Tökum spámennina til fyrirmyndar – Hósea
1. Hvaða spurningu hefur þú ef til vill velt fyrir þér?
1 Hvaða fórnir er ég fús til að færa Jehóva? Þú hefur ef til vill velt þessari spurningu fyrir þér eftir að hafa hugleitt ríkulega gæsku hans og miskunn. (Sálm. 103:2-4; 116:12) Hósea var fús til að fylgja öllum fyrirmælum Jehóva, jafnvel þótt það kostaði hann persónulegar fórnir. Hvernig getum við líkt eftir Hósea?
2. Hvernig getum við líkt eftir góðu fordæmi Hósea og sýnt þrautseigju í boðunarstarfinu?
2 Boðaðu orðið á erfiðleikatímum: Boðskapur Hósea var fyrst og fremst ætlaður tíuættkvíslaríkinu Ísrael, en þar hafði sannri tilbeiðslu næstum verið útrýmt. Konungurinn Jeróbóam annar gerði það sem illt var í augum Jehóva og stundaði kálfadýrkun sem Jeróbóam fyrsti hafði komið á. (2. Kon. 14:23, 24) Andleg hnignun tíuættkvíslaríkisins hélt áfram í stjórnartíð næstu konunga á eftir honum þangað til ríkinu var endanlega eytt árið 740 f.Kr. En þrátt fyrir ríkjandi falstrúariðkun þjónaði Hósea spámaður dyggilega í að minnsta kosti 59 ár. Erum við eins ákveðin í að boða trúna ár eftir ár, jafnvel þótt við mætum sinnuleysi eða andstöðu? – 2. Tím. 4:2.
3. Hvernig endurspeglaði líf Hósea miskunnsemi Jehóva?
3 Íhugum miskunn Guðs: Jehóva sagði við Hósea: „Gakktu að eiga hórkonu.“ (Hós. 1:2) Gómer, eiginkona hans, fæddi honum son, en síðar meir virðist hún hafa eignast tvö óskilgetin börn. Hósea var tilbúinn að fyrirgefa eiginkonu sinni og það endurspeglaði miskunnsemi Jehóva gagnvart hinum ótrúu Ísraelsmönnum þegar þeir iðruðust. (Hós. 3:1; Rómv. 9:22-26) Erum við tilbúin til að ýta persónulegum skoðunum okkar til hliðar til að geta boðað alls konar fólki miskunn Jehóva? – 1. Kor. 9:19-23.
4. Nefnið dæmi um fórnir sem við gætum fært Jehóva.
4 Sumir þjónar Jehóva hafa fórnað arðvænlegum starfsframa til að geta varið meiri tíma í þjónustu hans. Aðrir hafa verið einhleypir eða barnlausir til að geta þjónað Jehóva sem best. Þegar við hugleiðum ævi Hósea gætum við hugsað sem svo: „Ég gæti aldrei gert það sem hann gerði.“ En þegar skilningur okkar á óverðskuldaðri gæsku Jehóva eykst og við förum að reiða okkur á þann styrk sem heilagur andi hans veitir okkur, gætum við orðið að liði í þjónustu Jehóva á þann hátt sem okkur óraði aldrei fyrir, líkt og Hósea. – Matt. 19:26; Fil. 2:13.