Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 3.15 bls. 3-6
  • Samansafnanir sem þjóna tilgangi sínum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Samansafnanir sem þjóna tilgangi sínum
  • Ríkisþjónusta okkar – 2015
  • Svipað efni
  • Höfum fullt gagn af samansöfnunum fyrir boðunarstarfið
    Ríkisþjónusta okkar – 2006
  • Samansafnanir fyrir boðunarstarfið
    Ríkisþjónusta okkar – 2009
  • Spurningakassinn
    Ríkisþjónusta okkar – 2001
  • Undirbúum gagnlegar samansafnanir
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2021
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 2015
km 3.15 bls. 3-6

Samansafnanir sem þjóna tilgangi sínum

1. Hver er tilgangurinn með samansöfnunum?

1 Eitt sinn talaði Jesús við 70 lærisveina áður en þeir lögðu af stað í boðunarferð. (Lúk. 10:1-11) Hann hvatti þá með því að minna þá á að þeir væru ekki einir og að „Drottinn uppskerunnar“, Jehóva, leiddi þá. Hann gaf þeim líka leiðbeiningar svo að þeir væru undirbúnir fyrir verkið sem hann fól þeim og lét þá fara „tvo og tvo“ saman. Samansafnanir fyrir boðunarstarfið þjóna sama tilgangi fyrir okkur – að hvetja, undirbúa og skipuleggja hópinn.

2. Hversu langan tíma ætti samansöfnun að taka?

2 Nú taka samansafnanir 10 til 15 mínútur, að meðtöldum tímanum sem fer í að skipuleggja samstarf, úthluta svæði og fara með bæn. Nú verður gerð breyting þar á. Frá og með apríl verða samansafnanir fimm til sjö mínútur að lengd. En samansöfnun rétt á eftir safnaðarsamkomu á að taka enn styttri tíma, þar sem umræður út frá Biblíunni hafa þegar farið fram. Stuttar samansafnanir gera öllum kleift að nota meiri tíma í boðunarstarfinu. Auk þess þurfa þeir brautryðjendur eða boðberar, sem eru þegar byrjaðir í boðunarstarfinu, aðeins að gera stutt hlé á starfinu.

3. Hvernig er hægt að undirbúa samansafnanir svo að boðberarnir hafi sem mest gagn af þeim?

3 Samansafnanir ætti að undirbúa þannig að þær komi boðberum að sem mestu gagni. Í mörgum söfnuðum er hentugra fyrir starfshópana að hittast hver í sínu lagi frekar en að allir hittist á einum stað. Þá gæti verið auðveldara fyrir boðbera að komast í samansöfnun og út á starfssvæðið. Það tekur styttri tíma fyrir boðbera að skipuleggja starfið og verður auðveldara fyrir umsjónarmenn starfshópanna að fylgjast vel með starfshópnum sínum. Öldungaráðið getur tekið mið af aðstæðum og ákveðið hvað sé best að gera. Áður en samansöfnun lýkur með stuttri bæn ættu allir að vita hvar þeir eiga að starfa og með hverjum.

4. Hvers vegna eru samansafnanir ekkert síður mikilvægar en aðrar safnaðarsamkomur?

4 Ekki síður mikilvægar en aðrar safnaðarsamkomur: Þar sem samansafnanir eru fyrir þá sem ætla í boðunarstarfið er ekki víst að allir í söfnuðinum mæti. Þetta þýðir þó ekki að við ættum að vera kærulaus gagnvart samansöfnunum eða að þær séu síður mikilvægar en aðrar safnaðarsamkomur. Jehóva hefur séð okkur fyrir samansöfnunum, eins og öðrum samkomum, sem gera okkur kleift að hvetja hvert annað til kærleika og góðra verka. (Hebr. 10:24, 25) Stjórnandinn ætti því að vera vel undirbúinn svo að umræðurnar heiðri Jehóva og komi viðstöddum að góðum notum. Boðberar, sem eru á leið í boðunarstarfið, ættu að leitast við að mæta í samansöfnun ef það er raunhæfur möguleiki.

