Umbun fyrir þrautseigju
1 „Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar.“ (Lúk. 21:19) Orð þessi, sem tekin eru úr spádómi Jesú um „endalok veraldar“, sýna ljóslega að ráðvendni felur í sér að við verðum að vera undirbúin því að standa frammi fyrir mörgum prófraunum. En með styrk frá Jehóva getum við öll verið ‚staðföst allt til enda‘ og ‚orðið hólpin‘. — Matt. 24:3, 13; Fil. 4:13.
2 Ofsóknir, heilsuvandamál, fjárhagserfiðleikar og tilfinningalegt álag getur gert dag hvern að prófraun. En við megum aldrei gleyma að Satan reynir að brjóta ráðvendni okkar við Jehóva á bak aftur. Hver dagur sem við sýnum trúfesti föður okkar á himnum er einn dagur í viðbót þar sem við höfum átt okkar þátt í að sanna Satan lygara. Það er mjög hughreystandi að vita að ‚tár‘ í prófraunum eru ekki gleymd. Þau eru dýrmæt í augum Jehóva og þrautseigja okkar gleður hjarta hans. — Sálm. 56:9; Orðskv. 27:11.
3 Prófraunir betrumbæta okkur: Hvers konar böl getur leitt í ljós veikleika í trú okkar eða persónuleika, eins og stolt eða óþolinmæði. Við verðum að fara eftir leiðbeiningum í orði Guðs þannig að ‚þolgæðið birtist í fullkomnu verki‘ í stað þess að reyna að forðast prófraunir eða binda enda á þær með óbiblíulegum aðferðum. Hvers vegna? Vegna þess að trúfesti í prófraunum hjálpar okkur að verða ‚fullkomin og algjör‘. (Jak. 1:2-4) Þrautseigja getur hjálpað okkur að þroska með okkur dýrmæta eiginleika eins og sanngirni, hluttekningu og miskunnsemi. — Rómv. 12:15.
4 Trúarstaðfesta reynd: Þegar við stöndumst prófraunir hefur trúarstaðfesta okkar verið reynd og hún er dýrmæt í augum Guðs. (1. Pét. 1:6, 7) Trúin hjálpar okkur síðan að standast prófraunir sem við kunnum að lenda í síðar. Enn fremur finnum við fyrir velþóknun Jehóva og það styrkir von okkar og gerir hana enn raunverulegri. — Rómv. 5:3-5.
5 Besta hugsanlega umbunin fyrir þrautseigju er útlistuð í Jakobsbréfi 1:12 sem segir: „Sæll er sá maður, sem stenst freistingu, því að þegar hann hefur reynst hæfur mun hann öðlast kórónu lífsins.“ Þess vegna skulum við halda áfram að sýna staðfestu við vígsluheit okkar sem við höfum gefið Jehóva og verum þess fullviss að hann muni ríkulega umbuna „þeim er elska hann“.