„Gjafir í mönnum“ — fúsir hirðar hjarðar Guðs
1 Jehóva hefur látið í té kærleiksríka hjálp fyrir milligöngu sonar síns — ‚gjafir í mönnum.‘ (Ef. 4:8, 11, 12, NW) Þeir gegna margvíslegum skyldum, meðal annars þeirri að gæta hjarðar Guðs dyggilega og með fúsu geði. (1. Pét. 5:2, 3) Við njótum öll góðs af þessari þörfu ráðstöfun, enda er þeim mjög umhugað um andlega velferð okkar allra, hvort sem við eigum við erfiðleika að stríða, erum ný í trúnni, glímum við veikleika eða höfum leiðst afvega. — Fil. 2:4; 1. Þess. 5:12-14.
2 Þegar uggvænlegir heimsatburðir valda okkur beyg eru þessir undirhirðar eins og „hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum.“ Þegar við erum þreytt eða höfum þungar byrðar og erum hvatningarþurfi hressa þeir okkur „sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.“ — Jes. 32:2.
3 Þeir hvetja óvirka: Öldungarnir leggja sig sérstaklega fram um að hvetja og uppörva þá sem hafa orðið óreglulegir eða óvirkir og hjálpa þeim að taka aftur reglulega þátt í allri starfsemi safnaðarins. Með kærleiksríkum hirðisheimsóknum hafa öldungarnir hjálpað mörgum til að sækja safnaðarsamkomur að staðaldri og byggja sig upp andlega svo að þeir geti tekið þátt í boðunarstarfinu á ný. Öll þessi viðleitni öldunganna endurspeglar ástríka umhyggju Jehóva og virka forystu Jesú Krists. Hann gaf fyrirmyndina að því að sýna villuráfandi eða týndum sauðum umhyggju. — Matt. 18:12-14; Jóh. 10:16, 27-29.
4 Undirhirðarnir fylgjast með vísbendingum um að einhverjum fari aftur andlega. Þeir sem virðast niðurdregnir eða kjarklitlir, fara að sækja samkomur óreglulega eða hægja á sér í boðunarstarfinu eru líklega andlega hjálparþurfi. Öldungarnir vilja gjarnan hjálpa þeim sem byrja að endurspegla veraldlegt hugarfar í klæðaburði og snyrtingu eða verða gagnrýnir á söfnuðinn. Umhyggjusamir öldungar gefa fúslega ‚eigið líf‘ til að reyna að glæða á ný elsku þeirra til Jehóva og þeir gera það af ósviknum áhuga og kærleiksþeli. — 1. Þess. 2:8.
5 Sumir vígðir kristnir menn hafa misst samband við söfnuðinn og orðið óvirkir andlega vegna þess að þeir hafa látið heilsubrest, fjárhagserfiðleika eða þrýsting frá fjölskyldunni buga sig. Öldungarnir gagnrýna þá ekki heldur fullvissa þá vingjarnlega um að Jehóva beri umhyggju fyrir öllum sauðum sínum og haldi þeim uppi á erfiðleikatímum. (Sálm. 55:23; 1. Pét. 5:7) Árvökulir hirðar hjarðarinnar geta leitt þeim fyrir sjónir að ‚Guð nálgist þá ef þeir nálægja sig honum,‘ og huggi þá og hressi. — Jak. 4:8; Sálm. 23:3, 4.
6 Þeir meta heilsuveila boðbera að verðleikum: Kærleiksríkum undirhirðum er líka umhugað um þá sem gætu orðið út undan. Í öllum söfnuðum má finna einhverja sem eru heilsuveilir, búa á hjúkrunarheimili eða eru ófærir um að hjálpa sér sjálfir. Aðstæður takmarka skiljanlega þátt þeirra í boðunarstarfinu. Ef til vill gefst þeim aðeins tækifæri til að vitna fyrir gestum, öðrum sjúklingum eða hjúkrunarfólki. Samt sem áður er það sem þeir geta gert mikilsvert framlag til boðunarstarfsins í heild. (Matt. 25:15) Jafnvel þótt þeir vitni í aðeins 15 mínútur ættu þeir að greina frá því og þeir verða taldir með sem reglulegir boðberar Guðsríkis.
7 Hirðar hjarðarinnar eru sérstaklega vakandi fyrir andlegum þörfum bræðranna á þessum árstíma, er dregur að minningarhátíðinni. Þá er kjörið fyrir öldungana að gera sérstakt átak og hjálpa öllum, sem hafa villst af leið, til að öðlast aftur þá gleði og þann hugarfrið sem fylgir nánu samneyti við söfnuðinn. Við fögnum að sjá þessa ‚trúbræður‘ á safnaðarsamkomum og í boðunarstarfinu þar sem þeir staðfesta trú sína á lausnarfórnina. — Gal. 6:10; Lúk. 15:4-7; Jóh. 10:11, 14.