NÁMSGREIN 41
Við þjónum Guði sem er „ríkur að miskunn“
„Drottinn er öllum góður og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans.“ – SÁLM. 145:9.
SÖNGUR 44 Bæn hins bágstadda
YFIRLITa
1. Hvað kemur upp í hugann þegar við hugsum um miskunnsaman mann?
ÞEGAR við hugsum okkur miskunnsaman mann sjáum við kannski fyrir okkur einhvern sem er góðviljaður, hlýlegur, samúðarfullur og örlátur. Dæmisagan um miskunnsama samverjann kemur kannski upp í hugann. Þessi maður af öðru þjóðerni var „sá sem vann miskunnarverkið“ en Gyðingurinn sem hafði orðið fyrir barðinu á ræningjum naut góðs af. Samverjinn ,kenndi í brjósti um‘ slasaða Gyðinginn og annaðist hann af umhyggju. (Lúk. 10:29–37) Þessi dæmisaga sýnir hversu fallegur eiginleiki miskunnsemi Guðs er. Guð er miskunnsamur vegna þess að hann elskar okkur og hann sýnir okkur miskunn á margvíslegan hátt á hverjum degi.
2. Hvernig birtist miskunnsemi á annan hátt?
2 Miskunnsemi getur líka birst á annan hátt. Sá sem er miskunnsamur gæti ákveðið að refsa þeim ekki sem á refsingu skilið. Í þeim skilningi hefur Jehóva sannarlega verið miskunnsamur við okkur. „Hann hefur eigi breytt við oss eftir syndum vorum,“ sagði sálmaritarinn. (Sálm. 103:10) Við sumar aðstæður gæti Jehóva samt agað þann alvarlega sem syndgar.
3. Hvaða spurningar ætlum við að skoða?
3 Í þessari grein er þrem spurningum svarað: Hvers vegna sýnir Jehóva miskunn? Er mögulegt að aga einhvern harðlega en vera samt miskunnsamur? Hvað getur hjálpað okkur að sýna miskunn? Skoðum nú hvernig þessum spurningum er svarað í orði Guðs.
HVERS VEGNA SÝNIR JEHÓVA MISKUNN?
4. Hvers vegna sýnir Jehóva miskunn?
4 Jehóva hefur yndi af því að sýna miskunn. Páli postula var innblásið að skrifa að Guð sé „ríkur að miskunn“. Af samhenginu sjáum við að Páll var að segja að Guð sýni miskunn þegar hann gefur ófullkomnum smurðum þjónum sínum von um að lifa að eilífu á himnum. (Ef. 2:4–7) En Jehóva sýnir ekki aðeins smurðum þjónum sínum miskunn. Sálmaritarinn Davíð skrifaði: „Drottinn er öllum góður og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans.“ (Sálm. 145:9) Jehóva elskar fólk og hann sýnir því þess vegna miskunn hvenær sem grundvöllur er fyrir því.
5. Hvernig kynntist Jesús miskunnsemi Jehóva?
5 Jesús veit betur en nokkur annar hversu mikið yndi Jehóva hefur af því að sýna miskunn. Jehóva og Jesús voru saman á himnum í mjög langan tíma áður en Jesús kom til jarðar. (Orðskv. 8:30, 31) Jesús sá föður sinn sýna syndugum mönnum miskunn við mörg tækifæri. (Sálm. 78:37–42) Í kennslu sinni minntist Jesús oft á þennan dýrmæta eiginleika föður síns.
