Ertu of upptekinn?
1 Páll hvatti okkur til að vera ‚síauðug í verki Drottins.‘ (1. Kor. 15:58) Við erum hvött til að gera okkur að venju að nema sjálf á hverjum degi, fara reglulega út í boðunarstarfið, sækja samkomur trúfastlega og sinna af dugnaði þeim verkefnum sem við fáum innan safnaðarins. Þar að auki verðum við að aðstoða aðra sem þarfnast hjálpar okkar. Þar sem við höfum svona mikið að gera leggst kannski stundum yfir okkur sú hugsun að við verðum að fara að leita leiða til að draga úr vinnuálaginu.
2 Sú staða getur komið upp að bæði sé viturlegt og sanngjarnt að leggja niður vissa starfsemi eða draga úr henni. Sumir hafa það á tilfinningunni að ætlast sé til að þeir geri allt sem aðrir mælist til af þeim. Sé ekki gætt jafnvægis í þessu efni getur það skapað álag og streitu sem getur að lokum etið menn upp.
3 Gættu jafnvægis: Lykillinn að góðu jafnvægi felst í því að fylgja ráðleggingum Páls um að ‚meta þá hluti rétt, sem máli skipta.‘ (Fil. 1:10) Það þýðir einfaldlega að við einbeitum okkur að því sem raunverulega skiptir máli og, ef tími og aðstæður leyfa, sinnum sumu af því sem lítilvægara er. Skyldur við fjölskylduna eru sannarlega ofarlega á listanum yfir það sem bráðnauðsynlegt er. Sinna verður vissum veraldlegum skyldum. En Jesús kenndi að við ættum að leita fyrst Guðsríkis og raða málum í forgangsröð með hliðsjón af því. Við verðum fyrst að gera það sem gerir okkur kleift að standa við vígslu okkar til Jehóva. — Matt. 5:3; 6:33.
4 Með þetta í huga munum við gæta þess að taka út af þéttsetinni dagskrá okkar allt ónauðsynlegt einkabrölt, óhóflega afþreyingu og skuldbindingar við aðra sem komast má hjá. Þegar við skipuleggjum störf okkar fyrir hverja viku munum við taka frá tíma til nægilegs einkanáms, eðlilegrar hlutdeildar í boðunarstarfinu, samkomusóknar og annars sem er nátengt tilbeiðslu okkar. Tímanum, sem þá er eftir, má skipta milli annarra verkefna, en sú skipting ætti að ráðast af því hversu mjög þau hjálpa okkur að ná því meginmarkmiði okkar að vera heilsteyptir kristnir menn sem leita fyrst Guðsríkis.
5 Vera má að okkur finnist byrði okkar þjakandi eftir sem áður. Þá þurfum við að svara þessu boði Jesú: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“ (Matt. 11:28) Líttu líka til Jehóva „sem daglega ber byrðina fyrir okkur“ og „veitir kraft hinum þreytta.“ Hann lofar að hann muni aldrei láta réttlátan mann verða valtan á fótum. (Sálm. 55:23; 68:19, NW; Jes. 40:29) Við getum treyst því að bænum okkar verði svarað og okkur gert mögulegt að halda ótrauð áfram að vera virk í guðræðislegu starfi.
6 Víst er að okkur verður haldið uppteknum í þjónustu okkar við Guðsríki en við getum samt fagnað, vitandi að erfiði okkar er ekki árangurslaust í Drottni. — 1. Kor. 15:58.