Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w21 mars bls. 8-13
  • Allir í söfnuðinum geta hjálpað biblíunemendum til skírnar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Allir í söfnuðinum geta hjálpað biblíunemendum til skírnar
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ÞEGAR ÞÉR ER BOÐIÐ MEÐ Í BIBLÍUNÁMSKEIÐ
  • ÞEGAR BIBLÍUNEMANDI SÆKIR SAMKOMUR
  • HVAÐ GETA ÖLDUNGARNIR GERT?
  • Hvernig getum við hjálpað biblíunemendum til skírnar? – síðari hluti
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
  • Hvernig getum við hjálpað biblíunemendum til skírnar? – fyrri hluti
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
  • Hjálpum biblíunemendum okkar að verða hæfir til skírnar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
  • „Farið því og gerið fólk ... að lærisveinum“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
w21 mars bls. 8-13

NÁMSGREIN 10

Allir í söfnuðinum geta hjálpað biblíunemendum til skírnar

,Allir líkamshlutar stuðla að því að líkaminn vex.‘ – EF. 4:16.

SÖNGUR 85 Bjóðið alla velkomna

YFIRLITa

1, 2. Hverjir geta hjálpað biblíunemendum að verða hæfir til að láta skírast?

„ÉG HAFÐI yndi af því sem ég var að læra í biblíunáminu,“ segir Amy sem býr á Fídjí. „Ég vissi að það var sannleikurinn. En það var ekki fyrr en ég fór að verja tíma með bræðrum og systrum að ég gerði þær breytingar sem þurfti og lét skírast.“ Við lærum nokkuð mikilvægt af reynslu Amyar: Ef biblíunemandi fær hjálp frá fleirum í söfnuðinum eru meiri líkur á að hann taki stöðugum framförum og láti skírast.

2 Allir boðberar geta lagt sitt af mörkum til að hjálpa nýjum að koma inn í söfnuðinn. (Ef. 4:16) Brautryðjandi sem heitir Leilani og býr á Vanúatú segir: „Sagt hefur verið að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Ég held að það sama eigi við um að gera fólk að lærisveinum. Það þarf venjulega heilan söfnuð til að hjálpa einhverjum inn í sannleikann.“ Fjölskyldan, vinir og kennarar eiga öll sinn þátt í að hjálpa barni að vaxa og þroskast. Þau gera það með því að hvetja barnið og kenna því það sem það þarf að læra. Eins geta boðberar hjálpað biblíunemendum að verða hæfir til að láta skírast með því að gefa þeim ráð, hvetja þá og sýna þeim gott fordæmi. – Orðskv. 15:22.

3. Hvað lærum við af Önu, Dorín og Leilani?

3 Hvers vegna ætti boðberi sem heldur biblíunámskeið að gleðjast þegar aðrir í söfnuðinum hjálpa biblíunemandanum? Ana er sérbrautryðjandi í Moldóvu. Hún segir: „Það er mjög erfitt fyrir eina manneskju að sinna öllum þörfum biblíunemanda þegar hann byrjar að taka framförum.“ Dorín er líka sérbrautryðjandi í Moldóvu. Hann segir: „Oft segja aðrir boðberar eitthvað sem snertir hjarta nemandans, eitthvað sem mér hefði aldrei dottið í hug að segja.“ Leilani nefnir enn aðra ástæðu: „Kærleikurinn og hlýjan sem nemandinn finnur hjálpar honum að skilja að við erum í raun þjónar Jehóva.“ – Jóh. 13:35.

4. Hvað skoðum við í þessari grein?

4 En þú veltir kannski fyrir þér hvernig þú getir hjálpað biblíunemanda að taka framförum þegar þú ert ekki kennarinn. Skoðum hvað við getum gert þegar einhver býður okkur með í biblíunámskeið og hvað við getum gert þegar biblíunemandinn byrjar að mæta á samkomur. Við skoðum líka hvernig öldungar geta hjálpað biblíunemendum að verða hæfir til að láta skírast.

