Bréf frá deildarskrifstofunni
Kæri boðberi:
Það var ánægjulegt að sjá boðberum fjölga hér á landi á nýliðnu þjónustuári, rétt eins og árið á undan. Það vekur ekki síst ánægju að sjá hve mörg biblíunámskeið voru haldin á árinu en í marsmánuði voru þau 229 og hafa aldrei verið fleiri frá því að starfið hófst hér á landi. Augljóst er að það hefur haft mjög jákvæð áhrif á biblíunámstarfið hve sannindi Biblíunnar eru sett fram með skýrum og áhrifaríkum hætti í bókinni Hvað kennir Biblían?
Þá var einnig gleðilegt að sjá að 601 sótti minningarhátíðina um dauða Jesú en það eru fleiri en við höfum séð á minningarhátíðinni undanfarin ár. Það er einnig vísbending um að boðberum Guðsríkis haldi áfram að fjölga hér á landi.
Breytingarnar á Betelheimilinu að Sogavegi 71 voru einnig merkur áfangi. Einu sinni enn höfum við fengið sönnun fyrir því að við tilheyrum alþjóðlegu bræðrafélagi. Bræður og systur frá öðrum löndum hafa komið hingað um nokkurra vikna eða nokkurra mánaða skeið til að aðstoða okkur við þetta mikilvæga verkefni. Við erum þeim þakklát fyrir fórnfýsi þeirra. Við kunnum einnig að meta þá miklu vinnu sem margir bræður og systur hér á landi hafa lagt fram til að styðja þessa framkvæmd. Sumir hafa notað helgar og frídaga til að geta tekið þátt í verkinu. Það sýnir að bræðrafélagið hér á landi gerir sér grein fyrir hve mikilvægu hlutverki Betelheimilið gegnir hér eins og í öðrum löndum. Við erum einnig þakklát hinu stjórnandi ráði fyrir stuðning þess við starfið hér á landi. — 1. Þess. 5:18
Bræður ykkar á
íslensku deildarskrifstofunni