Náðu til fólks!
1 Til að prédika og gera aðra að lærisveinum eins og okkur er falið verðum við að miðla upplýsingum til annarra. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Tjáskipti geta verið erfið jafnvel á milli vina. Hvað getur hjálpað okkur að ná til fólks þegar við boðum fagnaðarerindið?
2 Ókunnugur verður vinur: Reyndu að setja þig í spor þeirra sem þú kemur að máli við í boðunarstarfinu. Í nútímaheimi er skiljanlegt að sumir séu tortryggnir eða jafnvel hræddir við ókunnuga. Og það getur komið í veg fyrir að við náum til fólks. Það er eðlilegt að það sé svolítill uggur í fólki þegar það hittir þig í fyrsta sinn. Hvernig getur þú dregið úr þeirri tilfinningu? Jafnvel áður en við segjum orð er látlaust persónulegt útlit okkar ein leiðin til að ná til fólks. Smekklegur klæðaburður okkar og róleg framkoma sefar ótta. — 1. Tím. 2:9, 10.
3 Annað sem auðveldar okkur að ná til fólks er róleg, vingjarnleg framkoma. Hún hefur róandi áhrif á aðra og þá langar frekar til að hlusta. Góður undirbúningur er nauðsynlegur að þessu leyti. Þegar við höfum skýrt í huga hvað við ætlum að segja verðum við ekki eins taugaóstyrk. Og þessi rólega framkoma okkar getur laðað aðra að því sem við erum að boða. Kona nokkur sagði þetta um heimsókn votts: „Það sem ég man eftir var friðurinn sem lék um brosandi andlit hennar. Ég fékk áhuga.“ Þetta varð til þess að konan fór að hlusta á fagnaðarerindið.
4 Aðlaðandi eiginleikar: Við þurfum að hafa einlægan persónulegan áhuga á öðrum. (Fil. 2:4) Ein leiðin til þess er að tala ekki eingöngu sjálf. Reyndar er hlustun líka hluti af samræðum. Þegar við bjóðum viðmælendum okkar að tjá sig og hlustum með áhuga á athugasemdir þeirra finna þeir að okkur er umhugað um þá. Þegar því viðmælendur þínir tala vertu þá ekki að flýta þér að halda áfram með kynninguna sem þú varst búinn að undirbúa. Hrósaðu þeim af einlægni ef þú getur gert það og reyndu að byggja athugasemdir þínar á því sem þeir segja. Ef athugasemdir þeirra láta í ljós eitthvað sem þeim liggur á hjarta skaltu aðlaga kynninguna að því.
5 Lítillæti og auðmýkt liðkar fyrir því að við náum til fólks. (Orðskv. 11:2; Post. 20:19) Fólk laðaðist að Jesú af því að hann var „hógvær og af hjarta lítillátur.“ (Matt. 11:29) Yfirlæti fælir fólk aftur á móti frá. Enda þótt við séum fullkomlega sannfærð um að við þekkjum sannleikann er viturlegt af okkur að virka ekki einstrengingsleg.
6 Hvað er til ráða ef athugasemdir manneskjunnar endurspegla trú sem samræmist ekki því sem stendur í Biblíunni? Ber okkur skylda til að leiðrétta hana? Já, þegar þar að kemur en við þurfum ekki að reyna að gera það í fyrstu heimsókninni. Oftast borgar það sig að byggja á hugmyndum sem við eigum sameiginlegar með viðmælandanum áður en við kynnum biblíulegar kenningar sem hann ætti erfiðara með að samþykkja. Þetta krefst þolinmæði og háttvísi. Páll setti gott fordæmi að þessu leyti þegar hann vitnaði fyrir dómurunum á Aresarhæð. — Post. 17:18, 22-31.
7 Umfram allt mun óeigingjarn kærleikur hjálpa okkur að ná til fólks. Líkt og Jesús verðum við að kenna í brjósti um menn sem eru „hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ (Matt. 9:36) Það knýr okkur til að flytja þeim fagnaðarerindið og hjálpa þeim til að komast á veginn til lífsins. Boðskapur okkar er kærleiksboðskapur. Höldum því áfram að segja frá honum á kærleiksríkan hátt. Þannig getum við líkt eftir Jehóva Guði og Jesú Kristi — sem eru öllum fremri í að ná til fólks.