ÞEGAR ÞÉR ER BOÐIÐ MEÐ Í BIBLÍUNÁMSKEIÐ

Myndir: 1. Bróðir undirbýr námsefnið fyrir biblíunám sem honum er boðið með í. 2. Sami bróðirinn tekur þátt í umræðunum í biblíunámsstundinni.

Undirbúðu námsefnið þegar þér er boðið með í biblíunámskeið. (Sjá 5.–7. grein.)

5. Hvert er hlutverk þitt þegar þér er boðið með í biblíunámskeið?

5 Það er fyrst og fremst ábyrgð kennarans að hjálpa biblíunemandanum að skilja orð Guðs. Ef hann býður þér með ættirðu að líta á þig sem samstarfsmann hans. (Préd. 4:9, 10) Hvað getur þú gert til að gera biblíunámsstundina árangursríkari?

6. Hvernig geturðu fylgt ráðunum í Orðskviðunum 20:18 þegar þér er boðið að vera með í biblíunámskeiði?

6 Undirbúðu þig fyrir námsstundina. Biddu kennarann að segja þér aðeins frá nemandanum. (Lestu Orðskviðina 20:18.) Þú gætir spurt hann um bakgrunn nemandans, hvaða efni þið ætlið að fara yfir og hvað hann vilji að nemandinn læri í þessari námsstund. Er eitthvað sem þú ættir eða ættir ekki að segja eða gera í námsstundinni? Hvað getur hvatt nemandann til að taka framförum? Kennarinn segir þér auðvitað ekki frá neinum trúnaðarmálum en hann getur samt gefið þér gagnlegar upplýsingar. Trúboðssystir sem heitir Joy gerir það þegar hún býður öðrum með sér í biblíunámskeið. Hún segir: „Að ræða þetta hjálpar samstarfsfélaga mínum að sýna nemandanum áhuga og vita hvernig hann getur orðið að liði í biblíunámsstundinni.“

7. Hvers vegna þarft þú að undirbúa þig fyrir námsstund sem þér er boðið að vera með í?

7 Ef þér er boðið að vera með í biblíunámskeiði er gott ef þú getur undirbúið námsefnið fyrir fram. (Esra. 7:10) Dorín, bróðirinn sem var vitnað í áður, segir: „Ég kann að meta þegar samstarfsfélagi minn undirbýr sig fyrir námsstundina. Þá getur hann gefið gagnlegar athugasemdir.“ Og nemandinn tekur eflaust eftir því að þið eruð báðir vel undirbúnir og það er honum gott fordæmi. Þó að þú hafir ekki tök á að undirbúa námsefnið vel skaltu að minnsta kosti taka þér smá tíma til að fara yfir aðalatriðin.

8. Hvernig geturðu tryggt að bænir þínar í biblíunámskeiði séu innihaldsríkar?

8 Bænin er mikilvægur hluti af biblíunámsstundinni. Hugsaðu því fyrir fram hvað þú ætlir að segja ef þú verður beðinn að fara með bæn. Þá verður bæn þín eflaust innihaldsríkari. (Sálm. 141:2) Hanae, sem býr í Japan, man enn eftir bænum systurinnar sem biblíukennari hennar bauð með í námið. Hún segir: „Ég fann hvað hún átti sterkt vináttusamband við Jehóva og mig langaði að verða eins og hún. Og mér fannst ég líka mikils virði þegar hún nefndi mig á nafn þegar hún fór með bæn.“

