Ræktum náið samband við Jehóva
1. Hverju gerði systir nokkur sér grein fyrir um andlegar venjur sínar?
1 „Ég verð að játa að ég hef gert lítið annað síðustu 20 árin í sannleikanum en að sækja samkomur og taka þátt í boðunarstarfinu,“ viðurkenndi systir nokkur. „Þó að það sé auðvitað mikilvægt hef ég komist að raun um að það eitt veitir mér ekki nægan styrk til að takast á við erfiðleika. . . . Ég geri mér nú grein fyrir því að til þess að kynnast Jehóva, læra að elska hann og kunna að meta það sem sonur hans gerði fyrir okkur verð ég að leiðrétta hugsunarhátt minn og koma mér upp markvissri biblíunámsáætlun.“
2. Af hverju er mikilvægt að rækta náið einkasamband við Jehóva?
2 Það þarf að leggja mikið á sig til að rækta náið einkasamband við Jehóva. Það krefst meira en aðeins að gegna venjubundnum kristnum skyldum. Ef við tölum ekki reglulega við Jehóva í bæn getur hann með tímanum orðið eins og gamall vinur sem við höfum misst samband við. (Opinb. 2:4) Skoðum aðeins hvernig einkanám og bænin geta hjálpað okkur að rækta samband okkar við hann. — Sálm. 25:14.
3. Hvaða viðhorf til einkanáms hjálpar okkur að rækta náið samband við Guð?
3 Bæn og hugleiðing er nauðsynleg: Einkanám, sem nærir hjartað, felur í sér meira en aðeins að strika undir meginhugmyndir í námsefninu og fletta upp ritningarstöðum sem vísað er til. Við þurfum að velta fyrir okkur hvað efnið segi um vegi Jehóva, siðferðisreglur hans og persónuleika. (2. Mós. 33:13) Þegar við skiljum andleg mál hreyfir það við tilfinningum okkar og kemur okkur til að hugsa um eigið líf. (Sálm. 119:35, 111) Við ættum að stunda námið með það fyrir augum að nálægja okkur Jehóva. (Jak. 4:8) Og ef við ætlum að nema rækilega þurfum við að finna góðan stað og stund, og reglulegt nám krefst aga. (Dan. 6:11) Tekur þú þér tíma á hverjum degi til að hugleiða stórkostlega eiginleika Jehóva þótt þú sért mjög upptekinn? — Sálm. 119:147, 148; 143:5.
4. Hvers vegna er mikilvægt að fara með bæn fyrir einkanám til að rækta náið samband við Jehóva?
4 Einlæg bæn er mikilvæg til að námið verði innihaldsríkt. Við þurfum heilagan anda Guðs svo að sannleikur Biblíunnar snerti hjartað og fái okkur til að ‚þjóna Guði með lotningu og ótta‘. (Hebr. 12:28) Þess vegna ættum við alltaf að byrja námið á því að biðja Jehóva um anda hans. (Matt. 5:3, NW, neðanmáls) Þegar við hugleiðum ritningarstaði og notum námsgögnin, sem skipulag Jehóva veitir, opnum við hjarta okkar fyrir honum. (Sálm. 62:9) Ef við stundum námið á þennan hátt er það ákveðinn þáttur í tilbeiðslunni á Jehóva og með því lýsum við yfir hollustu okkar við hann og styrkjum sambandið við hann. — Júd. 20, 21.
5. Hvers vegna er mikilvægt að hugleiða orð Guðs daglega?
5 Það þarf stöðugt að hlúa að öllum samböndum til að þau styrkist og það sama má segja um samband okkar við Jehóva. Við skulum því kaupa okkur tíma á hverjum degi til að nálægja okkur Guði, því að við vitum að þá mun hann líka nálægja sig okkur. — Sálm. 1:2, 3; Ef. 5:15, 16.