Faðirinn niðurlægði ekki son sinn sem var týndur heldur bauð hann velkominn. (Sjá 6. grein.)c
6. Hvaða mynd dró Jesús upp af miskunnsemi föður síns?
6 Eins og fjallað var um í greininni á undan notaði Jesús dæmisögu um týndan son til að draga upp hjartnæma mynd af því hversu mikið yndi Jehóva hefur af því að sýna miskunn. Sonurinn hafði farið að heiman og ,sóað arfinum í svall og ólifnað‘. (Lúk. 15:13) Síðar iðraðist hann þessa siðlausa lífs, auðmýkti sig og sneri aftur heim. Hvernig brást faðirinn við? Sonurinn þurfti ekki að bíða lengi til að komast að því. Jesús sagði: „Faðir hans kom auga á hann meðan hann var enn langt í burtu. Hann kenndi í brjósti um hann og hljóp á móti honum, faðmaði hann að sér og kyssti hann blíðlega.“ Faðirinn niðurlægði ekki son sinn. Nei, hann sýndi honum miskunn og fyrirgaf honum og bauð hann aftur velkominn í fjölskylduna. Týndi sonurinn hafði syndgað stórlega en faðir hans fyrirgaf honum vegna þess að hann sýndi iðrun. Miskunnsami faðirinn í dæmisögunni táknar Jehóva. Jesús lýsti með hjartnæmum hætti hversu fús Jehóva er að fyrirgefa syndurum sem iðrast í einlægni. – Lúk. 15:17–24.
7. Hvernig getum við séð visku Jehóva af því hvernig hann sýnir miskunn?
7 Jehóva sýnir miskunn vegna óviðjafnanlegrar visku sinnar. Viska Jehóva er ekki bara köld rökhyggja. Nei, Biblían segir að „viskan sem kemur ofan að“ sé „full miskunnar og góðra ávaxta“. (Jak. 3:17) Rétt eins og miskunnsamt foreldri veit Jehóva að miskunn hans er börnum hans til góðs. (Sálm. 103:13; Jes. 49:15) Miskunnsemi Guðs gefur þeim von þrátt fyrir ófullkomleika þeirra. Takmarkalaus viska Jehóva fær hann til að sýna miskunn hvenær sem hann sér að það er grundvöllur fyrir því. En Jehóva veit líka hvenær það er ekki ástæða til að sýna miskunn. Það er visku Jehóva að þakka að miskunnsemi hans fer aldrei yfir í undanlátssemi.
8. Til hvaða ráða er stundum nauðsynlegt að grípa og hvers vegna?
8 Segjum að þjónn Guðs fari vísvitandi út á ranga braut. Hvað ættum við að gera? „Þið skuluð hætta að umgangast“ hann, skrifaði Páll undir innblæstri. (1. Kor. 5:11) Iðrunarlausum syndurum er vikið úr söfnuðinum. Þetta er nauðsynlegt til að vernda trúfasta bræður og systur og til að halda heilagleika Jehóva á lofti. Sumum gæti samt þótt erfitt að samræma það að sýna miskunn og víkja fólki úr söfnuðinum. En er það svo? Skoðum málið.
ER ÞAÐ MISKUNNSEMI AÐ VÍKJA EINHVERJUM ÚR SÖFNUÐINUM?
Sauður getur þurft að vera í einangrun þegar eitthvað amar að honum en hann nýtur samt umönnunar fjárhirðisins. (Sjá 9.–11. grein.)
9, 10. Hvers vegna getum við sagt að það sé miskunnsöm ráðstöfun að víkja einhverjum úr söfnuðinum, samanber Hebreabréfið 12:5, 6? Lýstu með dæmi.
9 Það hryggir okkur innilega þegar tilkynning er lesin á safnaðarsamkomu um að einhver sem við þekkjum og elskum sé „ekki lengur vottur Jehóva“. Við gætum hugsað hvort það hafi verið nauðsynlegt að víkja þeim sem okkur þykir vænt um úr söfnuðinum. Ber það virkilega vott um miskunn að víkja einhverjum úr söfnuðinum? Já, það gerir það. Það er hvorki viturlegt, kærleiksríkt né miskunnsamt að halda aga frá þeim sem þarf á honum að halda. (Orðskv. 13:24) Getur það hjálpað iðrunarlausum syndara að breyta um stefnu að vera vikið úr söfnuðinum? Já, það getur það. Margir sem hafa syndgað alvarlega hafa komist að því að það var einmitt það sem hjálpaði þeim að átta sig á hversu alvarleg synd þeirra var. Það fékk þá síðan til að breyta um stefnu og snúa aftur í hlýjan faðm Jehóva. – Lestu Hebreabréfið 12:5, 6.
10 Tökum dæmi. Fjárhirðir tekur eftir því að einn af sauðum hans er veikur. Hann veit að til þess að lækna sauðinn af þessari ákveðnu veiki þarf hann að einangra hann frá hinum sauðunum í hjörðinni. Sauðir eru hins vegar félagsverur. Þeir vilja halda sig nálægt hjörðinni og geta orðið órólegir ef þeim er haldið frá henni. Merkir það þá að fjárhirðirinn sé strangur eða grimmur þegar hann velur þessa meðferð? Auðvitað ekki. Hann veit að veikin getur breiðst út ef hann leyfir veika sauðnum að vera nálægt hinum í hjörðinni. Með því að einangra þann sjúka verndar hann alla hjörðina. – Samanber 3. Mós. 13:3, 4.
11. (a) Að hvaða leyti er hægt að líkja þeim sem hefur verið vikið úr söfnuðinum við sjúkan sauð? (b) Hvað getur sá sem hefur verið vikið úr söfnuðinum gert og hvaða hjálp stendur honum til boða?
11 Við getum líkt þjóni Guðs sem hefur verið vikið úr söfnuðinum við sauð sem hefur veikst. Hann er veikur af því að hann hefur skaðað samband sitt við Jehóva. (Jak. 5:14) Rétt eins og sá sem er veikur getur smitað aðra getur sá sem á ekki gott samband við Jehóva haft slæm áhrif á aðra. Í sumum tilfellum er því nauðsynlegt að víkja honum úr söfnuðinum. Þessi agi endurspeglar kærleika Jehóva til trúfastra þjóna sinna í söfnuðinum og getur hjálpað syndaranum að átta sig á því hversu alvarleg synd hans er og til að iðrast. Þótt honum sé vikið úr söfnuðinum getur hann sótt samkomur þar sem hann getur fengið leiðbeiningar frá Biblíunni og styrkt trú sína aftur. Hann getur fengið rit til að lesa og rannsaka og hann getur horft á Sjónvarp Votta Jehóva. Og þegar öldungarnir fylgjast með framförum hans geta þeir öðru hvoru gefið honum ráð og leiðbeiningar til að hjálpa honum að endurheimta sambandið við Jehóva. Með tímanum getur hann verið tekinn inn í söfnuðinn á ný sem vottur Jehóva.b
12. Hvað gera öldungar í sambandi við iðrunarlausan syndara sem er kærleiksríkt og miskunnsamt?
12 Það er mikilvægt að muna að aðeins iðrunarlausum syndurum er vikið úr söfnuðinum. Öldungarnir vita að það er mjög alvarlegt mál að gera það. Þeir vita að Jehóva agar „við hæfi“. (Jer. 30:11) Þeir elska trúsystkini sín og vilja ekki gera neitt sem skaðar samband þeirra við Jehóva. En stundum er kærleiksríkt og miskunnsamt að víkja syndara úr söfnuðinum.
13. Hvers vegna var nauðsynlegt að víkja bróður úr söfnuðinum í Korintu?
13 Skoðum hvernig Páll postuli tók á máli iðrunarlauss syndara á fyrstu öld. Bróðir í Korintu lifði siðlausu lífi með eiginkonu föður síns. En hræðilegt! Jehóva hafði sagt við Ísraelsmenn til forna: „Leggist maður með eiginkonu föður síns berar hann blygðun föður síns. Þau skulu bæði líflátin.“ (3. Mós. 20:11) Að sjálfsögðu gat Páll ekki sagt söfnuðinum að það ætti að taka manninn af lífi. En hann sagði Korintumönnum að víkja honum úr söfnuðinum. Siðlaus hegðun þessa manns hafði áhrif á aðra í söfnuðinum. Sumir höfðu jafnvel ekki skömm á þessari svívirðilegu hegðun. – 1. Kor. 5:1, 2, 13.
14. Hvernig sýndi Páll manninum sem hafði verið vikið úr söfnuðinum í Korintu miskunn og hvers vegna? (2. Korintubréf 2:5–8, 11)
14 Síðar komst Páll að því að maðurinn hafði gert miklar breytingar. Syndarinn sýndi sanna iðrun. Þótt hann hefði sett smánarblett á söfnuðinn sagði Páll öldungunum að hann vildi ekki ,taka of sterkt til orða‘. Hann sagði þeim að „fyrirgefa honum fúslega og hughreysta hann“. Tökum eftir því hvers vegna Páll sagði þeim að gera það: „Svo að hann láti ekki bugast af hryggð.“ Páll fann til með iðrunarfullum manninum. Hann vildi ekki sjá manninn svo bugaðan af hryggð og niðurbrotinn vegna þess sem hann hafði gert að hann myndi gefast upp á því að biðja um fyrirgefningu. – Lestu 2. Korintubréf 2:5–8, 11.
15. Hvernig geta öldungar verið ákveðnir og miskunnsamir á sama tíma?
15 Öldungarnir líkja eftir Jehóva og hafa yndi af því að sýna miskunn. Þeir aga syndara með festu þegar það er nauðsynlegt en sýna líka eins mikla miskunn og mögulegt er. Annars væru þeir ekki að sýna miskunn heldur undanlátssemi. En eru öldungarnir þeir einu sem þurfa að sýna miskunn?
HVAÐ GETUR HJÁLPAÐ OKKUR ÖLLUM AÐ SÝNA MISKUNN?
16. Hver er afstaða Jehóva til þeirra sem sýna ekki miskunn samkvæmt Orðskviðunum 21:13?
16 Allir þjónar Jehóva leitast við að líkja eftir miskunnsemi hans. Hvers vegna? Ein ástæðan er sú að Jehóva hlustar ekki á þá sem sýna ekki öðrum miskunn. (Lestu Orðskviðina 21:13.) Enginn okkar myndi vilja að Jehóva hlustaði ekki á bænir okkar, svo að við gætum þess vandlega að þróa ekki með okkur miskunnarleysi. Frekar en að daufheyrast við trúsystkinum sem líður illa viljum við alltaf vera tilbúin að hlusta „þegar lítilmagninn kallar á hjálp“. (NW) Við tökum líka til okkar eftirfarandi innblásnu leiðbeiningar: „Þeim sem er ekki miskunnsamur verður ekki sýnd miskunn.“ (Jak. 2:13) Ef við erum auðmjúk og munum hversu mikið við þörfnumst miskunnar erum við líklegri til að sýna miskunn. Við viljum sérstaklega sýna miskunn þegar iðrunarfullur syndari snýr aftur til safnaðarins.
17. Hvernig sýndi Davíð konungur innilega miskunn?
17 Frásögur í Biblíunni geta hjálpað okkur að sýna miskunn og forðast hörku. Tökum Davíð konung sem dæmi. Hann sýndi oft innilega miskunn. Þótt Sál vildi drepa hann var Davíð miskunnsamur gagnvart smurðum konungi Guðs og reyndi aldrei að hefna sín eða skaða hann. – 1. Sam. 24:10–13, 19, 20.
18, 19. Við hvaða tvö tækifæri sýndi Davíð miskunnarleysi?
18 En Davíð sýndi ekki alltaf miskunn. Tökum dæmi. Þegar Nabal, sem var harður maður, móðgaði Davíð og neitaði að gefa honum og mönnum hans mat reiddist Davíð heiftarlega og ákvað að drepa hann og alla karlmenn á heimili hans. Þökk sé skjótum viðbrögðum Abígaíl, sem var góðviljuð og þolinmóð eiginkona Nabals, komst Davíð hjá því að baka sér blóðsekt. – 1. Sam. 25:9–22, 32–35.
19 Við annað tækifæri sagði spámaðurinn Natan Davíð frá ríkum manni. Hann stal lambi sem fátækur nágranni hans átti og var mjög annt um. Davíð brást ævareiður við og sagði: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir er sá sem þetta gerði dauðasekur.“ (2. Sam. 12:1–6) Davíð þekkti Móselögin. Ef maður stal sauð átti hann að bæta hann með fjórum sauðum. (2. Mós. 21:37) En dauðadómur? Það var harður dómur. Það kom í ljós að Natan var að nota þetta ímyndaða dæmi til að lýsa miklu alvarlegri glæpum sem Davíð hafði sjálfur framið. Og Jehóva reyndist langtum miskunnsamari gagnvart Davíð heldur en Davíð hefði verið gagnvart þeim sem stal sauðnum í sögu Natans. – 2. Sam. 12:7–13.
Davíð konungur sýndi manninum í frásögu Natans ekki miskunn. (Sjá 19. og 20. grein.)d
20. Hvað getum við lært af Davíð?
20 Þegar Davíð gaf reiðinni lausan tauminn ákvað hann að Nabal og allir hans menn ættu skilið að deyja. Og síðar fannst Davíð rétt að dæma manninn í dæmisögu Natans til dauða. Í seinna tilfellinu gætum við velt fyrir okkur hvers vegna svona hjartahlýr maður gat verið svona dómharður. En skoðum aðeins samhengið. Á þessum tíma var Davíð með vonda samvisku. Dómharka ber ekki vott um gott samband við Jehóva. Jesús varaði fylgjendur sína alvarlega við og sagði: „Hættið að dæma til að þið verðið ekki dæmd því að þið verðið dæmd á sama hátt og þið dæmið aðra.“ (Matt. 7:1, 2) Forðumst að vera dómhörð en leitumst við að vera ,rík að miskunn‘ eins og Guð.
21, 22. Hvernig getum við sýnt miskunn?
21 Miskunn er ekki bara tilfinning. Reyndar hefur miskunn verið skilgreind sem „samúð í verki“. Öll getum við verið vakandi fyrir þörfum annarra í söfnuðinum okkar, fjölskyldunni og samfélaginu. Við höfum mörg tækifæri til að sýna miskunn. Þarf einhver á hughreystingu að halda? Getum við rétt einhverjum hjálparhönd, kannski með því að færa honum mat eða hjálpa honum á annan hátt? Þarf einhver sem hefur nýlega verið tekinn inn í söfnuðinn á ný á uppbyggjandi félagsskap að halda? Getum við hughreyst aðra með því að tala við þá um fagnaðarboðskapinn? Þannig getum við sem best sýnt miskunn öllum sem verða á vegi okkar. – Job. 29:12, 13; Rómv. 10:14, 15; Jak. 1:27.
22 Ef við erum vakandi fyrir þörfum annarra sjáum við að tækifærin til að sýna miskunn eru alls staðar í kringum okkur. Þegar við sýnum miskunn gleðjum við himneskan föður okkar sem er „ríkur að miskunn“.
SÖNGUR 43 Þakkarbæn
a Miskunn er einn af fallegustu eiginleikum Jehóva og við þurfum öll að rækta hana með okkur. Í þessari grein skoðum við hvers vegna við getum sagt að Jehóva sé alltaf miskunnsamur þegar hann agar og hvernig við getum sýnt miskunn eins og hann.
b Sjá greinina „Byggðu aftur upp sambandið við Jehóva“ í þessu tölublaði til að sjá hvernig þeir sem eru teknir inn í söfnuðinn á ný geta endurheimt samband sitt við Guð og hvernig öldungarnir geta hjálpað þeim.
c MYND: Af þaki hússins sér faðirinn týnda soninn snúa heim og flýtir sér til að faðma hann að sér.
d MYND: Vegna sektarkenndar bregst Davíð konungur of harkalega við dæmisögu Natans og segir reiður að ríki maðurinn verðskuldi að deyja.