Verum vel undirbúin fyrir minningarhátíðina
Það er ánægjulegt og mikill heiður fyrir fylgjendur Jesú Krists að undirbúa vel kvöldið þegar dauða hans er minnst. (Lúk. 22:19) Hverju þarf að huga að fyrir minningarhátíðina?
◼ Tími og staðsetning: Allir ættu að vita hvenær og hvar minningarhátíðin verður haldin. Ef fleiri en einn söfnuður nota sama ríkissal er mikilvægt að allir mæti á réttum tíma fyrir hátíðina og yfirgefi svæðið tímanlega áður en næsti söfnuður kemur. Forðast ber óþarfa örtröð við innganginn, í anddyri, á gangstéttum og bílastæðum.
◼ Boðsmiðar: Hafa allir boðberar fengið boðsmiða til að dreifa og eru þeir búnir að lesa hann? Hefurðu æft kynningu á boðsmiðanum? Ertu búin að ákveða hverjum þú ætlar að bjóða? Söfnuðirnir ættu að leggja sig fram við að dreifa öllum boðsmiðunum sem þeim hefur verið úthlutað.
◼ Akstur: Vera má að bræður eða systur eða einhverjir áhugasamir þurfi aðstoð til að komast á minningarhátíðina eða þurfi á annarri hjálp að halda. Hafa verið gerðar viðeigandi ráðstafanir til að aðstoða?
◼ Brauðið og vínið: Þess skal gæta að brauðið og vínið verði ekki borið fram fyrr en eftir sólsetur. Einnig þarf að gera ráðstafanir til að það verði borið fram fyrir andasmurða bræður og systur sem ekki geta verið viðstödd vegna veikinda. Útvega skal rétta tegund brauðs og víns og hafa til reiðu. — Sjá Varðturninn 1. mars 2003, bls. 22-23, gr. 14, 17.
◼ Ríkissalurinn: Þrífa á ríkissalinn vel og vandlega fyrir hátíðina. Diska, vínglös, viðeigandi borð og dúk ætti að koma með til salarins og setja fyrir fram á sinn stað. Ef minningarhátíðin er ekki haldin í ríkissal þarf að gæta þess að hljóðkerfið sé viðunandi svo að allir viðstaddir heyri í ræðumanninum. Velja skal bræður til að hafa umsjón í sal og til að bera fram brauðið og vínið. Þeir ættu að fá leiðbeiningar fyrir fram um skyldustörf sín, hvernig þau skulu innt af hendi og nauðsyn þess að vera sómasamlega til fara.
Við viljum vera vel undirbúin, bæði sem einstaklingar og sem söfnuður, fyrir þessa þýðingarmiklu hátíð, minningarhátíðina um dauða Jesú Krists. Jehóva mun vissulega blessa alla þá sem kunna að meta það sem hann hefur komið til leiðar með lausnarfórn síns elskaða sonar, Jesú Krists.