NÁMSGREIN 39
Þegar ástvinur yfirgefur Jehóva
,Hversu oft hryggðu þeir hann.‘ – SÁLM. 78:40, Biblían 1981.
SÖNGUR 102 Önnumst óstyrka
YFIRLITa
1. Hvernig getur manni liðið ef ástvini er vikið úr söfnuðinum?
HEFUR einhverjum sem er náinn þér verið vikið úr söfnuðinum? Það getur tekið verulega á. Systir sem heitir Hilda segir: „Þegar eiginmaður minn dó eftir 41 árs hjónaband hélt ég að ég yrði aldrei fyrir jafnerfiðri lífsreynslu.b En þegar sonur minn yfirgaf söfnuðinn og fór frá konu sinni og börnum var það langtum erfiðara fyrir mig.“
Jehóva skilur sorgina sem fylgir því þegar einhver nákominn þér yfirgefur hann. (Sjá 2. og 3. grein.)d
2, 3. Hvernig líður Jehóva þegar þjónar hans yfirgefa hann samkvæmt Sálmi 78:40, 41?
2 Hugsaðu þér hvað það hefur tekið Jehóva sárt að sjá engla úr fjölskyldu sinni snúa baki við sér. (Júd. 6) Og ímyndaðu þér hvað það hefur sært hann mikið að sjá Ísraelsmennina, sem honum þótti vænt um, rísa gegn sér aftur og aftur. (Lestu Sálm 78:40, 41.) Þú getur verið viss um að það særir líka kærleiksríkan föður okkar á himnum þegar einhver sem þú elskar yfirgefur hann. Hann skilur sorgina sem þú upplifir. Hann hefur samúð með þér og veitir þér þá hughreystingu og stuðning sem þú þarft á að halda.
3 Í þessari grein er fjallað um hvað við getum gert til að fá hjálp frá Jehóva þegar einhver sem er nákominn okkur hættir að þjóna honum. Við skoðum einnig hvernig við getum hjálpað öðrum í söfnuðinum sem hafa orðið fyrir því. En ræðum fyrst um neikvæðan hugsunarhátt sem við verðum að forðast.
EKKI KENNA SJÁLFUM ÞÉR UM
4. Hvernig líður mörgum foreldrum þegar sonur þeirra eða dóttir yfirgefur Jehóva?
4 Foreldrar velta oft fyrir sér hvað þeir hefðu getað gert betur til að hjálpa barninu sínu að halda sig við sannleikann þegar sonur þeirra eða dóttir yfirgefur Jehóva. Bróðir sem heitir Luke útskýrir hvernig honum leið eftir að syni hans var vikið úr söfnuðinum: „Ég kenndi sjálfum mér um. Ég fékk martraðir. Ég grét stundum og mig verkjaði í hjartað.“ Systir sem heitir Elizabeth var í svipaðri stöðu. „Hvað gerði ég vitlaust sem móðir?“ hugsaði hún oft. „Mér fannst ég ekki hafa staðið mig nógu vel í að kenna syni mínum að elska Jehóva.“
5. Hver er ábyrgur fyrir því þegar einhver yfirgefur Jehóva?
5 Við verðum að muna að Jehóva hefur gefið okkur öllum frjálsan vilja. Við getum því valið hvort við hlýðum honum eða ekki. Sumt ungt fólk hefur valið að þjóna Jehóva og stendur sig vel í þjónustunni þótt foreldrarnir hafi ekki sýnt gott fordæmi. Aðrir eiga foreldra sem gerðu sitt besta til að ala þá upp í samræmi við meginreglur Biblíunnar en þeir sneru samt baki við sannleikanum þegar þeir urðu eldri. Þegar allt kemur til alls verðum við sjálf að ákveða hvort við ætlum að þjóna Jehóva. (Jós. 24:15) Ef barnið þitt hætti að þjóna Jehóva skaltu berjast gegn þeirri tilhneigingu að halda að það sé þér að kenna.
6. Hvaða áhrif getur það haft á börnin þegar foreldri snýr baki við Guði?
6 Stundum yfirgefur foreldri sannleikann og jafnvel fjölskyldu sína. (Sálm. 27:10) Það getur verið mikið áfall fyrir börnin, sem litu á foreldrið sem fyrirmynd. Esther á pabba sem var vikið úr söfnuðinum. Hún segir: „Ég grét oft vegna þess að ég gerði mér grein fyrir að hann var ekki bara að fjarlægjast sannleikann smátt og smátt heldur tók hann meðvitaða ákvörðun um að snúa algerlega baki við Jehóva. Ég elska pabba og hafði því stöðugt áhyggjur af velferð hans eftir að honum var vikið úr söfnuðinum. Ég fékk meira að segja kvíðaköst.“
7. Hvernig hugsar Jehóva um þá sem eiga foreldri sem hefur verið vikið úr söfnuðinum?
7 Við finnum til með ykkur unga fólkinu sem eigið foreldri sem hefur verið vikið úr söfnuðinum. Þú mátt vera viss um að Jehóva veit líka hvað þetta er sárt fyrir þig. Hann elskar þig og kann að meta hollustu þína, og það gerum við trúsystkini þín líka. Mundu auk þess að þú berð ekki ábyrgð á ákvörðunum foreldris þíns. Eins og fram hefur komið gefur Jehóva öllum mönnum val. Hver og einn vígður og skírður einstaklingur þarf að „bera sína ábyrgð“. – Gal. 6:5, neðanmáls.
8. Hvað getur maður gert á meðan maður bíður eftir að einhver nákominn snúi aftur til Jehóva? (Sjá einnig rammann „Snúðu aftur til Jehóva“.)
8 Þegar einhver nákominn þér yfirgefur Jehóva er eðlilegt að þú haldir í vonina um að hann snúi aftur til hans. Hvað geturðu gert á meðan þú bíður? Þú getur gert þitt besta til að halda trú þinni sterkri. Þannig seturðu öðrum í fjölskyldunni gott fordæmi og jafnvel þeim sem vikið hefur verið úr söfnuðinum. Þú færð líka þann styrk sem þú þarft til að takast á við erfiðar tilfinningar. Skoðum nokkur hagnýt ráð.
HVERNIG GETURÐU HALDIÐ TRÚ ÞINNI STERKRI?
9. Hvernig geturðu sótt styrk til Jehóva? (Sjá einnig rammann „Uppörvandi biblíuvers þegar ástvinur hefur yfirgefið Jehóva“.)
9 Haltu góðri andlegri dagskrá. Það er mjög mikilvægt að þú haldir áfram að byggja sjálfan þig upp og aðra í fjölskyldunni. Hvernig geturðu gert það? Þú getur sótt styrk til Jehóva með því að hafa góða reglu á að lesa og hugleiða orð hans og sækja safnaðarsamkomur. Joanna á pabba og systur sem yfirgáfu sannleikann. Hún segir: „Ég finn ró þegar ég les um biblíupersónur eins og Abígail, Ester, Job, Jósef og Jesú. Fordæmi þeirra hjálpa mér að hugsa jákvætt og það linar sársaukann. Mér finnst tónlistarmyndböndin líka mjög uppörvandi.“
10. Hvernig hjálpar Sálmur 32:6–8 okkur að takast á við erfiðar tilfinningar?
10 Segðu Jehóva frá öllu sem veldur þér áhyggjum. Ekki hætta að biðja til hans þegar þér líður illa. Sárbændu kærleiksríkan Guð okkar um að hjálpa þér að sjá aðstæðurnar frá hans sjónarhóli og að ,fræða þig og vísa þér veginn sem þú átt að ganga‘. (Lestu Sálm 32:6–8.) Kannski áttu mjög erfitt með að segja Jehóva nákvæmlega hvernig þér líður. En Jehóva hefur fullan skilning á sársauka þínum. Hann elskar þig heitt og hvetur þig til að úthella hjarta þínu fyrir sér. – 2. Mós. 34:6; Sálm. 62:8, 9.
11. Hvers vegna ættum við að treysta kærleiksríkum aga Jehóva samkvæmt Hebreabréfinu 12:11? (Sjá einnig rammann „Það er kærleiksríkur agi frá Jehóva þegar einhverjum er vikið úr söfnuðinum“.)
11 Styddu ákvörðun öldunganna. Að víkja syndara úr söfnuðinum er ráðstöfun frá Jehóva. Kærleiksrík leiðrétting hans er öllum fyrir bestu, þar á meðal þeim sem braut af sér. (Lestu Hebreabréfið 12:11.) Neikvæð ummæli um það hvernig öldungarnir tóku á dómsmáli eiga líklega upptök sín hjá einhverjum sem vill ekki að mannorð þess sem braut af sér skaðist. Við þekkjum ekki allar staðreyndir málsins. Það er því skynsamlegt að treysta að öldungarnir sem dæmdu í málinu hafi lagt sig alla fram um að fylgja meginreglum Biblíunnar og dæma „í umboði Drottins“. – 2. Kron. 19:6.
