 til 80 sækja samkomur á sunnudögum. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá slíka fjölgun.“

Katy og Eric boða fagnaðarerindið í Benín.

Katy og Eric.

ERFIÐLEIKAR SEM BÚAST MÁ VIÐ

Brosandi Benjamin.

Benjamin.

Hvaða erfiðleikar geta fylgt því að flytja þangað sem þörfin er meiri? Benjamin, bróðir Anne-Rakelar, er 33 ára. Árið 2000 hitti hann trúboða sem starfaði í Tógó en var staddur í Danmörku. Benjamin segir: „Þegar ég sagði trúboðanum að mig langaði til að gerast brautryðjandi svaraði hann: ,Þú gætir starfað sem brautryðjandi í Tógó.‘“ Benjamin hugsaði málið. „Ég var ekki orðinn tvítugur á þeim tíma,“ segir hann, „en systur mínar tvær voru fluttar til Tógó. Það auðveldaði mér að flytja þangað.“ En það var einn þrándur í götu. „Ég kunni ekki orð í frönsku,“ segir Benjamin. „Fyrsta hálfa árið var erfitt því að ég gat varla tjáð mig.“ En hann lærði málið smám saman og starfar núna á Betel í Benín þar sem hann sendist með rit og aðstoðar í tölvudeildinni.

Marie-Agnès og Michel boða trúna hús úr húsi í Benín.

Marie-Agnès og Michel.

Eric og Katy, sem áður er getið, störfuðu á erlendu málsvæði í Frakklandi áður en þau fluttu til Benín. Að hvaða leyti var Vestur-Afríka ólík? „Það var ekki auðvelt að finna hentugt húsnæði,“ segir Katy. „Við bjuggum mánuðum saman í húsi án vatns og rafmagns.“ Eric bætir við: „Hávær tónlist glumdi í hverfinu langt fram á nætur. Maður verður að umbera hluti af þessu tagi og vera tilbúinn til að laga sig að aðstæðum.“ Þau eru bæði sammála um að erfiðleikarnir hverfi í skuggann af gleðinni sem fylgi því að starfa á nánast ósnertu svæði.

Michel og Marie-Agnès eru frönsk hjón að nálgast sextugt. Þau voru kvíðin í fyrstu þegar þau fluttust til Benín fyrir fimm árum. Michel segir: „Einhver líkti þessu við línudansara með hjólbörur – og að við sætum í hjólbörunum. Það væri ógnvekjandi nema fyrir þá sök að það er Jehóva sem ekur hjólbörunum. Þannig að við fluttum fyrir Jehóva og með honum.“

AÐ UNDIRBÚA SIG

Þeir sem hafa flutt til að þjóna þar sem þörfin er meiri benda á að það sé mikilvægt að undirbúa sig á eftirfarandi hátt: Gerðu áætlun. Lærðu að laga þig að aðstæðum. Eyddu ekki umfram það sem þú hefur ákveðið. Treystu á Jehóva. – Lúk. 14:28-30.

Sébastien, sem áður er getið, segir: „Áður en við fluttum lögðum við Johanna fyrir í tvö ár með því að eyða minni peningum í afþreyingu og kaupa ekkert að óþörfu.“ Þau vinna í Evrópu í fáeina mánuði á ári og það gerir þeim kleift að starfa sem brautryðjendur í Benín það sem eftir er ársins.

Marie-Thérèse

Marie-Thérèse.

Marie-Thérèse er ein af hér um bil 20 einhleypum systrum sem hafa flust til Vestur-Afríku til að starfa þar sem þörfin er meiri. Hún vann sem strætisvagnastjóri í Frakklandi en árið 2006 tók hún sér ársleyfi frá störfum til að starfa sem brautryðjandi í Níger. Það leið ekki á löngu áður en hún sannfærðist um að hún vildi leggja þetta fyrir sig. Hún segir: „Eftir að ég sneri aftur heim til Frakklands talaði ég við vinnuveitandann og sagði honum að mig langaði til að fá að vinna aðeins hluta úr ári, og hann féllst á það. Núna ek ég strætisvagni í Frakklandi frá maí til ágúst og er brautryðjandi í Níger frá september til apríl.“

Saphira á útimarkaði í Benín.

Saphira.

Þeir sem leita fyrst ríkis Guðs geta treyst að hann sjái þeim fyrir öllum nauðsynjum. (Matt. 6:33) Lýsum því með dæmi: Saphira er einhleyp systir, tæplega þrítug. Hún er frönsk en starfar sem brautryðjandi í Benín. Árið 2011 fór hún til Frakklands til að vinna sér inn peninga svo að hún gæti starfað í eitt ár í viðbót (það sjötta) í Afríku. Hún segir: „Það var föstudagur, síðasti dagurinn í vinnunni, en mig vantaði tíu daga vinnu í viðbót til að framfleyta mér næsta árið. Ég ætlaði að fara frá Frakklandi eftir hálfan mánuð. Ég bað til Jehóva og sagði honum frá stöðunni. Skömmu seinna var hringt frá vinnumiðlun og spurt hvort ég gæti leyst af manneskju í hálfan mánuð.“ Saphira fór á vinnustaðinn næsta mánudag til að starfsmaðurinn, sem hún átti að leysa af, gæti sett hana inn í starfið. Hún segir: „Ég var aldeilis hissa þegar ég uppgötvaði að þetta var trúsystir mín sem þurfti að fá tíu daga frí til að sækja Brauðryðjandaskólann. Yfirmaður hennar hafði neitað að gefa henni frí nema hægt væri að finna afleysingamann. Hún hafði beðið Jehóva að skerast í leikinn – rétt eins og ég hafði gert.“

Á HVERJU BYGGIST SÖNN LÍFSFYLLING?

Sumir, sem hafa flust til Vestur-Afríku, hafa sest þar að til frambúðar. Aðrir hafa starfað þar í nokkur ár en síðan snúið heim aftur. En þeir búa enn að því að hafa starfað um árabil þar sem þörfin var meiri. Þeir hafa lært að sönn lífsfylling byggist á því að þjóna Jehóva.

a Deildarskrifstofan í Benín hefur umsjón með starfinu í löndunum fjórum en þau eru öll frönskumælandi.

Að kenna boðberum

Pascal kennir bróður í söfnuðinum.

Pascal er frá Frakklandi en hefur starfað í Benín í 12 ár. Hann er brautryðjandi og safnaðaröldungur. „Það er mikil blessun að sjá bræður og systur taka framförum í þjónustu Jehóva,“ segir hann. Hvernig hefur hann hjálpað trúsystkinum sínum að taka framförum?

„Ég laga kennsluna að hverjum og einum. Ég lærði af bræðrunum hér hvernig á að heilsa fólki og brydda upp á samræðum. Hvað hafa aðrir lært af mér? Meðal annars að skrifa minnispunkta. Göturnar eru oft nafnlausar og húsin ekki númeruð. Sumir boðberar voru ekki vanir að skrifa hjá sér minnispunkta og fóru því ekki aftur til allra sem sýndu áhuga. Ég sýndi þeim hvernig fáeinir minnispunktar minna okkur á áhugasama manneskju og hvar hún býr, og eru okkur líka hvatning til að heimsækja hana aftur.

Fólkið hérna lærir aðallega með því að hlusta. Það nær tökum á nokkrum tungumálum án þess að snerta á kennslubók. En það getur verið þrautin þyngri fyrir það að lesa. Ég æfði nokkra unga bræður í upplestri. Þeir höfðu meiri ánægju af lestrinum eftir því sem þeim fór fram. Síðan kenndi ég þeim hvernig þeir gætu leitað upplýsinga í ritunum okkar. Þeir tóku skjótum framförum og voru fljótlega útnefndir safnaðarþjónar.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila