Hvernig getum við vitnað fyrir ættingjum?
1. Hvers vegna þörfnumst við góðrar dómgreindar þegar við vitnum fyrir ættingjum?
1 Við getum ekki orðið meiri gleði aðnjótandi en að komast inn í nýja heiminn með ástvinum okkar og vera sameinuð þeim í tilbeiðslu á Jehóva. Með því að vitna fyrir ættingjum getur þessi von orðið að veruleika. En til þess að ná árangri verðum við að sýna góða dómgreind. Farandhirðir sagði: „Þeir ná bestum árangri sem vekja forvitni ættingja sinn og vitna fyrir þeim smátt og smátt.“ Hvernig förum við að því?
2. Hvernig getur einlægur áhugi á ættingjum hjálpað okkur að vekja forvitni þeirra?
2 Vektu forvitni þeirra: Hugsaðu vel um hvernig þú getir vakið áhuga ættingja þinna. (Orðskv. 15:28) Um hvað er þeim umhugað? Við hvaða vandamál glíma þeir? Þú gætir ef til vill sýnt þeim grein eða nefnt viðeigandi ritningarstað um eitthvað sem þeir hafa sérstakan áhuga á. Ef ættingi þinn býr ekki í nágrenni við þig gætir þú hringt eða skrifað bréf. Sáðu sæði sannleikans án þess að vera yfirþyrmandi og biddu Jehóva að láta sæðið vaxa. — 1. Kor. 3:6.
3. Hvernig getur áhugi ættingjanna á okkur gefið okkur tækifæri til að vitna fyrir þeim?
3 Eftir að Jesús hafði rekið illa anda út af manni nokkrum gaf hann honum þessi fyrirmæli: „Far heim til þín og þinna, og seg þeim, hve mikið Drottinn hefur gjört fyrir þig og verið þér miskunnsamur.“ (Mark. 5:19) Hugsaðu þér áhrifin sem þetta hlýtur að hafa haft á ættingja hans. Þó að þú eigir kannski ekki eftir að upplifa eitthvað þessu líkt, hafa ættingjar þínir örugglega áhuga á því sem þú eða börn þín eru að gera. Ef þú nefnir ræðu sem þú hefur flutt í boðunarskólanum, mót sem þú hefur sótt, heimsókn á Betel eða eitthvað sem er þér mikilvægt getur þú opnað leiðina fyrir frekari umræður um Jehóva og söfnuð hans.
4. Hvað ættum við að varast þegar við vitnum fyrir ættingjum?
4 Sýndu góða dómgreind: Þegar þú vitnar fyrir ættingjum skaltu forðast að segja of mikið í einu. Bróðir nokkur minnist þess þegar hann byrjaði að nema Biblíuna: „Ég hellti yfir móður mína nánast öllu því sem ég hafði lært af Biblíunni og það leiddi til orðahnippinga, sérstaklega við föður minn.“ Jafnvel þótt ættingi þinn sýni áhuga á boðskap Biblíunnar skaltu svara þannig að það veki með honum áhuga á að vita meira. (Orðskv. 25:7) Sýndu alltaf virðingu, vingjarnleika og þolinmæði, eins og þú myndir gera ef þú værir að prédika fyrir ókunnugum í boðunarstarfinu. — Kól. 4:6.
5. Hvað ættum við að gera ef ættingjar bregðast ekki jákvætt við þegar við vitnum fyrir þeim?
5 Við eitt tækifæri töldu ættingjar Jesú að hann hefði misst vitið. (Mark. 3:21) En síðar tóku sumir þeirra trú. (Post. 1:14) Gefstu ekki upp þó að fyrst um sinn gangi ekki vel að koma sannleikanum á framfæri við ættingja þína. Kringumstæður og viðhorf geta breyst. Haltu áfram að leita færis að nefna eitthvað sem getur vakið forvitni þeirra. Þér gæti hlotnast sú gleði að hjálpa þeim að hefja göngu sína á veginum til eilífs lífs. — Matt. 7:13, 14.