Við ættum að taka samansafnanir jafn alvarlega og aðrar safnaðarsamkomur og meta þær mikils

5. (a) Hvert er hlutverk starfshirðisins í skipulagningu samansafnana? (b) Hvernig ætti systir að stjórna samansöfnun?

5 Undirbúningur stjórnandans: Til að geta verið vel undirbúinn til að sjá um atriði á samkomu þarf viðkomandi að fá verkefnið fyrir fram. Þetta á ekki síður við um samansafnanir fyrir boðunarstarfið. Þegar starfshóparnir hittast hver í sínu lagi sjá umsjónarmenn hópanna eða aðstoðarmenn þeirra að sjálfsögðu um að stjórna samansöfnun. Hins vegar skipuleggur starfshirðirinn hver stjórnar þegar söfnuðurinn hefur sameiginlega samansöfnun. Sumir starfshirðar láta alla umsjónarmenn fá dagskrá sem er líka hengd upp á tilkynningatöflu. Starfshirðirinn ætti að beita dómgreind þegar hann velur þann sem á að stjórna samansöfnun og hafa í huga að gæði samkomunnar ráðast af hæfni stjórnandans til að kenna og skipuleggja. Suma daga, þegar enginn öldungur, þjónn eða hæfur skírður bróðir getur tekið verkefnið að sér, ætti starfshirðirinn að fela skírðri systur, sem er til þess hæf, að stjórna samansöfnuninni. – Sjá greinina „Þegar systir þarf að stjórna samansöfnun“.

6. Hvers vegna er það mikilvægt fyrir stjórnanda samansöfnunar að undirbúa sig vel?

6 Þegar við fáum verkefni í Boðunarskólanum eða á þjónustusamkomu tökum við það alvarlega og undirbúum okkur vel. Fáir myndu bíða með að huga að því hvað þeir ætla að segja þangað til þeir væru á leiðinni á samkomu. Að stjórna samansöfnun fyrir boðunarstarfið er jafn mikilvægt verkefni. Þar sem samansöfnun verður stytt er góður undirbúningur sérstaklega mikilvægur svo hún verði gagnleg og henni ljúki á réttum tíma. Góður undirbúningur felur einnig í sér að vera fyrir fram tilbúinn með svæði.

7. Hvað gæti stjórnandi samansöfnunar rætt um?

7 Hvað á að ræða um? Þar sem aðstæður eru breytilegar frá einu svæði til annars hefur trúi þjónninn ekki útbúið uppkast fyrir hverja samansöfnun. Í rammagreininni „Stjórnandinn gæti haft eftirfarandi í huga í samansöfnun“, er að finna nokkrar hugmyndir. Venjulega stýrir stjórnandinn umræðum í samansöfnuninni. Stundum er hægt að hafa vel undirbúna sýnikennslu eða sýna viðeigandi myndskeið á jw.org. Þegar stjórnandi undirbýr samansöfnun ætti hann að hugsa um atriði sem hvetja og undirbúa þá sem fara út í starfið þann dag.

Þegar stjórnandi samansöfnunar undirbýr sig ætti hann að íhuga hvað hvetji og undirbúi þá sem fara í boðunarstarfið þann daginn

8. Hvað gæti verið gott að ræða um í samansöfnun fyrir boðunarstarfið á laugardögum og sunnudögum?

8 Á laugardögum bjóða flestir boðberar Varðturninn og Vaknið! Margir sem taka þátt í boðunarstarfinu á laugardögum fara ekki á virkum dögum og því gæti þeim þótt erfitt að muna ritakynninguna sem þeir æfðu á tilbeiðslukvöldi fjölskyldunnar. Það gæti þess vegna verið gagnlegt ef stjórnandinn rifjaði upp eina af ritakynningunum á baksíðu Ríkisþjónustunnar. Aðrir möguleikar gætu verið að ræða nýlega frétt, atburð eða hátíð sem væri hægt að flétta inn í blaðakynningu, eða minnast á hvernig leggja megi grunn að endurheimsókn þegar fólk þiggur blöðin. Ef einhver í samansöfnuninni hefur boðið nýjustu blöðin gæti stjórnandinn beðið hann um að koma með tillögu eða segja frá hvetjandi reynslu. Á sunnudögum mætti gera eitthvað svipað í tengslum við tilboð mánaðarins. Bjóða má hvaða dag sem er námsrit eins og Gleðifréttir frá Guði, Hlustaðu á Guð og lifðu að eilífu og bókina Hvað kennir Biblían? Stjórnandinn gæti því farið stuttlega yfir kynningu fyrir eitt af þessum ritum.

