Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w21 október bls. 29-31
  • 1921 – fyrir hundrað árum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • 1921 – fyrir hundrað árum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HUGRAKKIR BOÐBERAR
  • SJÁLFSNÁM OG FJÖLSKYLDUNÁM
  • NÝ BÓK!
  • VERKEFNIÐ FRAM UNDAN
  • Blessun hlýst af því að gera það sem Jehóva biður um
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
  • 1922 – fyrir hundrað árum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
  • 1923 – fyrir hundrað árum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
w21 október bls. 29-31

1921 – fyrir hundrað árum

„HVAÐA verkefni blasir við okkur þetta árið?“ Þessari spurningu var beint til kappsamra biblíunemenda í Varðturninum 1. janúar 1921. Síðan var vitnað í Jesaja 61:1, 2 þar sem þeir voru minntir á verkefnið sem þeim var falið, að boða fagnaðarboðskapinn. „Jahve hefir smurt mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap ... til að boða náðarár Jahve og hefndardag Guðs vors.“ (Biblían 1912)

HUGRAKKIR BOÐBERAR

Biblíunemendurnir þurftu að vera hugrakkir til að sinna verkefni sínu. Þeir þurftu að boða „nauðstöddum gleðilegan boðskap“ og líka hinum illu „hefndardag“.

Bróðir John Henry Hoskin bjó í Kanada og boðaði hugrakkur trúna þrátt fyrir andstöðu. Vorið 1921 hitti hann meþódistaprest. Bróðir Hoskin hóf umræðurnar með því að segja: „Við ættum að ræða á vinsamlegan hátt um Ritningarnar, og jafnvel þótt við séum ekki sammála um allt getum við verið sammála um að vera ósammála og skilja sem vinir.“ En það fór á annan veg. Bróðir Hoskin segir frá: „Við höfðum aðeins talað saman í fáeinar mínútur þegar hann skellti hurðinni svo fast að ég óttaðist að glerið í henni myndi brotna.“

„Hvers vegna ferðu ekki til heiðingjanna og talar við þá?“ hrópaði presturinn. Bróðir Hoskin hafði taumhald á tungunni en hugsaði með sér þegar hann fór: „Mér fannst ég vera að tala við einn slíkan.“

Presturinn hélt árásinni áfram í messu daginn eftir. Bróðir Hoskin segir: „Hann varaði hjörð sína við mér og sagði að ég væri mesti svikahrappur sem hefði nokkurn tíma stigið fæti í bæinn og að það ætti að skjóta mig.“ Bróðir okkar var ekki hið minnsta hræddur og hélt boðuninni áfram með góðum árangri. Hann segir: „Ég naut þess að vera í boðuninni. Sumir sögðu jafnvel að ég væri ,guðsmaður‘ og spurðu mig hvort mig vantaði eitthvað sem þeir gætu gefið mér.“

SJÁLFSNÁM OG FJÖLSKYLDUNÁM

Til að hjálpa áhugasömum að taka framförum birtu Biblíunemendurnir áætlun fyrir biblíunám í The Golden Age.a Í námsáætlun fyrir börn voru spurningar sem foreldrar gátu rætt við börnin sín. Foreldrar áttu að „leggja þessar spurningar fyrir börnin og hjálpa þeim að finna svörin í Biblíunni“. Spurningar eins og „Hversu margar bækur eru í Biblíunni?“ hjálpuðu þeim að tileinka sér grundvallarþekkingu á Biblíunni. Aðrar spurningar, eins og „Ættu allir þjónar Guðs að búast við ofsóknum í einhverri mynd?“, hjálpuðu ungum boðberum að vera hugrakkir.

Námsáætlunin Aldaáætlun Guðs innihélt umhugsunarverðar spurningar fyrir þroskaða biblíunemendur. Svörin við spurningunum var að finna í 1. bindi Studies in the Scriptures. Þúsundir lesenda höfðu gagn af þessum námsáætlunum en í The Golden Age 21. desember 1921 var tilkynnt að þessar spurningar yrðu ekki lengur birtar. Hvers vegna?

NÝ BÓK!

Bókin Harpa Guðs.

Spjald með lesverkefni.

Spurningaspjöld.

Bræðurnir sem voru í forystu skildu að nýir biblíunemendur þyrftu að kynnast sannleikanum á skipulegan hátt. Bókin Harpa Guðs var gefin út á ensku í nóvember 1921 til að mæta þeirri þörf. Áhugasamir sem þáðu bókina voru um leið skráðir í biblíunámskeið. Þetta var sjálfsnám sem hjálpaði nemendum að skilja „þá áætlun Guðs að blessa mannkynið með eilífu lífi“. Hvernig virkaði þetta námskeið?

Sá sem þáði bók fékk um leið lítið spjald með lesverkefni. Viku seinna fékk hann annað spjald með spurningum byggðum á því sem hann hafði lesið. Á spjaldinu var líka lesefni fyrir vikuna á eftir.

Söfnuðurinn á staðnum sendi nemandanum nýtt spjald vikulega í 12 vikur. Oft voru það eldri boðberar eða aðrir sem gátu ekki tekið þátt í boðuninni hús úr húsi sem sáu um að senda spjöldin. Anna K. Gardner frá Millvale í Pennsylvania í Bandaríkjunum segir: „Þegar Harpa Guðs var gefin út fékk Thayle, fötluð systir mín, meira að gera við að senda fólki spurningaspjöld í hverri viku en hún gat komist yfir.“ Þegar námskeiðinu var lokið heimsótti boðberi úr söfnuðinum nemandann til að aðstoða hann við frekara biblíunám.

