Boðunarskólinn árið 2015 hjálpar okkur að bæta okkur í kennslunni
1 Sálmaritarinn Davíð skrifaði: „Mættu orð mín vera þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns koma fram fyrir þig, Drottinn, bjarg mitt og frelsari.“ (Sálm. 19:14) Við viljum líka að orð okkar séu Jehóva þóknanleg vegna þess að okkur finnst dýrmætt að fá að tala um sannleikann í söfnuðinum og í boðunarstarfinu. Boðunarskólinn er ein af þeim leiðum sem Jehóva notar til að þjálfa okkur fyrir boðunarstarfið. Þessi þjálfun fer fram í hverri viku í meira en 111.000 söfnuðum víðs vegar um heiminn. Boðunarskólinn hefur hjálpað bræðrum og systrum úr öllum stéttum um allan heim að hafa nægilega kunnáttu til að vera boðberar fagnaðarerindisins sem geta kennt með sannfæringu, háttvísi og djörfung. – Post. 19:8; Kól. 4:6.
2 Námsskrá Boðunarskólans árið 2015 sækir efni í eftirfarandi heimildir: Kynning á orði Guðs [igw], Varðturninn [w], Vaknið! [g], Hvað kennir Biblían? [bh], Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar [dp], Spádómur Jesaja – ljós handa öllu mannkyni 1. bindi [ip-1], Biblíusögubókin mín [my], Farsælt fjölskyldulíf – hver er leyndardómurinn? [fy], „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“ [lv], Tilbiðjum hinn eina sanna Guð [wt], Ættum við að trúa á þrenninguna? [ti] og Námsgreinar úr Varðturninum 2006 [br4]. Auk þess hafa verið gerðar breytingar á úthlutuðum tíma fyrir höfuðþætti biblíulesefnisins og 1. verkefni. Fjallað er um þessar breytingar ásamt leiðbeiningum um hvernig á að flytja verkefnin í eftirfarandi greinum.
3 Höfuðþættir biblíulesefnisins: Bræður, sem fá þetta verkefni, hafa tvær mínútur til að fjalla um eitt áhugavert og hagnýtt atriði úr biblíulestri vikunnar. Með góðum undirbúningi er hægt að segja söfnuðinum frá mikilvægu atriði innan úthlutaðs tíma. Síðan hafa áheyrendur sex mínútur eins og áður til að gefa athugasemdir, 30 sekúndur eða minna, um það sem þeim þótti athyglisvert í biblíulesefni vikunnar. Það krefst undirbúnings og sjálfstjórnar að gefa innihaldsríkar athugasemdir á 30 sekúndum, en það er góð þjálfun fyrir okkur. Aðrir fá þá tíma til að segja frá því sem þeir fundu í undirbúningi sínum.
4 1. verkefni: Úthlutaður tími fyrir biblíulestur hefur verið styttur í þrjár mínútur eða skemur og er þá farið yfir minna efni í Biblíunni. Þeir sem fá þetta verkefni ættu að æfa sig nokkrum sinnum með því að lesa upphátt og gefa nákvæmar gætur að framburði og leitast við að lesa reiprennandi til þess að koma merkingunni vel til skila. Allir þjónar Jehóva ættu að kappkosta að lesa vel þar sem lestur gegnir stóru hlutverki í tilbeiðslu okkar. Það gleður okkur hve mörg börn meðal okkar lesa vel. Foreldrar eiga hrós skilið fyrir að leggja sig fram við að hjálpa börnunum að vera góð í lestri.
5 2. verkefni: Þetta verkefni á að taka fimm mínútur og er í umsjá systur. Hún ætti að nota úthlutað stef. Þegar verkefnið er byggt á bæklingnum Kynning á orði Guðs [igw] á efnið að miðast við einhverja grein boðunarstarfsins og vera raunhæft og gagnlegt miðað við aðstæður á boðunarsvæði safnaðarins. En þegar verkefnið er byggt á biblíupersónu á nemandinn að vinnu úr stefinu, lesa efnið sem gefið er upp, velja síðan viðeigandi biblíuvers og sýna hvað við getum lært af frásögunni um biblíupersónuna. Auk þess má bæta við biblíuversum sem passa við efnið. Umsjónarmaður skólans velur einn aðstoðarmann fyrir nemandann.
6 3. verkefni: Þetta verkefni á að taka fimm mínútur og má vera í umsjá bróður eða systur. Þegar systir sér um verkefnið á alltaf að flytja það í samræmi við leiðbeiningarnar um 2. verkefni. Þegar bróðir sér um verkefni, sem fjallar um biblíupersónu, á hann að flytja það sem ræðu og miða það við áheyrendur. Nemandinn ætti að vinna úr stefinu sem honum er úthlutað og velja biblíuvers sem hæfa efninu og benda á hvað við getum lært af fordæmi biblíupersónunnar.
7 Nýjung varðandi 3. verkefni fyrir bræður: Þegar bróður er falið efni úr bæklingnum Kynning á orði Guðs á hann að fara með það sem sýnikennslu og sýna hvernig fjölskyldunám fer fram, eða sem kynningu í boðunarstarfinu. Umsjónarmaður skólans velur aðstoðarmann og sviðsetningu. Sá sem er til aðstoðar ætti að tilheyra fjölskyldu nemandans eða vera bróðir í söfnuðinum. Það má bæta við biblíuversum sem beina athygli að meginreglum Biblíunnar og tengjast efninu. Öðru hvoru má fela öldungi þetta verkefni. Hann getur þá sjálfur valið aðstoðarmann og sviðsetningu. Það á án efa eftir að verða hvetjandi fyrir söfnuðinn að sjá öldung beita góðri kennslutækni.
Tökum framförum með því að þiggja leiðbeiningar og fara eftir þeim
8 Leiðbeiningar: Eftir hvert verkefni ætti umsjónarmaður skólans að nota tvær mínútur til að hrósa og koma með uppbyggilegar leiðbeiningar frá bókinni Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum. Þegar umsjónarmaður skólans kynnir nemendaræðu tilkynnir hann ekki að hvaða þjálfunarlið nemandinn er að vinna. En eftir nemendaræðuna á umsjónarmaður skólans að hrósa fyrir það sem vel er gert og nefna síðan þjálfunarliðinn sem nemandinn var að vinna að. Hann ætti einnig að segja að hvaða leyti nemandinn stóð sig vel eða benda hlýlega á hverju hann þurfi að gefa frekari gaum.
9 Lista yfir þjálfunarliði er að finna í eintaki hvers nemanda af Boðunarskólabókinni á bls. 79-81. Eftir að nemandi hefur flutt verkefni merkir umsjónarmaður skólans við viðeigandi reiti þegar hann hefur spurt nemandann einslega hvort hann hafi gert æfingarnar sem fylgja þjálfunarliðnum. Það má hrósa nemandanum og gefa honum frekari ráðleggingar eftir samkomuna eða við annað tækifæri. Sú athygli, sem hver nemandi fær í Boðunarskólanum, ætti að skoðast sem tækifæri til að hjálpa honum að taka framförum í þjónustu Guðs. – 1. Tím. 4:15.
10 Ef nemandi fer fram yfir úthlutaðan tíma ætti umsjónarmaður skólans eða aðstoðarmaður hans að vera viðbúinn að gefa merki, svo að lítið beri á, um að tíminn sé liðinn t.d. með bjöllu eða banki. Nemandinn ætti þá að taka mark á því, ljúka setningunni og ganga síðan af sviðinu. – Sjá Boðunarskólabókina bls. 282, gr. 4.
11 Allir sem uppfylla kröfur Boðunarskólans eru hvattir til að innrita sig í skólann. (Sjá Boðunarskólabókina bls. 282, gr. 6) Menntunin, sem þessi skóli veitir, hefur hjálpað þjónum Jehóva að boða fagnaðarerindið um ríkið og kenna með sannfæringu, virðingu og kærleika. Jehóva er án efa ánægður að fá lof allra þeirra sem hafa notið góðs af þessari menntun. – Sálm. 148:12, 13; Jes. 50:4.