„Göngum í hús Jehóva“
1 Davíð brást ákafur við þegar menn sögðu við hann: „Göngum í hús Jehóva.“ (Sálm. 122:1) „Hús“ Jehóva, sem musterið táknaði, var samkomustaður fyrir þá sem langaði til að tilbiðja hinn sanna Guð. Það var helgidómur þar sem finna mátti öryggi og frið. Nú á dögum er kristni söfnuðurinn um heim allan „hús“ Guðs, „stólpi og grundvöllur sannleikans.“ (1. Tím. 3:15) Öllum ráðstöfunum til hjálpræðis er veitt til manna eftir þessum farvegi. Af þeirri ástæðu ‚verða allar þjóðirnar að streyma þangað‘ þrái þær að njóta þeirrar blessunar sem heitið er undir stjórn Guðsríkis. — Jes. 2:2.
2 Meira en 69.000 söfnuðir í 229 löndum mynda þetta „hús.“ Dyr ríkissala hringinn í kringum jörðina standa mönnum opnar og meira en fjórar milljónir kappsamra verkamanna eru sífellt að bjóða hverjum og einum: „Kom þú! . . . Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ (Opinb. 22:17) Margir hafa heyrt þennan boðskap og brugðist við honum með þakklæti. Aðra hefur boðskapurinn snert en þeir hafa ekki enn komið til húss Jehóva með því að eiga félagsskap við kristna söfnuðinn. Slíkt fólk hefur „andlega þörf“ sem hægt er að fullnægja með ráðstöfunum sem aðeins er að finna innan safnaðarins. (Matt. 5:3, NW) Við lifum á hættutímum því endir þessa heimskerfis nálgast óðum. Skeytingarleysi eða tregða getur leitt af sér háskalega töf. Það er áríðandi að fólk leitist við að ‚nálægja sig Guði‘ með því að nálægja sig skipulagi hans. (Jak. 4:8) Hvernig getum við hjálpað því?
3 Beinum áhuganum að skipulaginu: Frá því að við fyrst hittum áhugasama einstaklinga ættum við að beina athygli þeirra að skipulaginu. Þó að við kunnum sjálf að geta fundið ritningarstaði og útskýrt undirstöðukennisetningar þá er slík þekking ekki frá okkur komin. Allt sem við höfum lært hefur komið frá skipulaginu og eftir þeim farvegi að það er hinn „trúi og hyggni þjónn“ sem gefur „mat á réttum tíma.“ (Matt. 24:45-47) Allt frá upphafi þurfa hinir nýju að gera sér ljóst að sönn tilbeiðsla tekur til fleiri en aðeins okkar eða safnaðarins á staðnum; það er til skipulag, guðræðislegt samfélag sem nær um allan heim og starfar undir leiðsögn Jehóva.
4 Leiðsögnin, sem við fáum, á upptök sín hjá Jehóva sem hefur lofað að leiðbeina okkur og kenna. (Sálm. 32:8; Jes. 54:13) Þessari fræðslu er dreift út fyrst og fremst með ritum okkar. Ef við getum hjálpað áhugasömu fólki að læra að meta þau rit mikils, viðurkenna að þar sé að fá lífsnauðsynlega fræðslu, þá er miklu líklegra að það lesi þau og heimfæri boðskap þeirra á líf sitt í stað þess að varpa þeim frá sér. Við ættum alltaf að kynna og nota þessi rit á þann hátt að það veki virðingu fyrir þeim. Það kennir þeim nýju að meta skipulagið að verðleikum og reiða sig á ráðstafanir þess.
5 Látum áhugasamt fólk vita að til sé samkomustaður í byggðarlaginu þar sem fræðsla er veitt á reglulegum grundvelli. Gefum því heimilisfang ríkissalarins og samkomutímana. Útskýrum muninn á okkar samkomum og þeim trúarsamkomum sem það kann að hafa sótt áður fyrr. Allir eru velkomnir; það eru engin samskot eða persónuleg tilmæli um að láta fé af hendi rakna. Þó að útnefndir þjónar orðsins stýri dagskránni hefur hver og einn tækifæri til þátttöku með því að koma með athugasemdir og taka þátt í dagskrárliðum. Fjölskyldur eru velkomnar; börn fá að vera með í biblíuumræðum okkar. Þeir sem stjórna samkomum okkar klæðast ekki sérstakri hempu eða fatnaði. Ríkissalurinn er smekklega innréttaður og þar eru engin kerti, styttur eða líkneski. Þeir sem þangað koma búa flestir í því byggðarlagi.
6 Beinum áhuga biblíunemendanna stig af stigi að skipulaginu: Tilgangur biblíunáms er fyrst og fremst sá að kenna sannleikann í orði Guðs. Það ætti einnig að kenna nemandanum að meta skipulag Jehóva og gera honum ljóst hversu lífsnauðsynlegt er að verða hluti þess. Það mikla starf, sem Jesús og lærisveinar hans framkvæmdu á fyrstu öldinni, dró að einlæga menn og sameinaði þá til starfs undir einu stjórnandi ráði. Í bæjum og byggðum, þar sem viðbrögðin voru góð, voru myndaðir söfnuðir til að veita reglulega þjálfun og fræðslu. Þeir sem tengdust söfnuðunum fengu andlega uppbyggingu sem hjálpaði þeim að komast í gegnum þrengingatíma. (Hebr. 10:24, 25; 1. Pét. 5:8-10) Á okkar dögum er það tilgangur Jehóva „að safna öllu . . . undir eitt höfuð í Kristi.“ (Ef. 1:9, 10) Afleiðingin er sú að við höfum ‚bræðrafélag‘ sem nær um allan heim. — 1. Pét. 2:17.
7 Vikulega biblíunámið ætti að fela í sér fræðslu sem mun hjálpa nemendunum að meta skipulagið að verðleikum og notfæra sér ráðstafanir þeim til hjálpræðis. Takið fáeinar mínútur í viku hverri til að segja frá eða lýsa einhverju varðandi skipulagið og hvernig það verkar. Þið getið fundið gagnlegt umræðuefni í Varðturninum, 1. maí 1985. Bæklingarnir Vottar Jehóva á tuttugustu öldinni og Vottar Jehóva — sameinaðir í gera vilja Guðs um allan heim fjalla um helstu hliðar skipulagsins og hvernig þær geti gagnast okkur. Ef þú gefur biblíunemendunum kost á að sjá myndbandið Vottar Jehóva — skipulagið að baki nafninu munu þeir sjálfir sjá hverju það er að áorka. Valdar skýrslur og frásagnir frá Árbókinni geta sýnt hversu góðan árangur starfið ber í löndum og menningarsvæðum öðrum en okkar eigin. Nota mætti einnig önnur rit. Yfir eitthvert tímabil skalt þú útskýra stig af stigi atriði eins og hvers vegna við förum hús úr húsi, hver sé tilgangurinn með samkomum okkar, hvernig við fjármögnum starf okkar og hvernig starfsemi okkar nær um allan heim.
8 Það getur haft örvandi áhrif á nýja að kynnast öðrum vottum og gefið þeim meiri yfirsýn yfir söfnuðinn. Í þeim tilgangi skaltu bjóða öðrum boðberum að koma með í biblíunámið af og til. Einhver í söfnuðinum, með svipaðan bakgrunn eða lík áhugamál, gæti bætt nýrri vídd við viðhorf nemanda þíns. Ef til vill gæti öldungur farið með þér aðeins til að kynnast honum. Það gæti reynst blessunarríkt að fá farandhirði eða konu hans til að koma í biblíunámið. Ef einhverjir vottar búa í nágrenninu gæti kunningsskapur við þá orðið biblíunemandanum aukin hvatning til að sækja samkomur safnaðarins.
9 Hvetjum nýja til að koma á samkomurnar: Nýir þurfa að gera sér ljóst hversu mikilvægt það er að sækja samkomurnar. Reyndu að örva áhuga þeirra. Bentu á greinar sem farið verður yfir í Varðturnsnáminu. Nefndu titlana á opinberum fyrirlestrum sem fluttir verða á næstunni. Nefndu það sem hæst ber af efninu sem farið verður yfir í Guðveldisskólanum og safnaðarbóknáminu. Segðu hvað þér finnst um það sem þú lærir á þessum samkomum og hvers vegna þér finnist þörf á að sækja þær. Bjóddu fram far ef þú getur. Símhringing fyrir samkomuna gæti örvað hina nýju enn meir til að sækja hana.
10 Þegar biblíunemandinn kemur á samkomu láttu hann þá finna að hann sé velkominn. Kynntu hann fyrir öðrum, einnig öldungunum. Ef hann kemur á opinbera fyrirlesturinn kynntu hann þá fyrir ræðumanninum. Sýndu honum um í ríkissalnum. Útskýrðu tilganginn með bóka- og blaðaborðinu, framlagabaukunum, bókasafninu og árstextanum. Láttu hann vita að salurinn sé ekki aðeins tilbeiðsluhús heldur einnig miðstöð þaðan sem prédikunarstarfinu á þessum stað sé stýrt.
11 Útskýrðu hvernig samkomurnar fara fram. Sýndu nemandanum ritin sem við notum. Bentu á að Biblían sé undirstöðukennslubók okkar. Allir geta tekið þátt, líka ung börn. Útskýrðu að vottar Jehóva hafi samið alla söngvana í söngbók okkar og lögin við þá til nota í tilbeiðslu okkar. Vektu athygli á mismunandi bakgrunni þeirra sem sækja samkomuna. Segðu eitthvað jákvætt um vináttuandann og gestrisnina sem þar ríkir. Þessi vingjarnlegi og einlægi áhugi, sem nemandanum er sýndur, kann að vega einna þyngst í því að fá hann til að koma aftur.
12 Hvers vegna sumir halda ef til vill að sér höndum: Þrátt fyrir allt sem þú gerir eru sumir stundum tregir til að nálægja sig skipulaginu. Vertu ekki fljótur að gefast upp. Reyndu að setja þig í þeirra spor. Fram að þessu hafa þeir líklega ekki fundið raunverulega fyrir þörf á því að sækja trúarlegar athafnir nema við sérstök tækifæri. Fjölskyldumeðlimir eða nánir vinir þrýsta ef til vill á þá. Niðrandi athugasemdir nágranna kunna ef til vill að láta þá missa móðinn. Og að sjálfsögðu getur það verið margt sem dregur til sín tíma þeirra og athygli í tengslum við félagsstörf og afþreyingu. Slíkt kann að virðast óyfirstíganlegar hindranir í augum þeirra; þú þarft að hjálpa þeim að sjá hlutina í réttu samhengi og ‚meta þá hluti rétt sem máli skipta.‘ — Fil. 1:10.
13 Gefðu þeim biblíulegar ástæður til að láta ekki deigan síga. Leggðu áherslu á að við höfum öll brýna þörf á þeirri hvatningu og andlegu uppbyggingu sem við fáum frá félagsskap hvert við annað. (Rómv. 1:11, 12) Jesús gerði ljóst að andstaða innan fjölskyldunnar er ekki gild ástæða til að halda að sér höndum. (Matt. 10:34-39) Páll hvatti okkur til að fyrirverða okkur ekki fyrir að verða almennt þekkt sem lærisveinar Jesú. (2. Tím. 1:8, 12-14) Halda verður einkaáhugamálum og dægradvöl í skefjum; að öðrum kosti verða þau að snöru. (Lúk. 21:34-36) Þeir sem verðskulda blessun Jehóva verða að vera heilshugar, aldrei hálfvolgir. (Kól. 3:23, 24) Sé þeim innrætt virðing fyrir slíkum biblíulegum frumreglum kann það að opna þeim leið til að taka andlegum framförum.
14 Dyrnar eru opnar: Hús Jehóva fyrir sanna tilbeiðslu er hafið upp yfir öll önnur. Boðið hljómar í 229 löndum um allan hnöttinn: „Komið, förum upp á fjall Jehóva, . . . svo að hann kenni okkur sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.“ (Jes. 2:3) Jákvæð viðbrögð hinna nýju geta bjargað lífi þeirra. Ein besta leiðin, sem við höfum til að hjálpa þeim, er að beina áhuga þeirra að skipulagi Jehóva.