Veitum heilaga þjónustu dag og nótt
1 Okkur hafa verið veitt einstök sérréttindi. Þau eru sú að vera vottar Jehóva. Við tilheyrum því skipulagi sem Jehóva notar um allan heim til að kunngera boðskapinn um Guðsríki í ríkari mæli en nokkurn tíma fyrr. (Mark. 13:10) Tökum við eins mikinn þátt í þessu starfi og hægt er í ljósi þess hve brýnt það er nú á dögum?
2 Við vitum ekki hve margir þeir verða að lokum sem bregðast vel við prédikun okkar. Jehóva fullvissar okkur um að það verði ‚mikill múgur‘ og mun hver og einn þekkjast af því að „þjóna [Guði] dag og nótt.“ (Opinb. 7:9, 15) Þær rúmlega fimm milljónir votta, sem eru þegar uppteknar í þjónustu Guðs, eru ekki aðeins áhugasamir áhorfendur né heldur fólk sem sækir einungis samkomur. Þessir vottar eru vinnumenn sem boða fagnaðarerindið um heim allan!
3 Á hverjum degi gefast tækifæri til að lofa Jehóva, annaðhvort í boðunarstarfinu eða óformlega. Hugsa sér hve mikill vitnisburður yrði gefinn ef sérhver okkar tæki sig til og talaði þó ekki væri nema við einn mann um sannleikann dag hvern. Þakklæti okkar til Jehóva ætti að fá okkur til að tala um hann af eldmóði. — Sálm. 92:1, 2.
4 Hjálpum öðrum að veita heilaga þjónustu: Jehóva blessar okkur sífellt með aukningu. (Hagg. 2:7) Á síðasta þjónustuári voru haldin að meðaltali 183 biblíunám í hverjum mánuði á Íslandi. Markmið þessara biblíunáma er að hjálpa nemendunum að verða lærisveinar Jesú. (Matt. 28:19, 20) Margir þeirra hafa þegar tekið góðum framförum með því að sækja samkomurnar reglulega. Þeir eru farnir að tala við kunningja sína um þau „stórmerki Guðs“ sem þeir hafa lært um. (Post. 2:11) Mætti núna bjóða þeim að taka þátt í boðunarstarfinu úti á akrinum?
5 Í apríl ættum við að leggja okkur fram við að bjóða þeim nýju, sem uppfylla skilyrðin, að koma með okkur út í boðunarstarfið. Hefur nemandi þinn látið í ljós að hann langi til þess? Sé svo, uppfyllir hann þá hin biblíulegu skilyrði? (Sjá Þjónustubókina, blaðsíðu 97-9.) Þegar nemandann fer að langa til að taka þátt í boðunarstarfinu skaltu ræða stöðu hans við umsjónarmanninn í forsæti sem mun sjá um að tveir öldungar kanni málið. Ef nemandinn er hæfur til að vera talinn óskírður boðberi skaltu bjóða honum með þér út í starfið. Starfshirðar og bóknámsstjórar ættu að vera vakandi fyrir því að hjálpa þeim sem kynnu að vera hæfir til að byrja sem boðberar í apríl.
6 Foreldrar gætu hugleitt hvort börnin þeirra séu hæf til að verða óskírðir boðberar. (Sálm. 148:12, 13) Ef barnið þitt langar til að segja fólki frá Guðsríki og hefur gott orð á sér getur þú rætt stöðu mála við einn af öldungunum í þjónustunefndinni. Eftir að tveir öldungar hafa haft fund með þér og barni þínu munu þeir ákveða hvort það sé hæft til að teljast boðberi. Það er sérstakt fagnaðarefni þegar börn taka þátt í því með okkur að lofa Guð.
7 Aðeins Jehóva er verðugur heilagrar þjónustu okkar. (Lúk. 4:8) Megi hvert okkar nota hin dásamlegu sérréttindi okkar að lofa hann „mikillega.“ — Sálm. 109:30; 113:3.