9. Hvernig geturðu komið að gagni í biblíunámsstund samkvæmt Jakobsbréfinu 1:19?

9 Aðstoðaðu kennarann í námsstundinni. „Hjálpsamur samstarfsfélagi fylgist vel með í biblíunámsstundinni,“ segir Omamuyovbi, sérbrautryðjandi í Nígeríu. „Hann kemur með gagnlegar athugasemdir án þess að tala of mikið. Hann skilur að það er ábyrgð kennarans að stýra umræðunum.“ En hvað áttu þá að segja og hvenær? (Orðskv. 25:11) Hlustaðu vel á það sem kennarinn og nemandinn segja. (Lestu Jakobsbréfið 1:19.) Þá geturðu verið tilbúinn að taka til máls á réttum tíma. Þú þarft að sjálfsögðu að sýna góða dómgreind. Þú ættir til dæmis ekki að tala of mikið, trufla kennarann þegar hann er að útskýra eitthvað eða breyta um umræðuefni. En þú gætir hjálpað nemandanum að skilja efnið betur með stuttri athugasemd, líkingu eða spurningu. Stundum finnst þér þú kannski ekki hafa mikið til málanna að leggja. En þú getur lagt þitt af mörkum til að hjálpa nemandanum að taka framförum með því að hrósa honum og sýna honum persónulegan áhuga.

10. Hvernig gæti reynsla þín komið biblíunemanda að gagni?

10 Segðu frá reynslu þinni. Ef þú heldur að það komi nemandanum að gagni geturðu sagt honum stuttlega frá því hvernig þú kynntist sannleikanum, hvernig þú hefur sigrast á erfiðleikum eða hvernig þú hefur séð hönd Jehóva að verki í lífi þínu. (Sálm. 78:4, 7) Kannski er reynsla þín einmitt það sem nemandinn þarf að heyra. Hún gæti styrkt trú hans og hvatt hann til að halda áfram að taka framförum og láta skírast. Og reynsla þín gæti sýnt honum hvernig hann getur sigrast á vandamálum sem hann er að kljást við. (1. Pét. 5:9) Gabriel, sem býr í Brasilíu og er brautryðjandi, rifjar upp hvað hjálpaði honum þegar hann var að kynna sér Biblíuna: „Þegar ég heyrði reynslusögur bræðranna gerði ég mér grein fyrir að Jehóva tekur eftir erfiðleikum okkar. Og fyrst þeir gátu sigrast á þeim gæti ég það líka.“

ÞEGAR BIBLÍUNEMANDI SÆKIR SAMKOMUR

Myndir: 1. Bróðirinn sem heldur biblíunámskeiðið, eiginkona hans og biblíunemandinn heilsa hjónum á bílaplaninu fyrir framan ríkissalinn. 2. Tveir bræður heilsa nemandanum við inngang ríkissalarins. 3. Inni í salnum er nemandinn kynntur fyrir öðrum hjónum sem eru ánægð að hitta hann.

Við getum öll hvatt nemandann til að halda áfram að sækja samkomur. (Sjá 11. grein.)

11, 12. Hvers vegna ættum við að taka vel á móti biblíunemendum sem sækja samkomur?

11 Til að biblíunemandi geti tekið framförum og látið skírast þarf hann að sækja samkomur reglulega og hafa gagn af þeim. (Hebr. 10:24, 25) Kennarinn hans býður honum líklega á fyrstu samkomuna. En þegar hann kemur getum við öll hvatt hann til að halda áfram að koma í ríkissalinn. Hvernig getum við gert það?

12 Taktu vel á móti nemandanum. (Rómv. 15:7) Ef nemandinn fær að finna að hann er velkominn í ríkissalinn heldur hann líklega áfram að sækja samkomur. Taktu vel á móti nemandanum og kynntu hann fyrir öðrum, en án þess þó að gera hann vandræðalegan. Gerðu ekki ráð fyrir að einhver annar taki á móti honum. Kennarinn hans er kannski ekki kominn eða þarf að sinna öðrum verkefnum í ríkissalnum. Hlustaðu vel á nemandann og sýndu honum persónulegan áhuga. Hvaða áhrif gætu hlýjar móttökur þínar haft? Tökum Dmítríí sem dæmi, en hann skírðist fyrir fáeinum árum og er núna safnaðarþjónn. Hann segir um fyrstu samkomuna sem hann mætti á: „Einn bróðir tók eftir mér þar sem ég beið stressaður fyrir utan ríkissalinn og hann labbaði með mér inn. Ég var steinhissa hve margir komu og heilsuðu mér. Mér líkaði það svo vel að ég óskaði þess að það væri samkoma á hverjum degi. Ég hafði aldrei upplifað neitt þessu líkt.“

