Öðlumst færni í því að rökræða við aðra
1. Hvaða frásögu Biblíunnar ætlum við að athuga nánar og hvers vegna?
1 Ræðan, sem Páll postuli flutti í samkunduhúsinu í Antíokkíu í Pisidíu og skráð er í Postulasögunni 13:16-41, er gott dæmi um hvernig hægt er að rökræða við aðra. Páll tók tillit til bakgrunns og hugsunarháttar áheyrenda sinna og aðlagaði ræðu sína að því. Við skulum skoða hvernig við getum gert hið sama í boðunarstarfinu þegar við athugum þessa frásögu.
2. Hvað lærum við af því hvernig Páll hóf mál sitt?
2 Finnum sameiginlegan umræðugrundvöll: Þó svo að aðalboðskapurinn í ræðu Páls hafi verið hlutverk Jesú í fyrirætlun Guðs byrjaði Páll ekki að tala um það. Hann byrjaði frekar á því að tala um eitthvað sem hann og áheyrendur hans, sem voru aðallega Gyðingar, höfðu sameiginlegt — sögu Gyðingaþjóðarinnar. (Post. 13:16-22) Við getum sömuleiðis náð betur til fólks ef við reynum að finna eitthvað sem við eigum sameiginlegt með því. Við gætum til dæmis reynt að fá fólk til að tjá sig með því að spyrja háttvísra spurninga og hlusta af áhuga til að koma auga á hvað skipti það mestu máli.
3. Hvers vegna fannst áheyrendum Páls erfitt að viðurkenna að Jesús væri hinn fyrirheitni Messías?
3 Þegar Páll rifjaði upp sögu Gyðinganna minnti hann áheyrendur sína á loforð Guðs um að senda þeim frelsara af ætt Davíðs. Margir Gyðingar biðu hins vegar eftir stríðshetju sem myndi losa þá undan oki Rómverja og upphefja Gyðingaþjóðina yfir allar aðrar þjóðir. Þeir vissu án efa að Jesú var hafnað af trúarleiðtogum Gyðinga í Jerúsalem, hann afhentur rómverskum yfirvöldum og síðan tekinn af lífi. Hvernig gat Páll fullvissað þá um að þetta hefði verið hinn fyrirheitni Messías?
4. Hvernig rökræddi Páll við Gyðingana?
4 Verum sveigjanleg: Páll þekkti hugsunarhátt áheyrenda sinna og notaði þess vegna ritninguna til að rökræða út frá því sem þeir viðurkenndu nú þegar. Hann talaði til dæmis um Jesú sem niðja Davíðs og sagði að Jóhannes skírari, sem flestir álitu vera spámann Guðs, hefði borið kennsl á Jesú. (Post. 13:23-25) Páll benti á að þegar trúarleiðtogarnir höfnuðu Jesú og dæmdu hann til dauða hefðu þeir uppfyllt „orð spámannanna“. (Post. 13:26-28) Auk þess sagði hann frá því að margir sjónarvottar hefðu verið að upprisu Jesú frá dauðum og hann beindi athyglinni að ritningastað sem áheyrendur hans þekktu vel og hafði uppfyllst með upprisu Jesú. — Post. 13:29-37.
5. (a) Hvernig aðlagaði Páll boðunaraðferðir sínar að grískum áheyrendum? (b) Hvernig getum við líkt eftir fordæmi Páls þegar við vitnum á svæði okkar?
5 Páll notaði hins vegar aðra aðferð þegar hann ávarpaði gríska áheyrendur á Aresarhæð í Aþenu. (Post. 17:22-31) Samt kom hann á framfæri sama boðskapnum og í bæði skiptin með góðum árangri. (Post. 13:42, 43; 17:34) Starf okkar mun sömuleiðis verða árangursríkara ef við leitumst við að finna sameiginlegan umræðugrundvöll og aðlögum aðferðir okkar að bakgrunni áheyrendanna og hugsunarhætti þeirra.