Thayle Gardner í hjólastól.

VERKEFNIÐ FRAM UNDAN

Í lok ársins sendi bróðir Joseph F. Rutherford bréf til allra safnaðanna. Hann skrifaði: „Boðunin um ríkið hefur á þessu ári farið víðar og skilað meiri árangri en nokkuð annað ár á uppskerutímanum.“ Hann hugsaði til framtíðar og bætti við: „Mikið verk er enn óunnið. Hvetjið aðra til að taka þátt í þessu stórkostlega starfi.“ Biblíunemendurnir svöruðu kallinu. Árið 1922 kunngerðu þeir ríkið hugrakkir í meira mæli en nokkru sinni fyrr.

Hugrakkir vinir

Biblíunemendurnir sýndu bróðurkærleika með því að hjálpa hver öðrum. Þeir voru hugrakkir vinir í andstreymi eins og eftirfarandi frásaga sýnir. – Orðskv. 17:17.

Þriðjudaginn 31. maí 1921 var þeldökkur maður settur í fangelsi í bænum Tulsa í Oklahoma í Bandaríkjunum, sakaður um að hafa ráðist á hvíta konu. Í kjölfarið brutust út slagsmál milli meira enn 1.000 hvítra manna og mun minni hóps þeldökkra manna. Slagsmálin breiddust út til Greenwood en á því svæði voru flestir íbúar þeldökkir. Fleiri en 1.400 hús voru rænd og síðan brennd til kaldra kola. Opinber tala þeirra sem voru drepnir var 36 en þeir hafa hugsanlega verið fleiri hundruð.

Bróðir Richard J. Hill bjó í Greenwood en hann var þeldökkur biblíunemandi. Hann segir: „Kvöldið þegar óeirðirnar brutust út vorum við á samkomu eins og venjulega. Eftir samkomuna heyrðum við skothvelli neðan úr miðbænum sem héldu áfram fram á nótt.“ Morguninn eftir, miðvikudaginn 1. júní, hafði ástandið versnað. „Fólk kom til okkar og sagði okkur að fara strax í samkomuhús bæjarins ef við vildum fá vernd.“ Bróðir Hill flúði því ásamt eiginkonu sinni og fimm börnum í samkomuhúsið í Tulsa. Áætlað er að 3.000 þeldökkir karlar og konur hafi fengið þar vernd hjá þjóðvarðaliðinu sem yfirvöld höfðu sent til að binda enda á óeirðirnar.

Á sama tíma tók bróðir Arthur Claus, sem var hvítur, ákvörðun sem bar vott um hugrekki. „Þegar ég frétti að óeirðaseggirnir æddu um hópum saman í Greenwood og rændu og kveiktu í húsum ákvað ég að athuga hvort bróðir Hill, kær vinur minn, væri óhultur.“

Arthur Claus kennir 14 börnum með hjálp bókarinnar Harpa Guðs.

Þegar hann kom að heimili bróður Hill sá hann hvítan nágranna hans með riffil í hendinni. Nágranninn var líka vinur bróður Hill og hélt að Arthur væri uppþotsmaður. „Hvers vegna ertu inni á lóð mannsins?“ öskraði hann.

„Hann hefði skotið mig ef hann hefði ekki verið ánægður með skýringu mína,“ segir Arthur. „Ég fullvissaði hann um að ég væri vinur bróður Hill og að ég hefði oft komið til hans.“ Arthur og nágrannanum tókst að vernda eignina gegn ræningjunum.

Arthur komst fljótlega að því að bróðir Hill og fjölskylda hans voru í samkomuhúsinu. Honum var sagt að þeldökkt fólk mætti ekki yfirgefa staðinn nema með skriflegu leyfi hersveitarforingjans, Barrett hershöfðingja. Arthur segir: „Það var ekki auðvelt að fá áheyrn hjá hershöfðingjanum. Þegar ég hafði borið upp erindi mitt spurði hann: ,Tekurðu að þér að gæta fjölskyldunnar og annast þarfir hennar?‘ Ég tók það auðvitað fúslega að mér.“

Með leyfið undir höndum flýtti Arthur sér til samkomuhússins. Hann sýndi það liðsforingja sem hrópaði upp yfir sig: „Það er undirritað af sjálfum hershöfðingjanum! Vissirðu að þú ert sá fyrsti í dag sem færð að taka fólk með þér héðan?“ Arthur og liðsforinginn fundu bróður Hill og fjölskyldu hans fljótlega. Þau settust í bíl Arthurs og fóru heim.

„Allir þjónar Guðs eru jafnir.“

Bróðir Claus sá til þess að bróðir Hill og fjölskylda hans væru örugg. Hugrekki og bróðurelska hans hafði jákvæð áhrif á aðra. Arthur segir: „Nágranninn sem hjálpaði til við að vernda eign bróður Hill fékk jákvæðara viðhorf til sannleikans. Og margir urðu áhugasamir um ríkið vegna þess að þeir gátu séð að hjá okkur er engin sundrung vegna kynþáttafordóma og að allir þjónar Guðs eru jafnir.“

a The Golden Age fékk nafnið Consolation árið 1937 og Awake! (Vaknið!) árið 1946.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila