Látum ljós okkar sífellt skína
1 Hvað er ljós? Orðabók skilgreinir það sem „eitthvað sem gerir það mögulegt að sjá.“ En þrátt fyrir sína háþróuðu tækni þekkir maðurinn í raun og veru ekki enn svarið við spurningunni sem Jehóva kom með og skráð er í Jobsbók 38:24. Komumst við af án ljóss? Án ljóss gætum við ekki verið til. Til að geta séð efnislega hluti er ljósið alger nauðsyn og Biblían segir okkur að í andlegum skilningi ‚sé Guð ljós.‘ (1. Jóh. 1:5) Við erum algerlega háðir honum sem „lætur oss skína ljós.“ — Sálm. 118:27.
2 Þetta á við í líkamlegum skilningi en jafnvel enn meir í andlegum efnum. Fölsk trúarbrögð hafa afvegaleitt menn upp til hópa, skilið þá eftir í andlegu myrkri þar sem þeir ‚þreifa fyrir sér, eins og blindir menn með vegg.‘ (Jes. 59:9, 10) Óviðjafnanlegur kærleikur Jehóva og meðaumkun fær hann til að ‚senda út ljós sitt og sannleika.‘ (Sálm. 43:3, NW) Bókstaflega milljónir manna hafa tekið því með þakklæti og komið út úr „myrkrinu til [Guðs] undursamlega ljóss.“ — 1. Pét. 2:9.
3 Jesús Kristur gegnir mikilvægu hlutverki í því að færa heiminum þetta ljós. Hann sagði: „Ég er ljós í heiminn komið, svo að enginn, sem á mig trúir, sé áfram í myrkri.“ (Jóh. 12:46) Allur tími hans, kraftar og hæfni beindist að því að birta mönnum ljós sannleikans. Hann ferðaðist um heimaland sitt þvert og endilangt og prédikaði og kenndi í svo til hverri borg og hverju þorpi. Hann mátti þola vægðarlausar ofsóknir frá öllum hliðum en hann lét ekki hagga sér frá því verkefni sínu að útbreiða ljós sannleikans.
4 Jesús einbeitti sér að því að velja, þjálfa og skipuleggja starf lærisveina með sérstakt markmið í huga. Í Matteusi 5:14-16 lesum við leiðbeiningar hans til þeirra: „Þér eruð ljós heimsins. . . . Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“ Alveg eins og Jesús áttu þeir að vera „ljós í heiminum,“ láta ljós sannleikans berast vítt og breitt. (Fil. 2:15) Þeir tóku með gleði við því ábyrgðarhlutverki og litu á það sem megintilganginn í lífi sínu. Skömmu síðar gat Páll sagt að fagnaðarerindið ‚hafi verið prédikað fyrir öllu sem skapað er undir himninum.‘ (Kól. 1:23) Gervallur kristni söfnuðurinn var sameinaður í því að framkvæma þetta mikla starf.
5 Við ættum að vera þakklát fyrir að hafa komist í raðir þeirra sem hafa ‚lagt af verk myrkursins.‘ (Rómv. 13:12, 13) Við getum sýnt þakklæti okkar með því að líkja eftir fordæmi Jesú og hinna trúföstu kristnu manna forðum daga. Þörf manna á að heyra sannleikann er brýnni og þýðingarmeiri núna en nokkurn tíma áður í mannkynssögunni. Þetta starf er svo aðkallandi og hefur svo víðtæk áhrif til góðs að ekkert kemst þar í nokkurn samjöfnuð.
6 Hvernig getum við skinið sem ljósberar? Við látum ljós okkar skína fyrst og fremst með því að taka þátt í prédikunarstarfinu um Guðsríki. Sérhver söfnuður prédikar á sínu úthlutaða svæði á reglubundinn og skipulegan hátt. Geysilegt magn rita er gefið út í miklu úrvali og á fjölda tungumála. Á samkomunum fer fram veruleg fræðsla og þeir sem reyndir eru bjóða fram aðstoð sína við að þjálfa aðra. Þátttaka í þessu starfi er opin bæði körlum og konum, öldruðum og jafnvel börnum. Hverjum og einum í söfnuðinum er boðið að vera þátttakandi í þeim mæli sem hæfni hans og kringumstæður leyfa. Öll starfsemi safnaðarins miðar að prédikunarstarfinu og gerðar eru ráðstafanir sem hjálpa hverjum meðlimi safnaðarins að vera þátttakandi á einhvern hátt. Regluleg og náinn tengsl við söfnuðinn er besta leiðin til að tryggja að ljós okkar haldi áfram að skína.
