Hvernig geturðu beðið þannig að Guð hlusti á þig?
Jehóva Guð „heyrir bænir“. (Sálmur 65:3) Við getum beðið til hans hvar og hvenær sem er, upphátt eða í hljóði. Jehóva vill að við ávörpum sig „faðir“ og hann er besti faðir sem hugsast getur. (Matteus 6:9) Jehóva kennir okkur í kærleika sínum hvernig við getum beðið þannig að hann hlusti á okkur.
BIDDU TIL JEHÓVA GUÐS Í NAFNI JESÚ
„Ef þið biðjið föðurinn um eitthvað gefur hann ykkur það í mínu nafni.“ – Jóhannes 16:23.
Það sem Jesús sagði sýnir að Jehóva vill að við biðjum til sín í nafni Jesú Krists en ekki fyrir milligöngu líkneskja, dýrlinga, engla eða dáinna forfeðra. Þegar við biðjum til Guðs í nafni Jesú sýnum við að við viðurkennum mikilvægt hlutverk Jesú. Jesús sagði: „Enginn kemst til föðurins án mín.“ – Jóhannes 14:6.
TALAÐU FRÁ HJARTANU
„Úthell hjarta þínu fyrir honum.“ – Sálmur 62:9.
Þegar við biðjum til Jehóva ættum við að tala eins og við myndum tala við kærleiksríkan föður. Í stað þess að lesa úr bók eða þylja upp eitthvað sem við höfum lagt á minnið ættum við að tala við hann af virðingu og frá hjartanu.
BIDDU Í SAMRÆMI VIÐ VILJA GUÐS
,Hann heyrir okkur, hvað sem við biðjum um samkvæmt vilja hans.‘ – 1. Jóhannesarbréf 5:14.
Í Biblíunni segir Jehóva Guð okkur hvað hann ætlar að gera fyrir okkur og hvað hann vill að við gerum fyrir sig. Við þurfum að biðja „samkvæmt vilja hans“ til að bænir okkar séu honum velþóknanlegar. Það útheimtir að við kynnumst honum vel með því að rannsaka Biblíuna. Ef við gerum þetta hefur hann velþóknun á bænum okkar.
UM HVAÐ GETUM VIÐ BEÐIÐ?
Biddu um það sem þú hefur þörf á. Við getum beðið til Guðs um daglegar þarfir okkar – fæði, klæði og húsnæði. Við getum einnig beðið um visku til að taka réttar ákvarðanir og styrk til að þola raunir. Við getum beðið um trú, fyrirgefningu og hjálp Guðs. – Lúkas 11:3, 4, 13; Jakobsbréfið 1:5, 17.
Biddu fyrir öðrum. Umhyggjusamir foreldrar gleðjast þegar börnin þeirra elska hvert annað. Jehóva vill líka að börn sín á jörðinni beri umhyggju hvert fyrir öðru. Það er viðeigandi að biðja fyrir maka sínum, börnum, ættingjum og vinum. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Biðjið hvert fyrir öðru.“ – Jakobsbréfið 5:16.
Tjáðu þakklæti. Biblían segir um skapara okkar: „Hann hefur gefið ykkur regn af himni og uppskerutíma, veitt ykkur næga fæðu og fyllt hjörtu ykkar gleði.“ (Postulasagan 14:17) Þegar við hugsum um allt sem Guð hefur gert fyrir okkur fær það okkur til að tjá honum þakklæti okkar í bæn. Við ættum auðvitað líka að sýna með hegðun okkar að við erum Guði þakklát. – Kólossubréfið 3:15.
SÝNDU ÞOLINMÆÐI OG HALTU ÁFRAM AÐ BIÐJA
Stundum erum við kannski döpur vegna þess að við fáum ekki tafarlaust svar við einlægum bænum okkar. Ættum við að draga þá ályktun að Guð hafi ekki áhuga á okkur? Nei, alls ekki. Skoðum eftirfarandi dæmi sem sýna að við þurfum kannski bara að halda áfram að biðja.
Steve, sem minnst var á í upphafsgreininni, viðurkennir: „Ef ég hefði ekki haldið áfram að biðja hefði ég gefist upp á lífinu fyrir mörgum árum.“ Hvað varð til þess að viðhorf hans breyttist? Hann byrjaði að kynna sér Biblíuna og skildi mikilvægi þess að biðja stöðugt. „Ég bið til Guðs til að þakka honum fyrir þann kærleika og stuðning sem ég hef fengið frá vinum mínum,“ segir Steve. „Ég er ánægðari núna en nokkru sinni fyrr.“
En hvað um Jenny sem fannst hún ekki eiga skilið að Guð hlustaði á hana? Hún segir: „Þegar mér leið sem verst sárbændi ég Guð um að hjálpa mér að skilja af hverju mér fannst ég einskis virði.“ Hvernig hjálpaði það henni? „Að tala við Guð hjálpaði mér að líta sjálfa mig sömu augum og hann og skilja að þótt hjarta mitt fordæmi mig gerir hann það ekki. Það hefur líka hjálpað mér að gefast ekki upp.“ Hver var árangurinn? „Bænin hefur hjálpað mér að skilja að Jehóva er raunverulegur, kærleiksríkur og umhyggjusamur Guð, faðir og vinur sem verður alltaf til staðar fyrir mig og hjálpar mér ef ég held áfram að reyna að gera vilja hans.“
„Ég geri mér grein fyrir að hann er skýrasta svarið við bænum mínum,“ segir Isabel þegar hún sér son sinn Gerard njóta lífsins þrátt fyrir fötlun sína.
Skoðum nú reynslu Isabel. Þegar hún varð ófrísk sögðu læknarnir henni að barnið myndi fæðast alvarlega fatlað. Hún var niðurbrotin. Sumir hvöttu hana jafnvel til að binda enda á þungunina. „Mér leið eins og ég væri að deyja af allri angistinni sem ég fann í hjarta mér.“ Hvað gerði hún? „Ég bað aftur og aftur til Guðs um stuðning,“ segir hún. Sonur hennar, Gerard, fæddist fatlaður. Finnst Isabel að Guð hafi svarað bænum hennar? Já. Hvernig? „Þegar ég sé son minn, sem er núna 14 ára, njóta lífsins þrátt fyrir fötlun sína,“ segir Isabel, „geri ég mér grein fyrir að hann er skýrasta svarið við bænum mínum og mesta blessunin sem ég hef fengið frá Jehóva Guði.“
Einlægar frásögur sem þessar minna á það sem sálmaritarinn sagði: „Þú hefur heyrt óskir volaðra, Drottinn, þú eykur þeim þor og hneigir eyra þitt að þeim.“ (Sálmur 10:17) Við höfum því ærna ástæðu til að biðja stöðugt.
Í Biblíunni er að finna margar af bænum Jesú. Þekktasta bænin er örugglega sú sem hann kenndi lærisveinum sínum. Hvað getum við lært af henni?