Tökum spámennina til fyrirmyndar – Amos
1. Hvers vegna getur fordæmi Amosar verið okkur til hvatningar?
1 Hefur þér einhvern tíma fundist þú vera óhæfur til að boða trúna vegna þess að þú hefur ekki mikla menntun? Ef svo er þá gætir þú lært heilmikið af Amosi. Hann var fjárhirðir og verkamaður en samt gerði Jehóva honum kleift að flytja mjög mikilvægan boðskap. (Amos 1:1; 7:14, 15) Nú á dögum notar Jehóva líka þá sem þykja ekki merkilegir í heiminum. (1. Kor. 1:27-29) Hvað fleira getum við lært af Amosi spámanni til að nýta okkur í boðunarstarfinu?
2. Hvers vegna getum við verið staðföst þótt við mætum andstöðu í boðunarstarfinu?
2 Verum staðföst þótt við mætum andstöðu: Þegar Amasía, sem var prestur og kálfadýrkandi nyrst í tíuættkvíslaríkinu Ísrael, heyrði Amos spá sagði hann eitthvað á þessa leið: ,Farðu heim til þín og láttu okkur vera. Við höfum okkar trú.‘ (Amos 7:12, 13) Amasía rangfærði orð spámannsins þegar hann fór fram á að Jeróbóam konungur bannaði starf Amosar. (Amos 7:7-11) Þetta dró samt ekki kjarkinn úr Amosi. Nú á dögum sækjast sumir prestar eftir stuðningi stjórnmálamanna við að ofsækja fólk Jehóva. Hins vegar fullvissar Jehóva okkur um að ekkert vopn sem smíðað verður gegn okkur reynist sigursælt. – Jes. 54:17.
3. Hvaða tvíþætta boðskap boðum við?
3 Boðum dóm Guðs og væntanlega blessun: Þótt Amos hafi spáð dómi yfir tíuættkvíslaríkinu Ísrael lauk hann biblíubókinni, sem ber nafn hans, með loforði Jehóva um endurreisn og ríkulega blessun. (Amos 9:13-15) Við tölum líka um ,þann dag er óguðlegir menn verða dæmdir‘ en það er aðeins hluti af ,fagnaðarerindinu um ríkið‘ sem við eigum að boða. (2. Pét. 3:7; Matt. 24:14) Jehóva eyðir óguðlegum í Harmagedón til að undirbúa jörðina fyrir paradís. – Sálm. 37:34.
4. Hvað veitir okkur fullvissu um að við getum framkvæmt vilja Jehóva?
4 Að boða fagnaðarerindið um ríkið í heimi þar sem margir er andsnúnir okkur reynir svo sannarlega á hollustu okkar við Jehóva og leiðir í ljós hve ákveðin við erum að gera vilja hans. (Jóh. 15:19) Samt sem áður erum við fullviss um að Jehóva haldi áfram að styrkja okkur eins og Amos svo að við séum hæf til að framkvæma vilja hans. – 2. Kor. 3:5.