ÆVISAGA
Ég tók allar ákvarðanir með Jehóva í huga
EINN sólríkan morgun árið 1984 var ég á leiðinni í vinnuna frá þægilegu heimili okkar í íbúðahverfi í Karakas í Venesúela. Á leiðinni hugleiddi ég efni nýlegrar greinar í Varðturninum. Hún fjallaði um það hvernig nágrannar okkar líta á okkur. Ég horfði á húsin í kringum mig og velti fyrir mér: „Sjá nágrannar mínir mig aðeins sem vel stæðan bankastarfsmann? Eða sjá þeir mig sem þjón Guðs sem sér fyrir fjölskyldu sinni með því að vinna í banka?“ Ég var ekki ánægður með það svar sem virtist líklegast og ákvað því að gera eitthvað í málinu.
Ég fæddist 19. maí 1940 í bænum Amioûn í Líbanon. Nokkrum árum seinna fluttumst við fjölskyldan til borgarinnar Trípólí þar sem ég ólst upp í kærleiksríkri og traustri fjölskyldu sem þekkti og elskaði Jehóva Guð. Ég var yngstur fimm barna, það voru þrjár stelpur og tveir strákar. Að afla peninga var ekki í fyrsta sæti hjá foreldrum mínum. Líf okkar snerist um biblíunám, safnaðarsamkomur og að hjálpa öðrum að kynnast Guði.
Í söfnuðinum okkar voru nokkrir andasmurðir boðberar. Einn þeirra var Michel Aboud, en hann stjórnaði bóknáminu eins og það var kallað þá. Hann kynntist sannleikanum í New York og hóf boðunina í Líbanon árið 1921. Ég minnist þess sérstaklega hvað hann var kurteis og hjálpfús við tvær ungar systur sem höfðu útskrifast úr Gíleaðskólanum – Anne og Gwen Beavor. Þær urðu góðar vinkonur okkar. Það gladdi mig mjög að hitta Anne í Bandaríkjunum mörgum árum seinna. Nokkru síðar hitti ég líka Gwen sem hafði þá gifst Wilfred Gooch og starfaði á Betel við deildarskrifstofuna í Lundúnum.
BOÐUNIN Í LÍBANON
Það voru fáir vottar í Líbanon þegar ég var barn. En við vorum áköf að segja öðrum frá því sem við vissum um Biblíuna. Við gerðum það þótt sumir trúarleiðtogar væru okkur andsnúnir. Nokkrar uppákomur eru mér sérstaklega minnisstæðar.
Einn daginn vorum við Sana systir mín að boða trúna í blokk. Allt í einu var kominn prestur á hæðina þar sem við vorum að tala við íbúana. Einhver hlýtur að hafa hringt í hann. Presturinn hellti sér yfir Sönu og hrinti henni niður stigann svo að hún slasaðist. Einhver hringdi í lögregluna sem kom og sá til þess að hlúð væri að Sönu. Farið var með prestinn á lögreglustöðina þar sem í ljós kom að hann var með byssu á sér. Lögreglustjórinn spurði hann: „Hver ertu eiginlega? Leiðirðu trúarsöfnuð eða glæpagengi?“
Annað atvik sem ég man vel eftir átti sér stað þegar söfnuðurinn leigði rútu til að boða trúna í afskekktum bæ. Það gekk vel þangað til presturinn á staðnum frétti hvað við vorum að gera og safnaði saman hópi fólks til að ráðast á okkur. Fólkið áreitti okkur og kastaði jafnvel grjóti í okkur. Pabbi særðist. Ég man að ég sá hann alblóðugan í framan. Hann fór aftur í rútuna með mömmu og við hin fórum áhyggjufull á eftir þeim. En ég gleymi því aldrei að á meðan mamma var að þvo pabba í framan sagði hún: „Jehóva, fyrirgefðu þeim. Þeir vita ekki hvað þeir eru að gera.“
Og svo vorum við eitt sinn að heimsækja ættingja í heimabæ okkar. Heima hjá afa hittum við biskupinn. Hann vissi að foreldrar mínir voru vottar Jehóva. Þó að ég væri bara sex ára sneri hann sér að mér og spurði: „Af hverju ert þú ekki skírður?“ Ég svaraði honum að ég væri bara barn og til að láta skírast þyrfti ég að vita meira um Biblíuna og hafa sterka trú. Honum líkaði ekki svarið og sagði afa að ég hefði verið ókurteis.
Neikvæðar uppákomur eins og þessar voru samt fáar. Líbanar eru almennt vingjarnlegir og gestrisnir. Við gátum því átt margar ánægjulegar samræður um Biblíuna og héldum mörg biblíunámskeið.
FJÖLSKYLDAN ÁKVEÐUR AÐ FLYTJA TIL ANNARS LANDS
Ég var enn á skólaaldri þegar ungur bróðir frá Venesúela kom í heimsókn til Líbanons. Hann sótti samkomur í söfnuðinum okkar og varð kærasti Wöfu systur minnar. Með tímanum giftu þau sig og settust að í Venesúela. Í bréfum sínum reyndi Wafa að fá pabba til að flytja með alla fjölskylduna til Venesúela. Hún gerði það vegna þess að hún saknaði okkar svo mikið. Að lokum tókst henni að fá okkur til að flytja.
Við komum til Venesúela árið 1953 og settumst að í Karakas, nálægt forsetahöllinni. Ég var bara ungur strákur og mér fannst spennandi að sjá forsetann keyra stundum fram hjá í bílnum sínum með einkabílstjóra. En það var ekki auðvelt fyrir foreldra mína að aðlagast nýju landi, tungumáli, menningu, mat og loftslagi. Þau voru rétt að byrja að aðlagast nýjum aðstæðum þegar nokkuð hræðilegt gerðist.
Frá vinstri til hægri: Pabbi. Mamma. Ég árið 1953 þegar fjölskyldan flutti til Venesúela.
HARMLEIKUR DYNUR YFIR
Faðir minn varð slappur. Okkur fannst það skrýtið vegna þess að hann var alltaf svo sterkur og hraustur. Við mundum ekki til þess að hann hefði nokkurn tíma orðið veikur. Síðan greindist hann með krabbamein í brisi og fór í skurðaðgerð. Því miður lést hann viku seinna.
Orð fá ekki lýst hve eyðilögð við vorum. Ég var ekki nema 13 ára. Við vorum í áfalli og okkur fannst heimurinn hafa hrunið. Um tíma átti móðir mín erfitt með að sætta sig við að maðurinn hennar var ekki lengur til staðar. En við skildum að lífið heldur áfram og með hjálp Jehóva komumst við í gegnum þetta. Þegar ég útskrifaðist úr skólanum í Karakas 16 ára fann ég fyrir sterkri löngun til að hjálpa til við að sjá fyrir fjölskyldunni.
Sana systir mín og Rubén eiginmaður hennar hjálpuðu mér að taka framförum í trúnni.
Í millitíðinni hafði Sana systir mín gifst Rubén Araujo, en hann hafði útskrifast úr Gíleaðskólanum og verið sendur aftur til Venesúela. Þau ákváðu að flytja til New York. Fjölskyldan ákvað að ég skyldi fara í háskólanám og ég gat gert það þar og búið hjá þeim. Systir mín og mágur hjálpuðu mér að taka framförum í trúnni á meðan ég bjó hjá þeim. Auk þess voru margir þroskaðir bræður í spænska söfnuðinum okkar í Brooklyn. Tveir þeirra sem ég kynntist og mat mikils voru Milton Henschel og Frederick Franz, en þeir þjónuðu báðir á Betel í Brooklyn.
Ég skírðist árið 1957.
Þegar ég var að klára fyrsta árið í háskólanum í New York fór ég að velta fyrir mér hvernig ég væri að verja lífi mínu. Ég hafði lesið og hugleitt vandlega greinar í Varðturninum um verðug markmið þjóna Guðs. Ég sá hve glaðir brautryðjendurnir og Betelítarnir í söfnuðinum okkar voru og mig langaði að vera eins og þeir. En ég var ekki skírður enn þá. Áður en langt um leið skildi ég mikilvægi þess að vígja líf mitt Jehóva. Ég gerði það og skírðist 30. mars 1957.
MIKILVÆGAR ÁKVARÐANIR
Þegar ég var búinn að skírast fór ég að hugsa um að verða brautryðjandi. Mig langaði mjög að vera brautryðjandi en ég sá í hendi mér að það yrði erfitt. Hvernig gæti ég samræmt brautryðjandastarfið og háskólanámið? Við fjölskyldan skiptumst á mörgum bréfum og ég útskýrði fyrir móður minni og systkinum að ég hefði ákveðið að hætta náminu, flytja aftur til Venesúela og gerast brautryðjandi.
Ég sneri aftur til Karakas í júní 1957. En ég sá að aðstæður fjölskyldunnar voru ekki góðar. Við þurftum á annarri tekjulind að halda. Hvernig gat ég hjálpað? Mér var boðin vinna í banka en mig langaði verulega til að vera brautryðjandi. Það var jú þess vegna sem ég kom til baka. Ég var ákveðinn í að gera hvort tveggja. Í nokkur ár var ég í fullri vinnu í bankanum og brautryðjandi. Ég hafði aldrei verið jafn upptekinn og jafn ánægður!
Það jók einnig gleði mína að kynnast Sylviu, fallegri systur frá Þýskalandi sem elskaði Jehóva heitt. Hún hafði flust með foreldrum sínum til Venesúela. Við giftumst og eignuðumst tvö börn, soninn Michel (Mike) og dótturina Samiru. Ég tók líka að mér að annast móður mína. Hún flutti inn til okkar. Þótt ég þyrfti að hætta sem brautryðjandi til að sinna fjölskylduábyrgðinni missti ég ekki brautryðjandaandann. Við Sylvia vorum aðstoðarbrautryðjendur í fríum hvenær sem tækifæri gafst.
ÖNNUR MIKILVÆG ÁKVÖRÐUN
Börnin voru enn á skólaaldri þegar ég hugsaði um það sem ég nefndi í byrjun greinarinnar. Ég verð að viðurkenna að ég lifði mjög þægilegu lífi og ég var virtur í bankageiranum. En ég vildi samt frekar að fólk sæi mig sem þjón Jehóva. Ég hélt áfram að hugsa um hvað ég gæti gert til að fólk sæi mig þannig. Við hjónin settumst því niður og ræddum um fjárhag okkar. Ég fengi eingreiðslu frá bankanum ef ég segði upp vinnunni þar. Við komumst að því að vegna þess að við höfðum engar skuldir ættum við nóg til að sjá fyrir okkur í dágóðan tíma ef við einfölduðum lífið.
Þetta var ekki auðveld ákvörðun en elskuleg eiginkona mín og móðir mín studdu hana heils hugar. Ég myndi aftur gerast brautryðjandi. Ég var svo spenntur! Leiðin áfram virtist greið. En áður en langt um leið fengum við óvæntar fréttir.
ÓVÆNT ÁNÆGJA
Þriðja barnið okkar, Gabriel, var óvænt ánægja.
Dag einn staðfesti læknirinn okkar að Sylvia væri ófrísk. Það kom okkur báðum mikið á óvart! Það var mjög ánægjulegt, en ég hugsaði um þá ákvörðun sem ég hafði tekið að gerast brautryðjandi. Myndi þetta hafa áhrif á þá ákvörðun? Við aðlöguðumst mjög fljótt og hlökkuðum til þess að sjá fjölskylduna stækka. En hvað um vel úthugsuð áform mín?
Við ræddum um markmið okkar og ákváðum að ég skyldi gerast brautryðjandi. Gabriel sonur okkar fæddist í apríl 1985. Ég sagði upp vinnunni í bankanum og gerðist brautryðjandi aftur í júní 1985. Seinna fékk ég að starfa með deildarnefndinni. En deildarskrifstofan var ekki í Karakas sem þýddi að ég þurfti að ferðast um 80 kílómetra tvo til þrjá daga í viku.
VIÐ FLYTJUM Á NÝJAN STAÐ
Deildarskrifstofan var í bænum La Victoria. Við fjölskyldan ákváðum því að flytja þangað til að búa nær Betel. Það var mikil breyting fyrir okkur öll. Ég dáist að fjölskyldu minni og er henni innilega þakklátur. Stuðningur hennar hjálpaði mikið. Baha systir mín var fús til að annast mömmu. Mike var giftur en Samira og Gabriel bjuggu enn heima. Að flytja til La Victoria þýddi því að þau þurftu að fara frá vinum sínum í Karakas. Og elsku Sylvia mín þurfti að venjast því að búa í litlum bæ í stað höfuðborgarinnar sem iðaði af lífi. Og við þurftum öll að venjast því að búa í minna húsnæði. Já, margt fólst í þeirri ákvörðun að flytja frá Karakas til La Victoria.
En aðstæður okkar breyttust aftur. Gabriel gifti sig og Samira flutti að heiman. Árið 2007 var okkur Sylviu boðið að tilheyra Betelfjölskyldunni, og það gerum við enn. Mike, elsti sonur okkar, þjónar sem öldungur og er brautryðjandi ásamt Monicu eiginkonu sinni. Gabriel er líka öldungur og þau Ambra konan hans búa á Ítalíu. Samira er brautryðjandi og er einnig sjálfboðaliði í fjarvinnu á Betel.
Frá vinstri til hægri: Með Sylviu eiginkonu minni á deildarskrifstofunni í Venesúela. Mike, elsti sonur okkar, með Monicu. Samira dóttir okkar. Gabriel sonur okkar með Ömbru.
ÉG TÆKI SÖMU ÁKVARÐANIR AFTUR
Ég hef tekið margar þýðingarmiklar ákvarðanir á lífsleiðinni. Ég sé ekki eftir neinni þeirra. Ég tæki sömu ákvarðanir aftur. Ég er þakklátur fyrir allt sem ég hef getað gert í þjónustu Jehóva. Ég hef komist að því í gegnum tíðina hve mikilvægt það er að viðhalda sterku vináttusambandi við Jehóva. Hvort sem þær ákvarðanir sem við þurfum að taka eru stórar eða smáar getur hann veitt okkur þann frið „sem er æðri öllum skilningi“. (Fil. 4:6, 7) Við Sylvia njótum þess að þjóna á Betel og okkur finnst Jehóva hafa blessað þær ákvarðanir sem við höfum tekið – ákvarðanir sem voru teknar með Jehóva í huga.