7 Við getum skinið á fleiri vegu en þá að bera munnlega vitni. Hegðun okkar ein og sér getur dregið til sín athygli. Pétur hafði það í huga þegar hann skrifaði þessi hvatningarorð: „Hegðið yður vel meðal heiðingjanna, til þess að þeir . . . sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar.“ (1. Pét. 2:12) Margir dæma starfsemi eða samtök eftir hegðun þeirra sem tengjast henni. Þegar menn koma auga á fólk sem er siðferðislega hreint, heiðarlegt, friðsamt og löghlýðið, líta þeir svo á að það skeri sig úr fjöldanum og þeir draga þá ályktun að það lifi eftir stöðlum sem eru á miklu hærra plani en þeir sem meirihluti manna fer eftir. Eiginmaður lætur þess vegna ljós sitt skína þegar hann heiðrar og annast konu sína á kærleiksríkan hátt. Konan gerir það sama með því að virða forystu eiginmanns síns. Börn skera sig úr fjöldanum þegar þau hlýða foreldrum sínum og sneiða hjá kynferðislegu siðleysi og fíkniefnaneyslu. Starfsmaður, sem sinnir starfi sínu samviskusamlega og er heiðarlegur og tillitssamur, er mikils metinn. Þegar við sýnum þessa kristnu eiginleika erum við að láta ljós okkar skína, mæla með lífsstefnu okkar við aðra.
8 Að prédika er að tala við aðra um það sem við höfum lært frá orði Guðs. Það er gert frá ræðupallinum eða í starfinu hús úr húsi, en það takmarkast engan veginn við slík tækifæri. Við dagleg störf komumst við í snertingu við fjölda fólks. Hversu oft á dag talar þú við nágranna þína í næstu íbúð eða húsi? Hve oft drepur einhver á dyr hjá þér? Hversu margt ólíkt fólk kemst þú í snertingu við þegar þú ferð í búðir, tekur strætisvagn eða ert í vinnunni? Ef þú ert barn eða unglingur í skóla getur þú þá talið þau skipti sem þú talar við einhvern á hverjum degi? Tækifærin til að tala við aðra eru sem næst ótakmörkuð. Allt sem þú þarft að gera er að hafa tilbúin í huganum fáein biblíuleg umræðuefni, hafa biblíu og nokkur smárit handbær og vekja máls á efninu þegar þér gefst tækifæri til.
9 Þó að það sé alls ekki flókið mál að bera óformlega vitni um sannleikann eru sumir tregir til að reyna það. Þeir eru ef til vill hlédrægir og standa fastir á því að þeir séu of feimnir eða of taugaóstyrkir til að taka ókunnuga tali. Þeir kvíða því ef til vill að athyglin dragist að þeim eða fólk taki orðum þeirra illa og verði jafnvel ruddalegt. Þeir sem eru reyndir í að bera vitni óformlega geta sagt þér að sjaldan sé nokkur ástæða til að hafa áhyggjur. Annað fólk er í meginatriðum ósköp líkt okkur; það hefur sömu þarfirnar og við, sams konar áhyggjuefni og óskar sér og sínum þess sama og við gerum. Flestir munu bregðast vinsamlega við glaðlegu brosi eða vingjarnlegri kveðju. Til að koma þér í gang þarftu kannski að efla hjá þér „djörfung til að tala til [manna] fagnaðarerindi Guðs.“ (2. Þess. 2:2) En þegar þú eitt sinn ert kominn af stað kann árangurinn að koma þér skemmtilega á óvart.
10 Við fáum blessun er við látum ljós okkar skína: Hér eru nokkur dæmi um uppörvandi árangur af óformlegum vitnisburði: Hálfsextug kona var að reyna að fara yfir götuna. Rétt í þann mund er bíll var að aka á hana greip systir í handlegg hennar og kippti henni af götunni og sagði: „Farðu nú varlega. Við lifum á háskalegum tímum!“ Hún útskýrði hvers vegna tímarnir væru svona hættulegir. Konan spurði: „Ert þú einn af vottum Jehóva?“ Þessi kona hafði fengið eina af bókum okkar hjá systur sinni og langaði til að hitta einhvern af vottum Jehóva og þessi atburður leiddi til þess.
11 Systir hóf samræður við konu á læknabiðstofu. Konan hlustaði af athygli og sagði síðan: „Ég hef verið að rekast á votta Jehóva af og til undanfarið, en ef ég verð sjálf einhvern tíma í framtíðinni einn af vottum Jehóva þá verður það vegna þess sem þú hefur verið að segja mér núna. Að hlusta á þig er eins og að byrja að sjá ljós í myrkri.“
12 Að sýna einhverjum góðvild í verki getur leitt til þess að hægt sé að hjálpa honum að læra sannleikann. Tvær systur, sem voru að ganga heim úr boðunarstarfinu, tóku eftir aldraðri konu sem virtist vera veik þegar hún steig út úr strætisvagni. Þær numu staðar og spurðu konuna hvort hún þarfnaðist hjálpar. Hún var svo undrandi að tvær bláókunnugar konur skyldu sýna henni áhuga að hún vildi endilega fá að vita hvað hefði fengið þær til að sýna slíka góðvild. Þeim opnaðist þar með leið til að bera vitni. Konan gaf þeim fúslega heimilisfang sitt og sagði þær hjartanlega velkomnar að heimsækja sig. Stofnað var biblíunám. Konan hóf fljótlega að sækja samkomur og segir núna öðrum frá sannleikanum.
13 Öldruð systir notfærir sér það að strönd er skammt frá heimili hennar. Hún fer þangað snemma morguns til að tala við fólk um sannleikann. Hún hittir húsmæður, barnapíur, bankastarfsmenn og fleiri sem fá sér morgungöngu á stéttinni meðfram sjónum. Gæti svo sem alveg verið vatn, er það ekki? Hún sest með fólki á bekkina og stýrir þar biblíunámum. Þó nokkrir hafa lært sannleikann af henni og eru núna vottar Jehóva.
14 Í vinnunni heyrði systir starfssystur sína tala um stjórnmálaflokk sem hún trúði að gæti leyst vandamál heimsins. Systirin tók til máls og sagði frá fyrirheitunum um það sem Guðsríki mun koma til leiðar. Þessar samræður í vinnunni leiddu til reglulegs biblíunáms á heimilinu sem endaði með því að konan og maðurinn hennar urðu vottar.
15 Gleymdu aldrei að þú sért vottur! Þegar Jesús lýsti lærisveinum sínum sem ‚ljósi heimsins‘ studdi hann það þeim rökum að þeir ættu að hjálpa öðrum að hafa gagn af hinni andlegu upplýsingu sem orð Guðs veitir. Ef við tökum þau orð Jesú til okkar hvernig ættum við þá að líta á þjónustu okkar við Guðsríki?
16 Þegar sumir leita sér að veraldlegri vinnu eru þeir á höttunum eftir hlutastarfi. Þeir setja því skorður hversu miklum tíma og kröftum þeir ætli að verja til vinnunnar vegna þess að þeir kjósa fremur að nota stærstan hluta tíma síns í að sinna hugðarefnum sem þeim finnst umbunarríkari. Lítum við boðunarstarfið svipuðum augum? Okkur kann að finnast við skuldbundin til að taka frá einhvern tíma til þjónustunnar eða við gerum það jafnvel fúslega, en hugsum samt fyrst og fremst um eitthvert annað hugðarefni.
17 Okkur er ljóst að það er ekki til neitt sem heitir að vera kristinn maður í hjáverkum og þess vegna vígðum við okkur Guði, ‚afneituðum sjálfum okkur‘ og samþykktum að fylgja Jesú „án afláts.“ (Matt. 16:24, NW) Löngun okkar er að halda áfram að vinna „af heilum huga,“ nýta okkur hvert tækifæri til að láta ljós okkar skína til þess að ná til fólks hvar sem það er. (Kól. 3:23, 24) Við verðum að gæta þess að smitast ekki af veraldlegum viðhorfum heldur vera kappsöm eins og í upphafi og gæta þess að ljós okkar haldi áfram að skína skært. Sumir hafa kannski leyft ákafa sínum að dofna og ljósi sínu að verða að daufum bjarma, varla sýnilegum úr lítilli fjarlægð. Slíkir einstaklingar þurfa ef til vill á hjálp að halda til að endurvekja fyrri kostgæfni gagnvart boðunarstarfinu.
18 Sumir hika ef til vill við að prédika vegna þess að boðskapur okkar er óvinsæll hjá mörgum. Páll sagði að boðskapurinn um Krist væri „heimska þeim er glatast.“ (1. Kor. 1:18) En hann lét ekki orð annarra draga úr sér heldur sagði með áhersluþunga: „Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið.“ (Rómv. 1:16) Sá sem fyrirverður sig finnst hann vera lítilsgildur og óverðugur. Hvernig gætum við farið að því að fyrirverða okkur þegar við tölum um hinn mikla drottinvald alheimsins og þær dásamlegu ráðstafanir sem hann hefur gert til þess að við getum notið eilífrar hamingju? Það er óhugsandi að okkur finnist við vera lítilsgild og óverðug þegar við flytjum fólki þessi sannindi. Þess í stað ættum við að finna okkur knúin til gera okkar ýtrasta, sýna að við erum sannfærð um að við séum verkamenn sem „ekki [þurfa] að skammast sín.“ — 2. Tím. 2:15.
19 Ljós sannleikans, sem núna skín í nær öllum löndum heims, býður fólki alúðlega þá von að lifa eilíflega í nýjum heimi sem verður paradís. Sýnum að við höfum tekið til okkar hvatninguna um að láta ljós okkar sífellt skína! Ef við gerum það höfum við ástæðu til að fagna eins og lærisveinarnir sem „létu . . . eigi af að kenna dag hvern . . . og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.“ — Post. 5:42.