Höldum tilbeiðslustað okkar vel við
1. Hvaða tilgangi þjónar ríkissalurinn?
1 Söfnuðir Votta Jehóva eru yfir 94.000 í heiminum. Flestir koma saman í ríkissal til biblíunáms og félagsskapar. Ríkissalurinn er miðstöð sannrar tilbeiðslu á svæðinu.
2. Hvers vegna er mikilvægt að halda ríkissalnum hreinum og frambærilegum?
2 Reguleg ræsting: Það er mikilvægur þáttur í heilagri þjónustu okkar að ræsta ríkissalinn reglulega. Bókin Organized to Accomplish Our Ministry (Þjónustubókin) segir á bls. 61-2: „Bræðurnir ættu að líta á það sem sérréttindi að styðja rekstur ríkissalarins fjárhagslega og bjóða fram krafta sína til að halda honum hreinum og frambærilegum og sjá um að honum sé vel við haldið. Ríkissalurinn ætti að vera skipulagi Jehóva til sóma, bæði utan húss og innan.“ Þar sem ríkissalurinn er notaður nokkrum sinnum í viku þarf að ræsta hann reglulega og halda honum við að öðru leyti. Yfirleitt er þetta í höndum sjálfboðaliða úr þeim söfnuði eða söfnuðum sem nota salinn. Rétt eins og var á biblíutímanum ættu vottar Jehóva nú á dögum að leggja sig vel fram við að „bæta skemmdir og gjöra við“ húsnæðið þar sem Guð er tilbeðinn. — 2. Kron. 34:10.
3. Hvernig er ræsting ríkissalarins skipulögð og hverjir geta tekið þátt í henni?
3 Á tilkynningatöflunni ætti að vera áætlun um vikulega ræstingu ríkissalarins. Allir bóknámshópar ættu að skiptast á um að gera það samkvæmt ákveðinni verklýsingu. Allir sem geta þurfa að leggja sitt af mörkum til að halda ríkissalnum hreinum og snyrtilegum. Börn geta tekið þátt í þessari þjónustu undir umsjón foreldranna, og þannig geta þau lært að meta gildi þess að þjóna öðrum. Ef fleiri en einn söfnuður nota ríkissalinn er gott samstarf milli safnaða sérstaklega mikilvægt til að þessi þýðingarmikli þáttur í tilbeiðslu okkar dreifist á sem flesta.
4. Hvað þarf að gera til að söfnuðurinn viti hvað á að þrífa og ræsta hverju sinni?
4 Hægt er að setja upp verklýsingu fyrir ræstinguna, til dæmis þar sem ræstingavörur og áhöld eru geymd. Í verklýsingunni ætti að koma fram hvað gera eigi vikulega, svo sem að ryksuga, þvo glugga, þurrka af borðum og skápum, tæma ruslafötur, strjúka yfir gólf og þvo spegla. Sumt er nóg að gera sjaldnar, til dæmis að bóna tréhúsgögn, hreinsa stóla og þvo eða hreinsa gluggatjöld og ljósastæði. Geyma skal öll ræstingar- og hreinsiefni þar sem börn ná ekki til og þau skulu vera greinilega merkt. Eins ætti að liggja fyrir stutt lýsing á því hvernig nota skuli hvert efni fyrir sig.
5. Hversu mikilvægt er að öryggismál salarins séu í lagi og hvað þarf að yfirfara reglulega? (Sjá töflu á bls. 4)
5 Það er mjög mikilvægt að öryggismál ríkissalarins séu í fullkomnu lagi. (5. Mós. 22:8) Á blaðsíðu 4 er tafla yfir sumt af því sem fara þarf reglulega yfir til að koma í veg fyrir óhöpp og slys.
6. Hvernig er rekstur og viðhald ríkissalarins skipulagt?
6 Viðhald ríkissalarins: Öldungaráðið á að hafa yfirumsjón með rekstri og viðhaldi ríkissalarins. Yfirleitt er svo öldungi eða safnaðarþjóni falið að sjá um framkvæmdina. Hann skipuleggur daglegan rekstur ríkissalarins, sér um að honum sé haldið hreinum og að til sé nóg af hreinlætisvörum hverju sinni. Auk þess sér hann um almennt viðhald húss og lóðar. Mikilvægt er að hvergi skapist hættuástand inni í salnum eða á lóðinni. Ef tveir eða fleiri söfnuðir nota sama salinn skipa öldungaráðin rekstrarnefnd sem hefur með höndum viðhald húss og lóðar. Nefndin starfar undir umsjón öldungaráðanna.
7. (a) Hvað er gert einu sinni á ári til að tryggja gott viðhald á ríkissalnum? (b) Hvað þarf að skoða með reglulegu millibili? (Sjá töflu á bls. 5.)
7 Einu sinni á ári skal fara fram ítarleg skoðun á ríkissalnum. Öldungarnir sjá síðan til þess að nauðsynlegar lagfæringar séu gerðar. Hægt er að bjóða boðberum að aðstoða við viðhald og viðgerðir. Allir ættu að vera vakandi fyrir smáatriðum og vera fljótir til að sinna því sem sinna þarf.
8. Hvenær gætu öldungarnir haft samband við deildarskrifstofuna í sambandi við viðhald?
8 Öldungarnir geta haft samband við deildarskrifstofuna ef þeir telja sig þurfa að fá ráð eða aðstoð við viðhald ríkissalarins, ekki síst ef talið er nauðsynlegt að ráðast í viðamiklar framkvæmdir.
9. Hvernig á að bera sig að ef ráða þarf verktaka til einhvers?
9 Að fara vel með fé safnaðarins: Viðhald ríkissalarins og lóðarinnar fer að mestu leyti fram í sjálfboðavinnu. Fórnfýsi bræðra og systra er til marks um kærleika þeirra og sparar umtalsvert fé. Ef nauðsynlegt reynist að kaupa vissa þjónustu, svo sem snjómokstur eða meindýravarnir, reyna öldungarnir að leita hagstæðra tilboða. Það er hægt að gera með því að semja ítarlega efnis- og verklýsingu og afhenda nokkrum aðilum sem geta boðið í verk eða innkaup samkvæmt sömu skilmálum. Öldungarnir geta síðan valið hagstæðasta tilboðið eftir að hafa fengið skrifleg tilboð frá nokkrum bjóðendum. Þetta ætti að gera jafnvel þó að bróðir hafi boðist til að vinna verkið eða útvega efnið á ákveðnu verði.
10. Hvað er gert til að tryggja að vel sé farið með fjármuni safnaðarins?
10 Ríkissalir eiga að vera undanþegnir fasteignaskatti og öldungarnir gera ráðstafanir til þess að undanþáguheimildin sé nýtt. Ef fleiri en einn söfnuður nota ríkissalinn er rekstrarnefndin með eigin tékkareikning og sendir hverju öldungaráði rekstrarskýrslu einu sinni í mánuði þannig að öldungarnir viti í hvað rekstrarféð fer. Öldungunum ber að sjá um að vel sé farið með fjármuni safnaðarins.
11. Hvað skal gera ef viðamikið viðhald eða endurbætur eru nauðsynlegar?
11 Dýrar viðhaldsframkvæmdir og endurbætur: Ef rekstrarnefndin telur þurfa að ráðast í viðamiklar framkvæmdir, sem snúa að rekstri eða viðhaldi ríkissalarins, leggur hún málið fyrir öldungaráðin. Öldungaráðin hafa samband við deildarskrifstofuna ef þau komast að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að ráðast í umfangsmikið viðhald eða endurbætur, eða telja sig þurfa að fá aðstoð annarra safnaða en þeirra sem nota ríkissalinn. Deildarskrifstofan getur vísað á reynda bræður sem geta komið með ábendingar og aðstoðað við umsjón með verkinu. Gera þarf sem nákvæmasta kostnaðaráætlun og semja ályktunartillögu til að leggja fyrir söfnuðina ef útgjöldin eru veruleg. — Sjá spurningakassann í Ríkisþjónustu okkar í febrúar 1994.
12. Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta það að mega sækja samkomur í ríkissalnum?
12 Það er okkur mikils virði að eiga ríkissal þar sem við getum komið saman. Við viljum hvorki vanrækja safnaðarsamkomurnar né telja þær lítils virði. Allir geta tekið þátt í viðhaldi ríkissalarins og lagt sitt af mörkum til þess að hann þjóni hlutverki sínu sem best. Það er nafni Jehóva til heiðurs og upphefur sanna tilbeiðslu. Við skulum því vera staðráðin í að halda tilbeiðslustað okkar vel við.
[Rammi á blaðsíðu 4]
Öryggismál
◻ Slökkvitæki þurfa að vera aðgengileg og þau þarf að yfirfara árlega.
◻ Útgangar og stigar þurfa að vera vel merktir, lýsing góð og aðgengi sem best. Handrið þurfa að vera örugg.
◻ Geymslur, salerni og fatahengi skulu vera hrein og snyrtileg. Þar má ekki geyma eldfim efni, persónulega hluti eða sorp.
◻ Hreinsa ætti þakrennur og niðurföll reglulega.
◻ Gangstéttir og bílastæði þurfa að vera vel upplýst og laus við tálma sem fólk gæti dottið um. Beita skal hálkuvörnum eftir aðstæðum.
◻ Yfirfara þarf loftræstikerfi og raftæki reglulega.
◻ Gera þarf strax við hvers kyns leka til að fyrirbyggja alvarlegar skemmdir af völdum raka.
◻ Húsið skal alltaf vera læst þegar enginn er á staðnum.
[Rammi á blaðsíðu 5]
Viðhald húss og lóðar
◻ Utan húss: Er þak, veggklæðning, málning, gluggar og skilti í góðu standi?
◻ Lóð: Er lóðinni vel við haldið? Eru gangstéttar, grindverk og bílastæði í góðu ásigkomulagi?
◻ Innan húss: Eru gólfteppi, gluggatjöld, stólar, málning, veggklæðningar, fatahengi, blaða- og bókaskápar, tenglar, rofar, ofnar og ofnhitastillar í góðu standi?
◻ Búnaður: Eru ljós, magnarakerfi, kynding og loftræsting í góðu lagi?
◻ Salerni: Eru þau hrein og snyrtileg og hreinlætistæki í góðu lagi?