Brautryðjandastarf á unglingsárunum
1 Árið 1991 sóttu 48 nemendur Brautryðjandaskólann í Bangui, höfuðborg Mið-Afríkulýðveldisins. Tuttugu og einn nemendanna var enn í grunnskóla. Þeir notuðu helgar, síðdegi, frídaga og sumarfrí til brautryðjandastarfsins. Er þetta aðeins hægt í Afríku?
2 Nei, að sjálfsögðu ekki. Unglingar hvar sem er geta verið brautryðjendur samhliða skólanámi ef þeir láta anda Jehóva hafa áhrif á sig. Brautryðjandastarf er ekki aðeins fyrir þau lönd þar sem vöxtur er mikill. Vöxturinn verður því meiri sem brautryðjendurnir eru fleiri og brautryðjandastarfið er afbragðsleið til að sýna að maður kunni að meta sannleikann. Jehóva gleðst mjög þegar unglingar bjóða sig fram til þjónustu. — Sálm. 110:3.
3 Hvað er til ráða ef þig skortir löngun til að gerast brautryðjandi? Ungur bróðir segir: „Fyrir ári þurfti ég . . . að spyrja sjálfan mig hvort ég væri sannfærður um sannleikann. Ég velti fyrir mér hvort ég væri í sannleikanum vegna þess að ég elskaði hann í raun og veru eða vegna fjölskyldu minnar. Ég rannsakaði Biblíuna gaumgæfilega [eins og mér hafði verið bent á að gera] til að komast að því. Nú get ég feginn sagt að ég hef tileinkað mér sannleikann og hlakka til að þjóna í fullu starfi.“
4 Athygli vekur að margir brautryðjendur segjast hafa byrjað í brautryðjandastarfi af skyldurækni við Jehóva fremur en af löngun. Aðstæður þeirra voru góðar og þeir byrjuðu á unglingsaldri. Margir eru brautryðjendur enn og segja að löngunin og gleðin hafi kviknað fljótt vegna reynslunnar sem þeir öðluðust og blessunarinnar sem féll þeim í skaut. Að sögn margra hefur brautryðjandastarfið veitt þeim bestu menntunina sem völ er á. — 1. Kor. 9:16.
5 Ef þú býrð enn í foreldrahúsum eða ert ófullveðja þarftu auðvitað að ræða áform þín við foreldrana. Leiddu þeim fyrir sjónir að þér sé alvara, að þú hafir hugsað málið vandlega og lagt það fyrir Jehóva í bæn. Hlustaðu á ráðleggingar þeirra. Gerið í sameiningu áætlun sem tekur mið af skólastundaskrá þinni eða gerir þér fært um að sjá þér sómasamlega farborða. Ræddu áform þín við farandhirðinn næst þegar hann heimsækir söfnuðinn. — Orðskv. 15:22.
6 Til að vera útnefndur reglulegur brautryðjandi þarf boðberi að vera til fyrirmyndar og skírður í sex mánuði. Búðu þig undir það með því að vera aðstoðarbrautryðjandi í nokkra mánuði, til dæmis þegar starfsátak er í gangi í söfnuðinum eða í sumarfríinu. Þegar þú hefur komið góðu jafnvægi á boðunarstarfið geturðu sótt um reglulegt brautryðjandastarf en þar er starfstímaskyldan 70 klukkustundir á mánuði. Fáðu annan brautryðjanda til að hjálpa þér að gera starfsstundaskrá sem tekur mið af aðstæðum þínum. Sé þjónustan fjölbreytt er tiltölulega auðvelt að ná tímatakmarki reglulegra brautryðjenda.
7 Mörg spennandi verkefni standa ungu fólki til boða innan skipulags Jehóva og reglulegt brautryðjandastarf er oft fyrsta skrefið. Þar má til dæmis nefna Betelþjónustu. Duglegir, reglulegir boðberar, sem náð hafa 19 ára aldri, geta sótt um að þjóna á Betel, og brautryðjandastarf er mjög góður stökkpallur að Betelþjónustu. Mikil þörf er á bræðrum og systrum í þýðingadeildina og ungt fólk er sérstaklega hvatt til að leggja sig fram við ensku- og íslenskunám í skóla svo að það geti boðið fram krafta sína. Betelþjónusta er skemmtileg og gefandi ekkert síður en brautryðjandastarf.
8 Hugleiddu málið vandalega, leggðu það fyrir Jehóva í bæn og reiddu þig á hann. (Mal. 3:10) Ef þú ert unglingur og vilt gera líf þitt innihaldsríkt og tilgangsríkt, ef þú vilt sýna Jehóva þakklæti þitt í verki og jafnframt vera öðrum til gagns, þá er brautryðjandastarfið tilvalið fyrir þig.