13. Hvaða áhrif getur framkoma þín haft á biblíunemanda?

13 Sýndu gott fordæmi. Framkoma þín getur átt þátt í að sannfæra biblíunemandann um að hann hafi fundið sannleikann. (Matt. 5:16) Vítalíí, sem er núna brautryðjandi í Moldóvu, segir: „Ég tók eftir líferni annarra í söfnuðinum, hvernig þeir hugsuðu og hegðuðu sér. Það sannfærði mig um að trú votta Jehóva væri sú rétta.“

14. Hvernig getur fordæmi þitt hjálpað öðrum að taka framförum?

14 Nemandinn þarf að fara eftir því sem hann lærir áður en hann getur látið skírast. Það er ekki alltaf auðvelt. En þegar nemandinn tekur eftir hve mikið gagn þú hefur af því að fylgja meginreglum Biblíunnar getur það hvatt hann til að gera það líka. (1. Kor. 11:1) Hanae, sem var minnst á áður, segir frá sinni reynslu: „Bræður og systur voru lifandi dæmi um það sem ég var að læra. Ég sá hvernig ég gæti verið hvetjandi, fús til að fyrirgefa og sýnt öðrum kærleika. Þau töluðu alltaf vel um aðra. Ég vildi líkja eftir þeim.“

15. Hvernig hjálpa Orðskviðirnir 27:17 okkur að skilja hvers vegna við ættum að vingast við biblíunemendur sem sækja samkomur?

15 Vertu vinur nemandans. Haltu áfram að sýna honum persónulegan áhuga þegar hann er farinn að sækja samkomur reglulega. (Fil. 2:4) Þú gætir reynt að kynnast honum betur. Þú getur hrósað honum fyrir jákvæðar breytingar sem hann hefur gert eða spurt hann út í biblíunámið sitt, fjölskylduna eða vinnuna. En passaðu að spyrja ekki spurninga sem gætu gert hann vandræðalegan. Að tala um þetta hjálpar þér að kynnast honum betur. Þegar þú vingast við nemandann hjálparðu honum að verða hæfur til að láta skírast. (Lestu Orðskviðina 27:17.) Hanae, sem er núna brautryðjandi, rifjar upp tímann þegar hún byrjaði að sækja samkomur: „Þegar ég eignaðist vini í söfnuðinum fór ég að hlakka til að fara á samkomur og ég mætti jafnvel þó að ég væri þreytt. Ég naut þess að umgangast nýja vini mína og það auðveldaði mér að slíta vináttunni við þá sem þjóna ekki Jehóva. Mig langaði til að nálægja mig Jehóva og bræðrum og systrum og ákvað því að láta skírast.“

16. Hvað geturðu gert fleira til að hjálpa biblíunemanda að líða vel í söfnuðinum?

16 Þegar nemandinn heldur áfram að taka framförum og gera breytingar skaltu láta hann finna að hann tilheyri söfnuðinum. Þú getur gert það með því að sýna honum gestrisni. (Hebr. 13:2) Denís, sem býr í Moldóvu, minnist þess tíma þegar hann var að kynna sér Biblíuna: „Okkur hjónunum var stundum boðið að verja tíma með trúsystkinunum. Þau sögðu okkur frá því hvernig Jehóva hjálpaði þeim. Það var okkur hvatning og við urðum viss um að við vildum þjóna Jehóva og að þá yrði líf okkar frábært.“ Þegar biblíunemandinn er orðinn boðberi geturðu líka boðið honum með þér í boðunina. Diego er boðberi í Brasilíu. Hann segir: „Margir bræður buðu mér samstarf. Það var besta leiðin til að kynnast þeim vel. Ég lærði heilmikið af því og mér fannst ég verða nánari Jehóva og Jesú.“

HVAÐ GETA ÖLDUNGARNIR GERT?

Myndir: 1. Nemandinn svarar í Varðturnsnámi safnaðarins. 2. Bróðirinn sem stýrir Varðturnsnáminu hrósar nemandanum eftir samkomuna.

Áhugi ykkar öldunganna getur hjálpað nemendum að taka framförum. (Sjá 17. grein.)

17. Hvernig geta öldungar aðstoðað biblíunemendur?

17 Gefðu þér tíma til að sinna biblíunemendum. Einlægur áhugi ykkar öldunganna getur hjálpað biblíunemendum að taka framförum og láta skírast. Geturðu gefið þér tíma að staðaldri til að tala við biblíunemendur á samkomum? Þeir finna að þú hefur áhuga á þeim þegar þú manst hvað þeir heita, sérstaklega þegar þeir byrja að svara á samkomum. Geturðu af og til tekið frá tíma til að fara með boðbera í biblíunámskeið? Þú hefur kannski meiri áhrif á nemandann en þú gerir þér grein fyrir. Brautryðjandi sem heitir Jackie og býr í Nígeríu segir: „Það hefur komið mörgum nemendum á óvart að vita að bróðirinn sem kom með mér í námið skuli vera öldungur. Einn biblíunemandi sagði: ,Presturinn minn myndi aldrei gera það! Hann heimsækir bara þá sem eru ríkir og bara ef þeir borga honum fyrir það.‘“ Þessi nemandi sækir núna samkomur.

18. Hvernig geta öldungar farið eftir því sem segir í Postulasögunni 20:28?

18 Þjálfaðu og hvettu biblíukennarana. Öldungar bera þá mikilvægu ábyrgð að hjálpa boðberum að ná árangri í boðun sinni og kennslu. (Lestu Postulasöguna 20:28.) Þú getur boðist til að stýra umræðunum ef boðberinn er feiminn við það þegar þú ert viðstaddur. Jackie, sem minnst var á áður, segir: „Öldungarnir spyrja mig reglulega um biblíunemendurna mína. Þegar ég á erfitt með að halda biblíunámskeið gefa þeir mér góð ráð.“ Öldungar geta gert margt til að uppörva og hvetja biblíukennara. (1. Þess. 5:11) Jackie bætir við: „Mér finnst gott þegar öldungarnir hvetja mig og segja að þeir kunni að meta það sem ég legg á mig. Það er hressandi eins og glas af köldu vatni á heitum degi. Hrós þeirra eykur sjálfstraust mitt og ég fæ meiri gleði af því að halda biblíunámskeiðin.“ – Orðskv. 25:25.

19. Hvaða ánægju getum við öll notið?

19 Þó að við höldum kannski ekki biblíunámskeið eins og er getum við samt hjálpað einhverjum að taka framförum í trúnni. Við getum aðstoðað kennarann í biblíunámsstund með vel undurbúnum athugasemdum okkar, án þess þó að tala of mikið. Við getum vingast við nemendur þegar þeir koma í ríkissalinn og við getum sýnt þeim gott fordæmi. Og öldungarnir geta hvatt nemendurna með því að gefa þeim af tíma sínum og kennarana með því að þjálfa þá og hrósa þeim. Það veitir okkur mikla ánægju að geta átt þó ekki sé nema lítinn þátt í að einhver læri að elska Jehóva og þjóna honum.

HVERNIG GETURÐU HJÁLPAÐ BIBLÍUNEMENDUM AÐ TAKA FRAMFÖRUM ...

  • þegar þér er boðið með í biblíunámskeið?

  • þegar þeir byrja að sækja samkomur?

  • ef þú ert öldungur?

SÖNGUR 79 Kennum þeim að vera staðfastir

a Við höldum ekki öll biblíunámskeið eins og er. En við getum öll hjálpað einhverjum að taka framförum og láta skírast. Í þessari grein skoðum við hvernig hvert og eitt okkar getur hjálpað biblíunemanda að ná því markmiði.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila