Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w18 nóvember bls. 28-30
  • Gæska – eiginleiki sem birtist í orði og verki

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Gæska – eiginleiki sem birtist í orði og verki
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2018
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • JEHÓVA SÝNIR ÖLLUM GÆSKU
  • JESÚS – GÆSKURÍKUR MAÐUR
  • TIL AÐ SÝNA GÆSKU ÞARFTU AÐ GERA ÖÐRUM GOTT
  • ÞROSKAÐU MEÐ ÞÉR GÆSKU
  • GÆSKA ER AÐLAÐANDI EIGINLEIKI
  • VIÐ HÖFUM GAGN AF ÞVÍ AÐ SÝNA GÆSKU
  • Fólk Guðs á að ástunda gæsku
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2004
  • Þóknastu Jehóva með því að sýna góðvild
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Láttu „lögmál góðmennskunnar“ leiða þig
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
  • Að ástunda gæsku í óvinveittum heimi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2004
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2018
w18 nóvember bls. 28-30

Gæska – eiginleiki sem birtist í orði og verki

  • KÆRLEIKUR

  • GLEÐI

  • FRIÐUR

  • LANGLYNDI

  • GÆSKA

  • GÓÐVILD

  • TRÚMENNSKA

  • HÓGVÆRÐ

  • SJÁLFSAGI

AÐ GERA öðrum gott getur veitt mikla uppörvun og huggun. Við finnum til þakklætis þegar við áttum okkur á því að öðrum er annt um okkur. Hvernig getum við þroskað með okkur gæsku þar sem við kunnum öll að meta þennan fallega eiginleika?

Að sýna gæsku felur í sér að hafa einlægan áhuga á velferð annarra, áhuga sem við sýnum í orði og verki. Gæska knýr mann til verka en er ekki bara yfirborðsleg kurteisi. Sönn gæska er knúin af innilegum kærleika og samkennd. Og það sem meira er, slík gæska er hluti af ávexti anda Guðs sem kristnum mönnum er sagt að rækta með sér. (Gal. 5:22, 23) Þess vegna skulum við skoða hvernig Jehóva og sonur hans hafa sýnt þennan eiginleika og hvernig við getum líkt eftir þeim.

JEHÓVA SÝNIR ÖLLUM GÆSKU

Jehóva er góður og hugulsamur við alla, þar á meðal þá sem eru ,vanþakklátir og vondir‘. (Lúk. 6:35) Jehóva lætur til dæmis „sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta“. (Matt. 5:45) Þannig hafa jafnvel þeir sem líta ekki á Jehóva sem skapara sinn gagn af því sem hann gefur til að viðhalda lífi og þeir geta notið hamingju að vissu marki.

Við finnum framúrskarandi dæmi um gæsku þegar við skoðum hvað Jehóva gerði fyrir Adam og Evu. Stuttu eftir að þau syndguðu, saumuðu Adam og Eva saman „fíkjuviðarblöð og gerðu sér mittisskýlur“. Jehóva vissi samt að þau þyrftu viðeigandi klæðnað til að lifa utan Eden þar sem jörðin gaf af sér „þyrna og þistla“. Í gæsku sinni brást Jehóva við þörfum þeirra og „gerði skinnkyrtla“ handa þeim. – 1. Mós. 3:7, 17, 18, 21.

Enda þótt Jehóva sé góður við bæði ,vonda og góða‘ sýnir hann trúföstum þjónum sínum sérstaka gæsku. Á dögum Sakaría spámanns hafði engill miklar áhyggjur af endurbyggingu musterisins í Jerúsalem en hún hafði stöðvast. Jehóva hlustaði á engilinn tjá áhyggjur sínar og svaraði síðan með „hlýlegum og huggunarríkum orðum“. (Sak. 1:12, 13) Jehóva brást eins við í samskiptum við spámanninn Elía. Á tímabili var spámaðurinn svo niðurdreginn að hann bað Jehóva um að fá að deyja. Jehóva var næmur á tilfinningar Elía og sendi engil til að styrkja hann. Hann fullvissaði líka spámanninn um að hann væri ekki einn. Eftir að Elía fékk að heyra þessi huggunarríku orð og fékk þá hjálp sem hann þurfti gat hann haldið áfram með verkefni sitt. (1. Kon. 19:1-18) Hver af þjónum Guðs hefur best endurspeglað þennan einstaka eiginleika Jehóva, gæsku?

JESÚS – GÆSKURÍKUR MAÐUR

Þegar Jesús starfaði hér á jörð var hann þekktur fyrir gæsku og hugulsemi. Hann var aldrei harður eða ráðríkur. „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld ... því að mitt ok er ljúft,“ sagði hann með hluttekningu. (Matt. 11:28-30) Það hafði þau áhrif að menn fylgdu honum hvert sem hann fór. „Hann kenndi í brjósti um þá,“ gaf þeim að borða, læknaði veika og fatlaða og „kenndi þeim margt“ um föður sinn. – Mark. 6:34; Matt. 14:14; 15:32-38.

Gæska Jesú birtist í því hve skilningsríkur og skarpskyggn hann var í samskiptum við fólk. Jesús var ,ljúfur‘ við alla sem leituðu hans í einlægni, sama hversu óþægilegt það var fyrir hann. (Lúk. 9:10, 11) Hann ávítaði til dæmis ekki óttaslegna konu sem snerti yfirhöfn hans í þeirri von að fá lækningu við blóðláti þótt hún væri óhrein samkvæmt lögmálinu. (3. Mós. 15:25-28) Jesús hafði samúð með þessari konu sem hafði þjáðst í 12 ár og sagði við hana: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði og ver heil meina þinna.“ (Mark. 5:25-34) Hvílíkt góðverk!

TIL AÐ SÝNA GÆSKU ÞARFTU AÐ GERA ÖÐRUM GOTT

Í dæmunum hér á undan sjáum við að sönn gæska birtist í verki. Jesús sýndi fram á það í dæmisögunni um miskunnsama Samverjann. Þótt fjandskapur hafi ríkt milli Samverja og Gyðinga fann Samverjinn í dæmisögunni til meðaumkunar með manninum sem hafði verið rændur, barinn og skilinn eftir hálfdauður á veginum. Gæska knúði Samverjann til verka. Hann bjó um sár mannsins og fór með hann á gistihús. Samverjinn borgaði gestgjafanum fyrir að hugsa um slasaða manninn og bauðst meira að segja til að borga það sem hann kostaði meiru til. – Lúk. 10:29-37.

Gæska birtist oft í verki en hana má líka tjá með hugulsömum og hvetjandi orðum. Í Biblíunni segir: „Hugsýki íþyngir hjartanu,“ en síðan segir: „Vingjarnlegt orð gleður það.“ (Orðskv. 12:25) Það getur verið hughreystandi fyrir aðra ef við segjum eitthvað uppbyggjandi af gæsku og góðvild.a Hlýleg orð okkar sýna að okkur er annt um aðra. Eftir að hafa fengið uppörvun geta þeir betur tekist á við erfiðleika lífsins. – Orðskv. 16:24.

ÞROSKAÐU MEÐ ÞÉR GÆSKU

Þar sem allir menn eru skapaðir „eftir Guðs mynd“ eru þeir færir um að þroska með sér gæsku. (1. Mós. 1:27) Rómverski herforinginn Júlíus hafði umsjón með Páli postula þegar hann fór til Rómar. Hann sýndi Páli þá „mannúð að leyfa honum að fara á fund vina sinna og þiggja umönnun þeirra“ í borginni Sídon. (Post. 27:3) Síðar sýndu íbúar Möltu Páli og öðrum sem biðu skipbrot „einstaka góðmennsku“. Eyjarskeggjar kyntu jafnvel bál til að hlýja skipsbrotsmönnunum. (Post. 28:1, 2) En þótt verk þeirra hafi verið hrósverð felur gæska meira í sér en stöku góðverk.

Til að þóknast Guði verðum við að þroska með okkur gæsku svo að hún verði varanlegur hluti af persónuleika okkar og lífstefnu. Þess vegna segir Jehóva okkur að ,íklæðast‘ góðvild. (Kól. 3:12) Það verður þó að viðurkennast að það er ekki alltaf auðvelt að sýna þennan göfuga eiginleika. Hvers vegna ekki? Við gætum haldið aftur af okkur að sýna gæsku vegna feimni, óöryggis, andstöðu eða vegna sjálfselsku sem við berjumst enn þá við að einhverju marki. Við getum samt sem áður sigrast á slíkum hindrunum með því að reiða okkur á heilagan anda og líkja eftir því hvernig Jehóva sýnir gæsku. – 1. Kor. 2:12.

Getum við komið auga á svið þar sem við gætum sýnt enn meiri gæsku? Spyrjum okkur: Hlusta ég með hluttekningu? Er ég vakandi fyrir þörfum annarra? Hvenær sýndi ég síðast gæsku einhverjum sem er ekki í fjölskyldunni eða náinn vinur? Síðan getum við sett okkur markmið, eins og að kynnast betur þeim sem við umgöngumst, sérstaklega í söfnuðinum. Þannig getum við verið vakandi fyrir aðstæðum þeirra og þörfum. Síðan ættum við að reyna að sýna öðrum gæsku á þann hátt sem við kynnum að meta í þeirra sporum. (Matt. 7:12) Umfram allt þá blessar Jehóva viðleitni okkar til að þroska með okkur gæsku ef við biðjum hann um hjálp. – Lúk. 11:13.

GÆSKA ER AÐLAÐANDI EIGINLEIKI

Þegar Páll postuli taldi upp þá eiginleika sem hann sýndi sem þjónn Guðs nefndi hann „mildi“. (2. Kor. 6:3-6) Fólk laðaðist að Páli vegna þess að hann sýndi því einlægan áhuga sem birtist í gæskuríkum verkum og orðum. (Post. 28:30, 31) Á sama hátt getum við laðað fólk að sannleikanum með því að sýna gæsku. Þegar við sýnum öllum gæsku, þar á meðal þeim sem standa gegn okkur, gætum við mýkt hjarta þeirra og eytt fjandskap. (Rómv. 12:20) Með tímanum gætu þeir jafnvel laðast að boðskap Biblíunnar.

Í paradís á jörð fær mikill fjöldi manna upprisu. Þeir verða án efa himinlifandi að fá að njóta sannrar gæsku, kannski í fyrsta sinn. Þakklæti knýr þá síðan til að sýna öðrum gæsku. Hver sá sem verður þá á lífi og neitar að sýna gæsku og hjálpsemi fær ekki varanlegan þegnrétt undir Guðsríki. Þeir sem Guð leyfir að lifa að eilífu munu á hinn bóginn vera kærleiksríkir og gæskuríkir hver við annan. (Sálm. 37:9-11) Þá verður heimurinn öruggur og friðsamur staður. En hvernig getum við haft gagn af því að sýna gæsku þangað til sá dásamlegi dagur rennur upp?

VIÐ HÖFUM GAGN AF ÞVÍ AÐ SÝNA GÆSKU

„Kærleiksríkur maður vinnur sjálfum sér gagn,“ segir í Biblíunni. (Orðskv. 11:17) Fólk laðast að þeim sem sýna góðvild og hefur tilhneigingu til að endurgjalda góðvildina. Jesús sagði: „Með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ (Lúk. 6:38) Sá sem er góðviljaður á auðvelt með að eignast vini og halda þeim.

Páll postuli hvatti þá sem voru í söfnuðinum í Efesus: „Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru.“ (Ef. 4:32) Söfnuður hefur mikið gagn af því þegar þeir sem tilheyra honum sýna samkennd, gæsku og hjálpsemi. Þeir eru aldrei hranalegir, gagnrýnir eða særa aðra með kaldhæðni. Í staðinn fyrir að dreifa skaðlegu slúðri leitast þeir við að vera uppbyggjandi í tali. (Orðskv. 12:18) Árangurinn verður sá að söfnuðurinn verður sterkur og þjónar Jehóva með gleði.

Gæska er sannarlega eiginleiki sem birtist í orði og verki. Þegar við erum gæskurík endurspeglum við hlýju og örlæti Jehóva, Guðs okkar. (Ef. 5:1) Þannig styrkjum við söfnuðinn okkar og löðum aðra að sannri tilbeiðslu. Verum alltaf þekkt fyrir að sýna gæsku.

a Rætt verður um góðvild síðar í þessari níu þátta greinaröð um ávöxt anda Guðs.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila