Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 11.99 bls. 3-6
  • Notkun Netsins — vertu vakandi fyrir hættunum!

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Notkun Netsins — vertu vakandi fyrir hættunum!
  • Ríkisþjónusta okkar – 1999
  • Svipað efni
  • Netið — alþjóðlegt hjálpargagn sem nota þarf með skynsemi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Hvernig get ég forðast hættur á Netinu?
    Vaknið! – 2000
  • Eru stefnumót á Netinu nokkuð hættuleg?
    Vaknið! – 2005
  • Fagnaðarerindið á internetinu
    Ríkisþjónusta okkar – 1997
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 1999
km 11.99 bls. 3-6

Notkun Netsins — vertu vakandi fyrir hættunum!

1 Þjónar Jehóva njóta þess að eiga heilnæman félagskap hver við annan. Þeir njóta þess að segja starfsfrásögur og heyra um atburði sem tengjast söfnuðinum og boðun fagnaðarerindisins um allan heim. Þeir vilja vita af hættuástandi eða náttúruhamförum sem ógna trúbræðrum þeirra og hvað þeir geti gert til að hjálpa þeim. Slíkur áhugi ber vitni um einingu bræðrafélagsins og sannar að við elskum hvert annað. — Jóh. 13:34, 35.

2 Fréttir af gangi heimsmála eru fljótar að berast. Fréttum af atburðum líðandi stundar er útvarpað og sjónvarpað beint til áheyrenda hvarvetna um heimsbyggðina. Og síminn gerir mönnum jafnframt kleift að ná tafarlausu sambandi við fólk um heim allan. Netið er nýlegur boðskiptamiðill sem á víða vaxandi fylgi að fagna. — Sjá Vaknið! á ensku 22. júlí 1997.

3 Tilkoma símans greiddi götu hraðra boðskipta um allan heim. Enda þótt síminn sé einkar gagnlegur þarf að sýna aðgát í notkun hans því að hann má nota til að eiga óviðeigandi félagsskap við aðra eða til að stunda ósæmilega háttsemi, og mikil símanotkun er kostnaðarsöm. Sjónvarp og útvarp geta verið ágætir fræðslumiðlar en því miður er efnið oft siðspillt og tímasóun að sitja yfir því. Það er viturlegt að vera sérlega vandfýsin á það sem við horfum eða hlustum á í sjónvarpi og útvarpi.

4 Netið gerir fólki kleift að hafa samband við milljónir manna um heim allan með litlum tilkostnaði og veitir aðgang að gríðarlegu upplýsingamagni. (Vaknið! á ensku 8. janúar 1998) En fyrirhyggjulaus notkun Netsins getur stofnað notandanum í mikla hættu, andlega og siðferðilega. Hvernig þá?

5 Margir eru uggandi yfir því hve greiðlega megi nálgast upplýsingar um smíði vopna, meðal annars sprengna, og fyrirtæki kvarta yfir því hve miklum tíma starfsmenn sóa á Netinu. Rit okkar hafa rætt töluvert um augljósar andlegar hættur Netsins. Á mörgum vefsetrum er birt ofbeldis- og klámefni sem er með öllu óviðeigandi fyrir kristna menn. (Sálm. 119:37) Fyrir utan þessar hættur er lævísari hætta sem vottar Jehóva þurfa sérstaklega að vera á varðbergi gagnvart. Hver er hún?

6 Myndirðu bjóða ókunnugum inn á heimili þitt án þess að ganga fyrst úr skugga um hver hann væri? Hvað ef engin leið er til að komast að því? Myndirðu leyfa honum að vera einum með börnum þínum? Sá möguleiki er óumdeilanlega fyrir hendi á Netinu.

7 Tölvupóst má senda og fá sendan frá fólki sem maður þekkir ekki. Sama á efnislega við um spjallrásirnar á Netinu. Þátttakendur segjast kannski vera vottar Jehóva en oft eru þeir það ekki. Sumir segjast vera unglingar en eru það ekki og aðrir segja jafnvel rangt til um kynferði sitt.

