Hvernig nota skal Þekkingarbókina til að gera menn að lærisveinum
1 Eftirsóknarvert markmið fyrir alla kristna menn er að kenna fagnaðarerindið og gera þá að lærisveinum sem ‚hneigjast til eilífs lífs.‘ (Post. 13:48, NW; Matt. 28:19, 20) Skipulag Jehóva hefur lagt okkur í hendur dásamlegt verkfæri til að nota í þessu starfi — bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Titill hennar dregur fram hið mikla mikilvægi heimabiblíunáma vegna þess að eilíft líf er háð því að afla sér þekkingar á Jehóva, hinum eina sanna Guði, og á syni hans, Jesú Kristi. — Jóh. 17:3.
2 Þekkingarbókin er núna helsta rit Félagsins til að nota við stjórn heimabiblíunáma. Notkun hennar gerir okkur kleift að kenna sannleikann á einfaldan, skýran og fljótan hátt. Það mun hjálpa okkur að ná til hjartna þeirra sem við kennum. (Lúk. 24:32) Að sjálfsögðu þarf stjórnandinn að beita góðri kennslutækni. Í þeim tilgangi hefur þessi viðauki verið saminn til að koma með tillögur um kennsluaðferðir og minna á það sem reynst hefur árangursríkt í þessum efnum. Með nokkurri skarpskyggni, og í samræmi við aðstæður hvers og eins, má vera að þú getir smám saman hagnýtt þér sumt eða allt af því sem hér er sett fram. Haltu þessum viðauka til haga og líttu oft í hann. Ýmislegt í honum gæti hjálpað þér að ná betri árangri þegar þú notar Þekkingarbókina til að gera menn að lærisveinum.
3 Stýrðu biblíunámi þannig að nemendurnir taki framförum: Sýndu nemandanum sem einstaklingi einlægan áhuga og líttu á hann sem væntanlegan lærisvein Krists og andlegan bróður eða systur. Vertu hlýlegur, vingjarnlegur og fullur eldmóðs. Ef þú hlustar vel á það sem biblíunemandinn segir kynnist þú honum — bakgrunni hans og aðstæðum í lífinu — og það hjálpar þér að skynja hvernig best er að hjálpa honum í andlegum efnum. Vertu fús til að gefa af sjálfum þér í þágu nemanda þíns. — 1. Þess. 2:8.
4 Þegar nám er eitt sinn komið af stað ætti helst að fara yfir kaflana í Þekkingarbókinni í hlaupandi röð. Með því móti mun nemandinn skilja sannleikann betur í hvert sinn vegna þess að bókin tekur hin biblíulegu efni fyrir í þeirri röð sem rökréttust er. Hafðu námið einfalt og áhugavert til þess að það sé líflegt og hreyfing sé á því. (Rómv. 12:11) Flestir kaflarnir eru þannig að það ætti að vera mögulegt að fara yfir þá í einni námsstund sem tekur um það bil einn klukkutíma, án þess að þurfa að vaða í gegnum efnið, en það er þó háð kringumstæðunum og hæfni nemandans. Nemendurnir taka meiri framförum þegar kennarinn og nemandinn halda sér báðir við það að hafa námið í hverri viku. Með flestu fólki kann því að vera gerlegt að ljúka við að fara yfir hina 19 kafla bókarinnar á um það bil sex mánuðum.
5 Byrjaðu hverja námsstund með stuttum athugasemdum sem örva áhugann á efninu. Þú tekur eftir því að titill hvers kafla er stef kaflans og nauðsynlegt er að undirstrika það stef. Sérhver millifyrirsögn afmarkar eitthvert aðalatriði og hjálpar þér þannig að halda athygli nemandans sífellt við kaflastefið. Gættu þess að láta ekki móðan mása. Reyndu þess í stað að fá nemandann til að tjá sig. Ef þú spyrð nemandann skýrt afmarkaðra og leiðandi spurninga, sem byggðar eru á því sem hann þegar veit, hjálpar það honum að hugsa rökrétt og komast að réttri niðurstöðu. (Matt. 17:24-26; Lúk. 10:25-37; sjá Handbók Guðveldisskólans, blaðsíðu 51, grein 10.) Haltu þér fast við upplýsingarnar í Þekkingarbókinni. Sé komið með viðbótarefni getur það skyggt á aðalatriðin og dregið námið á langinn. (Jóh. 16:12) Ef upp kemur spurning sem tengist ekki námsefninu gætir þú í flestum tilfellum tekið á henni í lok námsstundarinnar. Með því móti getur þú farið yfir námsefni vikunnar án þess að fara út á hliðarspor. Útskýrðu fyrir nemandanum að áður en biblíunámsskeiðinu er lokið muni hann hafa fengið svör við flestum spurninga sinna. — Sjá Handbók Guðveldisskólans, blaðsíðu 94, grein 14.
6 Ef nemandinn heldur fast við þrenningarkenninguna, ódauðleika sálarinnar, kenninguna um helvíti, eða aðrar slíkar falskenningar, og það sem fram kemur í Þekkingarbókinni nægir honum ekki, gætir þú látið hann fá Rökræðubókina eða annað rit sem fjallar um efnið. Segðu honum að þú munir ræða þetta málefni við hann eftir að hann hafi hugsað um það sem hann les.
7 Ef borin er fram í upphafi og við lok hverrar námsstundar bæn til Jehóva um leiðsögn hans og blessun lætur það reisn hvíla yfir náminu, þátttakendurnir fá meiri virðingu fyrir því sem verið er að gera og athyglin beinist að Jehóva sem hinum sanna kennara. (Jóh. 6:45) Ef nemandinn notar enn þá tóbak kann að koma að því að þú þurfir að biðja hann um að halda sér frá notkun þess meðan á náminu stendur. — Post. 24:16; Jak. 4:3.
8 Notaðu ritningarstaðina, myndirnar og upprifjunarspurningarnar til áhrifaríkrar kennslu: Leikinn kennari mun búa sig undir hverja námsstund með þarfir nemandans í huga, óháð því hversu oft hann hefur farið yfir efnið áður. Það hjálpar honum að sjá fyrir sumt af því sem nemandinn mun spyrja um. Til að geta kennt á áhrifaríkan hátt skaltu öðlast glöggan skilning á aðalatriðunum í kaflanum. Flettu upp ritningarstöðunum til þess að sjá hvernig þeir falla að efninu og taktu ákvörðun um hverjir þeirra skulu lesnir í náminu. Hugleiddu hvernig þú getir notað myndirnar og upprifjunarspurningarnar við lok kaflans til kennslunnar.
9 Þegar þú notar ritningarstaðina á áhrifaríkan hátt hjálpar þú nemandanum að gera sér ljóst að hann sé svo sannarlega að nema Biblíuna. (Post. 17:11) Notaðu rammann, „Nýttu þér vel Biblíuna þína,“ á blaðsíðu 14 í Þekkingarbókinni til að kenna honum að finna ritningarstaði. Sýndu honum hvernig greina megi á milli ritningarstaða sem skrifaðir eru út í námskaflanum og þeirra sem aðeins er vísað til. Eftir því sem tíminn leyfir skaltu fletta upp og lesa ritningarstaðina sem vísað er til en eru ekki skrifaðir út. Láttu nemandann segja þér hvernig þeir styðja eða útskýra það sem sagt er í tölugreininni. Undirstrikaðu lykilatriðin í textanum svo að nemandinn nái að skilja ástæðurnar fyrir aðalatriðunum í námsefninu. (Neh. 8:8) Yfirleitt er engin ástæða fyrir kennarann að taka til umræðu fleiri ritningarstaði en þá sem bókin kemur með. Farðu nokkrum orðum um gildi þess að þekkja nöfn og niðurröðun biblíubókanna. Ef tungumálakunnátta nemandans leyfir gæti verið gagnlegt fyrir hann að lesa blaðsíðu 27-30 í Varðturninum (á ensku eða öðrum hálfsmánaðarlegum útgáfum) frá 15. júní 1991. Sömuleiðis gæti verið við hæfi að kynna honum Nýheimsþýðinguna og sýna honum smám saman hvernig nota megi hin ýmsu hjálpargögn sem er að finna í henni, eins og spássíutilvísanir og biblíuorðalykilinn.
10 Námskafli 34 í Handbók Guðveldisskólans sýnir fram á að líkingar örvi hugsun manna og auðveldi þeim að skilja nýjar hugmyndir. Með þeim er bæði skírskotað til vitsmunanna og hreyft við tilfinningunum, með þeim árangri að boðskapurinn berst til manna með þunga sem yfirleitt er ekki gerlegt að ná með einfaldri upptalningu staðreynda. (Matt. 13:14) Í Þekkingarbókinni eru fjölmargar fræðandi myndir sem eru einfaldar en þó áhrifamiklar. Mynd, sem notuð er í 17. kaflanum, hjálpar til dæmis mönnum að meta betur hvernig Jehóva í andlegum skilningi veitir fólki fæði, klæði og húsaskjól fyrir milligöngu kristna safnaðarins. Fallegu myndirnar í Þekkingarbókinni má nota á áhrifaríkan hátt til að hreyfa við tilfinningum manna. Tölugrein 18, undir millifyrirsögninni „Hin gleðilega upprisa“ á blaðsíðu 185, verður enn áhrifaríkari ef nemandinn er látinn virða aftur fyrir sér myndina á blaðsíðu 86. Það fær hann hugsanlega til að sjá fyrir sér upprisuna sem raunveruleika undir stjórn Guðsríkis.
11 Biblíunemendurnir þurfa að taka andlegum framförum með hverri námsstund. Þú skalt þess vegna ekki láta hjá líða að spyrja upprifjunarspurninganna sem er að finna í rammanum „Reyndu þekkingu þína“ í lok hvers kafla. Hlustaðu eftir fleiru en aðeins vitsmunalegri útskýringu á því sem numið var. Allmargar þessara spurninga eru samdar til að draga fram persónuleg viðbrögð frá hjarta nemandans. Dæmi um það má sjá á blaðsíðu 31 þar sem nemandinn er spurður: „Hvaða eiginleikar Jehóva Guðs höfða einkum til þín?“ — 2. Kor. 13:5.
12 Kenndu nemendunum að búa sig undir námið: Nemandi, sem les námsefnið fyrirfram, merkir við svörin og hugsar um hvernig hann geti sett þau fram með sínum eigin orðum, tekur hraðari framförum andlega en ella væri. Með fordæmi þínu og hvatningu getur þú kennt honum að búa sig undir námið. Sýndu honum bókina þína þar sem þú hefur merkt við eða undirstrikað lykilorðin. Útskýrðu hvernig finna megi bein svör við tölusettu spurningunum. Nemandinn gæti haft gagn af því að þið undirbúið ykkur saman undir einn kafla. Hvettu hann til að tjá sig með eigin orðum. Fyrr kemur ekki greinilega í ljós hvort hann skilur efnið. Ef hann les svar sitt upp úr bókinni getur þú fengið hann til að hugsa dýpra með því að spyrja hvernig hann myndi útskýra þetta efni fyrir einhverjum öðrum með sínum eigin orðum.
13 Hvettu nemandann til að fletta upp ritningarstöðum sem ekki eru skrifaðir út í námsbókinni þegar hann er að undirbúa sig í hverri viku, þar sem ekki kann að gefast tími til að lesa þá alla í náminu. Hrósaðu honum fyrir það sem hann leggur á sig við námið. (2. Pét. 1:5; sjá Varðturninn 1. febrúar 1994, blaðsíðu 20-21, þar sem finna má frekari tillögur um hvað bæði kennari og nemandi geta gert til að meira lærist í hverjum biblíunámstíma.) Með þessu móti þjálfast nemandinn í að búa sig undir safnaðarsamkomurnar og gefa þar innihaldsríkar athugasemdir. Hann lærir hvernig hann eigi að temja sér góðar einkanámsvenjur sem munu gera honum kleift að halda áfram að taka framförum í sannleikanum eftir að biblíunámi hans í Þekkingarbókinni er lokið. — 1. Tím. 4:15; 1. Pét. 2:2.
14 Beindu nemendunum inn til skipulags Jehóva: Sá sem kennir nýjum lærisveini ber ábyrgð á því að beina áhuga hans að skipulagi Jehóva. Nemandinn verður fljótari að ná andlegum þroska ef hann viðurkennir skipulagið og metur það að verðleikum og gerir sér ljósa nauðsyn þess að tilheyra því. Við viljum að hann hafi ánægju af félagsskap við fólk Guðs og hlakki til að vera með okkur í ríkissalnum, þar sem hann getur fengið þann andlega og tilfinningalega stuðning sem kristni söfnuðurinn hefur upp á að bjóða. — 1. Tím. 3:15.
