Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 8.11 bls. 4-6
  • Getur þú farið „yfir til Makedóníu“?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Getur þú farið „yfir til Makedóníu“?
  • Ríkisþjónusta okkar – 2011
  • Svipað efni
  • Geturðu komið yfir til Makedóníu?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Ætti ég að búa erlendis?
    Vaknið! – 2000
  • Flytjumst þangað sem þörfin er meiri
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2022
  • Varðveittu sambandið við Jehóva ef þú starfar í erlendum söfnuði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 2011
km 8.11 bls. 4-6

Getur þú farið „yfir til Makedóníu“?

1. Hvað varð til þess að Páll og félagar hans fóru til Makedóníu?

1 Um árið 49 lagði Páll postuli af stað frá Antíokkíu í Sýrlandi í aðra trúboðsferð sína. Ætlunin var að fara til Efesus og annarra borga í Litlu-Asíu, en þess í stað fékk hann boð heilags anda um að koma „yfir til Makedóníu“. Páll og félagar hans tóku því fagnandi og fengu þann heiður að stofna fyrsta söfnuðinn á svæðinu. (Post. 16:9, 10; 17:1, 2, 4) Núna er mikil þörf á fleiri verkamönnum sums staðar í heiminum. (Matt. 9:37, 38) Ert þú í aðstöðu til að hjálpa til?

2. Hvers vegna finnst sumum þeir ekki geta flutt til annarra landa?

2 Ef til vill langar þig til að verða trúboði eins og Páll en hefur samt aldrei velt fyrir þér af neinni alvöru hvort þú gætir flutt til annars lands. Hugsanlega geturðu ekki sótt Gíleaðskólann vegna aldurs eða vegna þess að þú ert einhleyp systir eða átt börn sem þarf að sjá fyrir. Kannski treystirðu þér ekki til að læra nýtt tungumál og vilt ekki flytja af þeim ástæðum. Eða ef þú ert innflytjandi í landinu sem þú býrð í vegna fjárhagsaðstæðna hikarðu kannski við að fara annað. Hugleiddu samt málið og legðu það fyrir Jehóva í bæn. Kannski þurfa þessar aðstæður ekki að koma í veg fyrir að þú flytjir þangað sem mikil þörf er á boðberum.

3. Hvers vegna er ekki nauðsynlegt að sækja trúboðsskóla til að geta prédikað erlendis?

3 Er nauðsynlegt að sækja trúboðsskóla? Hvers vegna bar starf Páls og félaga hans góðan árangur? Þeir treystu á Jehóva og heilagan anda hans. (2. Kor. 3:1-5) Ef þú getur ekki fengið sérstaka þjálfun aðstæðna vegna gæti samt verið möguleiki fyrir þig að prédika erlendis með góðum árangri. Mundu líka að fræðslan, sem þú færð í Boðunarskólanum og á þjónustusamkomunni, kemur að góðum notum í þjónustunni. Ef markmið þitt er að komast í Gíleaðskólann eða að fá svipaða menntun gætirðu flust til annars lands til að fá forsmekk af trúboðsstarfi. Það er dýrmæt reynsla sem nýtist þér vel ef þér yrði boðin slík menntun.

4. Af hverju ættu eldri boðberar að vera opnir fyrir því að prédika á erlendri grund?

4 Eldri boðberar: Þroskaðir þjónar Guðs, sem komnir eru á efri ár og eru við góða heilsu, geta orðið að miklu gagni í löndum þar sem mikil þörf er á boðberum. Ert þú kominn á eftirlaun? Jafnvel þeir sem eru með lágar lífeyristekjur komast vel af í þróunarlöndum vegna þess að útgjöld þeirra eru mun lægri en í heimalandinu, þar með talin útgjöld fyrir góða heilbrigðisþjónustu.

5. Segðu frá reynslu bróður sem er lífeyrisþegi og flutti til annars lands.

5 Bróðir, sem er öldungur og brautryðjandi og kominn er á eftirlaun, er frá landi þar sem töluð er enska. Hann flutti á vinsælan ferðamannastað í Suðaustur-Asíu svo að hann gæti aðstoðað enskan hóp sem í voru níu boðberar. Hópurinn vitnaði fyrir 30.000 útlendingum sem bjuggu á svæðinu. Á innan við tveimur árum voru 50 manns farnir að sækja samkomur. Bróðirinn skrifar: „Eftir að ég flutti hingað hef ég notið meiri blessunar en nokkru sinni fyrr. Tíminn leyfir ekki einu sinni að ég segi frá broti af því sem ég hef upplifað.“

6. Segðu frá reynslu einhleyprar systur sem flutti til lands þar sem mikil þörf var á boðberum.

6 Einhleypar systur: Systur hafa gegnt stóru hlutverki í að koma fagnaðarerindinu á framfæri í löndum þar sem mikil þörf er á boðberum. (Sálm. 68:12) Ung einhleyp systir setti sér það markmið að prédika á erlendri grund. Þar sem foreldrar hennar höfðu áhyggjur af öryggi hennar valdi hún sér land þar sem stöðugleiki ríkti í efnahags- og stjórnmálum. Hún skrifaði svo deildarskrifstofunni og fékk góðar og gagnlegar upplýsingar. Þau sex ár, sem hún bjó í landinu, hlaut hún mikla blessun og hún segir: „Heima hefði ég ekki fengið mörg tækifæri til að halda biblíunámskeið en með því að þjóna þar sem þörfin var meiri gat ég stjórnað mörgum námskeiðum og fékk góða þjálfun í að kenna.“

7. Segðu frá hvað fjölskyldu einni fannst um að flytja til annars lands.

7 Fjölskyldur: Er ómögulegt að flytja til annars lands til að boða fagnaðarerindið ef maður á börn? Fjölskylda með tvö börn, átta og tíu ára, ákváðu að reyna það. Móðirin skrifar: „Við erum þakklát fyrir að hafa getað alið börnin upp hér því að þannig hafa þau kynnst sérbrautryðjendum og trúboðum. Það hefur auðgað líf okkar til muna að þjóna þar sem þörfin er meiri.“

8. Er hægt að hjálpa til erlendis án þess að þurfa að læra nýtt tungumál? Skýrðu svarið.

8 Tungumálakunnátta: Kemur tilhugsunin um að læra nýtt tungumál í veg fyrir að þú flytjir til annars lands? Ef til vill kanntu þegar tungumál sem talað er í löndum þar sem þörf er á fleiri boðberum Guðsríkis. Enskumælandi hjón fluttu til lands þar sem töluð er spænska, en töluverður fjöldi enskumælandi innflytjenda býr einnig þar. Hjónin fengu upplýsingar frá deildarskrifstofunni um nokkra enska söfnuði á svæðinu og völdu einn þeirra sem þau heimsóttu tvisvar. Þau sneru svo heim, drógu úr mánaðarlegum útgjöldum og lögðu peninga til hliðar í eitt ár. Þegar þau voru tilbúin að flytja fengu þau aðstoð frá bræðrunum á svæðinu til að finna húsnæði á góðu verði.

9, 10. Hvað gætu þeir sem flust hafa frá heimalandi sínu hugleitt og hvers vegna?

9 Innflytjendur: Hefurðu flutt frá heimalandi þínu? Var það kannski áður en þú kynntist sannleikanum? Það gæti verið mikil þörf á verkamönnum þar. Gætirðu hugsað þér að flytja til baka til að hjálpa til? Þú átt örugglega auðveldara með að fá vinnu og húsnæði en boðberar frá öðrum löndum. Líklega kanntu þegar tungumálið. Auk þess gæti fólk verið opnara fyrir að hlusta þegar þú flytur því fagnaðarerindið en þegar útlendingar gera það.

10 Flóttamaður frá Albaníu bjó á Ítalíu. Hann var með góða vinnu og aðstoðaði fjölskylduna sína í Albaníu fjárhagslega. Eftir að hann gerðist vottur fór hann að kenna nokkrum ítölskum sérbrautryðjendum albönsku. Þeir ætluðu svo að flytja til Albaníu þar sem mikil þörf var á boðberum. Bróðirinn skrifar: „Þeir voru að flytja á það svæði sem ég hafði flust frá. Þeir kunnu ekki tungumálið en voru samt spenntir fyrir því að fara. Móðurmál mitt var albanska og menning mín albönsk. Hvað var ég að gera á Ítalíu?“ Bróðirinn ákvað að flytja aftur til Albaníu og hjálpa til við boðunarstarfið. „Sé ég eftir vinnunni og laununum sem ég hafði á Ítalíu?“ spyr hann. „Alls ekki! Í Albaníu fékk ég alvöru vinnu. Að mínu mati er það heilshugar þjónusta við Jehóva sem raunverulega skiptir máli og hún veitir sanna gleði.“

11, 12. Hvað ættu þeir að gera sem eru að hugsa um að flytja til annars lands?

11 Þannig förum við að: Áður en Páll og félagar hans fóru til Makedóníu ætluðu þeir að ferðast til vesturs, en „heilagur andi varnaði þeim“ þannig að í staðinn fóru þeir í norðurátt. (Post. 16:6) Þegar þeir nálguðust Bíþýníu leyfði Jesús þeim ekki að fara þangað. (Post. 16:7) Jehóva heldur áfram að stjórna boðunarstarfinu fyrir milligöngu Jesú. (Matt. 28:20) Ef þú ert að hugsa um að flytja til annars lands ættirðu þess vegna að leita leiðsagnar Jehóva í bæn. – Lúk. 14:28-30; Jak. 1:5, sjá rammann „Er mikil þörf á boðberum í landinu sem þú hefur í huga?“

12 Biddu öldunga og aðra sem eru andlega þroskaðir að gefa þér hlutlausar ráðleggingar. (Orðskv. 11:14; 15:22) Lestu í ritunum okkar um að þjóna á erlendri grund og kynntu þér efni um þau lönd sem þú getur hugsað þér að flytja til. Geturðu farið til landsins sem þú hefur í huga og jafnvel staldrað við lengur en fáeina daga? Ef þú ert í alvöru að hugsa um að flytja í annað land gætirðu skrifað deildarskrifstofunni þar og beðið um upplýsingar. Póstföng er að finna í nýjustu árbókinni. Í stað þess að skrifa beint til deildarskrifstofunnar skaltu láta öldunga í söfnuðinum þínum fá bréfið svo að þeir geti bætt við meðmælum sínum áður en þeir senda það áfram. – Sjá Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva, bls. 111-112.

13. Hvaða aðstoð veitir deildarskrifstofan og hvað þarftu sjálfur að sjá um?

13 Deildarskrifstofan sendir þér gagnlegar upplýsingar um landið sem hjálpa þér að taka ákvarðanir, en hún getur ekki gengist í ábyrgð fyrir þig, aðstoðað þig við að fá dvalarleyfi, vegabréfsáritanir, nauðsynleg eyðublöð eða húsnæði. Þú þarft sjálfur að kanna þau mál vandlega áður en þú flytur. Það er einnig á þinni ábyrgð að hafa samband við sendiráð eða ræðismannsskrifstofur til að fá upplýsingar varðandi vegabréfsáritanir og atvinnuleyfi. Þeir sem flytja þurfa að vera í aðstöðu til að geta annast sín mál sjálfir og uppfylla kröfur landsins. – Gal. 6:5.

14. Að hverju ættum við að gæta þegar við heimsækjum eða flytjum til lands þar sem starfið er bannað?

14 Lönd þar sem starfið er bannað: Í sumum löndum þurfa trúsystkini okkar að sýna mikla aðgát þegar þeir þjóna Jehóva. (Matt. 10:16) Boðberar, sem heimsækja þessi lönd eða flytja þangað, gætu óvart dregið óviðeigandi athygli að starfsemi trúsystkina okkar og þar með stofnað þeim í hættu. Ef þú ert að hugsa um að flytja á slíkan stað skrifaðu þá bréf til deildarskrifstofunnar í heimalandi þínu og biddu öldungana um að koma því til skila áður en þú gerir frekari ráðstafanir.

15. Hvernig geta þeir sem eru ekki í aðstöðu til að flytja aukið þjónustuna heima fyrir?

15 Ef þú getur ekki flutt: Láttu ekki hugfallast þó að þú sért ekki í aðstöðu til að flytja til annars lands. Kannski eru aðrar „víðar dyr að miklu verki“ opnar fyrir þig. (1. Kor. 16:8, 9) Farandhirðirinn veit kannski af þörfum verkefnum sem þú gætir sinnt án þess að þurfa að flytja. Þú gætir ef til vill aðstoðað erlendan málhóp eða söfnuð í nágrenninu. Þú gætir líka aukið starf þitt í heimasöfnuðinum. Það mikilvægasta er að þú tilbiðjir Jehóva af heilum huga, hverjar sem aðstæður þínar eru. – Kól. 3:23.

16. Hvernig ættum við að koma fram við þá sem langar til að flytja til annarra landa?

16 Veistu um andlega þroskaða einstaklinga sem hafa það markmið að þjóna erlendis? Veittu þeim þá stuðning og hvatningu. Þegar Páll fór frá Antíokkíu í Sýrlandi var hún þriðja stærsta borgin í Rómaveldi (á eftir Róm og Alexandríu). Þar sem svæðið var svona stórt hefur söfnuðurinn í Antíokkíu líklega haft mikla þörf fyrir aðstoð Páls og myndi sakna hans mikið ef hann færi. Í Biblíunni stendur samt ekkert um að trúsystkini hans þar hafi dregið úr honum. Þau virðast ekki hafa verið þröngsýn heldur hafa þau haft í huga að „akurinn er heimurinn“. – Matt. 13:38.

17. Hvers vegna ættum við að íhuga að fara „yfir til Makedóníu“?

17 Páll og félagar hans hlutu mikla blessun fyrir að þiggja boðið um að fara yfir til Makedóníu. Þegar þeir voru í borginni Filippí í Makedóníu hittu þeir Lýdíu og Jehóva opnaði „hjarta hennar og hún tók við því sem Páll sagði“. (Post. 16:14) Ímyndaðu þér gleðina sem Páll og félagar hans fundu fyrir þegar Lýdía og allt heimilisfólk hennar lét skírast. Í mörgum löndum er til hjartahreint fólk eins og Lýdía sem hefur enn ekki fengið tækifæri til að kynnast boðskapnum um Guðsríki. Ef þú ferð „yfir til Makedóníu“ gætir þú upplifað gleðina sem fylgir því að aðstoða þetta fólk.

[Rammi á bls. 5]

Er mikil þörf á boðberum í landinu sem þú hefur í huga?

• Flettu upp í nýjustu árbókinni. Skoðaðu sérstaklega hve margir íbúar eru á hvern boðbera.

• Notaðu efnisskrána (Index) til að leita að greinum um landið og frásögum þaðan.

• Ræddu við boðbera sem hafa farið til landsins eða búið þar.

• Ef þú ert að hugsa um land þar sem þú gætir prédikað á móðurmáli þínu leitaðu þá upplýsinga, til dæmis á Netinu, til að kanna hve margir þar í landi tala það.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila