Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 8.00 bls. 3-4
  • Gerðu það sem þér er gagnlegt

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Gerðu það sem þér er gagnlegt
  • Ríkisþjónusta okkar – 2000
  • Svipað efni
  • Við söfnumst saman til að tilbiðja Guð
    Ríki Guðs stjórnar
  • Unga fólkið hefur gagn af samkomunum
    Ríkisþjónusta okkar – 2000
  • Samkomur sem hvetja til kærleika og góðra verka
    Vottar Jehóva — sameinaðir í að gera vilja Guðs um allan heim
  • Höfum fullt gagn af samansöfnunum fyrir boðunarstarfið
    Ríkisþjónusta okkar – 2006
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 2000
km 8.00 bls. 3-4

Gerðu það sem þér er gagnlegt

1 Milljónir manna þrá að vita hvernig þær geta yfirstígið vandamál og lifað hamingjusömu lífi, og sökkva sig niður í sjálfshjálparbækur eða leita ráða hjá samtökum og hópum í von um að geta gert það. Sumum hefur kannski tekist að bæta líf sitt í einhverjum mæli, en miðað við lífsgæði fólks almennt er tæpast hægt að segja fræðsluáætlanir manna hafi kennt því að lifa friðsömu og tilgangsríku lífi. — 1. Kor. 3:18-20.

2 Skaparinn býður aftur á móti öllum, sem vilja, ókeypis og gagnlega fræðslu og vill að allir njóti góðs af henni. Hann hefur af örlæti sínu gefið mannkyni innblásið orð sitt til leiðsagnar í ráðvendni og séð til þess að fagnaðarerindið sé boðað um alla heimsbyggðina. (Sálm. 19:8, 9; Matt. 24:14; 2. Tím. 3:16) Sönn lífshamingja er nátengd því að gefa gaum að boðorðum hans. — Jes. 48:17, 18.

3 Leiðsögn Jehóva er miklu fremri leiðbeiningum sem sjálfshjálparbækur eða sjálfsbetrunaráætlanir heimsins bjóða upp á. Ef við nýtum okkur til fulls kennslu Jehóva í Biblíunni og fyrir atbeina skipulags hans veitist okkur úrvalshjálp sem við getum haft varanlegt gagn af. — 1. Pét. 3:10-12.

4 Hafðu gagn af safnaðarsamkomunum: Jehóva sýnir okkur ósvikinn áhuga með því að kenna okkur vegi sína og við njótum góðs af ef við gefum gaum að kennslunni. Hinar fimm vikulegu samkomur eru merki um ástúðlega umhyggju hans. Þekking okkar á honum vex ef við sækjum þær. Við lærum hvernig við getum varist hinu illa með því að nálægja okkur Jehóva. Þannig fáum við uppörvun.

5 Og ekki aðeins það. Á samkomunum getum við ‚látið verða rúmgott hjá okkur‘ með því að kynnast öðrum safnaðarmönnum. (2. Kor. 6:13) Við njótum góðs af gagnkvæmri uppörvun eins og Páll postuli skrifaði um í Rómverjabréfinu. (Rómv. 1:11, 12) Þegar hann skrifaði Hebreum áminnti hann harðlega þá sem höfðu fallið í það far að vanrækja kristnar samkomur. — Hebr. 10:24, 25.

6 Lífsgleðin er nátengd áhuga okkar á velferð annarra og við erum hvött til að reyna að stuðla að hamingju þeirra. Kristnar samkomur eru okkur greinilega til gagns og þeim til góðs sem við umgöngumst náið. Við þurfum að taka heilshugar þátt í þeim.

7 Páll postuli tók í svipaðan streng er hann ráðlagði Tímóteusi: „Æf sjálfan þig í guðhræðslu.“ (1. Tím. 4:7) Spyrðu þig hvort þú sért að æfa sjálfan þig og hvort þú notfærir þér það sem þú heyrir á safnaðarsamkomum. Þú svarar hvoru tveggja játandi ef þú gefur gaum að því sem fram fer á samkomunum og reynir að fara eftir því. Við þurfum að horfa lengra en til bræðranna, sem annast kennsluna, og sjá með augum trúarinnar að það er Jehóva sem fræðir þjóna sína. — Jes. 30:20.

8 Guðveldiskólinn og þjónustusamkoman: Þessar tvær samkomur leitast við að gera okkur skilvirk í boðunarstarfinu. Eins og nafnið gefur til kynna er Guðveldiskólinn skóli þar sem nemendur fá tilsögn og ráðleggingar á reglulegum grundvelli. Þar færðu tækifæri til að taka framförum sem ræðumaður og kennari orðsins. En til að hafa sem mest gagn af skólanum þarftu að láta innrita þig, sækja hann, taka þátt í honum að staðaldri og leggja þig fram við verkefnin. Með því að þiggja ráðleggingar og fara eftir þeim tekurðu framförum.

9 Þjónustusamkoman leggur áherslu á mikilvægi boðunarstarfsins og sýnir okkur hvernig við getum tekið þátt í því að gera menn að lærisveinum. Nýtur þú og fjölskylda þín góðs af því að sækja þessar tvær samkomur? Kristin hjón segja: „Á einni þjónustusamkomu voru fjölskyldur hvattar til að íhuga dagstextann saman. Það höfðum við ekki gert, en gerum nú.“ Hvernig hefur það gagnast þeim? Þau segja: „Samræðurnar við matarborðið eru miklu ánægjulegri. Við þráttum ekki lengur á matmálstímum.“ Hafa börnin gagn af samkomunum? Já. Móðirin segir: „Það er greinilegt að samkomurnar hafa mikil áhrif á börnin okkar. Einu sinni stóðum við sex ára son okkar að því að segja ósatt. Í sömu vikunni fjallaði kennsluræðan um lygar. Stráksi horfði skömmustulegur á pabba sinn og varð heldur rislágur í sætinu. Hann hafði lært sína lexíu og við áttum ekki í vandræðum með þetta framar.“

10 Brautryðjandasystir kveðst ánægð að fá tillögur á þjónustusamkomunni um að bæta boðunarstarfið. Hún segir: „Ég hjakka stundum í sama hjólfarinu. Stundum hugsa ég að tillögur í Ríkisþjónustu okkar komi ekki að gagni. En þá heyri ég hvatningu á þjónustusamkomunni um að reyna að nota þær svo að ég fyllist eldmóði gagnvart því og boðunarstarfið verður spennandi.“ Nokkrum vikum eftir að hún byrjaði að fylgja tillögu um að koma af stað biblíunámskeiði í fyrstu heimsókn tókst henni það hjá stúlku sem hafði verið að biðja um hjálp í bæn.

11 Þegar þú hlustar á biblíulega ræðu um valfrelsi, finnst þér þá eins og Jehóva sé að tala beint til þín? Það fannst bróður nokkrum. Hann segir: „Nýverið flutti bróðir ræðu á samkomu um hvað væri viðeigandi afþreying fyrir kristna menn og hvað óviðeigandi. Mér hafði fundist gaman að hnefaleikum í sjónvarpinu, en eftir þessa samkomu sá ég að sú íþrótt taldist til afþreyingar sem var óviðeigandi fyrir kristna menn. Ég horfi því ekki lengur á þá.“ Bróðirinn brást auðmjúkur við leiðsögn Jehóva þótt hann hafði leyft sér að hafa dálæti á ofbeldi. — Sálm. 11:5.

12 Opinbera samkoman, Varðturnsnámið og safnaðarbóknámið: Opinberu fyrirlestrarnir taka á fjölbreyttu biblíuefni í hverri viku. Hvaða gagn hefurðu haft af því að hlýða á þá? Kristinn eiginmaður svarar: „Einn fyrirlestur fjallaði um alla ávexti andans. Ræðumaðurinn sagðist sjálfur reyna að rækta þá í fari sínu með því að velja einn eiginleika og vinna að honum í vikutíma. Þegar vikan var á enda hugleiddi hann hvernig hafði til tekist að sýna þennan ávöxt í daglegu starfi. Síðan vann hann að öðrum eiginleika næstu vikuna. Mér fannst hugmyndin góð og notfærði mér hana.“ Já, hann notaði það sem hann lærði.

13 Varðturnsnámið kennir okkur hvernig megi heimfæra meginreglur Biblíunnar á ýmsar aðstæður og halda rónni þrátt fyrir áhyggjur lífsins. Það hjálpar okkur einnig að vera samstíga hinu vaxandi sannleiksljósi. Fannst þér til dæmis ekki námsgreinarnar „Þetta á að verða,“ „Lesandinn athugi það“ og „Vertu árvakur og iðjusamur“ í Varðturninum 1. júní 1999 gagnlegar? Hvað áhrif höfðu þær á þig? Sýnirðu að þú tekur viðvörun Jesú um framtíðina alvarlega? Ertu að búa þig undir prófraunirnar framundan þegar ‚viðurstyggð eyðingarinnar stendur á helgum stað‘? (Matt. 24:15-22) Sýna markmið þín og líf þitt að helgun nafns Jehóva skiptir þig mestu máli en ekki öflun efnislegra eigna? Varðturnsnámið kennir okkur að gera það sem okkur er gagnlegt.

14 Hugleiddu hve mikið við lærum í safnaðarbóknáminu í hverri viku. Um þessar mundir erum við að fara yfir Daníelsbók. Hefur trú þín ekki eflst vikulega þá fjóra mánuði sem við höfum numið hana? Líkt og Daníel, ástkær spámaður Jehóva, styrkjum við trúna svo að við getum sýnt þolgæði.

15 Jehóva kennir okkur að vera glöð: Við forðumst alls konar hugarangur þegar við gefum gaum að boðorðum Guðs. Það sem meira er, við kynnumst því hvað það þýðir að lifa gleðiríku lífi. Þegar við fylgjum forystu Jehóva verðum við þátttakendur í verki hans en ekki aðeins áhorfendur. Og þeir sem vinna verk hans eru sælir. — 1. Kor. 3:9; Jak. 1:25.

16 Hugleiddu af alvöru hvernig þú getur fylgt því sem þú lærir á safnaðarsamkomum. (Jóh. 13:17) Þjónaðu Guði kostgæfilega af öllu hjarta. Gleði þín verður mikil og líf þitt auðugra og tilgangsríkara. Þú ert að gera það sem þér er gagnlegt.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila