Hafðu nákvæma gát á hvernig þú notar tímann
1. Hvaða erfiðleikum stendur fólk alls staðar frammi fyrir?
1 Margir virðast hafa fleiri verk að vinna og minni tíma til að sinna þeim þrátt fyrir öll þau tæki sem ætluð eru til að spara bæði tíma og vinnu. Finnst þér erfitt að viðhalda góðum andlegum venjum? Vildirðu hafa meiri tíma fyrir þjónustuna? Hvernig getum við nýtt tíma okkar sem best? — Sálm. 90:12; Fil. 1:9-11.
2, 3. Hvaða vandamál fylgja upplýsingatækninni og hvernig getum við gert sjálfsrannsókn?
2 Að koma auga á tímaþjófa: Við ættum öll að rannsaka reglulega hvernig við notum tímann. Biblían hvetur: „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.“ (Ef. 5:15, 16) Hugsaðu um þau vandamál sem oft fylgja upplýsingatækninni. Tölvur og rafeindatæki geta verið gagnleg en jafnframt orðið að snöru ef við höfum ekki nákvæma gát á þeim tíma sem við verjum í notkun þeirra. — 1. Kor. 7:29, 31.
3 Við ættum að spyrja okkur: Eyði ég tíma á hverjum degi í að lesa eða svara ómerkilegum tölvupósti? Er ég oft upptekinn við léttvæg símtöl eða SMS-skilaboð? (1. Tím. 5:13). Vafra ég stefnulaust um Netið eða skipti ég hugsunarlaust um rásir þegar ég horfi á sjónvarpið? Hefur tíminn sem ég eyði í tölvuleiki gengið á nám mitt í orði Guðs? Þess konar tímaþjófar geta á lymskulegan hátt veikt okkur andlega. — Orðskv. 12:11.
4. Hvaða breytingar gerði unglingur nokkur og hvers vegna?
4 Að nota tímann viturlega: Rafeindatæknin hefur tilhneigingu til að gleypa bæði tíma okkar og athygli. Unglingur, sem var djúpt sokkinn í tölvuleiki, sagði: „Ég átti mjög erfitt með að halda einbeitingunni á samkomum eða í boðunarstarfinu ef ég hafði verið í tölvuleik stuttu áður. Ég var næstum alltaf með hugann við hvernig ég gæti leyst einhverja tölvuleikjaþrautina þegar ég kæmi heim. Einkanámið og reglulegur biblíulestur liðu fyrir það. Gleðin af því að þjóna Jehóva minnkaði.“ Hann gerði sér grein fyrir að breytinga væri þörf og eyddi öllum tölvuleikjunum. „Það var mjög erfitt,“ sagði hann. „Ég var háðari leikjunum en mig hafði órað fyrir. En ég fylltist líka mikilli sigurtilfinningu vegna þess að ég vissi að ég hafði gert það sem var mér fyrir bestu.“ — Matt. 5:29, 30.
5. Hvernig getum við fundið tíma til að sinna andlegum málum og hvernig höfum við gagn af því?
5 Það getur reynst nauðsynlegt að grípa til álíka aðgerða ef þú þarft að gera breytingar á einhverjum sviðum. Gætir þú tekið hálftíma á hverjum degi af þeim tíma sem þú eyðir til ónauðsynlegra hluta? Það er um það bil sá tími sem það tekur að lesa alla Biblíuna á einu ári. Það væri svo sannarlega andlega auðgandi! (Sálm. 19:8-12; 119:97-100) Taktu frá ákveðinn tíma fyrir biblíulestur, boðunarstarfið og undirbúning fyrir samkomur. (1. Kor. 15:58) Þetta mun hjálpa þér að halda tímaþjófunum í skefjum og reyna „að skilja, hver sé vilji Drottins“. — Ef. 5:17.