15 Bæklingurinn Vottar Jehóva — sameinaðir í að gera vilja Guðs um allan heim hefur verið gefinn út til að kynna fyrir fólki það eina skipulag sem Jehóva notar nú á tímum til að framkvæma vilja sinn. Rétt er að gefa nemandanum eintak af bæklingnum eftir að námið er komið vel í gang. Haltu áfram alveg frá byrjun að bjóða nemandanum á samkomurnar. Útskýrðu hvernig þær fara fram. Þú gætir sagt honum hvað næsti opinberi fyrirlesturinn heitir eða sýnt honum greinina sem verður til umræðu í Varðturnsnáminu. Kannski gætir þú sýnt honum ríkissalinn utan samkomutíma til þess að draga úr hugsanlegum kvíða hans fyrir að fara á nýjan stað í fyrsta sinn. Ef til vill gætir þú séð honum fyrir fari á samkomurnar. Þegar hann kemur skaltu láta hann finna að hann sé velkominn og að honum geti liðið vel á samkomunum. (Matt. 7:12) Kynntu hann fyrir öðrum vottum, þar með töldum öldungunum. Vonandi fer hann að líta á söfnuðinn sem andlega fjölskyldu sína. (Matt. 12:49, 50; Mark. 10:29, 30) Þú gætir sett honum markmið, eins og að sækja eina samkomu á viku, og setja síðan markið hærra smám saman. — Hebr. 10:24, 25.
16 Eftir því sem heimabiblíunáminu í Þekkingarbókinni vindur fram skaltu leggja áherslu á þá staði sem undirstrika nauðsyn þess að koma reglulega saman með söfnuðinum á samkomum. Taktu sérstaklega eftir blaðsíðu 52, 115, 137-9 og 159, svo og 17. kafla. Láttu koma í ljós hversu mikið þú sjálfur metur skipulag Jehóva. (Matt. 24:45-47) Talaðu jákvæðum orðum um söfnuðinn á staðnum og það sem þú lærir á samkomunum. (Sálm. 84:11; 133:1-3) Gott væri ef nemandinn gæti horft á hvert og eitt af myndböndum Félagsins og byrjað á Vottar Jehóva — skipulagið að baki nafninu. Frekari hugmyndir um hvernig beina megi áhuga manna að skipulaginu er að finna í Varðturninum frá 1. maí 1985, blaðsíðu 25-29, og viðaukanum við Ríkisþjónustu okkar fyrir apríl 1993.
17 Hvettu nemendurna til að vitna fyrir öðrum: Takmark okkar með því að hafa biblíunám með fólki er að gera það að lærisveinum sem bera vitni um Jehóva. (Jes. 43:10-12) Það þýðir að kennarinn ætti að hvetja nemandann til að tala við aðra um það sem hann er að læra af Biblíunni. Þetta þyrfti ekki að vera flóknara en að spyrja: „Hvernig myndir þú útskýra þessi sannindi fyrir fjölskyldu þinni?“ eða „Hvaða ritningarstað myndir þú nota til að sanna þetta fyrir vini þínum?“ Leggðu áherslu á lykilstaðina í Þekkingarbókinni þar sem lesandinn er hvattur til að bera vitni, eins og á blaðsíðu 22, 93-5, 105-6, svo og 18. kafla. Þegar við á mætti gefa nemandanum nokkur smárit til að nota þegar hann ber óformlega vitni. Leggðu til að hann bjóði fjölskyldumeðlimum sínum að vera viðstaddir biblíunámið hans. Á hann vin sem myndi líka vilja hafa nám? Biddu hann að vísa þér á þá sem hafa áhuga.
18 Með því að sækja Guðveldisskólann og þjónustusamkomuna getur hinn væntanlegi lærisveinn fengið viðbótarþjálfun og hvatningu sem hjálpar honum að verða boðberi fagnaðarerindisins. Þegar hann segist hafa áhuga á að gerast nemandi í skólanum eða verða óskírður boðberi gilda meginreglurnar sem settar eru fram í Þjónustubókinni á blaðsíðu 98 og 99. Ef eitthvað í lífsháttum hans kemur í veg fyrir að hann uppfylli skilyrðin getur þú leitað í ritum Félagsins að gagnlegu efni sem tekur á því máli og komið því á framfæri við hann. Til dæmis gæti nemandinn átt erfitt með að venja sig af notkun tóbaks eða annarra fíkniefna. Rökræðubókin dregur fram sterk biblíuleg rök fyrir því hvers vegna kristnir menn halda sér frá slíkum skaðlegum ávana og á blaðsíðu 112 segir hún í stórum dráttum frá leið sem hefur reynst árangursrík við að hjálpa fólki að losa sig við slíkar venjur. Hafðu með nemandanum bæn til Guðs um málið en með því kennir þú honum að reiða sig á hjálp Jehóva. — Jak. 4:8.
19 Í Varðturninum, 1. mars 1996, blaðsíðu 16, grein 6, kemur fram hvernig fara skuli að því að ákveða hvort einstaklingur sé hæfur til að taka þátt í boðunarstarfinu meðal almennings. Þegar nemandinn hefur reynst hæfur væri gagnlegt að hafa svolitla æfingu með honum til að búa hann undir fyrsta daginn sinn úti á akrinum. Ræddu á jákvæðan hátt við hann um þau viðbrögð og mótbárur sem búast má við frá fólki á starfssvæði þínu. Byrjaðu á því að fara með hann í starfið hús úr húsi, ef þess er nokkur kostur, og þjálfaðu hann síðan smám saman í öðrum þáttum boðunarstarfsins. Ef þú hefur kynningarorð þín stutt og einföld á hann auðvelt með að líkja eftir þér. Vertu uppbyggjandi og hvetjandi, láttu gleðina af boðunarstarfinu geisla frá þér til þess að hann smitist af anda þínum og endurspegli hann. (Post. 18:25) Nýr lærisveinn ætti að hafa það markmið að verða reglulegur og kostgæfinn boðberi fagnaðarerindisins. Ef til vill getur þú hjálpað honum að koma sér upp hagnýtri áætlun um hvenær hann taki þátt í starfinu. Til þess að leikni hans í að vitna fyrir öðrum aukist gætir þú stungið upp á að hann lesi Varðturninn, tölublöðin frá 1. nóvember 1985, blaðsíðu 23-27; 1. apríl 1989, blaðsíðu 22-32; 1. júní 1991, blaðsíðu 28-32 og 1. janúar 1994, blaðsíðu 16-21.
20 Vektu hjá nemendunum löngun til vígslu og skírnar: Það ætti að vera mögulegt fyrir hreinhjartaðan nemanda að læra nægilega mikið af námi sínu í Þekkingarbókinni til að vígja sig Guði og verða hæfur til skírnar. (Samanber Postulasöguna 8:27-39; 16:25-34.) En áður en einhver mun finna hjá sér löngun til að vígja sig Jehóva þarf hann að þroska með sér innilega hollustu við hann og traust til hans. (Sálm. 73:25-28) Allan námstímann skaltu leita tækifæra til að örva nemandann til að meta eiginleika Jehóva að verðleikum. Láttu djúpar tilfinningar þínar til Guðs koma í ljós. Hjálpaðu nemandanum að hugsa út frá því sjónarmiði að rækta hlýlegt og persónulegt samband við Jehóva. Ef hann nær í rauninni að kynnast Guði og elska hann mun hann þjóna honum af trúfesti, vegna þess að guðrækni er tengd því hvað okkur finnst um Jehóva sem persónu. — 1. Tím. 4:7, 8; sjá Handbók Guðveldisskólans, blaðsíðu 76, grein 11.
21 Leitastu við að ná til hjarta nemandans. (Sálm. 119:11; Post. 16:14; Rómv. 10:10) Hann þarf að koma auga á hvernig sannleikurinn snertir hann persónulega og ákveða hvað hann ætti að gera við það sem hann hefur lært. (Rómv. 12:2) Trúir hann í raun og veru þeim sannindum sem borin eru á borð fyrir hann viku efir viku? (1. Þess. 2:13) Í þeim tilgangi getur þú fengið nemandann til að segja hug sinn með því að spyrja vel valinna viðhorfsspurninga, eins og: Hvað finnst þér um þetta? Hvernig getur þú farið eftir þessu í lífi þínu? Af svörum hans getur þú væntanlega ráðið á hvað þú þurfir að leggja meiri áherslu til að þér takist að ná til hjarta hans. (Lúk. 8:15; sjá Handbók Guðveldisskólans, blaðsíðu 52, grein 11.) Myndatextarnir á blaðsíðu 172 og 174 í Þekkingarbókinni spyrja: „Hefur þú vígt þig Guði í bæn?“ og „Hvað hamlar þér að skírast?“ Þeir gætu reynst vel til að vekja hjá nemandanum löngun til að gera eitthvað í málinu.
22 Í Varðturninum, 1. mars 1996, blaðsíðu 17, grein 9, kemur fram hvernig fara skuli að þegar óskírður boðberi óskar þess að láta skírast. Þekkingarbókin var skrifuð með það í huga að hún gerði nemandann færan um að svara ‚Spurningunum fyrir þá sem vilja láta skírast‘ sem er að finna í bæklingnum Grundvallarkenningar Biblíunnar og öldungarnir fara yfir með skírnþegum. Ef þú hefur dregið skýrt fram svörin við spurningunum í Þekkingarbókinni ætti nemandinn að geta staðið sig vel í spurningatímanum sem öldungarnir stjórna og er liður í að búa hann undir skírnina.
23 Hjálpaðu þeim sem ljúka heimabiblíunáminu: Gera skyldi ráð fyrir að þegar nemandinn hefur lokið námi sínu í Þekkingarbókinni sé orðið augljóst hvort hann sé einlægur og hversu djúpt áhugi hans á að þjóna Guði ristir. (Matt. 13:23) Það er þess vegna sem síðasta millifyrirsögn bókarinnar spyr: „Hvað ætlar þú að gera?“ Í síðustu greinunum er nemandinn beðinn einlæglega um að velta vandlega fyrir sér hvernig samband hann ætti að hafa ræktað við Guð, þörfinni á að beita þeirri þekkingu sem hann hefur aflað sér og nauðsyn þess að hefjast skjótt handa til að sýna í verki kærleika sinn til Jehóva. Engar ráðstafanir eru gerðar til þess að nema fleiri biblíufræðslurit með þeim sem lokið hafa námi sínu í Þekkingarbókinni. Útskýrðu vingjarnlega og greinilega fyrir nemanda, sem lætur ekki þekkinguna á Guði knýja sig til athafna, hvað hann verði að gera til þess að taka framförum andlega. Þú gætir haft samband við hann annað veifið og haldið þannig leiðinni opinni fyrir hann að stíga þau skref sem leiða til eilífs lífs. — Préd. 12:13.
24 Nýr lærisveinn, sem tekur sannleikanum opnum örmum og lætur skírast, mun þurfa að vaxa miklu meira í þekkingu og skilningi til þess að verða rækilega staðfastur í trúnni. (Kól. 2:6, 7) Í stað þess að halda áfram heimabiblíunámi með honum, eftir að þið hafið lokið við Þekkingarbókina, getur þú verið honum innanhandar ef hann þarfnast einhverrar persónulegrar aðstoðar til að ná góðum þroska andlega. (Gal. 6:10; Hebr. 6:1) Hann getur fyrir sitt leyti fullmótað skilning sinn með því að lesa Biblíuna daglega, nema sjálfur Varðturninn og önnur rit hins ‚trúa og hyggna þjóns,‘ búa sig undir og sækja samkomurnar og ræða um sannleikann við trúbræður sína. (Matt. 24:45-47; Sálm. 1:2; Post. 2:41, 42; Kól. 1:9, 10) Ef hann les Þjónustubókina vandlega og fer eftir því sem hún segir mun það eiga mjög mikilvægan þátt í því að hann taki upp guðræðislegar starfsaðferðir til að fullna þjónustu sína sem mest og best. — 2. Tím. 2:2; 4:5.
25 Vinnum að því að verða leiknir kennarar: Okkur hefur verið falið það verkefni að ‚gera menn að lærisveinum, . . . kenna þeim.‘ (Matt. 28:19, 20) Þar sem kennsluhæfnin tengist svo mjög því að gera menn að lærisveinum viljum við kappkosta að verða sífellt betri kennarar. (1. Tím. 4:16; 2. Tím. 4:2) Til að fá tillögur um hvernig þú getur aukið leikni þína sem kennari kannt þú að vilja lesa eftirfarandi efni: „Að þroska með sér leikni sem kennari“ og „Þannig nærð þú til hjartna áheyrenda þinna“ í Handbók Guðveldisskólans, 10. og 15. námskafla; „Kennari, Kennsla (Teacher, Teaching)“ í bókinni Innsýn í Ritninguna, 2. bindi; og eftirfarandi greinar í Varðturninum: „Byggt úr eldtraustum efnum“ og „Náðu til hjartans þegar þú kennir“ (1. nóvember 1984); „Rökræðir þú út af Ritningunni á áhrifaríkan hátt?“ (1. mars 1986, enska útgáfan); og „Hvernig hafa má gleði af því að gera menn að lærisveinum“ (15. febrúar 1996, enska útgáfan).
26 Er þú leitast við að gera menn að lærisveinum og notar Þekkingarbókina, skaltu alltaf biðja þess að Jehóva, sá sem ‚gefur vöxtinn,‘ blessi viðleitni þína til að ná til hjartna manna með fagnaðarboðskapinn um Guðsríki. (1. Kor. 3:5-7) Megir þú fá að reyna gleðina sem fylgir því að kenna öðrum að skilja og meta þekkinguna sem leiðir til eilífs lífs og breyta í samræmi við hana!