Óttastu Jehóva allan liðlangan daginn
1 „Upphaf speki er ótti [Jehóva].“ (Sálm. 111:10) Guðsótti kemur okkur til að vinna góð verk og forðast hið illa. (Orðskv. 16:6) Hann er óttablandin lotning fyrir skaparanum sem kemur í veg fyrir að við misþóknumst honum og óhlýðnumst. Við þurfum að glæða með okkur guðsótta og sýna hann allan liðlangan daginn. — Orðskv. 8:13.
2 Við erum daglega undir gífurlegum þrýstingi frá heimi Satans til að fylgja illum vegum hans. (Ef. 6:11, 12) Syndugt og ófullkomið hold okkar hneigist að því sem illt er. (Gal. 5:17) Við þurfum því að óttast Jehóva allan liðlangan daginn ef við ætlum að hlýða boðum hans, vera hamingjusöm og öðlast líf. — 5. Mós. 10:12, 13.
3 Hebreabréfið 10:24, 25 hvetur okkur til að safnast saman og uppörva hvert annað, og „því fremur“ í ljósi tímanna sem við lifum. Regluleg samkomusókn er bráðnauðsynleg ef við ætlum að þrauka hina síðustu daga. Óttinn við að misþóknast Guði fær okkur til að sækja samkomur og meta þær að verðleikum. Þeir sem óttast Guð álíta það heilög sérréttindi að taka þátt í samkomunum.
4 Guðsótti birtist líka í hlýðni við boðið um að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki. (Matt. 28:19, 20; Post. 10:42) Helsta markmið boðunarstarfsins er að kenna öðrum að óttast Jehóva og lúta vilja hans. Við gerum það með því að fara í endurheimsóknir, reyna að koma af stað heimabiblíunámskeiðum og kenna fólki síðan öll boð Guðs. Þannig sýnum við guðsótta og náungakærleika. — Matt. 22:37-39.
5 Þeir sem óttast ekki Guð kunna ekki að meta það sem andlegt er og verða banvænu andrúmslofti eða hugarfari heimsins að bráð. (Ef. 2:2) Verum staðráðin í að „þjóna Guði . . . með lotningu og ótta.“ (Hebr. 12:28) Þá hljótum við blessunina sem veitist þeim er óttast Jehóva allan liðlangan daginn.