12. Hvernig hafa sumir notið góðs af því að styðja ráðstöfun Jehóva varðandi aga?
12 Þú gætir í raun hjálpað ástvini þínum sem vikið var úr söfnuðinum að snúa aftur til Jehóva með því að styðja ákvörðun öldunganna. „Það var ákaflega erfitt að hætta að umgangast uppkominn son okkar,“ viðurkennir Elizabeth, sem minnst var á áður. „En eftir að hann sneri aftur til Jehóva viðurkenndi hann að það hefði verið rétt ákvörðun að víkja honum úr söfnuðinum. Með tímanum lét hann í ljós þakklæti fyrir það sem hann hafði lært af því. Ég lærði að meta agann frá Jehóva,“ segir hún. Maðurinn hennar, Mark, bætir við: „Löngu seinna sagði sonur okkar mér að hann hefði langað til að koma aftur að hluta til vegna þess að við gerðum nákvæmlega það sem við áttum að gera. Ég er svo ánægður að Jehóva skyldi hjálpa okkur að vera hlýðin.“
13. Hvað getur hjálpað þér að takast á við sárar tilfinningar?
13 Talaðu við skilningsríka vini. Verðu tíma með þroskuðum trúsystkinum sem geta hjálpað þér að vera jákvæður. (Orðskv. 12:25; 17:17) Joanna, sem minnst var á áður, segir: „Ég var einmana. En að tala við trausta vini hjálpaði mér að halda út.“ En hvað ef einhverjir í söfnuðinum segja eitthvað sem lætur þér líða verr?
14. Hvers vegna þurfum við að halda áfram að „umbera hvert annað og fyrirgefa hvert öðru fúslega“?
14 Sýndu bræðrum þínum og systrum þolinmæði. Við getum ekki ætlast til að allir bregðist rétt við. (Jak. 3:2) Við erum öll ófullkomin og það ætti því ekki að koma á óvart þótt sumir viti ekki hvað þeir eiga að segja eða segi óvart eitthvað sem særir þig. Mundu eftir ráðleggingu Páls postula: „Haldið áfram að umbera hvert annað og fyrirgefa hvert öðru fúslega, jafnvel þegar þið hafið ástæðu til að kvarta undan öðrum.“ (Kól. 3:13) Systir sem á ættingja sem var vikið úr söfnuðinum segir: „Jehóva hefur hjálpað mér að fyrirgefa trúsystkinum sem særðu mig þó að þau vildu vel.“ Hvernig getur söfnuðurinn hjálpað þeim sem eiga ástvin sem hefur yfirgefið Jehóva?
SÖFNUÐURINN GETUR HJÁLPAÐ
15. Hvernig getum við hjálpað þeim sem eiga ástvin sem hefur nýlega verið vikið úr söfnuðinum?
15 Verum vingjarnleg við þá sem eiga ástvin sem hefur verið vikið úr söfnuðinum. Systir sem heitir Miriam viðurkennir að hafa kviðið fyrir því að fara á samkomur eftir að bróður hennar var vikið úr söfnuðinum. „Ég óttaðist hvað fólk myndi segja. En það voru margir bræður og systur sem voru líka leið yfir því sem hafði gerst án þess að vera reið út í bróður minn. Það var þeim að þakka að mér fannst ég ekki sú eina sem syrgði.“ Önnur systir segir: „Eftir að syni okkar var vikið úr söfnuðinum komu góðir vinir til að uppörva okkur. Sumir sögðust ekki vita hvað þeir ættu að segja. Þeir grétu með mér eða skrifuðu mér kort. Það sem þeir gerðu hjálpaði mér ótrúlega mikið.“
16. Hvernig getur söfnuðurinn haldið áfram að veita stuðning sinn?
16 Haltu áfram að styðja við bakið á fjölskyldu þess sem hefur verið vikið úr söfnuðinum. Hún þarf meira á kærleika þínum og hvatningu að halda núna en nokkru sinni fyrr. (Hebr. 10:24, 25) Stundum hefur fjölskyldu þess sem vikið er úr söfnuðinum fundist söfnuðurinn einnig loka á samskipti við sig. Látið það ekki gerast! Þegar foreldrar yfirgefa sannleikann er sérstaklega mikilvægt að hrósa börnunum þeirra og hvetja þau. Eiginmanni Mariu var vikið úr söfnuðinum og hann yfirgaf fjölskyldu sína. Hún segir: „Vinir okkar komu í heimsókn, elduðu mat og hjálpuðu okkur með fjölskyldunámið. Þeir fundu til með mér og grétu með mér. Þeir tóku upp hanskann fyrir mig þegar kjaftasögur fóru á kreik. Þeir hresstu mig mjög mikið.“ – Rómv. 12:13, 15.
Söfnuðurinn getur veitt fjölskyldu þess sem vikið er úr söfnuðinum kærleiksríkan stuðning sinn. (Sjá 17. grein.)e
17. Hvað geta öldungar gert til að hughreysta þá sem líður illa?
17 Þið öldungar ættuð að nota hvert tækifæri sem gefst til að styrkja fjölskyldu þess sem hætti að þjóna Jehóva. Þið berið sérstaka ábyrgð á að hughreysta trúsystkini ykkar sem eru í þessari stöðu. (1. Þess. 5:14) Talið við þau að fyrra bragði fyrir og eftir samkomur til að hvetja þau. Heimsækið þau og biðjið með þeim. Farið með þeim í boðunina eða bjóðið þeim stundum að vera með í tilbeiðslustund fjölskyldunnar. Andlegir hirðar ættu að sýna sauðum Jehóva sem syrgja þá samúð, kærleika og athygli sem þeir þurfa. – 1. Þess. 2:7, 8.
VERTU VONGÓÐUR OG HALTU ÁFRAM AÐ TREYSTA Á JEHÓVA
18. Hvað vill Guð að þeir sem hafa hætt að þjóna honum geri samkvæmt 2. Pétursbréfi 3:9?
18 Jehóva „vill ekki að neinn farist heldur að allir fái tækifæri til að iðrast“. (Lestu 2. Pétursbréf 3:9.) Þó að einhver syndgi alvarlega er líf hans enn verðmætt í augum Guðs. Mundu hve hátt lausnargjald Jehóva greiddi fyrir líf syndara – líf ástkærs sonar síns. Jehóva er umhyggjusamur og reynir að hjálpa þeim sem hafa yfirgefið hann að snúa til baka. Hann vonar að þeir velji að gera það, eins og sjá má af dæmisögu Jesú um týnda soninn. (Lúk. 15:11–32) Margir sem hafa yfirgefið sannleikann sneru síðar aftur til Jehóva, kærleiksríks föður þeirra á himnum. Og söfnuðurinn tók á móti þeim með opnum örmum. Elizabeth, sem minnst var á áður, naut þeirrar gleði að sjá son sinn tekinn inn í söfnuðinn aftur. Þegar hún hugsar til baka segir hún: „Ég kann virkilega að meta þá sem hvöttu okkur til að gefa ekki upp vonina.“
19. Hvers vegna getum við haldið áfram að treysta á Jehóva?
19 Við getum alltaf treyst á Jehóva. Ráð hans eru okkur alltaf til gagns. Hann er örlátur og umhyggjusamur faðir og elskar heitt alla þá sem elska hann og tilbiðja. Þú mátt vera viss um að Jehóva yfirgefur þig ekki þegar þú þjáist. (Hebr. 13:5, 6) „Jehóva yfirgaf okkur aldrei,“ segir Mark, sem minnst var á áður. „Hann er alltaf til staðar fyrir okkur þegar við göngum í gegnum erfiðleika.“ Jehóva heldur áfram að gefa þér ,kraftinn sem er ofar mannlegum mætti‘. (2. Kor. 4:7) Já, þú getur verið trúfastur og haldið í vonina þó að einhver náinn þér yfirgefi Jehóva.
SÖNGUR 44 Bæn hins bágstadda
a Það er mjög sárt þegar ástvinur yfirgefur Jehóva. Í þessari grein skoðum við hvernig Guði líður þegar það gerist. Við skoðum hagnýt ráð fyrir fjölskyldu þess sem vikið er úr söfnuðinum. Ráðin geta hjálpað henni að takast á við sársaukann og viðhalda sterkri trú. Í greininni er einnig rætt um hvernig allir í söfnuðinum geta veitt fjölskyldunni huggun og stuðning.
b Sumum nöfnum í greininni hefur verið breytt.
d MYND: Þegar bróðir yfirgefur Jehóva og fjölskyldu sína þjást eiginkona hans og börn.
e MYND: Tveir öldungar heimsækja fjölskyldu í söfnuðinum til að uppörva hana.