„Vakið!“
1 Þegar Jesús hafði lýst þeim stórbrotnu atburðum er marka myndu síðustu daga þessa heimskerfis hvatti hann lærisveina sína til að ‚vaka.‘ (Mark. 13:33) Hvers vegna þurfa kristnir menn að vera vakandi? Vegna þess að við lifum á mestu háskatímum mannkynssögunnar. Við megum ekki við því að láta okkur syfja andlega því að þá hættum við að vinna það starf sem Jehóva hefir falið okkur á endalokatímanum. Hvaða starf er það?
2 Jehóva lætur fólk sitt boða um alla jörðina það fagnaðarerindi að Guðsríki sé eina von mannkyns. Við sýnum að við erum sannkristin með því að vinna náið með skipulagi Guðs og með því að vera vakandi fyrir því á hvaða tímum við lifum og fyrir nauðsyn þess að færa öðrum „orð eilífs lífs.“ (Jóh. 6:68) Kostgæfni okkar í þessu þýðingarmikla starfi er vísbending um að við séum andlega vakandi.
3 Knúin til að prédika: Þar eð við erum vottar Jehóva ættum við að vera jákvæð gagnvart boðunarstarfinu. Kærleikur til Guðs og náungans knýr okkur til að prédika. (1. Kor. 9:16, 17) Þannig gerum við sjálf okkur hólpin og áheyrendur okkar. (1. Tím. 4:16) Verum staðráðin í að segja öðrum frá bestu stjórninni sem mannkyninu stendur til boða — stjórn Guðsríkis. Tökum eins reglulega þátt í þessu boðunarstarfi og við getum og eins lengi og þarf.
4 Það ríður á að við prédikum. Sú staðreynd að þrengingin mikla brýst út meðan við erum enn að sinna þessu starfi minnir okkur rækilega á það. Við þurfum að vera bænrækin, reiða okkur á Jehóva og vera árvökur og viðbúin öllum stundum því að við vitum ekki daginn eða stundina. (Ef. 6:18) Prédikunarstarfið verður sífellt umfangsmeira. En einn góðan veðurdag nær mesta vitnisburðarstarf mannkynssögunnar hámarki.
5 Fylgjum trúföst skipun Jesú um að ‚vaka‘ því að núna ríður meira á því en nokkru sinni fyrr. Sýnum að mikið liggi á. Verum andlega árvökur og virk í þjónustu Jehóva hvern einasta dag. Já, „vökum og verum algáðir.“ — 1. Þess. 5:6.