9. Hvað væri hægt að gera um helgar þegar sérstakt boðunarátak er í gangi?

9 Þegar söfnuðurinn tekur þátt í boðunarátaki um helgi gæti stjórnandinn bent á hvernig hægt sé að bjóða nýjustu blöðin ásamt boðsmiða eða smáriti, eða hvað væri gott að gera þegar húsráðandi sýnir áhuga. Annar möguleiki væri að hvetja boðbera til segja reynslufrásögur sem sýna gildi slíks boðunarátaks.

10, 11. Hvers vegna er mikilvægt að boðberar undirbúi sig fyrir samansöfnun?

10 Hvernig eiga boðberar að undirbúa sig? Boðberar eiga einnig sinn þátt í að gera samansöfnun gagnlega. Ef við undirbúum okkur fyrir boðunarstarfið, til dæmis á tilbeiðslukvöldi fjölskyldunnar, getum við deilt einhverju góðu með öðrum boðberum. Góður undirbúningur felur einnig í sér að útvega sér blöð og rit fyrir samansöfnun svo að allir geti haldið af stað út á svæðið án þess að tefja of lengi.

11 Það er líka mikilvægt að reikna með að mæta fáeinum mínútum áður en samansöfnun byrjar. Auðvitað leitumst við við að mæta tímanlega á allar safnaðarsamkomur. En það er sérstaklega truflandi þegar við mætum of seint í samansöfnun. Hvers vegna? Stjórnandinn þarf að hafa ýmsa þætti í huga áður en hann skipuleggur hópinn. Ef fáir boðberar mæta gæti hann til dæmis sent þá á svæði sem er ekki búið að klára að fara yfir. Ef einhverjir koma gangandi í samansöfnun og svæðið er ekki í göngufæri gæti hann skipulagt að þeir færu með boðberum sem eru á bíl. Ef mikið er um glæpi á svæðinu gæti hann beðið bræður um að starfa með systrunum eða nálægt þeim. Lasburða boðbera mætti senda á svæði þar sem ekki er mikið um brekkur eða tröppur. Einnig mætti láta nýja boðbera starfa með þeim reyndu. En ef boðberar mæta of seint þarf gjarnan að skipuleggja allt upp á nýtt til að taka þá með í myndina. Að sjálfsögðu er stundum gild ástæða fyrir því að við mætum of seint. En ef við höfum það fyrir vana að koma of seint gætum við spurt okkur hvort við metum ekki samansafnanir nægilega mikið eða hvort við séum ekki nógu skipulögð.

12. Hvað gæti verið gott að hafa í huga ef þú skipuleggur venjulega sjálfur með hverjum þú starfar?

12 Boðberar, sem koma í samansöfnun, geta sjálfir skipulagt fyrir fram með hverjum þeir starfa eða látið stjórnandann finna samstarfsfélaga fyrir sig. Gætirðu látið „verða rúmgott“ hjá þér og farið með mismunandi boðberum frekar en að fara alltaf með bestu vinum þínum? (2. Kor. 6:11-13) Og gætirðu stundum starfað með nýjum boðbera til að hjálpa honum að taka framförum í boðunarstarfinu? (1. Kor. 10:24; 1. Tím. 4:13, 15) Hlustaðu vandlega á allar leiðbeiningar, þar á meðal þær er varða hvar þú átt að byrja að starfa. Forðastu að breyta skipulaginu eftir að samansöfnun lýkur og farðu fljótt út í starfið.

