Spurningakassinn
◼ Hvers vegna er gagnlegt fyrir áheyrendur að fletta upp ritningarstöðum þegar ræðumaður hvetur þá til þess?
Misjafnt er hve mörgum ritningarstöðum áheyrendur eru hvattir til að fletta upp. Það fer meðal annars eftir efni ræðunnar og því hvort verið er að fara yfir biblíukafla vers fyrir vers.
Höfum hugfast að tilgangurinn með því að fletta upp ritningarstöðum er annars vegar sá að staðfesta að það sem verið er að segja standi í Biblíunni og hins vegar að skoða hin biblíulegu rök að baki fullyrðingunum svo að trú okkar styrkist. (Post. 17:11) Það er mun áhrifameira að sjá orð Biblíunnar með eigin augum þegar lykilritningarstaður er lesinn. Auk þess að fletta upp ritningarstöðum er gagnlegt að skrifa hjá sér minnispunkta og fylgjast vel með framsetningu efnisins.
Þótt vísað sé í margar ritningargreinar í ræðudrögum Félagsins ber að hafa í huga að þeim er ætlað að auðvelda ræðumanni undirbúninginn, veita honum nánari upplýsingar svo að hann sjái greinilega hvaða meginreglur Biblíunnar búa að baki og skilji hvernig efnið er útfært. Hann ákveður síðan hvaða ritningargreinar skipta máli við úrvinnslu efnisins og hvetur áheyrendur til að fletta þeim upp áður en hann les þær og útskýrir. Hann getur minnst á eða lesið aðra ritningarstaði eftir því sem hann telur eiga við en áheyrendur þurfa ekki endilega að fletta þeim upp.
Ræðumaður á að lesa valdar ritningargreinar beint upp úr Biblíunni en ekki styðjast við tölvuútprentun, og taka skýrt fram í hvaða biblíubók þær eru og tilgreina kafla og vers. Ef hann varpar fram spurningu eða útskýrir stuttlega hvers vegna lesa eigi ritningargreinina gefst áheyrendum færi á að fletta henni upp. Hann auðveldar þeim að muna tilvísunina ef hann endurtekur hana. Orð Guðs er kröftugt og áheyrendur njóta góðs af ef þeir fletta upp ritningarstöðum þegar þeir eru útskýrðir í ræðum. — Hebr. 4:12.