Kennum öðrum hið hreina tungumál
1 Þó að vottar Jehóva séu af „alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum“ eru þeir sameinaðir, sannkallað alþjóðabræðralag. (Opinb. 7:9) Slíkt er einstakt í sundruðum heimi nútímans. Hvernig er það hægt? Það er hægt vegna þess að okkur hefur verið gefið „nýtt, hreint tungumál.“ — Sef. 3:9, NW.
2 Óviðjafnanleg áhrif: Hvaða hreina tungumál er þetta? Það er réttur skilningur á sannleikanum í orði Guðs um Jehóva og fyrirætlanir hans, einkum sannleikanum um Guðsríki. Eins og Jesús sagði fyrir, er sýnileg jarðnesk boðleið notuð, ‚hinn trúi og hyggni þjónn,‘ til þess að koma þessum sannleika á framfæri. Árangurinn er sá að fólk „af þjóðum ýmissa tungna“ tekur upp sanna tilbeiðslu. — Matt. 24:45; Sak. 8:23.
3 Þegar fólk lærir þetta hreina tungumál finnur það hjá sér löngun til að laga líf sitt að lífsreglum Jehóva. Það lærir að vera ‚fullkomlega sameinað í sama hugarfari og í sömu skoðun.‘ (1. Kor. 1:10) Kennsla Guðs fær fólk líka til að vera til fyrirmyndar í hegðun og til að tala um það sem er satt og heilnæmt, einkum í tengslum við boðun fagnaðarerindisins. (Tít. 2:7, 8; Hebr. 13:15) Þessar stórkostlegu breytingar eru Jehóva til lofs.
4 Tökum dæmi: Maður nokkur bar fram margar spurningar þegar hann heyrði fagnaðarerindið og fékk svör við þeim öllum út frá Biblíunni. Það sem hann heyrði varð til þess að hann fór að kynna sér Biblíuna með aðstoð vottanna tvisvar í viku og sækja samkomur. Það kom honum á óvart hvað hann fékk hlýjar móttökur í ríkissalnum þar sem margir viðstaddra voru af öðrum kynstofni en hann. Á skömmum tíma gerðu maðurinn og eiginkona hans breytingar á lífi sínu og létu skírast. Síðan þá hefur hann hjálpað um 40 manns að þjóna Jehóva, þar á meðal mörgum ættingjum sínum. Nýlega fór hann að starfa sem brautryðjandi þótt hann hafi skerta starfsorku.
5 Að kenna öðrum: Heimsviðburðirnir hafa fengið margt heiðarlegt fólk til að endurmeta líf sitt og hugsunarhátt. Okkur ætti að langa til að hjálpa þessu fólki, eins og Jesús gerði. Árangursríkar endurheimsóknir og biblíunámskeið eru forsenda þess að hægt sé að hjálpa einlægu fólki að læra hið hreina tungumál.
6 Til að ná til fólks, sem er önnum kafið, hefur reynst vel að kenna því stuttlega í dyragættinni. (km 5.02 bls. 1) Hefur þú reynt það? Þegar þú undirbýrð þig fyrir endurheimsókn skaltu velja kynningu, sem höfðar til húsráðandans, úr viðauka Ríkisþjónustunnar frá janúar 2002. Margar kynninganna í viðaukanum eru hugsaðar þannig að þær leiði beint til umræðna út frá Kröfubæklingnum eða Þekkingarbókinni. Æfðu kynninguna svo að þú getir auðveldlega tengt innganginn við umræður um eina efnisgreinina. Veldu einn til tvo ritningarstaði úr henni til að lesa og fjalla um, og hafðu svo spurningu fyrirfram í huga sem þú getur borið fram í lokin. Það auðveldar þér að byrja strax á þeirri efnisgrein sem þú hyggst ræða um í næstu heimsókn.
7 Fólk Jehóva nýtur mikillar blessunar vegna þess að það hefur lært hið hreina tungumál. Við skulum vera iðin við að hjálpa öðrum að ‚ákalla nafn Drottins og þjóna honum einhuga‘ með okkur. — Sef. 3:9.