13. Hvernig koma samansafnanir okkur að gagni þegar allir leggja samviskusamlega sitt að mörkum?

13 Lærisveinarnir 70, sem Jesús sendi út í boðunarstarfið, komu „aftur með fögnuði“. (Lúk. 10:17) Vafalaust hjálpaði það þeim að ná árangri að hlusta á Jesú áður en þeir fóru af stað. Samansafnanir fyrir boðunarstarfið geta gert sama gagn. Ef allir leggja samviskulega sitt að mörkum verða þær til þess að hvetja, undirbúa og skipuleggja okkur til að fullna verk okkar að prédika „um alla heimsbyggðina“. – Matt. 24:14.

Þegar systir þarf að stjórna samansöfnun

Systir ætti að hafa höfuðfat og að öllu jöfnu sitja þegar hún stjórnar samansöfnun. Hún getur tekið fyrir svipað efni og bróðir myndi gera. Hún ætti að hefja umræður en forðast að láta líta út fyrir að vera að kenna viðstöddum. Ef hún býður annarri skírðri systur að fara með bæn ætti sú systir einnig að hafa höfuðfat. Ef skírður bróðir mætir í samansöfnunina eftir að hún hefst býður systirin honum yfirleitt að ljúka samansöfnuninni. Starfshirðirinn ætti að reyna að sjá fyrir óvenjulegar aðstæður og gefa viðeigandi leiðbeiningar til að minnka líkur á vandræðalegum uppákomum. Til dæmis gæti mjög ungur skírður bróðir mætt í samansöfnun þegar systir hefur verið fengin til að stjórna, en öldungunum finnst hann ekki enn þá vera hæfur til að stjórna samansöfnun. Í slíkum tilfellum gæti starfshirðirinn upplýst þá sem málið varða að systirin ætti að stjórna samansöfnuninni, en bróðirinn ætti að fara með bæn ef öldungarnir telja hann hæfan til þess. Eða kannski er fullorðinn bróðir mættur sem hefur ekki leyfi til að stjórna samansöfnun eða fara með bæn í söfnuðinum af ástæðu sem öldungarnir þekkja. Án þess að gefa upp trúnaðarupplýsingar ættu öldungarnir að láta systurnar, sem hafa fengið þetta verkefni, vita að þær eigi að stjórna samansöfnun og fara með bæn þótt viðkomandi bróðir sé viðstaddur. Öldungarnir gætu einnig látið þennan bróður vita hvenær systur eru skráðar sem stjórnendur í samansöfnunum.

Stjórnandinn gæti haft eftirfarandi í huga í samansöfnun:

  • Tillögur að kynningum úr Ríkisþjónustunni.

  • Myndskeið um boðunarstarfið á jw.org.

  • Afmarkaðan hluta góðrar kynningar eins og inngangsorð, grunn að endurheimsókn eða að minnast á frjáls framlög þegar rit eru þegin.

  • Uppörvandi eða fræðandi biblíuvers sem tengist boðunarstarfinu.

  • Starfsfrásögu af svæðinu eða úr ritum okkar.

  • Efni úr grein í Ríkisþjónustunni.

  • Efni úr atriði á nýlegri þjónustusamkomu.

  • Efni úr Varðturninum sem tengist boðunarstarfinu.

  • Efni úr Boðunarskólabókinni og bókinni „Komið og fylgið mér“ sem tengist boðunarstarfinu.

  • Efni á jw.org sem kemur að gagni í starfinu.

  • Efni úr bæklingnum Kynning á orði Guðs (igw).

  • Hvernig hefja á samræður við fólk sem líklegt er að maður hitti á starfssvæðinu, eins og trúleysingja, þróunarsinna, hindúa eða búddista.

  • Hvernig hægt er að bregðast við mótbárum sem binda gjarnan enda á samræður.

  • Hvernig hvetja megi samstarfsfélaga til að taka virkari þátt í boðuninni.

  • Hvernig gott sé að bregðast við þegar við hittum einhvern sem talar annað tungumál.

  • Hvernig hægt sé að fara að í ákveðnum greinum boðunarstarfsins eins og símastarfi, endurheimsóknum, biblíunámskeiðum, boðun meðal almennings eða þegar leitað er að fólki af ákveðnum málhópi.

  • Að minna á öryggi, sveigjanleika, kurteisi, jákvætt viðhorf og þvíumlíkt.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila