Akrarnir eru fullþroskaðir til uppskeru
1. Hvaða mikilvæga starf er vel á veg komið?
1 Eftir að Jesús hafði vitnað fyrir samverskri konu sagði hann við lærisveina sína: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru.“ (Jóh. 4:35, 36) Andlegt uppskerustarf var rétt að hefjast og Jesús gat séð fyrir að það yrði framkvæmt út um allan heim. Jesús á enn þá ríkan þátt í uppskerustarfinu frá himnum. (Matt. 28:19, 20) Hvað bendir til þess að þetta starf verði enn brýnna eftir því sem nær dregur hámarkinu?
2. Hvaða þróun sýnir að það verður sífellt meira að gera í uppskerustarfinu?
2 Uppskerustarf um allan heim: Þjónustuárið 2009 fjölgaði boðberum um 3,2 prósent um allan heim. Boðberum fjölgaði um 14 prósent í löndum þar sem hömlur eru settar á boðunarstarfið. Heimabiblíunámskeiðin, sem eru haldin í hverjum mánuði, voru rúmlega 7.619.000, næstum hálfri milljón fleiri en árið áður. Þetta er hærri tala en fjöldi boðbera þegar þeir voru flestir. Þar sem starfið eykst hratt í mörgum heimshlutum er meiri eftirspurn eftir trúboðum sem hafa hlotið þjálfun í Gíleaðskólanum. Uppskeran er mikil meðal erlendra málhópa í hverju landinu á fætur öðru. Það er greinilegt að Jehóva hraðar starfinu eftir því sem nær dregur lokum uppskerutímans. (Jes. 60:22) Lítur þú „akrana“ á þínu starfssvæði jákvæðum augum?
3. Hvað gætu sumir ályktað varðandi uppskerustarfið á starfssvæði sínu?
3 Uppskeran á þínu svæði: Sumir segja ef til vill: „Starfssvæðið mitt gefur ekki góða uppskeru.“ Það er rétt að sum svæði virðast hvorki gefa af sér eins góða uppskeru og önnur né vera eins frjósöm og áður. Sumir vottar kunna því að draga þá ályktun að uppskerustarfið hafi þegar náð hámarki á þessum svæðum og að nú felist starf þeirra bara í eftirtíningi, leit að þeim fáu sem eftir séu. En er það rétt?
4. Hvaða viðhorf ættum við að temja okkur til boðunarstarfsins og hvers vegna?
4 Uppskerutímabilið er alltaf gríðarlega annasamur tími frá upphafi til enda. Taktu eftir ákafanum í þessum orðum Jesú: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Matt. 9:37, 38) Það er í höndum Jehóva, Drottins uppskerunnar, hvar og hvenær uppskeran gefst. (Jóh. 6:44; 1. Kor. 3:6-8) Hvert er okkar verkefni? Því er svarað í Biblíunni: „Sáðu sæði þínu að morgni og láttu hendur þínar ekki hvílast að kvöldi.“ (Préd. 11:4-6) Það er því ekki tímabært að hvílast þegar uppskerustarfið er að ná hámarki!
5. Hvers vegna þurfum við að starfa af kappi á svæðum þar sem virðist lítill sem enginn áhugi?
5 Haltu uppskerustarfinu áfram: Enda þótt mikið hafi verið starfað á okkar starfssvæði og viðbrögðin virðist dræm er full ástæða til að halda áfram af kappi og eldmóði. (2. Tím. 4:2) Mikið umrót á sviði heimsmálanna fær fólk til að breyta um viðhorf og fara að hugsa alvarlega um framtíðina. Þegar ungt fólk vex úr grasi finnur það ef til vill þörf fyrir öryggi og hugarró. Staðfesta okkar kann að vekja aðdáun enn annarra. Já, vera má að þeir sem hafa sýnt lítil viðbrögð fram að þessu eigi eftir að sýna áhuga. Auk þess þarf að vara þá við sem hafna boðskapnum ákveðið. — Esek. 2:4, 5; 3:19.
6. Hvað getur fyllt okkur eldmóði ef starfssvæði okkar er erfitt?
6 Hvað getur fyllt okkur eldmóði þegar starfssvæði okkar er erfitt? Við getum ef til vill tekið þátt í öðrum starfsgreinum samhliða boðunarstarfinu hús úr húsi, svo sem fyrirtækjastarfi og símastarfi. Við gætum líka gert starfið fjölbreyttara með því að nota mismunandi kynningarorð. Við gætum breytt tímaáætlun okkar og farið í boðunarstarfið á kvöldin eða á öðrum tímum þegar meiri líkur eru á að hitta fólk heima. Við gætum lært nýtt tungumál til að ná til fleira fólks og flutt því fagnaðarboðskapinn. Við höfum hugsanlega tök á að auka starf okkar með því að gerast brautryðjendur eða flytja til staðar þar sem færri vinna að uppskerustarfinu. Ef við höfum rétt viðhorf til uppskerustarfsins þá reynum við að taka eins mikinn þátt í þessu mikilvæga starfi og við getum.
7. Hve lengi eigum við að halda uppskerustarfinu áfram?
7 Bændur hafa takmarkaðan tíma til að safna uppskerunni saman. Þess vegna slaka þeir hvorki á né hægja á sér fyrr en uppskerustarfinu er lokið. Við þurfum að sinna uppskerustarfinu af jafn miklum ákafa. Hve lengi eigum við að halda því áfram? „Allt til enda veraldar“ og þar til,endirinn kemur‘. (Matt. 24:14; 28:20) Við viljum fullna það verk sem okkur hefur verið falið eins og mesti boðberi Jehóva gerði. (Jóh. 4:34; 17:4) Höldum þess vegna áfram að starfa af eldmóði og verum jákvæð og glöð allt til enda. (Matt. 24:13) Uppskerustarfinu er enn ólokið!
[Innskot á bls. 2]
Uppskerutímabilið er alltaf gríðarlega annasamur tími frá upphafi til enda.