8 Upplýsingar, sem berast þér, geta verið í mynd starfsfrásagna eða hugleiðinga um trú okkar. Þessum upplýsingum er komið áfram til annarra sem koma þeim áleiðis til enn annarra. Yfirleitt er ekki hægt að staðfesta þær og þær geta verið rangar. Þær geta verið yfirvarp yfir fráhvarfshugmyndir. — 2. Þess. 2:1-3.

9 Netnotendur ættu að hafa þessa hættu í huga og spyrja sig í hvaða tilgangi þeir noti Netið, hvort sá möguleiki sé fyrir hendi að þeir bíði andlegt tjón af því og hvort þeir gætu verið að skaða aðra andlega.

10 Vefsíður „votta Jehóva“: Tökum sem dæmi heimasíður einstaklinga sem segjast vera vottar Jehóva. Þeir bjóða þér að heimsækja vefsíður sínar og lesa frásagnir, sem aðrir ‚vottar‘ hafa sent, og hvetja þig til að segja skoðanir þínar á ritum Félagsins. Á sumum vefsíðum eru tillögur að kynningarorðum fyrir boðunarstarfið. Þessar síður bjóða upp á spjallrásir sem hægt er að tengjast og tala beint við aðra, ekki ósvipað og í síma. Þær vísa oft á aðrar síður þar sem þú getur talað við votta Jehóva víða um heim á Netinu. En hvernig geturðu verið viss um að fráhvarfsmenn hafi ekki komið þessum samböndum fyrir?

11 Samneyti við aðra á Netinu getur strítt gegn tilmælunum í Efesusbréfinu 5:15-17. Páll postuli skrifar: „Hafið . . . nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji [Jehóva].“

12 Kristni söfnuðurinn er guðræðisleg boðleið andlegrar fæðu frá hinum ‚trúa og hyggna þjóni.‘ (Matt. 24:45-47) Innan skipulags Guðs fáum við leiðsögn og vernd sem heldur okkur aðgreindum frá heiminum og hvatningu til að vera upptekin í starfi Drottins. (1. Kor. 15:58) Sálmaritarinn sagðist finna til gleði og öryggiskenndar í söfnuði fólks Guðs. (Sálm. 27:4, 5; 55:15; 122:1) Þar fá safnaðarmenn andlegan stuðning og hjálp. Í söfnuðinum finnurðu ástríka og umhyggjusama vini — fólk sem þú þekkir persónulega og er boðið og búið að hjálpa þér og hugga á erfiðleikastund. (2. Kor. 7:5-7) Sú biblíulega ráðstöfun að gera þá brottræka, sem iðrast ekki synda sinna eða útbreiða fráhvarfshugmyndir, er safnaðarmönnum vernd. (1. Kor. 5:9-13; Tít. 3:10, 11) Getum við búist við sömu, kærleiksríku verndinni þegar við höfum samneyti við aðra á Netinu?

13 Sumar vefsíður eru greinilega áróðurstæki fráhvarfsmanna þótt öðru sé haldið fram og þótt þeir sem standa fyrir þeim reyni kannski að færa ítarlegar sönnur fyrir því að þeir séu vottar Jehóva. Þess eru jafnvel dæmi að þeir óski eftir upplýsingum frá þér til að staðfesta að þú sért vottur Jehóva.

14 Jehóva vill að þú sýnir góða dómgreind. Af hverju? Af því að hann veit að það verndar þig gegn ýmsum hættum. Orðskviðirnir 2:10-19 hefjast á þessum orðum: „Því að speki mun koma í hjarta þitt, og þekking verða sálu þinni yndisleg. Aðgætni mun vernda þig, og hyggindin varðveita þig.“ Varðveita þig fyrir hverju? Meðal annars fyrir „vegi hins illa,“ fyrir þeim sem yfirgefa stigu einlægninnar og fólki sem almennt er siðlaust og undirförult.

15 Þegar við förum í ríkissalinn leikur enginn vafi á að við erum meðal bræðra. Við þekkjum þá. Enginn þarf að fá staðfestingu á því vegna þess að bróðurkærleikurinn er auðsær. Við þurfum ekki að sýna skilríki til að sanna að við séum raunverulegir vottar Jehóva og þar fáum við þá gagnkvæmu uppörvun sem Páll talar um í Hebreabréfinu 10:24, 25. Það er ekki hægt að reiða sig á að vefsíður, sem hvetja til félagsskapar við aðra á Netinu, veiti hana. Með því að hafa hugföst orðin í Sálmi 26:4, 5 getum við verið vakandi fyrir hættum sem svo auðvelt er að rata í á vefsíðum Netsins.

16 Engin takmörk né hömlur eru á því hvers konar upplýsingum hægt er að veita aðgang að á Netinu. Börn og unglingar eru oft auðveld bráð glæpamanna og annarra sem reyna að hafa þau að féþúfu í þessu umhverfi. Börn eru forvitin, græskulaus og áköf að kanna hinn tiltölulega nýja netheim. Foreldrar þurfa því að hafa umsjón með börnunum og gefa þeim góðar biblíulegar leiðbeiningar um Netið, alveg eins þeir myndu gera í sambandi við val á tónlist eða kvikmyndum. — 1. Kor. 15:33.

17 Því miður hefur þurft að víkja nokkrum bræðrum og systrum úr söfnuðinum vegna félagsskapar við veraldlega einstaklinga sem hófst á spjallrásum Netsins og leiddi um síðir til siðleysis. Öldungar hafa skrifað til Félagsins furðu lostnir og greint frá dæmum um fólk sem hefur meira að segja yfirgefið maka sinn vegna sambands sem hófst á Netinu. (2. Tím. 3:6) Sumir hafa sagt skilið við sannleikann vegna þess að þeir hafa trúað upplýsingum fráhvarfsmanna. (1. Tím. 4:1, 2) Í ljósi þessarar mjög svo raunverulegu hættu er skynsamlegt að gæta varúðar gagnvart spjallrásum Netsins. Það er vissulega vernd að sýna þá visku, þekkingu, aðgætni og hyggindi sem Orðskviðirnir 2:10-19 tala um.

18 Margir hafa bersýnilega útbúið vefsíður í því augnamiði að prédika fagnaðarerindið. Fyrirhyggjulausir bræður standa að mörgum þessara vefsíðna, og fráhvarfsmenn, sem vilja tæla grunlausa, kunna að standa fyrir öðrum. (2. Jóh. 9-11) Ríkisþjónusta okkar í nóvember 1997, bls. 3, fjallaði um það hvort ástæða væri til að bræður útbyggju slíkar vefsíður og sagði: „Það er engin þörf á því að nokkur einstaklingur útbúi vefsíður á internetinu um votta Jehóva, starfsemi eða trúarskoðanir okkar. Á hinu opinbera vefsetri okkar [www.watchtower.org] eru settar fram nákvæmar upplýsingar fyrir hvern sem vill fá þær.“

19 Námsgögn á Netinu? Sumir telja að þeir séu að gera bræðrum greiða með því að birta á Netinu guðræðislegt efni sem þeir hafa rannsakað og tekið saman. Sumir safna ítarefni við minnispunkta fyrir opinberan fyrirlestur og birta á Netinu af því að þeir telja að upplýsingarnar gætu orðið einhverjum að liði sem er að undirbúa sömu ræðu. Sumir birta alla ritningarstaði fyrir næsta Varðturnsnám eða ítarefni fyrir Guðveldisskólann eða safnaðarbóknámið. Aðrir koma með gagnlegar tillögur að kynningarorðum fyrir boðunarstarfið. Er virkilega gagn í þessu?

20 Ritin, sem skipulag Jehóva lætur í té, örva huga okkar með uppbyggilegu efni og þjálfa okkur í „að greina rétt frá röngu.“ (Hebr. 5:14) Getum við sagt að þau geri það ef aðrir rannsaka efnið fyrir okkur?

21 Berojumenn voru sagðir „veglyndari“ en Þessaloníkumenn. Af hverju? Af því að „þeir tóku við orðinu með allri góðfýsi og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið.“ (Post. 17:11) Enda þótt Páll og Sílas hafi prédikað fyrir þeim gátu þeir ekki tileinkað sér sannleikann án þess að kynna sér hann persónulega.

22 Það er ekki einkanám að nota í ræðu eða við samkomuundirbúning efni sem einhver annar hefur tekið saman. Langar þig ekki til að byggja upp trú þína á orð Guðs? Það gerir þér kleift að játa trú þína fyrir öðrum af sannfæringu í ræðum, svörum þínum á samkomum og í boðunarstarfinu. (Rómv. 10:10) Að nota það sem aðrir hafa tekið saman passar ekki við lýsinguna í Orðskviðunum 2:4, 5 um að ‚leita að og grafa eftir þekkingunni á Guði eins og fólgnum fjársjóðum.‘

23 Þegar þú flettir upp ritningarstöðum í biblíunni þinni geturðu rennt augum yfir samhengið. Þú getur ‚athugað allt kostgæfilega‘ eða af nákvæmni eins og Lúkas gerði þegar hann skrifaði guðspjall sitt. (Lúk. 1:3) Með því að leggja það á þig þjálfarðu þig líka í að fletta upp ritningarstöðum í boðunarstarfinu og við ræðuflutning. Margir hafa lýst hrifningu sinni á því hve vel vottar Jehóva eru heima í Biblíunni. Eina leiðin til að það geti átt við um þig persónulega er að temja þér að fletta upp ritningarstöðum í biblíunni þinni.

24 Notaðu tímann viturlega: Annað sem þarf að huga að er tíminn sem fer í að útbúa, lesa og svara upplýsingum sem berast um Netið. Í Sálmi 90:12 erum við hvött til að biðja: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Páll sagði: „Tíminn er orðinn stuttur.“ (1. Kor. 7:29) Og enn fremur: „Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“ — Gal. 6:10.

25 Þessar ráðleggingar undirstrika hve nauðsynlegt er að nota tíma sinn skynsamlega. Honum er miklu betur varið við að lesa orð Guðs en vafra um veraldarvefinn. (Sálm. 1:1, 2) Biblíulestur er besti félagsskapurinn sem við getum fundið. (2. Tím. 3:16, 17) Foreldrar, kennið þið börnum ykkar gildi þess að nota tímann viturlega í þágu Guðsríkis? (Préd. 12:1) Tími, sem notaður er til einka- og fjölskyldunáms, samkomusóknar og boðunarstarfs, gefur miklu meira af sér en sá tími sem varið er til að vafra um Netið í von um ávinning.

26 Það er viturlegt að einbeita sér að andlegum málum og því sem skiptir okkur máli sem kristna menn, og það útheimtir að við íhugum vel hvað verðskuldar tíma okkar og athygli. Kristur dró saman í eina setningu það sem mikilvægast er í lífi kristins manns: „Leitið fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matt. 6:33) Ertu ekki hamingjusamastur þegar líf þitt snýst um hagsmunamál Guðsríkis en ekki eitthvað annað?

27 Tölvupóstur á Netinu: Það er fullkomlega viðeigandi að ættingjar eða vinir, sem búa fjarri hver öðrum, skiptist á persónulegum hugleiðingum og því sem á daga þeirra hefur drifið. En er það í rauninni kærleiksríkt að senda slíkar upplýsingar til annarra sem þekkja ekki ættingja þína eða vini? Eða ætti að birta þær á vefsíðu þar sem allir geta lesið þær? Á að afrita þessar persónulegu upplýsingar og senda þær út um hvippinn og hvappinn til fólks sem þú þekkir kannski ekki? Og ef þér berst tölvupóstur frá öðrum, sem er greinilega ekki ætlaður þér, væri þá kærleiksríkt að senda hann áfram til annarra?

28 Hvað nú ef starfsfrásaga, sem þú sendir öðrum, er ekki alls kostar rétt? Værirðu þá ekki að útbreiða ósannindi? (Orðskv. 12:19; 21:28; 30:8; Kól. 3:9) Þetta er vissulega umhugsunarvert þar eð við viljum ‚hafa nákvæma gát á hvernig við breytum, ekki sem fávísir, heldur sem vísir.‘ (Ef. 5:15) Það er gleðiefni að Árbókin, Varðturninn og Vaknið! skulu vera full af staðfestum frásögum sem uppörva okkur og hvetja til að halda áfram að ganga ‚veginn.‘ — Jes. 30:20, 21.

29 Önnur hætta er einnig fyrir hendi. Páll postuli sagði að sumir ‚temdu sér iðjuleysi, rápandi hús úr húsi, ekki einungis iðjulausir heldur einnig málugir og hlutsamir og töluðu það sem eigi ber að tala.‘ (1. Tím. 5:13) Þetta mælir móti því að eyða tíma og kröftum í að senda ómerkilegar upplýsingar til bræðra.

30 Hugsaðu líka um allan þann tíma sem fer í að sinna miklum tölvupósti. Bókin Data Smog segir: „Þegar maður eyðir æ meiri tíma á Netinu fer nýjabrumið af tölvupóstinum og hann verður að tímafrekri byrði þar sem lesa þarf og svara tugum orðsendinga á degi hverjum frá samstarfsmönnum, vinum, ættingjum, . . . og auglýsendum.“ Og bókin bætir við: „Margir upplýsingafíklar hafa tamið sér þann leiðindaávana að senda hvern einasta fróðleiksmola sem þeim berst — brandara, sögusagnir, keðjubréf — til allra á netfangalista sínum.“

31 Borið hefur á þessu í tölvupósti sem dreift er til margra bræðra — efni á borð við brandara eða gamansögur um boðunarstarfið, ljóð sem eiga að byggjast á trú okkar, líkingar úr ýmsum ræðum sem fluttar hafa verið á mótum eða í ríkissalnum, starfsfrásagnir og svo framvegis — saklaust efni að því er virðist. Flestir senda slíkan tölvupóst áfram án þess að kanna hvaðan hann kemur sem gerir að verkum að erfitt er að vita hver hefur upphaflega sent hann. Það ætti að fá menn til að velta fyrir sér hvort upplýsingarnar séu áreiðanlegar. — Orðskv. 22:20, 21.

32 Slíkar orðsendingar eru oft ómerkilegar og flokkast ekki undir þau uppbyggilegu orð sem Páll hafði í huga þegar hann sagði Tímóteusi: „Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú.“ (2. Tím. 1:13) Hið ‚hreina tungumál‘ biblíulegra sanninda ber í sér ‚fyrirmynd hinna heilnæmu orða‘ sem byggjast fyrst og fremst á stefi Biblíunnar um réttlætingu drottinvalds Jehóva fyrir atbeina Guðsríkis. (Sef. 3:9, NW) Við ættum að leggja okkur fram um að verja öllum tiltækum tíma og kröftum til stuðnings því að réttlæta drottinvald Jehóva.

33 Það er langt liðið á endalokatímann og við megum alls ekki sofna á verðinum núna. Biblían varar við: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ (1. Pét. 5:8) Og hún bætir við: „Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.“ — Ef. 6:11.

34 Ef Netið er misnotað getur það orðið tæki í höndum Satans til að véla fólk. Enda þótt Netið hafi ákveðið notagildi er hætta á ferðinni sé varúðar ekki gætt. Foreldrar þurfa sérstaklega að fylgjast með Netnotkun barna sinna.

35 Öfgalaust viðhorf til Netsins er vernd. Við kunnum að meta tímabæra áminningu Páls: „Þeir sem nota heiminn, [séu] eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt. Því að heimurinn í núverandi mynd líður undir lok.“ (1. Kor. 7:29-31) Að hafa þetta hugfast kemur í veg fyrir að við og fjölskyldur okkar látum allt sem heimurinn hefur upp á að bjóða, meðal annars á Netinu, leiða okkur afvega.

36 Það er brýnt að halda sér nærri bræðrunum í söfnuðinum og nota viturlega tímann, sem eftir er, til að efla enn frekar hagsmuni Guðsríkis. Þetta heimskerfi er að syngja sitt síðasta. Við skulum því „ekki framar hegða [okkur] eins og heiðingjarnir hegða sér í hégómleik hugskots síns,“ heldur halda áfram að ‚reyna að skilja hver sé vilji Jehóva.‘ — Ef. 4:17; 5:17, Biblían 1912.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila